Á fæðingarári mínu (1951) gaf Eric Hoffer (1902-1932) út sína fyrstu bók, Hinn sanntrúaði: Vangaveltur um eðli fjöldahreyfinga (The True Believer: Thoughts on the Nature of Mass Movements). Bókinni hefur verið skipað á bekk sígildra rita um efnið. Það má þó furðu sæta, því Eric, fæddur, að sögn í Nýju Jórvík, af fátæku, þýsku foreldri kominn, var blindur drjúgan hluta æskunnar. Hann vann erfiðisvinnu alla ævi, hlaut ekki skólun við æðri menntastofnanir, en gagnmenntaðist af eigin rammleiki.
Bók Eric kom út, um það bil, er önnur bylgja kvenfrelsunar skall á vestrænni veröld, en var þá hvorki orðin að trúarbrögðum eins og síðar varð, né viðurkennd söguskýring mannkyns við alþjóðastofnanir. En tilurð þessarar öfgahreyfingar má að töluverðu leyti skýra á grundvelli hugsunar hans um fjöldahreyfingar eins og t.d. ofsatrúarhreyfingar Múhameðstrúarmanna.
Hinn rétttrúaði er ofsatrúarmaður, sem er reiðubúinn til að fórna lífi sínu í þágu heilags málstaðar, vegna örvinglunar með eigið líf, tilgangsleysis og merkingarleysis, tilfinningar höfnunar og einsemdar.
Í hjarta fylgismanna sérhverrar fjöldahreyfingar skýtur rótum fýsi til sjálfsfórnar og tilhneiging til sameiginlegra aðgerða. Allar sem ein, án tillits til boðaðrar kennisetningar ala af sér ofstæki, ákefð, glóandi von, hatur og vægðarleysi. Allar eru þær færar um að leysa úr læðingi flaum aðgerða á vissum sviðum mannlífsins. Allar byggja þær á blindri trú og óbrigðulli hollustu.
Fjöldahreyfingar ganga hart fram í því að boða kennisetningar, sem yfirskyggja skynsemi með trú, og þjóna eins og varnargirðing gegn staðreyndum, milli hinna trúandi og veruleika veraldarinnar. Það má ekki með nokkru móti draga þær í efa.
Helsti sameiningarþátturinn (agent) er hatrið, nærtækast og yfirgripsmest. Það ruglar fólk í ríminu og losar fólk úr eigin skinni, slær hlutaðeigandi blindu á eigin velferð og framtíð, losar það úr greipum öfundar og heftir leitina að sjálfu sér. Einstaklingurinn verður nafnlaus eining [og] þráir í geðshræringu að sameinast, renna saman við sína líka, svo úr verði einsleit eldtungueðja (mass). Fjöldahreyfingar geta risið og magnast án guðstrúar, en aldrei án trúarinnar á djöfulinn.
Kvenfrelsunarhreyfingin þurfti ekki lengi að leita að djöflinum: Um miðbik nítjándu aldar sagði fræðaformóðir kvenfrelsaranna, hin norður-ameríska Elizabeth Cady Stanton (1815-1902): Karlinn er þrunginn tortímingu; harðneskjulegur [og] sjálfselskur. Hann unnir stríði, ofbeldi [og] sigurvinningi, miklast af sjálfum sér og leggur að fótum sér. Eins og í hinum veraldlega heimi sáir hann í siðferðið ósætti, glundroða, sjúkdómum og dauða.
Þessi sannfæring markaði fyrstu bylgju kvenfrelsunar, enda þótt það sé sögulega nákvæmara að staðsetja hana síðla á átjándu öldinni eða beinlínis í frönsku byltingunni. Aðsópsmesti kvenkyns kvenfrelsari hennar var reyndar hálshöggvinn fyrir morð í þágu málstaðarins.
Á sokkabandsárum hreyfingarinnar lá kvenfrelsurum einkum á hjarta getnaðarvarnir, afnám þrælahalds og bindindi, en það var þá talinn helsti löstur karla, að þeir sauðdrukknir sóuðu heimilispeningunum á kránum. Aðgangsharðasta baráttukonan gekk á milli kráa og hótaði karlræflunum með reiddri öxi.
Hártoganir á frelsisyfirlýsingu íbúa Norður-Ameríku (að Kanada undanskildu) voru þeim einnig hugleiknar, þ.e. hvort enska orðið, Man merkti mannkyn eða bara karla. Hástéttarkonan, Elizabeth, og sálufélagar hennar, töldu svo ekki vera, og sömdu því eigin sjálfstæðisyfirlýsingu kvenna.
Það dró til stórra tíðinda um aldamótin 1900, þegar hreyfingin fór annars vegar að berjast fyrir blóðugri byltingu og hins vegar fyrir kosningarétti kvenna. (Kosningaréttur karla lá þeim í léttu rúmi.) Kosningaréttarhreyfingin í Stóra-Bretlandi þróaðist í hryðjuverkasamtök. Banatilræði við borgarstjórann í Sankti-Pétursborg misheppnaðist, en drápssveit kvenna undir forystu Alexe Popova (d. 1909) tókst að granda um þrjú hundruð körlum fyrir meint heimilisofbeldi. (Kviðdómur kvenna kvað upp dómana og fullnægði þeim. Orðum þeirra var almennt trúað. Fyrirkomulagið gildir við sýndardómstóla stofnana og fyrirtækja í vestrænni menningu rúmri öld síðar ekki síst í fjölmiðlum. Kvenfrelsarar berjast fyrir því, að það verði einnig tekið upp við opinbera réttargæslu.)
Kvenfrelsunarhreyfingin tók virkan þátt í að smala ungum karlmönnum til vígvalla fyrri heimsstyrjaldarinnar, en í þeirri seinni hvöttu þær konur til að framleiða hergögn, þegar karlarnir höfðu verið sendir í sláturhús vígvallanna. Næsta flóðbylgja kvenfrelsunar skall á Vesturlöndum upp úr miðri síðustu öld, um það leyti sem bók Eric kom út.
Eric segir: Það er jafnvel svo, að útbreitt og niðurdrepandi iðjuleysi sé haldbesta vísbendingin um jarðveg fjöldahreyfingar. [Á] fyrstu stigum hreyfingarinnar er líklegra, að hún hljóti hljómgrunn og stuðning þeirra, sem búa við leiða, en þeirra, sem finnst þeir vera órétti beittir og kúgaðir. Einarðir æsingamenn til uppþota finna ekki síður uppörvun meðal þeirra, sem glíma við leiða dauðans, en hinna, sem þjást vegna óbærilegrar eða stjórnmálalegrar misnotkunar. Ástríðuþrungið hatur skapar merkingu og tilgang í innantómu lífi. Fólk er fyrst og fremst leitt á sjálfu sér, þegar það þjáist af leiðindum
Um þær mundir leiddist mörgum miðstéttarkonum gífurlega og voru ónógar sjálfum sér. (Kvenfrelsarar komu yfirleitt úr röðum millistétta, sumar hástétta.) Kvenfrelsunarfræðimenn hafa ekki fundið annað nafn á þetta fyrirbæri, en nafnlausa vandann. Þessi vandi er einkum og sér í lagi kominn til vegna þess, að allri tækni, sem laut að heimilishaldi, hafði fleygt svo fram, samtímis opinberri þjónustu, að erfiði millistéttarhúsmæðra hafi minnkað, svo um munaði. Og hvað áttu þær að gera af sér?
Kvenfrelsunarfræðimennirnir skilgreindu ástandið sem helsi kvenna og kúgun, sem karlar væru ábyrgir fyrir og stunduðu af ásetningi. Þeir staðhæfðu enn sem fyrr, en nú með annars konar skírskotun en áður, að konur væru veikburða fórnarlömb karla.
Eric segir um veika burði og vald: Það hefur oft verið haft á orði, að völd leiði til spillingar. En það er ekki síður mikilvægt að gera sér grein fyrir, að veikir burðir spilla sömuleiðis. Valdið spillir fámenni, en veikir burðir spilla fjöldanum. Hatur, meinfýsi, ruddaskapur, vægðarleysi og vænisýki (suspicion) eru veikleikar hinna veikburða.
Um vald og tilfinningar segir Eric: Vanda þarf til leiðarstefs hugmyndafræðinnar til að beina tilfinningasullinu í réttan farveg : Sé kenningin ekki fjarstæðukennd [sem slík], þarf hún að vera ógreinileg. Sé hún hvorki fjarstæðukennd né ógreinileg, skal ekki vera unnt að færa á hana sönnur. Kvenfrelsunarkenningin er að sönnu allt í senn; fjarstæðukennd, ógreinileg og ósannanleg, þrátt fyrir tilburði kvenfrelsunarvísindamanna til hins gagnstæða.
Eric segir: Sá, sem segir veröldina sitja á svikráðum við sig, hefur á réttu að standa. Hlutaðeigandi hefur glatað þeirri dásamlegu tilfinningu að treysta einhverjum eða einhverju. Öfgarnar frelsa: Sérhvert öfgaviðhorf er flótti frá sjálfum sér. Trúin á heilagan tilgang er að verulegu leyti til að vega upp týndu trúna á okkur sjálf. Ábyrgð á sjálfum sér og frelsið fer lönd og leið: Við tökum þátt í fjöldahreyfingu til að skorast undan einstaklingsbundinni ábyrgð, eða með orðum hins unga Nasista; til að öðlast frelsi frá frelsinu.
Það hefur ekki skort hatursyfirlýsingar í garð karla í flóðbylgjunum fjórum. Kvenfrelsarar síðustu áratuga hafa í baráttu sinni gegn karldjöflinum skipulagt hverja herferðina á fætur annarri. Þeir saka karla um skítlegt eðli (eins og Ólafur Ragnar Davíð), þörf fyrir að meiða börn og konur, að tálma frama kvenna á öllum sviðum, kúga þær með lágum launum og beita þær allra handa ofbeldi, þó sérstaklega kynofbeldi.
Samtímis herferðum sínum á hendur körlum hafa kvenfrelsarar lagt áherslu á að styrkja vígstöðu sína á öllum sviðum opinbers valds og meira að segja þvingað í gegn löggjöf, sem gefur þeim nær því opið veiðileyfi á drengi og karlmenn, ásamt einokuraðstöðu til að innræta ungviðinu hugmyndafræði sína og tilfinningar. Síðustu hömlur réttarríkisins er fyrirhugað að afnema í tíð núverandi ríkisstjórnar með dullyklinum; að bæta réttarstöðu þolenda kynofbeldis.
Hverjar gætu skýringarnar á botnlausu hatri og ósanngirni verið? Eric segir: Sjálfsfyrirlitning jafnvel þótt ógreinileg sé gerir okkur glöggskyggnari á galla annarra. Venjulega reynum við eftir fremsta megni að varpa ljósi á ljóði í fari annarra, sem fólgnir eru í okkur sjálfum. Slíkt fólk lætur sig hverfa á vit múgsins. Vansældarfólk að upplagi (permanent misfits) finnur eingöngu sáluhjálp við fullkomna sjálfsfirringu; og venjulega er lausnin að fela sig á vald samofinni heild fjöldahreyfingarinnar.
Kvenfrelsunarhreyfingin hefur eignast marga leiðtoga í langri ofbeldissögu sinni. Um þá alla gætu þessi orð Eric átt við: Skynsemi (quality) hugmyndanna virðist skipta leiðtoga fjöldahreyfinga litlu máli. Það, sem hins vegar hefur gildi, er hroki í framkomu, vanvirðing við skoðanir annarra, og að bjóða veröldinni byrginn upp á sitt eindæmi.
Hreyfingin er nú komin á stig, sem Eric líklega hefur ekki fyrirséð, að öllu leyti. Kjarni hugmyndafræði hennar hefur verið leiddur í lög og tekinn upp í alþjóðasamninga. Alþjóðasamtök boða hana hvarvetna. Sameinuðu þjóðirnar hafa stofnað sérstaka áróðursstofnun um trúboðið; UN Women. Eric segir: Áróður þjónar fremur til að réttlæta sjálf okkur en að sannfæra aðra; ákefð áróðursins gefur til kynna, hversu sakbitin við erum.
Áróður á þjóðlegum og alþjóðlegum grunni hefur gert það að verkum, að hugmyndfræðilegar öfgar kvenfrelsunarhreyfingarinnar eru um það bil að verða almannarómur, ný alheimstrúarbrögð. Þar með hefur kennisetningin um böðulshátt karla, öðlast sess meðal stærstu trúarbragða í sögu mannkyns.
Hugsanlega mætti líta á aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, António Guterres (f. 1949), sem aðalleiðtoga alheimskvenfrelsunarhreyfingarinnar. Hann boðar heimsendi og karlillsku af sannfæringu og fullvissu. Orð Eric gætu hér átt við:
Einfeldni í fari fullorðinna er stundum töfrandi; en samofin fordild, er hún óaðgreinanleg frá heimsku. Það er ekki erfiðast að takast á við eigingirni eða fordild eða sviksemi, heldur tæra heimsku. Fullvissu öðlast menn einungis í þeim efnum, sem þeir ekki skilja.
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021