Kínversk krútt og kjötbollur. Konur bera uppi hálfan himininn

Formaðurinn ódauðlegi, Mao Zedong (1893-1976), sagði, þegar menningarbylting hans var í fullum blóma, að «konur gætu haldið upp hálfum himninum.» Þessi orð enduróma kvenfrelsunarhugmyndafræði byltingarsinna í Evrópu á öndverðri tuttugustu öldinni. Aftur á móti náði hin borgaralega kvenfrelsunarhreyfing Vesturlandi aldrei fótfestu í Kína – fyrr en Kína tók upp auðvaldsskipulag. Hún fékk byr í seglin, þegar Kínverjar buðu Sameinuðu þjóðunum að halda fjórðu alheimsráðstefnu sína um frelsun kvenna í Bejing árið 1995. Nú er Xi Jinping (f. 1953) í senn framkvæmdastjóri fyrirtækisins og æðstistrumpur í æðstaráðinu.

Veröldin vaknaði um daginn af værum blundi við kunnuglega tegund stórfrétta. Fjaðurkúlu- eða tennisdrottning Kínverja, Peng Shuai (f. 1986) lýsti því yfir á kínverska tístinu, „Sina Weibo,“ að Zhang Gaoli (f. 1946), fyrrverandi varaforsætisráðherra, hefði nauðgað sér, og konan hans verið afundin og andstyggileg. Samkvæmt ágætri grein á Wikipedia hafði hann einu sinni verið býsna ágengur. Peng hafði þá látið til leiðast. Síðan hafði farið svo vel á með þeim, að eljan vildi giftast sínum heittelskaða. Hann tók því óstinnt upp. Því fór sem fór.

Þrátt fyrir, að kínversk yfirvöld hefðu í nokkrum tilvikum lagt blessun sína yfir „aftökur“ bæði háskólakennara og Búddastrúarleiðtoga, brugðust þau ókvæða við ásökunum Peng, sem hvarf af sjónarsviðinu, eftir að ásökun hennar var afmáð af kínverska tístinu. Heimurinn fór á annan endann. M.a. hótaði alheimssamband fjaðurboltakvenna að keppa aldrei framar í Kína. Peng kom í leitirnar skömmu síðar.

En æðstistrumpur, Xi, hefur meiri áhyggjur af annarri afleiðingu kvenfrelsunar, sem nú er reyndar kennd við háskóla í Kína og blómstrar, þrátt fyrir handtöku áróðurshóps á árinu 2015, sem kallaður hefur verið, „Femmurnar fimm“ (feminist five). Strákarnir, framtíðarhermenn Kínverja, kvenvæðast nú sem aldrei fyrr.

Si Zefu, forstjóri, félagi í Þjóðarrráðinu, hringdi viðvörunarbjöllu. Hann sagði, að kínverskir piltar væru „veiklundaðir, hlédrægir og auðmýktu sjálfa sig.“ Þetta þótt Xi vond tíðindi, því hann dreymir um heimsyfirráð og kínverska heimsmeistara í ruðningi – væntanlega karla. Kínversk yfirvöld hafa nú gefið út tilskipun þess efnis, að strákar skuli gerðir karlmannlegir á ný í skólum landsins.

En það er við ramman reip að draga. Drengir eru um 37 milljónum fleiri í Kína vegna misheppnaðrar einsafkvæmisstefnu fyrri ára. (Heildarmannfjöldi er um 1.4 milljarður.) Þeir alast upp að mestu leyti hjá mæðrum, ömmum og kvenkennurum í skóla. Því skal ráða fleiri karlkennara, leggja meiri stund á íþróttir og hampa góðum fyrirmyndum.

Í því efni á Xi í harðvítugri baráttu við tíðarandann. Kvenlegir unglingspiltar, algjörar kjötbollur (little fresh meat), hafa slíkt aðdráttarafl, að æðstaráðið má sín lítils. Nokkrir yndisþokkalegir sveinar stofnuðu t.d. sveitina, „TF Boys,“ sem nýtur fádæma vinsælda í Kína og Austur-Asíu – og gætu sem hægast lagt undir sig heiminn. Efni söngvanna hljómar kunnuglega eins og „Sýndu mér ást þína, yndið mitt (baby).“ (https://www.youtube.com/watch?v=Z1F_0snF0Oo)

Nokkrir kurra vegna áðurgreindrar tilskipunar formannsins. Kanadíski sagnfræðingurinn, Gwynne Dyer (f. 1943), skrifar t.d. hneykslunargrein með titlinum: „Sjúkleg tillaga til að koma í veg fyrir kvengervingu stráka“ (China‘s Sick Proposal to Prevent the Feminization of Male Adolescents.“ (Má lesa í: Niagara Falls Review og víðar.)

Kvenfrelsurum á heimavígstöðvunum varð einnig brátt í brók. Félagsfræðingurinn, Fang Gang, við kynjafræðideild Renmin Háskólans í Bejing, lét frá sér heyra. Hann er kvenfrelsunaraðgerðasinni, m.a. leiðtogi kvenfrelsunarsamtaka karla, Hvíta borðans (White Ribbon) og áhugamaður um réttindi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og kynskiptinga. Hann segir:

„Karlar eru ekki óhjákvæmilega ýgir, vörpulegir og kappgjarnir. Konur eru ekki óhjákvæmilega óvirkar, tilfinningasamar og mjúkar. Góðir eiginleikar eru kynlausir. Þá ættu bæði piltar og stúlkur að tileinka sér.“ Lü Ping, stofnandi áróðursrásarinnar, Kvenfrelsunarradda (Feminist Voices), lét einnig frá sér heyra, þrátt fyrir, að Flokkurinn hafi látið þagga niður í henni árið 2018.

En Flokkurinn þakkar ekki niður í Liu Minghui við Kínverska kvennaháskólann. Hún er prófessor í lögum. Liu segir í flokksblaðinu, „Dagtíðindum Kína“ (China Daily): „Það ber nauðsyn til að ala börnin upp, án kynmótunar (gender bias), og leyfa manngerð þeirra að þroskast sjálfstætt til skyldurækni og annarra góðra mannkosta. Hver getur, þegar allt kemur til alls, tryggt, að karlar með öflugri vöðva, séu einnig heiðvirðari og ábyrgðarfyllri.“

Hliðstæður við vestræna þróun eru fleiri. Stúlkur skjóta kynbræðrum sínum ref fyrir rass á menntasviðinu. Þær standa sig betur á stöðluðum prófum og skipa meirihluta nemenda við æðri menntastofnanir. Sumar þeirra ná til metorða í tæknigeiranum eins og hin 25 ára gamla, Zhou Chengyu, geimfari og foringi áhafnar geimflaugarinnar við þriðju tungllendingu kínversku geimferðastofnunarinnar. Hún þurfi ekki á jákvæðri mismunun, kvótum eða kvenkynferði að halda. Hún er er bara yfirburðasnjöll og nýtur þess (sem og við hin).

Meðan Xi reynir að gera hermenn og karla í krapinu úr krúttlegu, litlu kjötbollunum á heimaslóð, dundar höfðandstæðingur hans, Joseph Biden, sér við að kvengera bandaríska stráka og valdefla stúlkur. Í þessu skyni er t.d. verið að hanna sérstakan óléttubúning handa orrustuþotuflugmönnum (konum) í flughernum.

Það er svo margt skrítið og skemmtilegt í kýrhausnum.

https://www.bbc.com/news/world-asia-china-55926248


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband