Eins og flestum mun kunnugt hafa kvenfrelsarar náð eða eru í þann mund að ná - undirtökum í vestrænum háskólum. Flestar vísindagreinar má nú sjá í kvenfrelsunarútgáfu eins og t.a.m. kvenfrelsunareðlisfræði, kvenfrelsunarvistfræði, kvenfrelsunarlandbúnaðarfræði og kvenfrelsunarsafnafræði.
Konur eru sum sé yfirgnæfandi hluti nemenda við æðri menntastofnanir. Það stefnir hraðbyri í, að þær verði einráðar í deildum samfélags-, heilbrigðis- og hugvísinda. Ritgerðum um kvenfrelsun virðist fjölga samtímis þessari ólíkindaþróun. Nú er t.d. fædd kvenfrelsunarsálfræði við Háskólann á Akureyri.
Birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni innan íslenskra starfsstétta: Innihaldsgreining á hluta af mee-too frásögnum kvenna heitir BA ritgerð í sálfræði frá 2019. Höfundar eru Ásrún Ósk Einarsdóttir (f. 1995), Rúna Sævarsdóttir (f. 1985) og Tanja Mjöll Ísfjörð Magnúsdóttir (f. 1995). Aðalleiðbeinandi er kvenfrelsarinn, Arndís Bergsdóttir (f. 1968). Silja Bára Ómarsdóttir (f. 1971), kvenfrelsunarstjórnmálafræðingur við HÍ, er einnig sögð leiðbeinandi. Raunar er engu líkara, en að um kvenfrelsunarhópefli sé að ræða: Viljum við einnig þakka góðum hópi femínista fyrir góð og skjót svör við öllum þeim vangaveltum sem við höfðum, segja höfundar.
Doktorsritgerð Arndísar Bergsdóttur ber titilinn: (Ó)sýnileg: Samofin fjarvera kvenna á íslenskum söfnum og mótun femínískrar safnafræði." Í doktorsnefnd sat m.a. Þorgerður Einarsdóttir (f. 1957), kynjafræðingur.
HÍ lýsir ritgerðinni svo: Doktorsritgerð Arndísar er innlegg í femíníska safnafræði og miðar að því að draga fram þaggaðar raddir og kerfislægan ósýnileika kvenna á sýningum menningarminjasafna. Með það markmið að leiðarljósi beitir Arndís nýstárlegum hugmyndum ný-efnishyggju (new materialism) sem, meðal annars, taka mið af lögmálum skammtafræði og eru viðleitni til að skilja flókna og óreiðukennda veröld samtímans. Hún er sögð hafa grunngráðu, BA, í félagsfræði frá skólanum. Arndís hefur skrifað fjölda áhugaverðra greina, t.d.: Ó(?)sýnilegt álfatyppi: Kynjapólitísk sjónarhorn á fjarverandi hluti.
Á spjöld ritgerðarinnar, sem hér er fjallað um, eru því í ákveðnum skilningi skráð fræðileg afrek fleiri kynslóða íslenskra kvenfrelsunarfræðimanna. Sú elsta ætti að geta vel við unað. Fræði hennar bergmála í hugum yngstu kynslóðanna og í öllu skólakerfinu (og reyndar um allt samfélagið). Þess má og geta, að sjálfur kvenfrelsunarkennsluforkólfurinn á framhaldsskólastigi, kynjafræðingurinn, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, var kennari Tönju Mjallar Ísfjörð Magnúsdóttur.
Grunnstef kvenfrelsunarfræðinganna um illsku karla í garð kvenna frá upphafi vega í karllægri kúgunarstofnun, sem þeir kalla feðraveldi, ætti flestum að vera kunn. Kvenfrelsunarvísindi hafa þann megintilgang að varpa hulunni af birtingarmyndum þessarar kúgunar. Það er kvenfrelsun í sjálfu sér. Afhjúpunin leiðir svo til aðgerðakvenfrelsunar, þ.e. að umbylta mannlífinu til frelsunar kvenna. Kvenfrelsunarfræðamóðir leiðbeinanda og höfunda, Þorgerður Einarsdóttir, hefur skrifað merka grein með titlinum: Hið vísindalega er pólitískt. Femínismi sem fræðikenning andófs og breytinga, þar sem þetta er tíundað.
Í feðraveldinu eru konur eins og gefur að skilja undirskipaðar körlum. Þessi viska er endurtekin í hverri ritgerðinni á fætur annarri frá háskólum þjóðarinnar. Hvergi hef ég í þeim ritgerðum, sem ég hef gluggað í, séð örla á gagnrýni eða viðleitni til að leggja þuluna í dóm sögu, veruleikaskynsemi eða fágaðri fræða. Kvenfrelsunarskytturnar þrjár eru hér engin undantekning. Málfarið er óskemmtilega bjagað.
Að dómi höfunda búa ungar konur eins og þær, við tvöfalda undirskipun: Þegar um ungar konur er að ræða væri hægt að tala um tvöfalda undirskipun - Femínismi er hugtak í hugmyndafræði sem einkennir jafnréttisbaráttu kynjanna . - Líkami kvenna er frá toppi til táar undir valdi samfélagsins í þeim skilningi að það er ekki einn partur látinn ósnortinn fyrir gagnrýni. - Eitt útbreiddasta valdakerfi í heiminum í dag er feðraveldið Hugtakið feðraveldi vísar til karlaveldis þar sem konur eru undirokaðar körlum. Það hefur lengi verið notað innan kvennahreyfinga til að greina undirstöðuatriðin tengdum undirskipun kvenna .... Feðraveldið er kerfi þar sem karlar fara með völdin og eru yfir á heimilinu. Þetta valdakerfi gefur körlum því vald yfir konum, börnum og eignum innan heimilisins ... Konur hafa jaðarhlutverk í heiminum, þar sem þær og gildi þeirra eru skilgreind út frá feðraveldinu - Feðraveldið er ein helsta hindrun fyrir frama og þróun kvenna. Þrátt fyrir að yfirráðið geti verið með mismunandi hætti innan þessa valdakerfis, þá er meginreglan sú sama að karlar séu með yfirráðin - Í því valdakerfi sem feðraveldið er, þrífst sú hugmynd að konur og karlar eigi að haga sér á öðruvísi hátt. Femínistar nota orðið feðraveldi til að lýsa valdasambandi á milli karla og kvenna. Þeir nota það því ekki einungis sem orð, heldur meira sem hugtak til að nýta til að skilja raunveruleika kvenna betur ...
Með skírskotun til ofangreinds er ofur skiljanlegt, að konur eigi bágt. Konan er bæði fóstra og frilla. Nútímakonan er kennd við hina kynferðislega aðgengilegu konu og er talin vera glansmynd sem samanstendur af hlutverki sem frumkvöðli og vændiskonu. Hin kynferðislega aðgengilega kona vísar m.a. til þess að kynverund kvenna sé markaðssett. Nútímakonan er því bæði neytandi og neysluvara ... Kynverund kvenna hefur verið talin mynda kjarna feðraveldisins og er kynferðislegt aðgengi karla að konum grundvöllur og forsenda þess að hægt sé að viðhalda því
Þegar afhjúpað kyngervi kvenna hefur runnið saman við kvenlega kynverund þá virðist kynfrelsi kvenna hafa snúist upp í andhverfu sína. Hin vestræna nútímakona er því talin ofurseld feðraveldinu á þann hátt að kynverund hennar er undirskipuð vegna tilvísana í kynferðislegt aðgengi ... Sú forsenda að nútímakonur í samfélaginu eigi að vera kynferðislega aðgengilegar gæti ýtt undir að karlar leyfi sér að áreita þær kynferðislega. Þegar viðmið kvenlegs kyngervis er samofið nekt verða mörk og forsendur hins kynferðislega aðgengis óljós. Valdaleysi kvenna endurspeglast síðan í kyngervinu ... Það sem áður þótti tvennt ólíkt rann saman í eina glansmynd af nútímakonunni og innihélt hún bæði fóstruna og frilluna, sem áður þóttu ósamræmanleg kvenhlutverk þar sem annað hlutverkið útilokaði hitt ... Fóstran og frillan á við um tvær tegundir kvenna með birtingarmyndinar spillingu og sakleysi. Þær birtingarmyndir hafa áhrif á bæði mótun og möguleika kvenna
Það er fleira uppljómandi í fræðum þremenninganna: [Sandra Ruth Lipsitz ]Bem [1944-2014], norður-amerískur kvenfrelsunarsálfræðingur] [kom] fram með þrjár linsur kyngervis, þar sem hann nefndi líffræðilega eðlishyggju sem eina þeirra. Hún taldi að linsa líffræðilegrar eðlishyggju gæfi skynsamleg rök fyrir kynskautun og gerði hana lögmæta ásamt yfirráði karla.
Það er einnig slegið á stóru trommurnar: [Franski heimspekingurinn] Simone de Beauvoir [1908-1986] gerir greinarmun á kyni og kyngervi, þar sem hún bendir á að engin fæðist kona heldur verði kona. Hún talar um kvenkyn sem seinna kynið, þar sem að konur séu alltaf skilgreindar út frá körlum. Beauvoir talaði einnig um hvernig undirokun sé í eðli sínu óvænt, þrátt fyrir að vera óhjákvæmileg. Hún bendir á að konur séu skilgreindar út frá líffræði og út frá þeirri skilgreiningu séu þær undirokaðar, sem er þá vísunin í að þær séu hið seinna kyn ... Hún kemur jafnframt fram með þá byltingarkenndu staðhæfingu, að líffræði stjórni ekki lífi kvenna eða örlögum þeirra ... (Bókin, sem vísað er til í enskri útgáfu í heimildaskrá, er: Le Deuxiéme Sexe. Það er ný og skrítin þýðing að tala um seinna kynið. Réttara væri síðra kynið.)
Það er nánast skylda í virðulegri kvenfrelsunarfræðum að nefna norður-ameríska heimspekinginn (sem flestum virðist skiljanlega afar torskilinn), Judith Butler (f. 1956): Butler kom fram með hugmyndina um kyngervis gjörning (e. gender performativity), sem vísar til þess að kyngervi sé ákveðinn gjörningur og sé aldrei fullmótað. Hún gerir greinarmun á kyni sem sé náttúrulega úthlutað okkur og kyngervi sem sé félagslegt og mótað af samfélaginu og þeirri tíð sem þú lifir í. (Hér tala höfundar um, að kyn sé náttúrlega úthlutað okkur. Íslenskir Alþingimenn tala um, að því sé úthlutað af einhvers konar mennskum valdhöfum.) Fleira afreksfólk er nefnt til sögu; forngríski heimspekingurinn Aristoteles (384-322), enski heimspekingurinn og kvenfrelsarinn, John Stuart Mill (1806-1873), þýski samfélagsfræðingurinn, Maximillian Karl Emil Weber (1864-1920), þýski heimspekingurinn, Friedrich Engels (1820-1895) og franski félagsfræðingurinn, Pierre Bourdieu (1930-2002). Nokkurra verka flestra þeirra er getið í heimildaskrá, en aldrei vísað til þeirra beint eða fjallað um fræði þeirra. Í megindráttum er vísað í upptuggur kvenfrelsunarheimildamanna höfunda. Þetta eru því vafalítið skrauthöfundar þrenningarinnar.
Þá að aðferðinni (enn sem fyrr er tungumálið bjagað): Innan femínisma má m.a. nefna róttækan femínisma (e. radical feminism) og sjónarmiðsfemínisma (e. standpoint feminism), en þeir hugmyndaskólar voru valdir til að veita viðfangsefni okkar skil þó þeir séu ekki tæmandi. Ástæðan fyrir valinu á þessum tilteknu hugmyndaskólum er sú að undanfarið hefur mikilvægi þess að beita róttækum aðgerðum við rótgrónum vanda verið áberandi. Me too hreyfinguna má rekja til róttækra aðgerða kvenna um heim allan. Sjónarmiðsfemínismi er áhugaverð kenning í tengslum við feðraveldið, eða kynjakerfið eins og sumir kalla það, sem er mikið til umræðu í þessari rannsókn.
Með sjónarmiðsfemínisma er átt við kvenpólitíska fræðikenningu , og tengist hún kenningum um feðraveldið . Sjónarmiðskenningar ganga aðallega út á það að fá þekkingarfræðilega viðurkenningu á félagslegum og pólitískum viðfangsefnum út frá sjónarmiðum kerfisbundið kúgaðra félagshópa samanborið við þá hópa sem hafa yfirráðin yfir þeim fyrrnefndu... Sjónarmiðsfemínismi tengist inn á margt eins og t.d. undirskipun kvenna. Samkvæmt [norður-ameríska kvenfrelsunarþekkingarfræðingnum, Elizabeth Secor] Anderson [f. 1959] þá eru konur undirskipaðar og hafa því sjónarmiðsfemínistar áhuga á að kafa dýpra í þá staðreynd. Þessi kenning hefur sætt nokkru mótlæti en [norður-ameríski heimspekingurinn og kvenfrelsarinn, Bat-Ami] Bar On [f. 1948] talar gegn því að nýta kvenlegar skilvitlegar aðferðir sem undirstöðu í að skoða þekkingarfræðileg forréttindi varðandi undirskipun kvenna. (Þetta vona ég, að velviljaður lesandi útskýri fyrir mér.)
Greinar Kjarnans um mee-too frásagnir eru lagðar til grundvallar innihaldsgreiningunni. [Á]kveðið [var að skoðað] frásagnir fjögurra ólíkra starfsstétta sem stigu fram í kjölfar hreyfingarinnar. Fyrir valinu voru konur í stjórnmálum, flugfreyjur, konur í heilbrigðisþjónustu og að lokum konur í sviðslistum og kvikmyndagerð.
Greiningarflokkarnir eru eftirtaldir: Orðbundið ofbeldi, táknrænt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, hlutgerving, vandamisræmi og þöggun. Þetta er óneitanlega furðulegur hugmyndafræðilegur hugtakagrautur. Í fyrstu yfirferð unnum við að innihaldsgreiningu frásagna hver í sínu lagi en framkvæmdum innihaldsgreiningu í sameiningu í seinni yfirferðinni. Fyrri og seinni yfirferðirnar voru að lokum bornar saman og voru þær samsvarandi, sem eykur bæði réttmæti og áreiðanleika rannsóknarinnar. Ein okkar vann að lokum innihaldsgreininguna sem sneri að gerendum þar sem engin tvímæli voru um hvað féll undir hvaða flokk. Réttmæti og áreiðanleiki eru í þessu sambandi tölfræðileg hugtök. Ég sé hvergi merki um eiginlega tölfræðilega vinnslu gagna.
Niðurstöður gáfu til kynna að kynferðislega áreitni megi rekja að stórum hluta til valdamisræmis. Með því er átt við að konur séu hlutgerðar og að mikil þöggun hafi ríkt um málefnið í gegn um tíðina. Niðurstöður sýndu einnig fram á að kynferðisleg áreitni hefur ólíkar birtingarmyndir á milli starfstétta þar sem flugfreyjur skera sig einna helst úr. Innan þeirrar starfstéttar kom fram að valdamisræmi væri nánast allsráðandi er varðar hver það er sem áreitir. Það tengist inn á þá staðreynd að starfstéttin hefur verið kyngerð í auglýsinga og hagnaðarskyni í gegnum tíðina.
Að lokum: Á heimasíðu HA stendur: Rannsóknir eru einn af hornsteinunum í starfsemi Háskólans á Akureyri. Kröfur um BA ritgerðir (í sálfræði) og rannsóknir hef ég þar ekki fundið.
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021