Kína í austrinu rís

Það eru ekki ýkja mörg ár umliðin, síðan Deng Xiaoping (1904-1997) lét þau orð falla, að það mætti einu gilda, hvernig kötturinn væri á litinn, bara að hann veiddi mýs. Þennan örsmáa mann dreymdi stóra drauma um viðreisn Kínverja. Kínverjar fóru sömu leið og Japanar áður, tileinkuðu sér tækni Vesturlanda. En nú er öldin önnur. Sól þeirra er risin og skín skært. Kínverjar eru ötulir við að kaupa vestræn tæknifyrirtæki. Meira að segja Volvo er nú kínverskt farartæki. Draumur Deng er orðinn að veruleika. Kína heilsar veröldinni sem ofurríki nýrrar tækni.

Forseti Kína, XI Jinping (f. 1953), áréttaði drauma Deng árið 2014, þegar hann trúði veröldinni fyrir því, að Silkileiðin skyldi endurvakin – eða hagbelti Silkileiðarinnar. Þar fer nú um „hraðlest.“ Hann sá fyrir sér nána samvinnu Þjóðverja og Kínverja um að tengja saman markaði Evrópu og Austur-Asíu, með afleggjara til Afríku um Mið-austurlönd. Sýrlendingar eru þegar komnir um borð, Íranir hafa pantað miða. Kínverjar eru þegar mikilvægasta viðskiptaþjóð Þjóðverja.

Norður-ameríski hagfræðingurinn, David Paul Goldman (f. 1951), ritstjóri hjá Asíutíðindum (Asia Times) segir: „Eftir hrun kommúnismans fyrir þrem áratugum síðan gátu Norður-Ameríkumenn ekki gert í sér í hugarlund, að annar kænn (tactic) keppinautur kæmi fram á sjónarsviðið. Þjóðartekjur á mann á lokaáratugi síðustu aldar var einungis einn níundi hluti þess sem hann er í dag. Norður-amerísk fyrirtæki litu á Kína sem uppsprettu ódýrs vinnuafls fyrir óarðbærar framleiðslugreinar og hagfræðingarnir þar um slóðir trúðu því, að innflutningur ódýrs varnings þaðan væri Bandaríkjum Norður-Ameríku hagstæður. Ameríkumenn gátu einfaldlega ekki gert sér í hugarlund, að Kínverjar gætu tekið það heljarstökk að verða tæknilegt ofurveldi. Enn þá trúum við ekki eigin augum.“ (https://steigan.no/2021/03/kina-regner-med-a-bli-teknologisk-supermakt/)

Fyrir tveim árum síðan áttu Kínverjar flestar umsóknir um einkaleyfi á tækninýjungum hjá Alþjóðlegu einkaleyfisstofnuninni (Worlds Intellectual Property Organization (WIPO) - Patent Cooperation Treaty). Tækni þeirra telja vestræn ríki ógnandi. Huawei 5-G fjarskiptatæknina, sagði Donald Trump „hættu við þjóðaröryggið.“

Í miðri heimskreppu vinna Kínverjar efnahagslega sigra, samkvæmt norður-ameríska stjórnmálafræðingnum, Godree Roberts, sem skrifað hefur bókina, „Ástæður þess, að Kínverjar eru fremstir í flokki í veröldinni: Hæfileikar á tindinum, þekking í miðjunni og lýðræði á botninum“ (Why China Leads the World: Talent at the Top, Data in the Middle, Democracy at the Bottom). Hér er ágrip af landvinningum þeirra, samkvæmt bókarhöfundi. (Hér er vitnað til þessarar umfjöllunar: (https://steigan.no/2022/01/midt-i-den-globale-krisa-kina-leverer-sine-beste-resultater-noen-gang/ ):

Kínverska ríkið útrýmdi sárri fátækt; sýndi hagvaxtarauka, sem nemur tveim billjónum dala; varð ríkasta þjóð á heimskringlunni; varð stærsti fjárfestir á heimsvísu; varð stærsti markaður kvikmynda á heimsvísu; skóp um bil einn milljarðamæring á degi hverjum og þrjú hundruð milljónamæringa; lagði nýjar járnbrautir í sjö löndum, þá fyrstu í Laos; jók lestarferðir um þriðjung milli Evrópu og Kína, þ.e. fimmtán þúsund vörulestir; gerðist þátttakandi í viðskiptasáttmála Suður-austur Asíu og Eyjaálfu „Regional Comprehensive Economic Partnership“, sem státar af þriðjungi heimsviðskipta og mannfjölda; seldi í netsmásölu á einum sólarhringi fyrir 140 milljarða dala (Amazonmetið er fimm milljarðar); setti fyrstu rafmynt seðlabanka á markað; skaut Vesturveldunum ref fyrir rass í rannsóknum í skammtaeðlisfræði; smíðaði bestu hraðvinnslutölvuna; smíðaði ofurflugskeyti (sem Bandaríkjamenn eiga ekki svar við); eignaði sér rúman helming af orkusparnaði þjóða heims; fann meðferð við Covid-veirunni, sem hindrar sjúkrahúsinnlagnir og fækkar dauðsföllum af völdum hennar með tæplega áttatíu af hundraði, það er 0.6% af tíðni dauðfalla í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Og lengi mætti enn upp telja.

Það leikur varla vafi á því að hugsa verði hlutverk Kínverja í veröldinni upp á nýtt. Einu sinni kölluðu kínverskir áróðursmenn Bandaríkjamenn fyrir „pappírstígra.“ Líklega eru það nú orð að sönnu. Meðan Vesturlandabúar ganga vakslega fram í því að frelsa konur vegna kynferðis, „frelsast“ þær af eigin verðleikum í Kína. Meðan Vesturlandabúar – með BNA í broddi fylkingar – hamast við að grafa undan vísindastofnunum sínum í nafni ýmis konar rétttrúnaðar og útskúfa hæfileikaríkustu vísindamönnum sínum, hlaða Kínverjar undir þá og hampa. Meðan Vesturlönd leggja sig í líma við að níða karlmennskuna niður, ekki síst í skólunum, leitast Kínverjar við að virða hana og styrkja.

En Kínverjar og Vesturlandabúar eru að einu leyti samstíga. Þeir gefa lýðræðinu langt nef og stefna hraðbyri í átt að alræði – jafnvel grænu alræði. Raunar hefur sóttvarnaralræði þegar skotið rótum á Vesturlöndum.

 

https://www.gatestoneinstitute.org/17160/china-tech-war


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband