Leikhús fáránleikans

”Fréttastofa RÚV fyrir þig,” er hið nýja slagorð fjölmiðlis ”okkar allra.” Og hún er svo sannarlega fyrir mig. Fréttastofan minnir mig nánast daglega um fárið í veröldinni. Stundum gleður hún þó með myndskeiðum af sætum pöndum og svoleiðis.

Í nýsýndum kvöldfréttum átti ”fréttakona” stofunnar leið í Þjóðleikhúsið, sem í þriðja sinn reynir að setja á svið Rómeó og Júlíu William Shakespeare. Rómeó leitar frelsis frá sjálfum sér, karlmennsku sinni, og Júlía losar sig úr læðingi samfélagkúgunar. Í frétt RÚV virtust þau kynlaus eins og Alþingismenn segja okkur öll vera.

Í öðru verki Shakespeare veltir Hamlet vöngum yfir því, hvort eitthvað sé bogið við danska ríkið. Mér er ekki örgrannt um, að svo gæti verið um það íslenska líka. Nær daglega flytur RÚV mér fréttir af vondum körlum. Stundum sækir fréttastofan fréttirnar í fréttaveitur út í hinum stóra heimi, stundum býr hún þær til sjálf. Sú minnistæðasta fjallaði um gamlan, indverskan karl (barnaníðing), sem lagt hafði hönd á hné unglingsstúlku. Sömuleiðis er mér í fersku minni fréttin um konuna í Austur-Afríku, sem átti vinkonu, sem hafði samband við félagsráðgjafa, hverri hún trúði fyrir, að landamæravöður hefði viljað eiga við sig kynlíf. Annars slyppi hún ekki yfir landamærin. Kúgun kvenna tekur á sig ýmsar myndir eins og fréttastofan minnir okkur kyrfilega á.

Sérgrein fréttastofunnar er „me-too“ byltingar. Einni þeirra ýtti RÚV úr vör fyrir nokkrum dögum. Það er engu líkara en nú hafi RÚV látið hendur standa fram úr ermum og hrundið af stað hallarbyltingu. Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, forustukona Stígamóta, og Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, forkona hjá Kennarasambandi Íslands, helstu viðmælendur RÚV, stjórna því nú í raun, hvaða leikmenn veljast í karlalandsliðið í knattspyrnu.

Það er því von, að aumingja landsliðsþjálfarinn sé ringlaður. Hann biður um skýrar línur frá einhverjum um, hvað hann megi og ekki. Trúlega fellur það raunverulega í skaut kvenfrelsunarrannsóknarréttinum, sem nú hefur verið skipaður undir forystu kvenfrelsara úr HÍ, starfandi hjá Reykjavíkurborg. Sú réð umsvifalaust fyrrgreindar þjáningasystur að réttinum.

Kvenréttindafélagið hefur verið út undan upp á síðkastið, en bætti nú um betur og hélt ráðstefnu um ofbeldi í íþróttahreyfingunni. Þar lét ljós sitt skína enn einn ofbeldisfulltrúinn. Sá er á mála hjá íþróttafélögum í Reykjavík. (Væntanlega fjármagnaður af útsvarsgreiðendum.) Vitaskuld er um að ræða konu. Óvíða er kynjaskekkjan meiri en í jafnréttis- og ofbeldisiðnaðinum. Hún kallaði eins og heilbrigðiskerfið – og öll hin kerfin – á meira fé, enda hefur Drífa Snædal hjá ASÍ, látið þau boð út ganga, að „nóg sé til.“

Hér yrði um að ræða frekari vaxtarbrodd í ofbeldisiðnaðinum, sem fitnar eins og púki á fjósbita og ríkistjórn Katrínar Jakobsdóttur styrkir til að efla atvinnu í landinu. En samkeppnin grimm. Rauði krossinn hefur nú haslað sér völl á 112 og Barnheill, sem bara vill bjarga stúlkum á flótta, sækir fram völlinn. Þessi nýju fyrirtæki auglýsa grimmt í RÚV. Á meðan starfa á markaðnum fyrirtæki, sem allir þekkja eins og „Ofbeldishlíðarnar tvær“ fjöldi jafnréttis- og ofbeldisfulltrúa hjá sveitarfélögum, ráðuneytum, fyrirtækjum og stofnunum, að ógleymdu Kvennaathvarfi og Stígamótum. Síðastnefnda fyrirtækið gefur nú vondum körlum kost á að kaupa sér ofbeldisaflátsbréf á þrjár milljónir. (Ég fengi líklega ellilífeyrisþegaafslátt, enda í gamalmennafélaginu og FÍB.)

Það er engu líkara, en þjóðinni sé meira eða minna raunstjórnað af bágstöddum konum. Það er svo sem skiljanlegt, að forseti lýðveldisins skjóti þeirri hvatningu inn í viðtal um hræðilegt ofbeldi karla í íþróttum, að þeir skyldu ekki að vera „fávitar,“ jafnvel þótt það sé ekki „erfðasynd að vera karlmaður og hafa gaman að fótbolta.“

Bakraddirnar syngja stjórnmálamenn, sem biðja um aðdáun okkar, hollustu og stuðning, til að veita okkur forsjá. Vígorð þeirra og loforð er varla unnt að heimfæra á aðgreindan flokk. Nýjabrumið felst í því að senda ávísanir í anda „ferðagjafarinnar;“ hlutdeild í rekstrarafgangi ríkissjóðs eða bara sextíu þúsund eða svo handa börnum í þroskaleit. (Vonandi gæta þau sig á karldjöflunum.)

Gömlu vinnuklárarnir fá loðin loforð eins og venjulega, nema þá helst hjá Sjálfstæðisflokknum, sem nú kallar sig land tækifæranna. Hann ætlar um síðir ætlar að hrista af sér slenið og líka upp í ellilífeyrismálunum. Glúmur ætlar hins vegar barasta að rífa kjapt og hlífa engum.

Ég er örmagna orðinn, geng til náða senn (ef ég finn náttfötin) og læt mig dreyma um fyrirheitna Grýlu – eða gyðjuveldið. Ég vona, að Katrín mikla vitrist mér. Það fer ævinlega vel á með okkur í draumi. Góða nótt! (Skrifað að kvöldi 4. sept. 2021.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband