Leitin að lespuveldinu. Þrár þjakaðra kvenna. Flotkynið og gagnkynhneigðarofbeldið

Skömmu fyrir síðustu aldamót kom út greinasafn með löngu nafni: „Tengsl fólks af sama kyni og þrár kvenna. Öðruvísi kynferði í ýmis konar menningu“ (Same-Sex Relations And Female Desires. Transgender Practices Across Cultures). Ritstjórar bókarinnar eru mannfræðingarnar, Evelyn Blackwood og Saskia Eleonora Wieringa (f. 1950), sú fyrrnefnda frá Bandaríkum Norður Ameríku (BNA) og sú síðarnefnda frá Hollandi. Sú hefur lagt gjörva hönd á stofnun kynjafræðideilda víðs vegar um veröldina. Báðar leggja sérstaka áherslu á, að þær séu lespur og kvenfrelsarar sem og hinar níu, sem rita greinar í bókina.

Leitin að lespuveldinu í anda alheimslespukvenfrelsunar (global lesbian feminism) er ekki ný af nálinni, en heldur hér áfram. Saskia segir um hina herskáu lespuhreyfingu upp úr 1970: „Konur lýstu því opinskátt yfir, að þær væru kynverur, sem byggju yfir þrám, sem losnað hefðu undan karlokinu. … Við vorum kvenfrelsarar, við höfðum allar strengt þess heit, að við skyldum ganga af feðraveldinu dauðu og þar með einnig fyrirmyndunum, sem dæmigerðar voru fyrir flestar lespur á þeim tíma, hlutverk, sem við lýstum yfir að væru runnin undan rifjum gagnkynhneigðarföðurveldisins.“

En sumir höfunda hafa þó afmarkaðra erindi einnig eins og t.d. hin suður-afríska Kathryn Kendall, sem er á höttum eftir sínum líkum. Hún segir: „Ástæðan fyrir því, að ég er á höttum eftir öðrum mér líkum, er að hluta til sú, að ég hef gert að mínum þann skilning (vestrænnar menningar), að ég sé hryllileg.“

Um lespur og homma á Vesturlöndum gilti það sama. Annar elskenda tók dæmigert hlutverk gagnkynhneigðs karlmanns og hinn gagnkynhneigðs kvenmanns. Í samkynhneigðarsambandi kvenna var hin karlkennda kölluð kirla (af karl – butch) og sú kvenkennda femma (femme). Lögin, sem um þau gilda enn, virðast svipuð og hjá gagnkynhneigðu pari. Saskia segir: „Kvenkenndar konur [femmurnar] leggja áherslu á kyntöfravald sitt yfir kirlunum.“

Norður-ameríski rithöfundurinn og stofnandi lespusögusafns í BNA, Joan Nestle (f. 1940), sem er yfirlýst lespa, segir: „kirla (butch lesbian) um miðbik síðustu aldar í karlmanns klæðum var ekki karlmaður í karlmannsfötum; hún var kona, sem skapað hafði eigin, frumlegu ásýnd til að senda öðrum konum boð um, hvers hún væri megnug – að taka ábyrgð á ástarbrögðum.“

Fyrrgreind leit er tilgangur bókarinnar og aðferðin dregur að verulegu leyti dám af kynskilningi höfunda. Sumir þeirra stunda jafnvel kynlíf með kynsystrunum, heimildarmönnum rannsóknarinnar. Sú aðferð er nýlunda í mannfræði, eftir því sem ég best veit – og öllum sérgreinum kynfræðinnar. Engu að síður fjalla sumir fræðimannanna um nauðsyn þess að gjalda varhug við því að túlka framandi menningu á grundvelli þeirrar vestrænu og leggja áherslu á menningarlegan samhengisskilning. Það á t.d. við um skilning á nánum og kynferðislegum tengslum kvenna. Það er hins vegar góð og gild mannfræði.

Fræðilegt veganesti ellefumenninganna er kvenfrelsunarfræði – nánar tiltekið lespufræði, þ.e. sú sannfæring, að föðurveldið þvingi konur til gagnkynhneigðar – og félagssmíðahyggja (social constructionism) franska heimspekingsins, Michel Foucault (1926-1984), sem skrifaði margar merkar bækur, m.a. „Sögu kynferðisins“ (Historie de la sexualité), sem kom út árið 1976. Hann segir m.a.:

„Það ber ekki að skilja kynferði sem eins konar vöggugjöf, sem haldið er í skefjum – eða [þá] myrkvaðan [lífs]vettvang, sem skilningsljósið smám saman bregður birtu á. Kynferði er nafn á sögulegri hugsmíð; ekki lævíslegum, torræðum raunveruleika, heldur [er um að ræða] yfirgripsmiklar samtengingar á yfirborðinu; örvun líkamanna, mögnun nautnanna, hvatningu til samtals [og] tilurð sérstakrar þekkingar. Styrking félagslegs taumhalds og andspyrnu tengist gagnkvæmt í gegnum visku og vald.“

Kvenfrelsarar annarrar bylgju tóku Michel upp á arma sína. Hann var nánast tekinn í guðatölu. Norður-ameríski heimspekingurinn, Judith Butler (f. 1956), útfærir kenningar Michel frekar í þessu sambandi. Hún segir t.d.: „[Í] fullyrðingu þess efnis, að eðliskyn (sex) sé þegar orðið kynferði (gendered), sé [sem sagt] þegar mótað, er ekki fólgin skýring á því, hvernig kynefnið (materiality) er meitlað og mótað undir þvingun.“

Judith og lærisveinar hennar og -sveinkur, m.a. þær, sem eiga ritgerðirnar í þessari bók, hugsa sér að kyn fljóti, sé eins konar flotkyn, og brjóta það niður í greiningareiningar, sem væntanlega eru flestum framandi, þ.e. kynefni (sex), sem við samtal og gjörning tekur á sig „kyngervi,“ sem vaknar til vitundar (kynvitund) um sjálft sig og stundar kynlíf eins og honum/henni/því stendur hugur til.

Það mun hafa verið norður-ameríski mannfræðingurinn og kvenfrelsarinn, Gayle S. Rubin (f. 1949), sem fyrst gerði greinarmun á „sex“ og „gender“ um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. (Þetta eru samheiti yfir kyn eða kynferði á íslensku. Kynfrelsarar (Geir Svansson) hefur smíðað nýyrðið, „kyngervi,“ fyrir „gender.“)

Kynin og veröldin sem slík lýtur lögmálum „reðurrakamiðlægni“ (phallologocentrism), sem hollenski kvenfrelsunarmenntafrömuðurinn, Rosi Braidotti (1954), skilgreindi sem svo árið 1991, að það væri skoðun, viðhorf eða lög, sem m.a. taka til kynorkunnar (libidinal economy). Hún segir: „Burðarstoð laganna er reðurtákn, sem skapar greinarmun og skipar í stigveldi.“

Um þetta segir norður-ameríski afbrotafræðingurinn, Margaret Jackson, m.a.: „Til að tryggja að drottnun karla [yfir konum] sé við- og framhaldið, ber brýna nauðsyn til, að yfirgnæfandi meirihluta [þeirra] sé skipað inn í kerfi gagnkynhneigðra tengsla, sem drottnunin stendur og fellur með. Þó munu einstakar konur og mismunandi hópar og stéttir kvenna verða fyrir þvingun - meiri eða minni - til gagnkynhneigðar með hliðsjón af sérstökum aðstæðum þeirra.“

Gagnkynhneigð er talin einhvers konar kúgunarfjölmúlavíl karla. Ritstjórar endursegja og túlka orð norður-ameríska rithöfundarins, Adrienne Rich (1929-2012) svo:

„Rich setti fram þá ögrandi fullyrðingu, að það hafi ekki einvörðungu verið ójöfnuður, sem karlmenn beittu konur, heldur einnig gagnkynhneigð „í fornri og nýrri menningu. Með því að tína til alls konar hefðir eða vélráð til að drottna yfir kynferði kvenna eins og þvinguð hjónabönd fullvaxta og barnungra kvenna, brúðargjald, fótreyringu [ungra meyja], andlitsblæju (purdah, veil), skírlífsbelti, snípsnám og morð á kvenkyns ungabörnum, varpaði hún ljósi á á menningarbundnar þvinganir og bönn, sem „í sögulegu samhengi hafa þvingað konur og tryggt, að þær væru spyrtar saman við karla. … Hver svo sem upptökin kynnu að vera var þvingun kvenna til gagnkynhneigðar til þess fallin að tryggja körlum rétt til tilfinningalegs, fjárhagslegs og líkamlegs aðgengis að þeim.““

„Fjölmörg tilvik víðs vegar úr veröldinni frá mismunandi tímaskeiðum í sögunni bera trúverðugt vitni þeirri röksemdafærslu hennar [Adrienne], að saga kvenna hafi verið saga skyldugagnkynhneigðar.“ Því má skilja, að lespuuppreisnin, feli í sér eiginlega frelsunar konunnar, forsendu lespuveldis.

Ritstjórar segja: „[N]auðsyn [ber til] þess að hrifsa kynferðið úr höndum karla. Þannig álitu margir kvenfrelsarar, að öðruvísi kynhneigð bæri að líta á sem áhættusamt tilbrigði við andspyrnu gegn skyldugagnkynhneigð [og föðurveldi].“

Höfundarnir ellefu hafa frá mörgu áhugaverðu að segja, m.a. um kvenstríðsmenn. Í hinu forna heimsveldi, Dahomey, í Vestur-Afríku (nú u.þ.b. Benín) var herdeild eingöngu skipuð konum, sem att var fram í fyrstu víglínu. Arfsögur greinir á um stofnun herdeildarinnar. Sú skemmtilegasta segir frá drottningunni, Hangbe (Ahangbe – a Hangbe), sem erfði ríkið eftir tvíburabróður sinn, Akaba konung, 1716, og stofnaði lífvarðar- eða hersveit kvenna. Sjálf var hún fallvölt, því bróðirinn, Agaja, hrakti hana úr embætti tveim árum síðar. Hann trúði því nefnilega, að bara karlar ættu að ríkja, segir höfundur.

En það var Ghezo (d. 1858) konungur, sem ríkti yfir Dahomey um fjörutíu ára skeið (1818-1858), sem gerði lífvarðarsveitina að hluta heraflans og jók hana stórum. Trúlega hefur ástæða þessa verið skortur á karlmönnum. Dahomey hefur stundum verið kallað „hin svarta Sparta.“ Hinum stríðglöðu meyjum var gefið viðurnefnið, Amasónur, til heiðurs hinum fornu, grísku kynsystrum þeirra. Þær voru giftar konungi að nafninu til, en í raun var þeim þjónað til borðs og sængur af fylgistúlkum og -konum.

Konurnar voru miskunnarlausar bardagahetjur. Sú saga er sögð, að þegar þær þurftu að lúta í lægra haldi fyrir Frökkum, sviptu þær sig stríðsklæðum, villtu á sér heimildir og falbuðu sig frönsku hermönnunum. Þegar þeir höfðu lokið sér af og sváfu svefni hinna „réttlátu“ gerðu þær bólfélagana höfðinu styttri. (Slík kvenhermennska er einnig kunn úr Gamla Testamentinu.)

Kvenlífverðir voru víðar til eins og t.d. við hirð Mongkut (1804-1868) konungs í Siam (Taílandi). Lífvarðarsveit hans var skipuð fjögur hundruð konum, þeim vígfimustu og fegurstu í landinu. Þær voru þjálfaðar frá unga aldri og urðu að sverja einlífiseið við upptöku í sveitina.

Svipaðs fyrirkomulags gætti einnig á Java í Indónesíu. Þar voru konur þjálfaðar í vopnaburði, tónsmíðum, söngi og dansi. Ranén Ayu Yudokusuma (kona) var annálaður herforingi við hirð skákmeistarans, dýra- og mannvinarins, Diponegoro, sem veitti Hollendingum heiftúðugt viðnám í Javastríðinu á árunum 1815-1830.

Höfundar fræða okkur einnig um námsmeyjaástir í Lesótó og Suður Afríku. Námsmeyjarnar gilja hver aðra og fegra skapabarma sína og sníp með því að toga og teygja á þeim. Einnig ber á góma gagnkvæmar ástarskuldbindingar fullveðja (og iðulega karlgiftra) kvenna af afrískum uppruna í fyrrum nýlendu Hollendinga í Suður-Ameríku, Súrinam, og meðal Azande í Súdan. Sam- og tvíkynhneigðarkonurnar í Súrínam ráða þó dætrum sínum til að eiga samræði við karlmenn endrum og sinnum, því það efli þær innvortis.

Fleiri höfundar skoða samfélagsstöðu samkynhneigðra karla og kvenna, sem, þrátt fyrir ákveðin blæbrigði, tekur mið af hefðbundnum hlutverkum kynjanna, hvar sem drepið er niður fæti. Einnig er minnst á tvíkynungana, þ.e. ýmist karla eða konur – oftar en ekki karla – sem taldir eru búa yfir eigindum beggja kynja, andsettir töframenn.

Fróðleg er frásögnin af „kínversku systrunum,“ konum úr silkiiðnaðinum, sem bjuggu saman, sáu sjálfum sér farborða og forðuðust karlmenn. Það sama gerðu einnig systurnar í Búddaklaustrunum í Singapúr. Þær sneru baki við karlpeningnum og völdu að gilja systur sínar í ástarbríma og frygðarfuna. Þetta er þekkt mynstur úr vestrænum klaustrum einnig.

Frásögn Evelyn af vettvangsrannsókn sinni meðal Minang-kabau á Súmötru í Indónesíu er sérstaklega áhugaverð í ljósi fyrri fullyrðinga kvenfrelsunarfræðinganna þess efnis, að kynferði fólks sé stjórnað af gagnkynhneigðarfeðraveldinu (heteropatriarchy).

Þetta er samfélag ættflokka í mishárri skör. Þeir eru Múhameðstrúar. Bæði karlar og konur geta risið til metorða. Í reynd er um að ræða móðurveldi, þ.e. eignir eru á hendi (ætt)móður og erfast í kvenlegg (matrilineal). Körlunum ber skylda til að afhenda kerlu sinni þá aura, sem þeir öngla saman við vinnu. Það er lögð rík áhersla á vöxt og viðgang fjölskyldunnar, ættarinnar. Fólk er ekki talið fullvaxta, fyrr en það hefur giftst. Eftir giftingu dvelur brúðurin áfram í híbýlum móðurættarinnar (matrilocal, matrifocal), kvennagarðinum, sem er undir stjórn ættmóðurinnar, systra og dætra. Ættmæðurnar halda þéttingsfast um stjórnvöl æxlunar, kynferðis og hjónabanda.

Litið er á eiginkarlinn sem eins konar gest, sem dvelur að næturlagi hjá eiginkonunni. Synir dvelja í kvennagarðinum, fram að umskurði um sjö ára aldur. Þá þurfa þeir að flytja í moskuna eða karlagarðinn, og hafast þar við, uns þeir giftast. Í karlagarðinum (surau) njóta þeir leiðsagnar feðranna í hefðbundinni bardagaíþrótt (Silek), læra lestur, reikning og trúarfræði m.a. Á unglingsaldri eru þeir hvattir til að freista gæfunnar (merantau) handan heimahaganna og öðlast reynslu og visku, sem frændaráðið mun njóta góðs af, þegar þeir taka þar sæti. Þar eru m.a. lögð á ráðin um heill samfélagsins, t.d. varnir.

Evelyn segir: „Það er hagsmunamál eldri kvenstjórnenda að sjá til þess að yngri konur fjölgi sér. Í þessu mæðraveldi (matrilineal system) eru það [því] ekki karlar, sem hafa stjórn á konum í hjónabandi; það eru konur ættarinnar sem óska þess, að dætur þeirra (og synir) gangi í hjónaband og geti af sér afkvæmi.“ Höfundur tekur ástkonu sína og heimildarmann sem dæmi. Hún er undir stöðugum þrýstingi móður og kvenættingja um að taka sér karl til fylgilags, m.a. með þeim rökum, að kona geti ekki framfleytt sér alein. Hún þurfi því á eiginkarli að halda.

Samkvæmt Evelyn eru ungar konur hrifnar af því frelsi, sem hið nýja „feðraveldi“ veitir þeim: „Margar ungar konur alast upp í þeirri trú, að þeim sé betur borgið um þessar mundir í hinni nýju föðurveldisskipan, þar eð þær geta fundið starfa að vild og valið sér eiginkarl.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband