Orka er undirstaða framfara að flestu leyti, enda hefur hún verið bitbein ríkja, ættbálka og þjóða, um aldir alda. Gervöll heimsskipanin á rætur að rekja til baráttu um björgina. Heimurinn hefur staðið í björtu báli vegna hagsmunagæslu hinna ríkari og öflugri þjóða. Ríkjaskipan og alþjóðatengsl, eftir fyrri heimsstyrjöldina, er órækur vitnisburður um einmitt þetta. Og þrálátt stríð fyrir botni Miðjaðarhafs og í Austurlöndum nær ekki síður.
Ásókn í svarta gullið, olíuna, hefur mótað veröldina með afdrifaríkum hætti á síðari skeiðum iðnbyltingarinnar, sem hófst í öflugasta nýlenduveldinu, Stóra-Bretlandi, á átjándu öldinni. Vestræn nýlenduveldi, sem nú eru orðin ofurtæknivædd iðnríki, stjórna veröldinni enn þá beint og óbeint, innan alþjóðastofnana og utan. Kúgun hinna fátækari hefur breytt um ásýnd, að nokkru leyti. Vopn eru síður látin tala, en efnahagsþvinganir hafa komið í staðinn. Slíkum þvingunum er vissulega líka beitt í deilum iðnríkja í austri og vestri.
Hugmyndafræðivopnaburður hefur einnig tekið breytingum að töluverðu leyti. Til viðbótar vopnum trúarbragðastríðanna er komið nýtt vopn, þ.e. ný veraldleg trúarbrögð, kvenfrelsun, sem m.a. miðar að því að uppræta menningu fátækari ríkja. Spjótum er sérstaklega beint gegn fjölskyldunni, ýmsum siðum og skilningi á eðli, stöðu og hlutverki kynjanna. Ístöðulaust fólk í veiklaðri menningu er auðsveipt og móttækilegt fyrir áróðri og íhlutun.
Skefjalaus notkun jarðefnaeldsneytis, þ.e. kola og olíu, hefur óhjákvæmilega leitt til mengunar, sem í þéttbýli er skaðvaldur heilsu manna. Umsvif þeirra síðustu hundrað þúsund árin eða svo hafa sett sitt mark á vistkerfið. T.d. hefur fjölda dýrategunda verið grandað vegna ofveiða, enda þótt fáar tegundir séu nú í útrýmingarhættu. Í Ástralíu t.d. á útrýming dýrategunda af þessum sökum um fjörutíu þúsund ára sögu.
Víða er umhverfissóðaskapur skeinuhættur heilsu lífríkisins. Í áratugi hefur verið ljóst að grípa þyrfti í taumanna og gera bragarbót af yfirvegun, skynsemi og sanngirni. En slík fyrirætlan hefur nú verið hrifin af flóðbylgju ofstækis, þar sem meginstefið er heimsendir eina ferðina enn í sögu mannkyns. Þar fara fremstir í flokki baráttumenn umhverfiskvenfrelsunar (eco-feminism).
Þeir spá nýju Nóaflóði, sem orsakast muni af bráðnun jökla vegna hlýnunar loftslags. Losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e. lofttegunda, sem hindra útgeislun frá jörðinni, er sögð valda hlýnuninni. Kolefni, nauðsynlegt öllum gróðri, er talin helsti syndaselurinn. Því skal hemja losun þess með öllum ráðum.
Þrátt fyrir stöðugar breytingar á loftslagi um milljónir ára og þrátt fyrir grósku víða í veröldinni, hafa Sameinuðu þjóðirnar nú komist að því, að mennirnir hafi með umsvifum sínum skapað þá hlýnun, sem mæld hefur verið, eftir síðustu örísöld á miðöldum. Því er spáð, að hamfarirnar eigi sér stað innan nokkurra áratuga, takist ekki að halda hlýnun innan við eina og hálfa gráðu á Celcíus miðað við áætlað hitastig í upphaf iðnbyltingar. Því sé orkuskipta þörf. Um það fjalla höfundar hjálagðrar greinar af sjónarhóli alþjóðastjórnmála.
Orka er afl í alþjóðstjórnmálum. Þeir, sem sitja á henni, hafa örlög heimsins barna að miklu leyti í höndum sér. Olíuríkin halda nú um þessa tauma og munu gera svo um fyrirsjáanlega framtíð. Það sama má um þau ríki segja, sem búa yfir miklum gasbirgðum eins og Rússar. Vestur-Evrópumenn og Úkraínumenn m.a. eru háðir rússnesku gasi. Rússar hafa beitt þessu vopni grímulaust í tafli sínu við nágrannana, rétt eins og olíuríkin gagnvart iðnríkjunum. Það er svo sem engin furða, að ýmis ríki eins og Pólland og Kína, séu treg til þess, að loka kolanámum sínum.
Græn orka er lausnarorðið. Öfgafyllstu baráttumenn boða, að beislun orku náttúrunnar skuli ekki hafa í för með sér nokkurt rask. Það er þó varla framkvæmanlegt. Hrein orka í þessum skilningi er hreinlega ekki til. Aukin heldur getur verið orkufrekt að skapa orku og flytja hana, nema henni verði umbreytt í vetni eða ammóníak.
Aukin notkun raforku krefst miklu öflugra flutningskerfis, en nú er fyrir hendi. Efling þess útheimtir geysilega orku og vinnslu málma. Ríki, sem búa yfir nauðsynlegu hráefni í því sambandi, t.d. Kína, Ástralía og Kóngó, munu því öðlast aukin völd og áhrif. Sama gildir um þau ríki, sem búa yfir nauðsynlegri framleiðslu-, stjórnunar- og dreifingartækni.
Ótaldir eru þeir ógnarlegu fjármunir, 1 til 2 trilljónir bandaríkjadala (miljón miljónir miljóna), sem orkuskiptin munu, samkvæmt áætlunum, kosta árlega miðað við útjöfnun áhrifa gróðurhúsalofttegunda eða kolefnisjöfnun árið 2050, sem Alþjóðaorkumálastofnunin (International Energy Agency) hefur leikið sér með. Íslensku lífeyrissjóðirnir munu duga skammt í þessu sambandi. Rannsóknahópur við Princeton háskólann í BNA hefur einnig unnið út frá þessu ártali. Þykir ljóst, að notkun olíu muni ekki hverfa í bráð, þrátt fyrir að stórstígar framfarir verði með tilliti til grænna orkugjafa. Hópurinn spáir því, að rafmagnsnotkun muni tvö- eða jafnvel fjórfaldast í BNA.
Aukið framboð grænnar orku mun væntanlega lækka verð á svarta gullinu, en aftur á móti er líklegt, að samkeppnishæfustu framleiðendur þess, muni öðlast enn meiri völd. (Það vill reyndar svo til, að sum þeirra, Arabaríkin, hafa einnig einstök tækifæri til að nýta orku sólar.) Sama á við um framleiðendur mengunarlauss gas, t.d. Rússa, sem lagt hafa gasleiðslu til Vestur-Evrópu.
Orkuskipti kalla á aukna framleiðslu kjarnorku. Samkvæmt Alþjóðaorkumálastofnuninni þarf að tvöfalda hana eigi kolefnisjöfnun að nást um miðja öldina. Slík framleiðsla býður upp á áskorun, hvað valdajafnvægi varðar á líðandi stundu. Það eru einkum rússneskir og kínverskir framleiðendur um hituna. Á árinu 2018 voru 72 kjarnorkuver í byggingu utan Rússlands. Helming þeirra reisa rússneskir framleiðendur og kínverskir um fimmtung.
Sýnt þykir, að orkuskiptin muni ekki ganga átakalaust fyrir sig og stuðla að eins konar verndarhyggju, þar sem hinir ríku, sem afla getað fjármuna til orkuskiptanna, muni reisa tollamúra til að vernda eigin rándýru framleiðslu fyrir framleiðslu fátækari ríkja, sem ekki hafa slíkum fjármunum til að dreifa. Það myndi einungis stuðla að óverulegum breytingum á dreifingu auðæva í veröldinni. Evrópusambandið er með slíka múra á teikniborðinu.
Iðnríkin auðugu draga enn lappirnar við útgreiðslu beinna kolefnisjöfnunarstyrkja til fátækari ríkja heims, sem gefinn var ádráttur um.
https://www.foreignaffairs.com/articles/world/2021-11-30/geopolitics-energy-green-upheaval?utm_medium=promo_email&utm_source=pre_release&utm_campaign=mktg_sub_&utm_content=20211130&utm_term=promo-email-prospects
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021