Villuhugsun, veira, feigð og framfarafælni

Einu sinni fyrir langa löngu var ég lítil og ungur að árum. Ég tók mín fyrstu skref í atvinnulífinu fimm ára gamall sem glaðhlakkalegur blaðasali. Mér er enn þá minnisstæður góðviðrisdagurinn, þegar ég hrópaði fullum hálsi, “slys á baksíðu,” í þeirri von að selja fleiri dagblöð. Ég furðaði mig þá þegar á þessu sölubragði og spyr mig enn áratugum síðar; hvers vegna? En blaðið rann út eins og heitar lummur, sem ég bakaði þó ekki fyrr en á fullorðinsaldri. (Strákar máttu þá ekki læra bakstur í skóla. En þar er orðin jákvæð breyting á, eitt dæmi þess, að þrátt fyrir allt sé flest til bóta í mannlífinu.)

Þetta hugarfar varð mér æ síðan umhugsunarefni. Hvernig mátti það vera, að það hefði síast inn í barnshugann, að óhapp höfðaði fremur til fólks en happ. Seinna á lífsleiðinni uppgötvaði ég, hversu fyrirferðarmikið svartnættið og neikvæðnin væri í tilverunni. Það kostaði stundum innri átök að líta björtum augum á lífið og vera með hýrri há og bjartri brá; að kenna sjálfum sér og öðrum, við uppeldi og heilbrigðisþjónustu, þá „einföldu“ reglu að beina sjónum að því, sem uppbyggilegt væri í reynslu og fari skjólstæðinga; að finna og efla sjálfsstyrkinn og beita honum síðan til þroskunar, heilbrigðis og hamingju. Það leið rúm öld frá upphafi háskólasálfræði, þar til „jákvæðnisálfræði“ (positive psychology) sá dagsins ljós.

Sálfræðin hefur bent á eitt og annað gagnlegt til aukins skilnings á fyrirbærinu. Kanadíski sálfræðingurinn, Steven Pinker, segir í bók sinni, „Upplýsingu nú þegar. Málsvörn skynsemi, vísinda, mannúðarhyggju og framfara“ (Enlightenment Now. The Case for Reason, Science, Humanism, and Progress): „Í sálfræðinni má finna staðfestingu á því, að fólk finnur fremur til trega vegna þess, sem tapast hefur, en tilhlökkunar um ábata, sem það á í vændum. Það syrgir fremur og sýtir að snuðra hafi haupið á þráðinn en að njóta hamingjunnar. Gagnrýni er því hugleiknari en hrósyrði.“

Höfundur hjálagðrar greinar, einn úr hópi skapskyggnra, ungra fræðimanna, Marian L. Tupy, gerir þetta líka að umtalsefni í tengslum við kóf-farsóttina og kemur í því sambandi víða við, m.a. að hálfrar aldar gömlum rannsóknum á dómgreind. Hugvinnslusálfræðingarnir (cognitive psychologist), Amos Tversky og Daniel Kahneman, gerðu þá rannsókn á dómgreindinni. Þeir komust að því (sem líklega margir vissu), að fólk myndaði sér skoðanir og kvæði upp dóma á grundvelli þess, sem því fyrst kæmi í hug og nærtækast væri. Það er kallað dómsgreindarvilla (eða „availability heuristic” á þeirra fagmáli).

Marian ræður okkur til að gjalda varhug við nefndri dómgreindarvillu, um leið og hann huggar kófhrjáða og kófvillta lesendur með upplýsingu, t.d. því, að mannkynið hafi unnið bug á eða náð tökum á fjölda skæðra sjúkdóma eins og stóru bólu, kóleru, mislingum, lömunarveiki, alnæmi, malaríu og jafnvel kíghósta. Að vísu tók það um þrjú þúsund og fimm hundruð ár að ráða niðurlögum stóru bólu. Svo það er engin ástæða til að örvænta.

Nefndur Daníel hefur einnig bent á, að „lífverur, sem skynja fremur aðsteðjandi ógn en tækifæri, eru líklegri til að lifa af og geta af sér afkvæmi [heldur en hin].“ Og eins og allir vita snýst lífið um að fjölga tegundinni, samkvæmt meginreglunni, „upp og niður, inn og út.“

Trúlega leggur fólk líka ósjálfrátt fæð á það, sem óþekkt er. Þetta ósjálfráða viðbragð er skilyrt lífi tegundarinnar í hættulegu umhverfi um þúsundir ára. Svo einnig bölsýnin. Hún virðist tegundinni í blóð borin eða með öðrum orðum; „í heilabúi okkar býr hugur steinaldar,“ samkvæmt Leda Cosmides og John Tooby.

Síðustu fjörutíu þúsund árin eða svo hefur hin vel viti borni maður (homo sapiens sapiens) sagt börnum sínum sögur af syndaflóði og heimsendi. Hamförum og ragnarökum var síðast spáð 2012. Það voru spekingar Maya indíána, sem það gerðu. Nú er nýju Nóaflóði spáð innan nokkurra áratuga (nema mannkyn umbreytist í veðurguði og hamli hlýnun jarðarinnar) eða fjöldadauða (nema fólk sé þvingað til bólusetninga með „lekum“ bóluefnum). Okkur er hætt í heimi hér, enda er rétt um þriðjungur barna (í Ástralíu alla vega) sannfærður um, að heimurinn sé að fara til helvítis. Svipað hlutfall íslenskra kvenna neytir þunglyndislyfja og/eða annarra geðlyfja.

Það er nefnilega látlaust alið á hræðslunni við eigin bresti og aðsteðjandi hættur. Meginþráður hinna fornu goðsagna hefur skotið rótum í flestum eingyðistrúarbrögðum veraldar og sumt fjölmiðlafólk samtímans starfar yfirleitt í sama anda. Fréttakýringar þess eru iðulega með þessu sniði, þ.e. hraðsuðudómar neikvæðni og hamfara. Fréttastofa RÚV er gott dæmi um þetta.

Það er svo sem engin furða, að neytendur slíkrar fjölmiðlunar, verði bölsýnir. Fyrrgreindur Steven getur um nýlegt rannsóknayfirlit, þar sem m.a. er fjallað um eftirfarandi afleiðingar bölmiðlunar; „óraunsætt áhættumat, angist, aukna depurð, lært bjargarleysi, fyrirlitningu og andúð gegn öðrum, næmisskerðingu og stundum … fullkomna fréttafælni.“

Fjölmiðlafólki, mörgu hverju, virðist tamt að smíða eða stuðla að nýjum tilbrigðum við heimsendagoðsagnirnar, enda þótt hin fjörutíu þúsund ára gamla trú á reiði guða og náttúruafla sé enn í fullu gildi. Til viðbótar þeim hamförum, sem Marian gerir að umtalsefni, má nefna trúna á karlillskuna. Hún er sögð orsök eyðileggingar umhverfis og ævarandi kúgunar kvenna (og barna) – og jafnvel veiruplágunnar sjálfrar. (Í þríeykinu, sem fiktaði við leðurblökuveiruna, voru reyndar tveir karlar. Haft er á orði, að vel hafi komið á vondan, því karlar séu viðkvæmari fyrir afurðinni, þótt þeir drepist ekki nógu hratt og nógu margir.)

Sálfræðingarnir, Roy Baumeister og Ellen Bratslavsky, hafa einnig varpað ljósi á skilningsleysi barnæsku minnar. Þeir hafa nefnilega komist að því, að „hið vonda sé hinu góða yfirsterkara.“ Blaðamaðurinn, Morgan Houssel, segir okkur meira að segja hafa tilhneigingu til hrakfallaspádóma (pessimism extrapolation), þegar við neyðumst til að samsinna jákvæðri þróun á líðandi stundu.

Það er sem sé engu líkara, en að fólk flest sækist eftir neikvæðninni á svipaðan hátt og þunglyndissjúklingar og bölmóðsfólk gerir til að skapa sér öryggi. Og flestir myndu selja ömmu sína fyrir slíkt hnoss. Öryggisþráin er einnig áberandi í fari geðklofa, sem hvorki vilja skipa um föt, né baða sig, því þeir finna öryggi í fnyknum af sjálfum sér.

En þetta er þó bara öfgakennt tilbrigði við almenna hegðun, ef marka má Marc Tussler og Stuart Soroka, sem skrifuðu grein um rannsókn sína með titlinum, „Eftirspurn neytenda eftir nöprum og neikvæðum fréttum“ (Consumer Demand for Cynical and Negative News). Neytendur hræðast væntanlega ofbirtu í sálinni, nái skíma jákvæðninnar að lýsa gegnum sálgluggatjöldin.

Hér með er stóru spurningunni minni svarað afdráttarlaust.

https://quillette.com/2020/04/17/beware-your-innate-pessimist/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband