Fréttir af illri meðferð barna á stofnunum á vegum hins opinbera eða hjálparsamtaka, hafa dunið á okkur síðustu vikur og mánuði einkum frá Kanada, þar sem börn voru látin sæta hryllilegri meðferð, sem leiddi sum þeirra til dauða. Vistmenn hafa stigið á stokk og lýst allra handa ofbeldi, þ.m.t. kynofbeldi. Íslendingar eiga slíka sögu rétt eins og nágrannaþjóðirnar. Hér er rifjuð upp hryllingssagan af stúlknaheimilinu, Bjargi.
Aðdraganda er lýst í fyrstu áfangaskýrslu nefndar samkvæmt lögum nr. /26/2007 - nefnd um vist- og meðferðarheimili. Í þessari fyrstu skýrslu er fjallað um Heyrnleysingjaskólann, Vistheimilið Kumbaravog og skólaheimilið Bjarg, sem var í rekstri frá árinu 1965 til 1967. Formaður nefndarinnar var Róbert Ragnar Spanó (f. 1972), núverandi forseti mannréttindadómstóls Evrópu.
Í upphafi árs 2007 komu fram í fjölmiðlum frásagnir frá einstaklingum sem höfðu verið vistaðir sem börn á vistheimilum á vegum ríkis og sveitarfélaga og þá einkum frá einstaklingum sem höfðu verið vistaðir sem börn á vistheimilinu Breiðavík í Rauðasandshreppi sem rekið var af hálfu ríkisins frá árinu 1952 til ársins 1979.
Frásagnir þeirra einstaklinga sem komu fram í fjölmiðlum einkenndust af því að þeir hefðu þurft að sæta illri meðferð og ofbeldi á meðan á dvöl þeirra stóð, bæði af hálfu starfsmanna viðkomandi stofnana og af hálfu annarra vistmanna.
Um aðdraganda segir m.a. í skýrslunni: Skriður komst aftur á málefni unglingsstúlkna árið 1959 [sérstök lög voru sett um stúlkur, meðan á hernámi Breta stóð] þegar Hjálparnefnd stúlkna var sett á laggirnar. Í nefndinni sátu í upphafi Magnús Sigurðsson skólastjóri, Sigríður Sumarliðadóttir og Guðlaug Narfadóttir, sem var formaður nefndarinnar, en Auður Eir Vilhjálmsdóttir tók sæti Sigríðar haustið 1960. Hlutverk nefndarinnar var að leysa vandræði unglingsstúlkna með því að koma þeim fyrir á viðurkenndum meðferðarstofnunum erlendis og jafnframt að finna heppileg heimili hér á landi.
Á árunum 1959- 1968 hafði nefndin milligöngu um vistun 31 stúlku, þar af 19 í Danmörku, einnar í Noregi og 11 á einkaheimilum og húsmæðraskólum hér á landi. Hlutverk nefndarinnar breyttist og var ekki talið eins aðkallandi frá árinu 1965 er skólaheimilið Bjarg tók til starfa, en það var fyrsta heimilið sem var sett á fót hér á landi beinlínis til að vista stúlkur sem framið höfðu lögbrot eða voru á annan hátt á glapstigum, ef frá er talin tilraun sem gerð var með starfrækslu uppeldisheimilis fyrir stúlkur að Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði á árunum 1942-1943 en sú starfsemi varaði stutt vegna mikils styrs sem stóð um starfsemi heimilisins.
Og áfram halda skýrsluhöfundar: Til viðtals við nefndina komu sjö konur sem vistaðar voru á skólaheimilinu Bjargi á starfstíma heimilisins. Frásagnir þeirra um upplifun af dvölinni voru mjög áþekkar og það vakti athygli nefndarinnar hversu samhljóða þær voru. Í frásögnum þeirra kom fram að þeim hafi liðið illa á meðan á dvölinni stóð sem m.a. hafi stafað af frelsisskerðingu sem var samfara vistinni, erfiðum samskiptum við starfsfólk og nefndarmenn í stjórnarnefnd heimilisins og illri meðferð eða ofbeldi sem þær greindu frá að hafa þurft að sæta.
Þar af greindu fimm frá því að hafa mátt þola kynferðislega áreitni af hálfu tiltekinna starfskvenna. Þá greindu þrjá konur frá því að hafa þurft að sæta einangrun á Upptökuheimilinu í Kópavogi og að sú dvöl hafi verið afar erfið. Allar konurnar greindu með neikvæðum hætti frá dvöl sinni á heimilinu og mátti greina töluverða reiði og biturleika er þær greindu nefndinni frá reynslu sinni.
Hvað varðar kynferðislega áreitni sem fyrrverandi viststúlkur greindu frá að hafa þurft að sæta af hálfu tiltekinna starfskvenna, meirihluti þeirra sem komu til viðtals við nefndina og meirihluti þeirra sem gáfu skýrslu fyrir dómi í upphafi árs 1968, telur nefndin að ekki verði fram hjá því litið að lýsingar á háttsemi starfskvenna eru nánast að öllu leyti sambærilegar.
Það er jafnframt niðurstaða nefndarinnar að sú framkvæmd í formi kerfisbundinnar ritskoðunar, sem fram fór á Bjargi, og fól í sér að samskipti viststúlkna við umheiminn voru að öllu leyti háð ákvörðunarvaldi og geðþótta starfskvenna, hafi í eðli sínu verið vanvirðandi og niðurlægjandi fyrir þær viststúlkur sem í hlut áttu.
Þetta er reyndar ekki hárnákvæmt, að umræða hafi fyrst hafist árið 2007, því árið 1967 hafði dregið til tíðinda: Sigurður Þór Guðjónsson segir frá þessu á bloggsíðu sinni. Þar að finna tilvísanir til viðtala við tvær skólaheimilisstúlkur í vikublaðinu, Ostrunni. Viðtölin leiddu til yfirheyrslna hjá lögreglu. Lengra komst málið ekki. Aldrei hefur nokkur verið sóttur til saka.
Sigurður Þór segir: Viðtalið er sögulega merkilegt vegna þess að það var eitthvert fyrsta tækifærið sem ungmenni, er segjast hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi fullorðinna, hafa fengið til þess að segja sögu sína í fjölmiðlum. Stúlkurnar segja í viðtalinu um viðbrögð foreldra sinna um harðræðið á Bjargi:
"Þeir trúðu okkur aldrei þegar við sögðum þeim hvernig væri þar..." Og aðspurðar hvort þær hefðu aldrei kvartað í barnaverndarnefnd svöruðu þær: "Það þýddi ekkert". Sakadómur taldi eftir vægast sagt hlutdræga rannsókn ekki ástæðu til sérstakra aðgerða gegn stjórnendum heimilisins þrátt fyrir framburð stúlknanna, sem voru yfirheyrðar strax til að þær bæru ekki saman bækur sínar, en starfsfólk heimilisins hins vegar eftir margar vikur. Eiginlega var litið á stúlkurnar sem "sökudólgana" í málinu með þessum vinnubrögðum en slíkt viðhorf var algengt til kvenna sem t.d. kærðu nauðgun á þessum árum og er jafnvel enn.
Vistheimilinu var hins vegar lokað og það segir þá sögu að menn töldu að þar væri ekki allt með felldu. Það var aðferð samfélagsins á þessum árum til að díla við svona mál. Á þeim tíma gat enginn hugsað sér að stofna til málaferla um meinta lesbíska kynferðislega misnotkun. Menn hefðu bara ekki meikað það.
Það var aldrei í hámæli - en hér er rétt á það drepið í viðtalinu - að Bjarg hafði aðgang að einangrunarvistarklefa á Upptökuheimilinu í Kópavogi þar sem stúlkurnar voru látnar dúsa ef þær brutu alvarlega af sér. Þetta var ekkert á hjara veraldar eins og Breiðavík. Það var í Kópavogi.
Viðtal við ensk-færeysku stúlkuna, Jetta Marjun Grey, og umfjöllun um málið, er að finna í Þjóðviljanum (20. okt. 1967):
Jettu Marjun segist svo frá, að hún hafi átt í ástarsambandi við strák, þegar hún var fjórtán ára. Fjölskyldan hófst þá handa um að koma telpunni á heimili fyrir vandræðaunglinga, en fyrst var henni komið á spítala, þar sem hún var fyrst sett í spennitreyju og lokuð ein inni í klefa í fimm daga en síðan höfð með dauðvona gömlum konum í stofu.» Síðan var hún send á vegum ættingja í Hjálpræðishernum til Íslands til dvalar á Bjargi.
Fjórtán dögum eftir innlögnina á Bjarg reyndi hún að segja forstöðukonunni frá þungun sinni: En hún vildi ekki trúa mér, hún lamdi mig, við lentum í slagsmálum og svo sagði hún að ég væri ekki frekar ófrísk en hún sjálf. Um kvöldið blæddi hjá mér í klukkutíma.
Eftir fæðinguna neitaði Jetta Marjun tilmælum forstöðukonunnar um að gefa barnið: Svo var hringt í kvenlögregluna og þá lenti allt í slagsmálum. Ég rotaðist svolitla stund. Um kvöldið bað ég um að fá barnið, en var neitað og svo þorði ég ekki að sofna, en stóð alla nóttina á vakt frammi á gangi því ég var svo hrædd um að það yrði farið með það.
Þrautalendingin var sú, að móðirin í Færeyjum lagði að henni að sonurinn yrði sendur til Færeyja. Hún lofaði að hugsa vel um barnið. En síðar komst Jetta Marjun að því, að syninum hefði verið komið fyrir á upptökuheimili. Loforð um Færeyjaferð voru svikin fimm sinnum. Einnig var henni neitað um læknishjálp.
Starfskonur eru útlendar og hlýtur það að skapa viss vandræði. Kennararnir á Bjargi eru heldur ekki sérmenntaðir sem slíkir, - þeir eru «rétttrúaðir» nemendur í guðfræðideild Háskólans. Yfir öllu ríkir svo kvenlögreglan.
Þjáningasystir hinnar ungu móður segir í viðtali við DV (2. Feb. 2007): Starfskonurnar á Bjargi ætluðu að hafa drenginn hjá sér, en það var útilokað því hann grét stanslaust, enda vildi hann fá mjólk hjá móður sinni. ég kom að Marion [Jetta Marjun] sárlasinni í þvottahúsinu að þvo fötin af barninu. Ég spurði hana hvers vegna hendurnar á henni væru fjólubláar. Þá höfðu starfskonurnar ekki leyft henni að nota heita vatnið svo hún var að þvo fötin upp úr ísköldu vatni. Ég sat inni á herbergi hjá mér þegar ég heyrði grátinn í barninu og Marion. Þá var ein starfskonan mætt og tók barnið af Marion með valdi.
Móðursystir Jettu Marjun, Matthildur Hafsteinsdóttir, sem tók þátt í því að undirlagi Gísla Gunnarssonar, sagnfræðings, að nema frænku sína á brott og koma í skjól hjá foreldrum Ragnars Stefánssonar, hefur skýrt frá reynslu sinni, m.a. skilningi sínum á hlutverki Auðar Eir Vilhjálmsdóttur (f. 1937), sóknarprests, m.a. þegar sonur Jettu Marjun var frá henni tekinn.
Það var ekki hægt að gera ljótari hlut en þann að taka nýfætt barn af móður. Það gerði kona sem er prestur og rekur sérstaka Kvennakirkju. Mig hryllir við þessu . Bjarg var ekki stúlknaheimili. Það var fangelsi fyrir saklaus börn.
Hver er þáttur Auður Eir? Þegar blaðamaður DV, reyndi að inna hana eftir því, svaraði hún: Það er langbest að lifa lífi sínu í sátt við góða veðrið. Þú verður að finna þitt hjarta og hvernig það slær.
Í ævisögu sinni, Sólin kemur alltaf upp á ný, segir hún aftur á móti: [M]ér sem fleirum þótti vanta hér skólaheimili fyrir stúlkur svo að þær fengju tíma til að átta sig á því sem hafði farið úrskeiðis í lífi þeirra, þar sem þær kæmust inn í reglulegt nám, tækju próf og héldu sína góðu leið í lífinu. Ég var lögreglukona þegar þetta var og þótti úrræðin sem þeim stúlkum buðust ekki mikil en að þau yrðu og gætu verð meiri. Endalok heimilisins voru ekki flókin; þau réðust einfaldlega af upplognum sögum. Við höfðum verið rænd tiltrúnni; við hefðum aldrei getað haldið áfram og okkur hefði aldrei dottið það í hug.
Á heimasíðunni vantru.is segir, að hún hafi frá árinu 1962 verið hermaður í Hjálpræðishernum og leiðtogi í æskulýðsstarfi hans. Frá árinu 1960 átti hún sæti í Hjálparnefnd stúlkna og um svipað leyti hóf hún störf hjá kvenlögreglunni. Sumarið 1967 var Auður skipuð skólafulltrúi á Bjargi. Starf hennar sem skólafulltrúa fólst í því að fá kennara til starfa og skipuleggja kennsluna en sem nefndarmaður í stjórn heimilisins hafði hún eftirlit með heimilinu sem slíku. Auðar kenndi kristinfræði og önnur fög á heimilinu.
Auður Eir er merk kona eins og þessi lýsing úr guðfræðingatali Björns Magnússonar ber með sér: Stúdent frá Verzlunarskóla Íslands 16. júní 1956. Cand. theol. frá HÍ. 31. janúar 1962. Námsferð um Noreg sumarið 1964. Sótti námskeið. Sótti námskeið Alkirkjuráðsins í Strassborg í september 1973 og var við guðfræðinám í guðfræðideild mótmælenda í háskólanum þar. Ýmiss konar nám í tengslum við sálgæslu. Sett sóknarprestur í Staðarprestakalli í Súgandafirði 24. september 1974 og gegndi prestsþjónustu þar til 1. október 1975. Skipuð sóknarprestur í Kirkjuhvolsprestakalli frá 15. desember og fékk lausn frá því embætti 31. desember 1998. Starfaði sem sérþjónustuprestur frá 1999 til starfsloka. Starfaði í lögreglunni í Reykjavík með háskólanámi og til ágústmánaðar 1972. Átti sæti í æskulýðsráði ríkisins, vann á gæsluheimilinu Bjargi og margt fleira, s.s. vann að stofnun kvennakirkjunnar.
Auður Eir og kynsystur hennar berjast fyrir breytingum á kirkjunni. Hún segir í viðtali við Morgunblaðið árið 2004: Ég get nefnt þær breytingar sem við sem styðjum kvennaguðfræði viljum sjá. Í Kvennakirkjunni eru breytingar í helgihaldi og málfari, því við viljum að talað sé málfar beggja kynja, enda er um það rætt í jafnréttisáætlun kirkjunnar að konur séu ávarpaðar í kirkjunni jafnt sem menn. Sú hefur ekki orðið reyndin."
https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneyti-media/media/Skyrslur/2009-09-afangaskyrsla1-konnun-barnaheimila.pdf
Nýjustu færslur
- Stórar, saklausar stelpur og graðir græskugaurar. Kynrándýr
- Síonistabyltingin og gjöfulir Gyðingar. Byltingargyðingaprest...
- Baráttan fyrir betri heimi á nítjándu öldinni. Jafnaðar- og b...
- Baráttan fyrir betri heimi á nítjándu öldinni. Jafnaðar- og b...
- Gáttir Helvítis munu yður opnast. Stríðsyfirlýsing Ísraels og...
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021