Wilhelm Reich (1897-1957) var austurrískur læknir og sálkönnuður. Hann reyndi þýska nasismann og ofstækisæði bandarísku leyniþjónustunnar á eigin skinni. Verk hans þóttu svo hættuleg almenningi, að þau voru brennd í Bandaríkjum Norður Ameríku (BNA). Hann var fangelsaður fyrir rit sín og skoðanir og lést í fangaklefa í landi hinna frjálsu.
Wilhelm skrifaði fjölda verka, en Hjarðsálfræði fasismans (Massenpsychologie des Faschismus) er trúlega þeirra mikilvægust. Hann segir m.a.:
Fasismi er sprottinn úr íhaldssemi jafnaðarmanna annars vegar og þröngsýni og glöpum auðvaldssinna hins vegar. Fasisminn bjó yfir grimmilegri íhaldssemi, engu minni en þeirri, sem hafði lagt líf og eignir í rústir á miðöldum. Lögð var rækt við svonefnda þjóðlega hefð á goðsögulegan og grimmdarlegan hátt, sem hafði ekkert með sanna þjóðerniskennd eða tengsl við jörðina að gera. Með því að kalla sig bæði byltingarmenn og jafnaðarmenn hlupu fasistarnir í skarðið fyrir jafnaðarmennina.
Drottnun yfir iðnjöfrunum færði þeim auðmagnið. Þegar hér var komið sögu, var jafnaðarsamfélagið falið alvöldum leiðtoga í hendur. Hann var af Guði sendur. Hugmyndafræði þess leiðtoga nærðist á valdleysi og umkomuleysi múgsins. En hvort tveggja hafði skotið rótum í skapgerð fólks í skóla, sem einkenndist af valdlægjuhætti, runninn undar rót kirkjunnar og þvingandi heimilislífs.
Loforð hins alvalda leiðtoga, sem í umboði Guðs lofaði frelsun þjóðarinnar, féll í frjóa jörð hjá múginum, sem hafði djúpa þörf fyrir bjargvætt. Leiðtogi og lýður runnu saman. Hinn þýlyndi múgur kokgleypti hugmyndina um óbreytanleika mannsins og kenninguna um eðlilega skiptingu manna i leiðtoga og lýð.
Þar með hafði lýðurinn afsalað sér ábyrgð í hendur ofurmannsins. Hvarvetna er leiðtogahugmyndafræði fasismans byggð á hugmyndinni um fastmótað eðli mannsins, hjálparleysi hans, þýlyndi, og frelsunarvanmátt fjöldans.
Hin bitra staðreynd er þessi: Til grundvallar fasisma allra þjóða liggur ábyrgðarleysi lýðsins. Fasismi á sér rætur í brenglun mannsins um þúsundir ára. Fasismi lýsir hvorki sérstökum manngerðareinkennum Þjóðverja eða Ítala. Hann á sér bólfestu í hverjum og einum, hvar sem er í veröldinni.
Það er staðreynd málsins. Henni verður ekki hnikað, enda þótt hún sé afleiðing félagsþróunar um árþúsundir. Maðurinn er ábyrgur fyrir sjálfum sér. Það stoðar lítt að skella skuldinni á sögulega þróun. Það hafði einmitt í för með hrun frelsishreyfinga jafnaðarmanna. Atburðir síðustu tveggja áratuga (1922-1942) eru samt sem áður á ábyrgð hins vinnandi lýðs.
Ef við gefum okkur, að frelsi merki fyrst og síðast þá ábyrgð hvers og eins að skapa sér tilveru með tilliti til atvinnu og tengsla við annað fólk með skynsömum hætti, þá mætti fullyrða, að engin ógn sé yfirsterkari því að skapa almennt frelsi.
Sérhver félagsleg atburðarás ákvarðast af viðhorfi fjöldans. Fjöldinn er haldinn vanmætti til frelsunar sjálfs sín. Hið sanna frelsi skapar múgurinn einungis af sjálfsdáðum.
Sannleikurinn er gagnslaus, nema fylgi vald til að láta verkin tala samkvæmt honum. Að öðrum kosti heyrir hann til friðar umræðna í háskóla. Eigi vald sér ekki rætur í sannleikanum og það má einu gilda, um hvers konar vald er að ræða er um að ræða einveldi meira eða minna í einum eða öðrum skilningi þess hugtaks, vegna þess, að slíkt vald sækir ævinlega funa sinn í hræðslu mannsins við félagslega ábyrgð og þá byrði, sem frelsi felur í för með sér. Sannleikur og einveldi geta ekki leiðst hönd í hönd. Það er söguleg staðreynd, að sannleikurinn hefur ætíð horfið, þegar handhafar hans hafa komist til valda. Í valdi er alltaf fólgin undirgefni.
Við okkur blasir þessi óhagganlega staðreynd; í sögu mannlegs samfélags hefur fjöldanum aldrei lánast, í kjölfar blóðugra frelsisstríða, að halda friðinn og rækta frelsið. Og hér er átt við eiginlegan frið til ræktunar fólks og félags, frelsi til að draga andann óttalaust, frelsi frá allra handa hagkúgun, frelsi án framfarahindrana; í stuttu máli, frelsi til að lifa samkvæmt eigin geðþótta.
Við verðum að hrista af okkur allar blekkingar. Því að í múginum sjálfum er bólfest andstaða, sem í er fólgin afturhaldssemi og drápsfýsn. Hvort tveggja hefur hvað eftir annað að engu gert viðleitni baráttumanna fyrir frelsi. Þetta afturhaldsvald skýrist af almennum ótta við ábyrgð og frelsi.
Vonandi hvetja þessi orð Wilhelms til umhugsunar, því enn er vegið að lýðræðinu með afdrifaríkum hætti.
Nýjustu færslur
- Hverjum þykir sinn sögufuglinn fagur. Auschwitz og Sankti Pét...
- Bandaríkin. Dónaldur trumpar um undirróður, stríð og bólusetn...
- Trumpur og eldingar. Kolsvarti, stríðsóði tíkarsonurinn og mo...
- Úrkynjun, ósigur og hrunadans Vesturlanda. Emmanuel Todd
- Þegar Íslendingar seldu sálu sína og frelsi: Seinni hluti
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021