Samræðan, sálin, rökvísin og vísindin

Svissneski sálfræðingurinn, Jean Piaget (1896-1980), uppgötvaði ”samverutalið,” þ.e. þann áfanga í hug- samskiptaþroskanum, þegar börn leika sér saman, tala saman, að því er virðist. En í raun er um að ræða eins konar sam-eintal. Þau tala út frá eigin brjósti og eigin þörfum, án tillits til þess, sem hitt segir, hverfast um sjálf sig. Smám saman þroskast félagsskilningur og skynbragð á hugtök, aðgreining ímyndunar og raunveruleika á sér stað. Lokaáfangi hug- og samskiptaþroskans er sú hæfni að setja sig í annarra spor.

Rússneski sálfræðingurinn, Lev Semyonovich Vygotsky (1896-1934) hafði einnig margt gagnlegt að segja um þroskun hugsunar, samskipta og tungumáls. Við athuganir sínar komst hann að þeirri niðurstöðu, að í upphafi væri mál og hugsun aðskilin. Þegar barnið nær tveggja ára aldri fer þó hugsun og mál að tvinnast saman og um þriggja ára aldur sundurgreinist málið í útleitandi hluta, þ.e. málbundna tjáningu, og innleitandi hluta, sjálfstal eða sjálfhverft mál. Því beitir barnið til að leiðbeina eða stjórna hugsun sinni eins og samverutalið ber vott um.

 

Sjálfstalið verður smán saman – eða um sjö ára aldur – sjálfshugsun eða innra mál. Þrátt fyrir þessa þróun er ekki ástæða til að ætla, að hugsun og mál falli alveg saman. Sjálfri hugtakaþroskuninni skiptir Vygotsky í þrjú stig; óreiðuflokkun, þ.e. flokkunin virðist tilviljunarkennd; einsþáttarflokkun, þ.e. flokkað er samkvæmt einum greinilegum þætti eins og t.a.m. stærð; og hugtaksflokkun, þ.e. flokkun á sér stað á grundvelli skilnings á fleiri eiginleikum fyrirbærisins.

Vygotsky segir að greina megi tvo undirflokka hugtakanna; sjálfsprottin hugtök, þ.e. hugtök byggð á innsæi og áþreifanleika annars vegar og rökföst eða vísindaleg hugtök hins vegar, þ.e. hugtök sem eru rökrétt og sértæk (óhlutbundin - abstract). Samræðulistin snýr ekki síst að þeirri hæfni að greina þessar hugtakategundir að.

Það er í málnámi og í samskiptum, að við tileinkum okkur menninguna, félagslegan skilning, viðhorf og siðboð, almenna skynsemi og allra handa fordóma. Þannig mótast einnig manngerðin sjálf, því hugurinn er næmur fyrir aðsteðjandi áhrifum og upplýsingum. Að sumu leyti mætti segja, að við byggjum við ákveðna sjálfhverfu, sem erfitt er að þroskast út úr. Rökleysurnar eru á hverju strái, ógn við þroskaða hugsun.

En góðu heilli búum við líka yfir hæfileikanum til að gera grein fyrir, að beita rökum og rökföstum hugtökum. Það mætti færa þungvæg rök fyrir því, að fátt sé mikilvægara í lífinu en einmitt hæfileikinn til að læra, skynsemin, dómgreindin, glöggskyggnin og rökhyggjan, sjálfar undirstöður hugþroska fullorðins manns. Kanadíski sálfræðingurinn, Steven Pinker, sagði um hana: ”Fegurð rökhyggjunnar felst í því, að henni má beita til að brjóta rökleysurnar til mergjar.”( „Upplýsingu nú þegar. Málsvörn skynsemi, vísinda, mannúðarhyggju og framfara“ (Enlightenment Now. The Case for Reason, Science, Humanism, and Progress.)

En það er margt í manngerð vorri og tengslum, sem truflar. Stundum beitum við skynseminni í einhvers konar mannvirðingarkeppni, til að halda andlitinu. Þá leitum við jafnvel að fjarstæðukenndustu rökum. Enda þótt okkur séu ljós eigin gildi, fordómar, hindurvitni, hlutdrægni og skoðanakeppikefli, látum við hjá líða að beita rökfærslunni. Það yrði of dýrkeypt fyrir sjálfsálitið, skapaði óöryggi.

Öryggisþörfin fær stundum á sig spaugilegar myndir, t.d. þegar við veljum illa samkvæmt skynsamlegum mælikvörðum, en beitum síðan skynseminni til að deyfa ósamhljóminn af vondri ákvörðun, tínum til alls konar mótrök, sem öðlast af tilefninu sérstakt vægi. Sjálfblekking virðist algeng þörf.

Stundum hleypur skynjun og hugur með okkur í gönur. Okkur er tamt að skynja sem svo, að tengsl fyrirbæra í tíma og rúmi feli í sér orsakatengsl milli þeirra. En það þarf síður en svo að vera. Það sýndu þýskir tilraunasálfræðingar fram á fyrir um það bil einni og hálfri öld síðan.

Tölfræðileg fylgni er eitt tilbrigða við þetta lögmál. Slík fylgni segir í sjálfu sér ekkert um orsakatengsl. Tilhneiging til að alhæfa er annað rökhyggjumein skynjunar og hugsunar. Það er algengt í umræðu. Brjóti kona t.d. á barni kynferðislega, er ekki þar með sagt, að allar konur séu seldar undir sömu sök. Það er áskorun að hemja hugann að þessu leyti. Beiting rökvísi, vísindalegri aðferð, er besta leiðin til þess.

Málatilbúnaður í rökræðu getur þjónað þeim eina tilgangi að sannfæra okkur sjálf um eigið gildi eða tryggja þátttökurétt í hópi skoðanabræðra og - systra, afla sér hlutgengis. Slík þrá og þörf gerir fólk viðkvæmt fyrir hópþrýstingi. Hópþörfin og hóphollustan verður rökhyggjunni æðri. Eitt tilbrigði þessa er flokkshollusta. Hollustan við flokk og leiðtoga getur orðið dómgreindinni yfirsterkari, borið gagnrýna hugsun og rökvísi ofurliði, gert það að verkum, að maður tileinki sér tilteknar skoðanir í því skyni að tryggja gjaldgengi og efla sjálfsvitund.

Skoski heimspekingurinn, David Hume (1711-1776), sagði í þessu sambandi: „Þorri fólks hefur náttúrulega tilhneigingu til að vera fullvist í sinni sök og standa fast á skoðun sínum. ... Þurfi þeir að hika og vega málin og meta, þá fipar það skilningsgáfu þeirra og tefur þá við verk sín. Þeir eru því ekki í rónni fyrr en þeir losna við allar þessar amasömu vöfflur og reyna því að ganga sem allra lengst í kokhraustri vissu og halda í skoðanir sínar af sem mestri þrákelni.“ (Rannsókn á skilningsgáfunni. Þýðandi: Páll Árdal.)

Hin vísindalega aðferð er haldbest í baráttunni við hindurvitni, fáfræði og dómgreindarbrest. En sjálfsrýni og meðrýni annarra er nauðsynleg á vísindalegum vettvangi sem og annars staðar. Það er auðvelt að gera sig að fífli. Norður-ameríski eðlisfræðingurinn, Richard Phillips Feynman (1918-1988), sagði skorinort um fyrstu reglu vísindanna: „[Þ]ú ættir ekki að blekkja sjálfan þig – og þig er auðveldast að blekkja.“

Í alvöru vísindum eru gerðar strangar kröfur um sönnunarfærslu, þ.e. að skoða, hvort ákveðin kenning, tilgáta eða fullyrðing, hefur við rök að styðjast, sé raunsönn. Því þarf í sjálfri tilgátunni að segja til um, hvaða niðurstöður eða rannsóknargögn muni gera það að verkum, að annað hvort sé hún sönnuð eða afsönnuð. Rannsaka má í sjálfu sér, hvað sem er, en samt sem áður er gerð sjálfsögð krafa um, að rannsóknarefnið sé fræðilega undirbyggt með tilliti til þess, sem aðrir hafa gert og í fullum samhljómi við fræðilega (og almenna) skynsemi.

Niðurstöður vísindalegra athugana verða sem sé að standast gagnrýna skoðun, svo leggja megi mat á áreiðanleika niðurstaðnanna og gildi þeirra mælinga og hugtaka, sem notast er við. Þess vegna er leitast við að staðfesta niðurstöðu með endurtekinni athugun annarra vísindamanna.

Í því efni er oft pottur brotinn. Árið 2005 skrifaði John P.A. Ionanidis (f. 1965), grísk-amerískur lækningatölfræðingur, grein í vísindatímarit um efnið. Titillinn var ógnvænlegur: „Hvers vegna flestar birtar rannsóknaniðurstöður eru rangar“ (Why Most Published Research Findings Are False). Það er óhætt að segja, að rannóknarniðurstöður hans hafi valdið titringi í vísindasamfélaginu – og varla hefur um hægst.

John komst að þeirri niðurstöðu, að það væri býsna algegnt, að athuganir væri ekki unnt að endurtaka, svo sannreyna mætti fyrri niðurstöður. Niðurstöður hans hafa síðar verið staðfestar að töluverðu leyti í öllum greinum, ekki síst í lækningafræðum og félagsvísindum. Þetta er kallað endurgerðarkreppan (replication crises). Því er einboðið, að niðurstöður verði að skoða í gagnrýnu, aðferðafræðilegu ljósi.

Áðurnefndur, Steven Pinker, segir í þessu sambandi: „Virðing fyrir vísindalegri hugsun er ekki fólgin í þeirri óbilandi trú, að allar vísindalegar tilgátur á líðandi stundu séu sannar. Flestar hinna nýju eru það ekki. Hringrás tilgátna og afsönnunar er sjálf lífæð vísindanna. Sett er fram tilgáta og síðan reynir á, hvort hún stenst tilraunir til að hafna henni.“

Það eru fleiri ljón í vegi vísindamanna. Norður-ameríski heimspekingurinn, Thomas Kuhn (1922-1996), benti t.d. á það fyrir sextíu árum síðan (1962 – „Gerð vísindabyltinga“ (Structure of Scientific Revolutions), að vísindamenn í ákveðnum greinum eða fagkimum hefðu tilhneigingu til að komast að svipuðum niðurstöðum og staðfesta þannig hvern annan (confirmation bias), fremur vegna hópþrýstings en vísindalegrar vandvirkni eða hugljómunar.

Hagsmunagæsla er annar vágestur vísindamanna. Það eru mörg dæmi um pantaðar vísindaniðurstöður frá tilteknum hagsmunaaðiljum. Og enn eru ótaldir vágestir. Skrifræði háskólanna er stundum þrándur í götu við fjármögnun rannsókna. Það er jafnvel krafist ákveðins stjórnmálalegs eða faglegs rétttrúnaðar.

Á síðustu áratugum hafa kvenfrelsunarfræðimenn haldið því fram, að hlutlægar, áþreifanlegar staðreyndir væru ekki til – að veröldin og vísindin mætti rífa niður eins og hver önnur hugtök. Einstaklingsbundin reynsla og tilfinningar væru einustu mælikvarðarnir á sannleika og þekkingu.

Að þessu mætti ljóst vera, að það sé snúið að eiga uppbyggilegar rökræður á grundvelli rökréttra hugtaka, áreiðanlegra vísinda og upplýsinga. Það hefur þó sjaldan verið nauðsynlegra en nú. En ég neita því ekki; stundum sýnist mér, að samræður okkar séu miklu fremur sjálfstal eða samverutal, á grundvelli óreiðuhugtaka, en menntandi rökræða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband