Kynjakreppan og knattspyrnan

Það er afar fróðlegt að fylgjast með þeirri „mee-too“ bylgju, sem nú rís innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Uppskriftin er kunnugleg; dylgjur, gróusögur, saklaust fórnarlamb og fúsir fjölmiðlar. Eins og vænta mátti fer ríkisfjölmiðillin fremstur í flokki.

Dylgjur og gróusögur eru endurteknar í síbylju. Þær vaxa eins og á í leysingum. Almenn hneykslan er vakin, samviskan fer að narta í sálina. Fólk hugsar með sér; karlar fara illa með konur. Sérfræðingar eru teymdir fram á vígvöllum og fara mikinn og langt fram úr sjálfum sér og þekkingu sinni – og fræðilegri þekkingu yfirleitt. Viðar Halldórsson, sem er m.a. sérfræðingur í eitraðri karlmennsku og íþróttum, og hinn margrómaði kynfræðasnillingur, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, eru t.d. leidd saman hjá hinum mjúkróma fréttamanni RÚV (eða fréttakonunni eins og sagt er á RÚV mállýskunni) með sakleysislegu engilásjónuna.

Undirbúningur hefur átt sér stað í magnþrungnum viðtölum. Þar er þrástagast á hugtakinu „brotaþolum og þolendum.“ Engin brot eru þó staðfest, en brotaþolum skal, samkvæmt þulu Stellu Samúelsdóttur, útsendara „UN Women,“ trúa skilyrðislaust. Í raun er um að ræða ámæli eða slúður, sem yrði að kæru sakarábera fyrir dómstóli og ákæru saksóknara, ef hin grunaði, sakborningurinn, yrði saksóttur. En dómstól götunnar varðar ekki um það. Það er dæmt á grundvelli slúðurs og hálfsannleika.

Sakargiftum er að mestu haldið í vídd ímyndunaraflsins og beint að hópi (landsliði karla í knattspyrnu), hreyfingu (karlíþróttum) og helmingi mannkyns (körlum). Erkifórnarlambið hefur ekki fyrir því, að útskýra málavöxtu í sambandi við klofgripið, sem hún segist hafa mátt þola af hendi ónafngreinds landsliðsmanns, sem er þó auðvelt að komast að hver sé, sbr. leikaraævintýrið sællar minningar.

Var hún á höttum eftir bólförum með hlutaðeigandi landsliðsmanni? Gæti hann hafa túlkað hegðun freyjunnar eða orð á þann veg? (Klofkáf þætti stúlkum á höttunum eftir bólförum vegsauki og viðurkenning. Það er sægur stúlkna í slíkum hugleiðingum í fylgdarliðum frægra íþróttakappa og tónlistarkappa.) Eða greip landsliðsmaðurinn í klof hennar upp úr þurru? Stúlkan skuldar okkur slíkar viðbótarupplýsingar, svo við megum gera okkur grein fyrir atvikinu úr því, að hún gerir það að þjóðareign. Hvers vegna leitaði hún ekki réttar síns? Hvers konar fórnarlamb er hún?

Hún segist þekkja að minnsta kosti sjö aðrar stúlkur, sem hafa orðið fyrir kynofbeldi á hálfu liðsmanna. Ætli sé um sjö mismunandi leikmenn að ræða? Hverjir eru þeir? Hanna Björg fer á kostum. Hún hefur á takteinum fjölda sagna „þolenda eða brotaþola.“ Hún býr yfir leyndardómnum og leggur sig fram um að virkja - í samstarfi við kvenfrelsunarfréttastofu RÚV – dómstól götunnar og torveldar viti borna umræðu um hugsanlega glæpi.

Þegar hér er komið sögu liggur – samkvæmt Hönnu Björgu – allt landsliðið (og fleiri karlíþróttamenn) undir gruni um allra handa kynóþokkaskap. Og Viðar tekur undir. Sorglegur dúett! Karlmenn þarf að afeitra. Þau láta sig ekki muna um að fullyrða um kvenfyrirlitningarmenningu í karlaíþróttum. Þetta tekur hinn dyggðum prýddi ráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, undir. (Hún varð fyrri til en sjálfur forsætisráðherra, sem notar hvert tækifæri til að ota sínum kvenfrelsunartota.)

Enginn ofangreindra gerir okkur, sauðsvörtum almúganum, grein fyrir hugtökunum. Það er beinlínis spaugilegt að hlusta á vandlætingu fréttamanna RÚV vegna kynjahlutfalls í stjórn KSÍ. Það er nokkurn veginn það sama og í nefndinni, sem koma skal með tillögur að fræðsluefni um kyn í grunnskólum landsins, en með öfugum formerkjum. Þar situr Hanna Björg, forkona í jafnréttisnefnd KÍ. (Vonandi tekur hún einnig sæti í sams konar nefnd eða dómstóli jafnvel, sem vafalítið verður stofnaður í KSÍ.)

Og meðan dansinn dunar æfir landslið Íslands, hugsanlega skipað kynglæpamönnum, fyrir þrjá „mikilvæga“ landsleiki. Það er reyndar ótrúlegt, að þeir bregðist ekki við og leggi skóna á hilluna, meðan alvöru dómstólar fjalla um hinar mergjuðu ávirðingar i garð þeirra.

Í Kastljósi kvöldsins (30. ágúst) lýsti fyrrgreindur fréttamaður yfir því, að þjóðin öll væri í áfalli. Stórkostleg véfrétt! Trúlega á hann við viðbrögð við hugsanlegum, óstaðfestum kynglæpum landsliðsmanna i knattspyrnu og þeirri kvenfyrirlitningu, sem þeir hugsanlega sýna – en ekki eigin hörmulegu, ósiðlegu fréttamennsku.

Og svo er það KSÍ. Hvaða skyldur hefur hreyfing og stjórn í sambandi við hátterni knattspyrnumanna? Er sambandið siðgæðislögregla? Vonandi fer með þennan storm eins og þann síðasta í Orkuveitunni. Hann var í vatnsglasi.

https://hringbraut.frettabladid.is/frettir-pistlar/thorhildur-gyda-vid-megum-ekki-stoppa-her-thvi-their-eru-fleiri/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband