Kynrándýrin Cosby og Weinstein

Réttarhöldin yfir William (Bill) Henry Cosby jr. (f. 1937), gamanleikara, og kvikmyndaframleiðandanum, Harvey Weinstein (f. 1952), eru í fersku minni. Enn er reyndar ekki bitið úr nálinni í máli Harvey. Verjendur hans berjast fyrir endurupptöku málsins, innblásnir af árangri lögfræðinga Bill, sem hæstiréttur Pennsylvania (ríki í Bandaríkjum Norður-Ameríku – BNA) lýsti saklausan.

Meðan umræðan stóð sem hæst varð mér hugsað til orða Simone de Beauvoir (1918-1986) úr bók hennar, „Síðra (hinu) kyninu“ (Le Deuxiéme Sexe). Hún segir þar fullum fetum (og líklega er það alkunna og sjaldan lýgur almannarómur), að kvenleikarar beiti kyntöfrum sér til framdráttar í afþreyingariðnaðinum. Hún segir: „[K]ona, sem stígur á svið til að afla sér lífsviðurværis fellur oft og tíðum í þá freistni að nota töfra sína sjálfri sér til framdráttar með innilegum hætti. … Kvikmyndastjarnan er nýlega tilkomin holdgervingur fylgikonunnar (heterunnar- hetaera). … Hugsanlega er það svo, að kvenskemmtikraft sé fremur ambátt að telja heldur en vændiskonu, sem einungis selur aðgang að líkama sínum.“

Simone er í miklum metum hjá kvenfrelsurum, enda mikilvægasta fræðamóðir þeirra. „Hún [Simone de Beauvoir] var fyrirmynd og vegvísir án þess að við værum nokkuð að sökkva okkur í verk hennar eða leita þar að hugmyndafræðilegum lausnum. Hún var konan með kyndilinn ... Sem slík hafði hún bein áhrif á íslenska kvennabaráttu á seinni hluta þessarar aldar [síðustu].“ (Irma Erlingsdóttir)

Undir ofangreindri umræðu skaut einnig upp í hugskotinu orðum norður-ameríska sálfræðingsins, Paul Elam (f. 1957), sem sagði eitt sinn – minnir mig – að karlar beittu valdi til að útvega sér kynlíf, en konur beittu kynlífi til að öðlast vald. Orð beggja er vert að hafa í huga, þegar hann er leiddur að hamförunum í sambandi við fyrrgreindar kynófreskjur. Meira að segja kvenfrelsarinn, norður-ameríski heimspekingurinn, Christina Hoff Sommers (f. 1950), sem bæði er vitur og háttvís, uppnefndi Harvey „rándýrsófreskju“ (predatory monster).

Eitt og annað er sameiginlegt réttarhöldunum yfir bæði Bill og Harvey. Árið 2005 ákærði kanadíska körfuknattleikskonan, Andrea Constand (f. 1973) Bill fyrir að hafa dópað sig og haft við sig samræði ári fyrr. Eftir, að „glæpurinn“ var framinn, fór Andrea þess á leit við Bill að kynna foreldrana fyrir honum.

Þáverandi saksóknari vísaði málinu frá sem sakamáli, gegn því, að Bill bæri vitni í einkamáli. Hann viðurkenndi að hafa látið Andreu í té slakandi lyf, en þau hafði hann í lyfjaskápi sínum eins og allflestir landa hans (og Íslendingar). Bill viðurkenndi einnig samfarir. Bæði voru meðfús, að hans sögn. Bill féllst á að greiða Andreu um 3.4 milljónir dala gegn friðhelgi dómstóla.

Þrátt fyrir þetta höfðaði Andrea, þ.e. síðari saksóknari, sakamál á hendur Bill 2015. Fjöldi kvenna eða um sex tugir, stigu á stokk og lýstu svipuðum ódæðisverkum og Andrea gerði. Margar þeirra tóku frumkvæði að vinsamlegum samskiptum við „nauðgarann,“ eftir að ódæðið var unnið. Fimm þessara fórnarlamba báru vitni við réttarhöldin í þeim tilgangi að draga upp svipmynd af „sökudólgnum.“ Bill hefur staðfastlega neitað sök og iðrast hvergi. Eftir tvö ár í fangelsi, af dómi, sem hljóðaði upp á þrjú til fimmtán ár, náðaði Hæstiréttur hann.

Í kjölfar dómsins urðu „jarðhræringar.“ Flóðbylgjan, þekkt sem „me-too“- hreyfing (movement) í útlöndum, en kvenfrelsunarfréttastofa RÚV hefur skírt „byltingu,“ reis með ógnarkrafti. Kvikmyndastjarnan, Alyssa Milano (f. 1972) tók við keflinu af kvenfrelsunaraðgerðasinninn, Tarna Burke (f. 1973), sem fyrst notað myllumerkið árið 2006.

Harvey var hrifinn af flóðbylgjunni og ljáði henni samtímis aukinn kraft. Fjöldi kvenna sakaði hann um kynáreitni, árásir og nauðganir. Það væri að æra óstöðugan að telja þær saman, en líklega voru þær stórt íslensk hundrað, þegar upp var staðið. Þrátt fyrir þennan gríðarlega fjölda, var Harvey einungis lögsóttur fyrir afbrot gegn tveim konum.

Önnur þeirra er Miriam (Mimi) Haley (f. 1977), sænskur kvikmyndaframleiðandi og aðstoðarmaður hans til margra ára. Ákæra hennar var á þá leið, að vinnuveitandi hennar (og elskhugi) hefði sleikt láfu hennar á ofbeldisfullan hátt. (Þetta er ekki fyrsti dómur af því tagi. Fyrir nokkrum árum síðan var kvenlæknir dæmdur fyrir að sleikja gás sjúklings, trúlega saurmengaða vegna sjúkdóms.)

Hin konan er Jessica Mann (f. 1984). Harvey var henni svo kær, að hún vildi kynna móður sína fyrir honum sem kærasta sinn - si svona endrum og sinnum. Jessica hélt sambandi við Harvey löngu eftir, að hann nauðgaði henni.

Ámóta elsku virtust fleiri nauðgaðar konur bera til Harvey. Ein þeirra skrifaði t.d.: „Ég sakna þín, stóri gaur.“ Önnur skrifaði: „Enginn þeirra, sem ég vildi endurnýja kynni við, sýnir mér ámóta skilning og þú.“

Harvey var dæmdur í tuttugu og þriggja ára fangelsi, þ.e. þriðju gráðu (eftir atvikum milda) nauðgun og kynafbrot (criminal sexual act) af fyrstu gráðu. Þar með var hann sýknaður af alvarlegustu ákærunum, þ.e. rándýrslegri kynárás (predatory sexual assault) og nauðgun af fyrstu gráðu.

Harvey afplánar dóm sinn. Æra hans er löngu horfinn út í veður og vind og fyrirtæki hans er hrunið.

Mennirnir voru báðir dæmdir af dómstóli götunnar og fjölmiðla, löngu áður en þeir settust á sakamannabekkinn. Náðarstungan var vitnisburður konu, sem nú er nefnd til sögu.

Babara Ziv er réttargeðlæknir við Temple háskólann í Pennsylvaníu og lækningaforstjóri hjá tryggingafyrirtækinu, Aetna.Þar að auki á hún sæti í Kynglæpamatsráði Pensylvaníu (Pennsylvania Sexual Offender Assessment Board). Hermt er, að hún hafi brotið til mergjar sálir mörg hundraða kynglæpamanna og annan eins fjölda fórnarlambasálna. Því er hún talin þjóðkunnar sérfræðingur í kynglæpum í heimalandi sínu og hefur borið vitni við um það bil tvö hundruð réttarhöld af þessum toga. Þar að auki hefur hún komið víða fram í fjölmiðlum og frætt um „nauðgunargoðsögnina.“

Og hvað er nú það? Gef Barböru orðið: “Fólk heldur, að það kunni skil á kynárás (sexual assault). Það er nefnd nauðgunargoðsögn. Í nauðgunargoðsögnum er fólgin misskilningur um nauðgun og kynárás.“

Til að mynda er það regla, en ekki undantekning, að kona hafi samband – jafnvel kærleiksríkt samband við nauðgara sinn, eftir fyrstu nauðun. Það leiðir alla jafnan til annarrar nauðgunar, sem er sársaukafyllri en sú fyrri. Reglan er sú, að tilkynning eða kæra vegna nauðgunar komi með seinni skipum. Það er einnig goðsögn, að draga megi ályktun á grundvelli tiltekinnar hegðunar, að nauðgun hafi átt sér stað. Stundum „misskilur“ fórnarlambið nauðgunina og velkist því í vafa um rétt viðbrögð. Því er hún ekki hugleidd frekar.

„Fjölmörg fórnarlömb kynódæðis segja einhverjum frá reynslunni; vini. Þetta á ekki við um alla, heldur marga. Afar fá fórnarlömb tilkynna [ódæðið] til læknis, ráðgjafa eða leiðbeinanda. Næsta stig er löggæslan. Þangað leita enn þá færri.“ …

„Hlutaðeigendur vilja forðast stimpil sem fórnarlamb kynárásar og hluti þeirra lýkur aldrei upp munni af hræðslu við endurgjald.“ …

„Síðbúin tilkynning getur komið dögum, vikum, mánuðum eða árum [eftir nauðgunina]. Við álösum fórnarlömbunum fyrir að vera ekki sú tegund fórnarlamba, sem við gerum okkur í hugarlund. Það er hluti nauðgunargoðsagnarinnar, að fórnarlömb tilkynni glæpinn, þegar í stað, og sýni af sér ákveðin einkenni. Reglan er sú að halda sambandi í einhverri mynd í einhvern tíma. Sumt fólk rýfur ekki sambandið.“ …

„Stundum hafa konur samband við árásarmanninn í kjölfar [ódæðisins]. Þær geta ekki trúað því að það hafi átt sér stað. Þær vona, að einungis sé um að ræða frávik.“ …

„Ef túlkun mín sem fórnarlambs er á þá lund, að hér sé um að ræða árásarmann, sem ég átti vingott við í gagnkvæmri virðingu og átti góðar stundir með, verður að viðurkennast, að í raun og sann hafi ég ekkert gildi haft. Það er hverjum og einum bitur pilla að kyngja.“ …

„Ástæður þessa eru flóknar. Ein af ástæðunum fyrir órofnu sambandi við árásamanninn er sú staðreynd, að þrátt fyrir það reiðarslag, sem kynárás er, hugsa flestir með sér; „ég er fær um að leggja [nauðgunina] að baki og halda áfram að lifa eins og ekkert hafi í skorist … Ég vil komast hjá því, að [ástandið] versni. Ég vil koma í veg fyrir, að árásarmanninum takist að spilla orðspori mínu, að segja fólki frá, eyðileggja starfsframa minn.“ Það er reyndar „ofuralgengt“ (extremely common), að sakaráberar haldi sambandi við árásarmanninn. Sumir láta eins og ekkert hafi í skorist.

„Í kjölfar kynárásar sjást alls konar viðbragðstilbrigði. Ekkert þeirra gefur til kynna, hvort kynárás hefur átt sér stað. … Það er meira en eitt hundrað hegðunartilbrigði sem gætu verið viðbrögð við kynmisnotkun.“ …

„Það er ekki bara svo, að kynárásarmennirnir beri konu oft og tíðum líkamlegu ofurliði – og sýni henni þannig fram á, að þeir séu færir um að yfirbuga hana líkamlega – heldur felst ógn [í atburðinum sjálfum] eða, að ógnin er látin í veðri vaka.“

Minni fórnarlamba kynofbeldis er frábrugðið minni annars fólks. „Þau muna ekki út í hörgul, en reka minni til eins og annars, sem fyrir þau hefur borið. Tíminn getur hafa áhrif á tilfinningaleg viðbrögð í tengslum við árásina.“

Nauðgunarsérfræðingurinn rær oss út í öldurót og hafvillur, land er hvergi í sjónmáli. Áróðurshaukar kvenfrelsaranna hafa lengi haldið því fram, að kynferðisleg misnotkun hefði í för með sér áfallastreituröskun. Hún er skilgreind. Hver nauðgaði hverjum? Minnið er undursamlegur og skapandi hæfileiki, galopið fyrir bylgjum í umhverfinu og umróti hugans – sérstaklega sefjun.

https://www.cnbc.com/2021/06/30/court-overturns-bill-cosbys-sex-assault-conviction-bars-further-prosecution.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband