Leiðbeining bandaríska sálfræðingafélagsins um viðgerð vondra vera

Ronald F. Levant menntaðist í uppeldisfræði og sálfræði við Háskólana í Kaliforníu og Harvard. Hann er ákafur talsmaður kvenfrelsunar og hefur skrifað bækur um efnið. Ronald var um skeið formaður samtaka bandarískra sálfræðinga, APA (American Psychological Association). Í samtökunum eru 120.000 félagar, 58% konur. Í sálfræðinámi eru 75% nema konur.

Fimmtugasta og fyrsta deild félagsins er kölluð „Félag til rannsókna á körlum og karlmennskum“ (Society For the Psychological Study of Men and Masculinities). Á heimasíðu þess er gerð grein fyrir köllun félagsmanna í nokkrum liðum, m.a. þessum:

Félagsmenn „viðurkenna sögulega þakkarskuld sína við kvenfrelsunarinnblásna fræðimennsku um kyn og heitir stuðningi við hópa eins og konur, samkynhneigða, lespur og litað fólk, sem búið hefur við einstaka kúgun í kerfi kyns/stéttar/kynþáttar.

Leggja sig fram um að útrýma aðþrengjandi skilgreiningum á karlmennsku, sem í sögulegu ljósi hefur heft þroska karla, hæfni þeirra til mikilvægra tengsla, og stuðlað að kúgun annars fólks.“

Á árinu 2005 barðist Ronald fyrir því innan félagsins, að skrifaðar yrðu leiðbeiningar handa sjúkrasálfræðingum (clinical), sem starfa með stúlkur og konur annars vegar, hins vegar drengi og karla. Höfundar þessara leiðbeininga voru margir þeir sömu.

Tveim árum síðar mátti lesa í kvenmiðuðu leiðbeiningunum: „Sálfræðingar, [er annast] sállækningu (therapy), kennslu, rannsóknir og handleiðslu, eru hvattir til að gera sér í hugarlund áskoranir, sem stúlkur og konur hafa þurft að takast á við og þrautseigjuna og styrkinn, sem þær hafa sýnt í því sambandi.“

Árið 2019 komu út leiðbeiningar um drengi og karla. Nú kemur annað hljóð í strokkinn:. „Sjúkrasálfræðingar verða að vera minnugir karlmannlegra drottnunarviðhorfa og gæta að hugsanlegri villuhugsun (bias) sinni. … Það ríður á, að heilbrigðisstarfsmenn geri sér grein fyrir, hvernig áhrif valds, forréttinda og kynfólsku (sexism), eru karlmönnum til hagsbóta og leiða þá [samtímis] í gildru aðþrengjandi hlutverka.“

Sjúkdómur karla er „eitruð karlmennska.“ Hún skal vera viðfangsefni rannsókna: „Í þeim rannsóknum, sem á eftir koma, skal leggja megináherslu á, að hefðbundin karlmennska – sem einkennist af yfirvegun og æðruleysi (stoicism), samkeppni, drottnun og ýgi – sé yfirleitt skaðleg.“

Kanadíski sálfræðingurinn, Jordan Peterson (f. 1962), er ómyrkur í máli: „Höfundar [leiðbeininganna] staðhæfa, að karlar, sem siða drengi sína til hefðbundinnar karlmennsku, spilli heilsufari þeirra … [og] móti karlmenn, sem fjölskyldum og samfélagi stafi meginógn af.“

Í anda kvenfrelsunarfræða staðhæfa höfundar umrædds rits, að kyn og ýgi ákvarðist í samskiptum. Í framhaldinu bendir Jordan á mikilvægi feðra í því efni: „Því sú hugmynd, að ýgi (aggression) sé numin, er ekki einungis röng, heldur er hún forneskjuleg. Ýgi er [í sjálfu sér] auðveld. Siðuð hegðun er þyrnum stráð. Það er siðun (integration) ýginnar, sem numin er. Og það eru fyrst og fremst karlmenn, sem siða, sérstaklega harðskeytta stráka. Hvernig vitum við þetta?

Það er [í raun] einfalt – og það er þessi einfalda staðreynd, sem grefur undan fullyrðingum í APA ritinu. Hvers konar fjölskyldur geta af sér ofbeldisfulla, ungar karla? Föðurlausar fjölskyldur. Skaðsemi föðurleysis er einstaklega vel rannsökuð. Enginn rannsakandi, sem vill rísa undir nafni, dregur það í efa.“ (Bendi áhugasömum á pistilinn: „Föðurleysi,“ á: arnarsverrisson.is.)

Jordan segir: „Ritið, sem APA hefur gefið út undir yfirskini leiðbeininga um sállækningar (psychological treatment) drengja og karla, einkennist af undirferli, vísindalegum fölsunum og ámælisverðu siðferði. Trúa mín er sú, að höfundar þess líði af þekkingarskorti, hafi gefið sig hugmyndafræði á vald [og] búi við siðferðilega lágkúru og meinfýsi. [Þeir eru] drýldnir í vanþóknun sinni, [jafnvel þótt] ekki sé við henni gengist.

Það, að þeir skuli tala í mínu nafni og atvinnugreinar minnar, gerir mig [í senn] vandræðalegan og skömmustulegan. Ég bið fólk velvirðingar á því að hafa ekki sýnt næga árvekni, látið fyrr í ljósi hneykslan mína og gert meira til að koma í veg fyrir, að slíkt hafi átt sér stað.“

Þetta tek ég vitaskuld heilshugar undir.

Að neðan er að finna krækju á greinagóða gagnrýni Jordan. Þar er líka að finna krækju á umrætt rit APA.

https://www.jordanbpeterson.com/political-correctness/comment-on-the-apa-guidelines-for-the-treatment-of-boys-and-men/?fbclid=IwAR1zlTr5QMshRxFDYbTcT2ACSmGb0_N-JPzbfKUCrFtlGYHSN9Czwn0BdNI


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband