Dagur kynjasamhygðargjárinnar

Það hefur lengi verið þekkt, að umhyggja karla fyrir konum sé því sem næst takmarkalaus. Sérstök umhyggja karla fyrir barnsmóður og afkvæmi markaði í raun upphaf mannkyns, var forsenda þróunar þess. Almennt rennur körlum blóðið til þeirrar skyldu að slá skjaldborg um konur, hygla þeim, hampa og hossa. Þetta er eðlishvöt líkast. Drengir svolgra hana með móðurmjólkinni og teyga í andrúmsloftinu. Líf kvenna, vöxtur og viðgangur mætir forgangi í lífi þeirra.

Áherslan er býsna öfgakennd. Hvað fá karlar andlega og tilfinningalega fyrir sinn snúð – í almennu ljósi? Aðallega skít og skömm, öndvert við það, sem almennt á við um konur. Í þessu tilliti er um að ræða gjá milli karla og kvenna.

Því var í Þýskalandi stofnað til dags kynjasamhygðargjárinnar þann ellefta júlí. Hugmyndin var að beina sjónum að þeirri staðreynd, að konum og körlum sé mismunað með eftirtektarverðum hætti í kvenfrelsunarsamfélagi nútímans – sérstaklega með tilliti til samhygðar. Fyrrum enskuprófessor og kvenfrelsari, hin kanadíska Janice Fiamengo, tínir til nokkrar staðreyndir um efnið í hjálagðri grein. Hún spyr m.a.:

„Hví er kynjasamhygðargjá við lýði? Fimmtíu ára kvenfrelsunarboðun karlillsku og fórnarlambasakleysis kvenna hefur mótað viðmót okkar gagnvart karlmönnum. Það veldur varla furðu. Okkur er svo tamt að sjá konur þjáninga og karla ofbeldis, að varla er unnt að hræra hjartað til samúðar með karlkyninu.

[En] kvenfrelsarar skópu [reyndar] ekki þessa umhyggjuskekkju; hún var til staðar í menningarerfðunum: „Konur og börn í fyrirrúmi.“ Frá því, að mannkyn skreið úr vöggu, hafa karlar látið líf sitt í styrjöldum og fórnað sér í vígum til að vernda konur. Fyrr á tímum, þegar líf tegundarinnar réðst af verdun kvenna, varð umhyggja fyrir konum að öflugu siðboði menningarinnar.“

Þetta siðboð birtist stundum með ólíkindalegum hætti. T.d. fór hrollur um heimsbyggðina, þegar skæruliðar Boko Haram í Nigeríu rændu hópi stúlkna. Meira að segja forsetafrú Bandaríkja Norður-Ameríku, Michelle Obama (f. 1964), beitti sér, ásamt fjölda þjóðarleiðtoga, í málinu. Reglulegir ránsleiðangrar sömu samtaka í því skyni að afla drengjahermanna, vakti fráleitt slíka athygli.

Eftirfarandi mismunun þykir heldur ekki tiltökumál: Karlar eru 61% heimilislausra, 78% fórnarlamba drápa, 79% fórnarlamba sjálfsvíga, 93% fórnarlamba vinnuslysa og 93% fanga. (Það er rétt með tölur farið.)

Janice nefnir þekkta rannsókn Sonja Starr á dómum frá 2012. Hún komst m.a. að því, að í 63% tilvika hlutu karlar þyngri dóma en konur fyrir hliðstæðan glæp. Sonja sagði: „Það er líka umtalsvert líklegra, að handteknar konur sleppi algjörlega við ákæru og dóm, og það er tvöfalt líklegra að þær komist hjá fangelsisdómi, séu þær sakfelldar.“

Svo segir Janice: „Kynjasamhygðargjáin er til komin vegna þess, að við, öll sem eitt – þar með taldir saksóknarar, dómarar og kviðdómendur – hafa tilhneigingu til þess að trúa því, að kvenafbrotamenn hafi leiðst út í afbrot af annarra völdum, venjulega karla. [Jafnframt] að þeim hafi boðist takmarkaðar kostir í lífinu, vegna þess, að þær hafi átt erfitt uppdráttar, verið fátækar, búið við geðsjúkdóma eða verið haldnar fíkn.

Við kinokum okkur við því að hrífa ung börn úr móðurfaðmi, meðan við teljum ásættanlegt að loka feður bak við rimla. En eins og [Sonja] Starr beinir athygli að, hafa karlkyns afbrotamenn engu að síður mátt þola „alvarlegt mótlæti, átt í erfiðleikum vegna neyslu áfengis eða fíkniefna, hafa haft fyrir ungum börnum að sjá og hafa leiðst á glapstigu fyrir tilstilli annarra. Hvers vegna teljum við lífsaðstæður fremur milda [glæpi] kvenna en karla.“?

Karlar eru sekir fyrir það að vera karlar. „Flestir myndu aðspurðir svara því til, að konur og stúlkur búi fyrst og fremst við þjáningar. Því er oftlega fleygt, að karlar búi við forréttindi, séu rétthafar jafnvel. [Fullyrt er], að til samfélags sé stofnað til að hygla körlum. Við væntum þess, að karlar biðjist velvirðingar á forréttindum sínum og kynni sér meinbugi á högum kvenna. Óvild í garð karla er óátalin, jafnvel viðurkennd. „Ég lauga mig í tárum karla,“ er vinsælt kvenfrelsunarvígorð, og [kvenkyns] háskólaprófessorar skrifa skoðanagreinar í meginstraumsfjölmiðla í rammri alvöru með titlum eins og: „Hví megum við ekki hata karla.““

Rithöfundurinn, Glen Poole, hefur bent á, að slíkt hugarfar sé hluti menningarskilnings og sögunnar, sem við segjum um okkur sjálf, fastur söguþráður. Þegar fréttir berast af tortímingu karla, er iðulega talað um fólk. Þegar konur og börn farast er talað um konur og börn. (Sbr. fréttaflutning RÚV.) Hins vegar snýst þetta við, hafi karlmenn gert eitthvað af sér. Þá er kyn þeirra skilmerkilega tilgreint. Sérstaklega á þetta við, hafi ódæðið beinst gegn konum og stúlkum. (Glen þessi skrifaði bækurnar, „Þú getur komið í veg fyrir sjálfsvíg karla“ (You Can Stop Male Suicide) og „Jafnrétti fyrir karla“ (Equality for Men).

Hann segir: „Það á við um okkur öll – karla og konur – að við komust síður í uppnám, þegar hörmungar dynja yfir drengi og karla [heldur en stúlkur og konur].“

Grein Janice, sem birtist 11. júlí, lýkur á þessum orðum: „Það ætti að skipta öll okkur máli, að samfélagið skuli sýna sonum, bræðrum, feðrum og karlvinum slíkt skeytingarleysi.“

(Nú er barasta að vona, að „hrútarnir,“ Jón Gunnarsson og félagar, í dómsmálaráðuneytinu, skoði af alvöru ofangreindar staðreyndir og leggi lóð á jafnréttisskálina í réttarkerfinu. Jafnréttið bálar í brjósti kvenfrelsunarríkisstjórnar vorrar, með erkikvenfrelsarann, Katrínu Jakobsdóttur, í fylkingarbrjósti, og vísindin vísa ríkisstjórninni veginn. Svo segir í sáttmála hennar alla vega. Hrútunum mætti einnig benda á hið brýna verkefni að koma lögum yfir konur, sem bera karla röngum sökum. Kvenfrelsunarríkislögreglustjórinn og Katrín nefna þær aldrei einu orði – og málpípa þeirra, fréttastofa RÚV heldur ekki.)

https://www.theepochtimes.com/who-cares-about-male-suffering_3891890.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband