Viðar Halldórsson (f. 1970) er félagsfræðingur og varð doktor í greininni frá Háskóla Íslands árið 2012. Hann er sérfróður um íþróttir og lætur frelsun kvenna til sín taka. Heimilisofbeldi er Viðari hugleikið og svo klámvæðing. Í því efni lætur hann rödd sína heyrast á alþjóðvettvangi. Nýlega tísti hann til að mynda um sýningu á ruðningsmóti (Super Bowl) í Norður-Ameríku:
Hin rómaða sýning í leikhléi (halftime show) er dæmigerð fyrir klámvæðingu samfélagsins. Hví er svo klén áhersla lögð á söng þessara frábæru tónlistarmanna og fremur lögð áhersla á afhjúpun kynþokka líkama þeirra, [þegar þeir eru] glenntir framan í myndavélarnar? (Sjá krækju neðanmáls lauslega snarað af mér.)
Í hljóðvarpsfréttum stöðvar eitt í RÚV þann 11. júlí 2021, talaði fréttamaður, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, um, að hugsanlegt ofbeldi í sambandi við leik Englendinga og Ítala í knattspyrnu kynni að vera áhyggjuefni. Hún bar það undir Viðar.
Hann svaraði: Já, heldur betur. Það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af, hvað gerist í kringum þennan leik. Það skiptir þá ekki endilega máli, hvort England vinnur eða tapar. T.d. sýna rannsóknir það, að þegar England er að spila á stórmótum í fótbolta, þá eykst heimilisofbeldi í kjölfar leikjanna. Þannig, ef England tapar, þá verður það sérstaklega mikið, en þó að England vinni, þá verður heimilisofbeldi meira en öllu jafna.
Í framhaldi af þessu fjallaði fréttamaður um ólæti í tengslum við karlaknattspyrnu. Hún sagði það algengara en gerist og gengur hjá stuðningsmönnum enska liðsins. Það sé kallað enska vandamálið.
Viðar var inntur eftir skýringu og segir: Vegna þess, að það sem gerist, hvort sem þeir spila heima eða heiman, þá verður einhvers konar múgstemming, sem magnast upp við ákveðnar aðstæður. Og fótboltinn veitir einhvers konar umgjörð, sem samþættir eða dregur saman alls konar vandamál og alls konar þætti eins og þjóðarstolt, eins og sjálfsmynd, eins og vímuefnaneyslu, eins og eitraða karlmennsku, alls konar svona hluti, harka leiksins, tilheyra einhverjum hópi, dregur þetta saman, sem að gerir það að verkum, að þetta verður stundum einhvers konar svona suðupottur, þegar svona hugmyndir og svona tilfinningar koma saman og brjótast út í gegn á íþróttakappleik.
Í fréttum sjónvarps, degi síðar, lauk Ólöf Ragnardóttir upp munni. Hún trúði áhorfendum fyrir því, að um væri að ræða 38% aukningu á heimilisofbeldi, samkvæmt rannsóknum.
Heimiliofbeldi var ekki skilgreint. En varla er ástæða til að efast um skilning Viðars og fréttamanna RÚV, þ.e. að um sé að ræða karla, sem berja á konum sínum. Ei heldur var í fréttinni getið um heimildir, en Viðar var svo vinsamlegur að upplýsa mig um þær.
Undirstöðuheimildin er greinin: Má tengja heimsmeistaramót FIFA í knattspyrnu við aukningu á heimilisofbeldi? (Can the FIFA World Cup Football (Soccer) Tournament Be Associated with an Increase in Domstic Abuse). Greinin birtist í: Journal of Research in Crime and Delinquency, 22 júlí 2013. Höfundar eru breski sálfræðingurinn, Stuart Kirby og fl.
Rannsakað er tölfræðilegt samhengi tilkynninga um heimilisofbeldi í kjölfar heimsmeistarakeppninnar 2002, 2006 og 2010 með samanburði á fjölda tilkynninga til lögreglu í litlu lögregluumdæmi á Norður-Englandi. Um er að ræða tilkynningar sjálfsskilgreindra fórnarlamba, sem tjá sig um ofbeldi eða hótun um ógn frá núverandi eða fyrrverandi lífsförunauti (sambýlismanni, unnustu eða unnusta). Kyn er ekki aðgreint. Ei heldur er inntak tilkynninga sundurliðað.
Niðurstaða um tölfræðilegt samhengi; hafi enska landsliðið unnið er um 26% aukningu tilkynninga að ræða; hafi það tapað um 38%. Fjöldi tilkynninga jókst við hverja keppni. Höfundar benda á, að viðfangsefnið sé aðferðafræðilega flókið og rannsóknin sé smá í sniðum og engar rannsóknir hafi áður verið gerðar á efninu. Þeir ýja einnig að nauðsyn frekari rannsókna.
Það er í sjálfu sér athyglivert, að heimilisofbeldi sé ekki skilgreint eins og kvenfrelsunarfræðimönnum er tamt að gera; þ.e. misnotkun á heimili eða í nánum samböndum er sögð hið dulda ofbeldi gegn konum.
Hin heimildin er grein eftir Anna Trendl (aðalhöfundur), atferlisfræðing, og fl. Hlutverk áfengis í sambandi knattspyrnukeppna þjóðarinnar og heimilisofbeldis. Vísbendingar frá Englandi (The role of alcohol in the link between national football (soccer) tournaments and domestic abuse Evidence from England), sem birtist í tímaritinu Social Science & Medicine í janúar 2021. Anna hefur einnig skrifað blogg um rannsóknina á bloggsvæði Hagfræðiháskólans í Lundúnum (London School of Economics). Það benti Viðar mér á.
Anna lætur áðurgreindrar undirstöðurannsóknar getið, en þó ekki beinlínis þeirrar staðreyndar, að þar sé kyn sjálfsskilgreindra fórnarlamba, þ.e. þeirra, er tilkynntu um ofbeldi, ekki sundurgreint.
Skoðaður er fjöldi tilkynninga um ölvunartengt heimilisofbeldi til þriðja stærsta lögregluumdæmis í Englandi, West Midlands Police. Aukning var mæld 47%, þegar Englendingar báru sigurorð af andstæðingum sínum.
Í hvorugri rannsóknanna er skoðað nánar eðli tilkynnts ofbeldis og tildrög. Í rannsókn Önnu og félaga eru tilkynningar þó kyngreindar. Anna bendir á hið sjálfgefna, að sé áfengi haft um hönd, aukist ofbeldi. Áfengisdrykkja stuðlar að hömluleysi og hömluleysi að ofbeldi. Það þarf ekki knattspyrnuleik til.
Höfundur bendir sömuleiðis á staðtölur frá Hagstofunni (Office for National Statistics frá 2019), þar sem fjöldi heimilisofbeldistilkynninga er kyngreindur. Á grundvelli þessa segir hún: Hver og einn getur orðið fórnarlamb heimilisofbeldis (domestic abuse), en konur þó oftar: Samkvæmt mati [ofangreindrar stofnunar] tilkynntu 7.5% kvenna og 3.8% karla í Englandi og Wales um reynslu af einhvers konar heimilisofbeldi á einu ári, til loka marsmánaðar að telja. Þetta eru kunnuglegar tölur, sem trúlega lýsa því, að karlar séu fjarri því jafniðnir við að tilkynna ofbeldi kvenna sinna til lögreglu og konur karla sinna. En séu þeir spurðir í þaula í könnunum, kemur ævinlega hið sama í ljós. Kynin eru tiltölulega jafnvíg á ofbeldi.
Önnu er mjög í mun að draga karlógn fram í dagsljósið. Hún segir: Í fyrri rannsóknum af eigindlegum toga [hafa höfundar] ýjað að því, að návígisíþróttir (contact sport) í sjónmiðlum kynnu að þjóna þeim tilgangi fyrir íþróttaáhugamenn [meðal karla] að geta endurskilgreint karlmennsku sína á þann hátt að leyfa sér yfirráð [og] stjórnun, sem að lokum gæti leitt til, að þeir, séu slíkar tilhneigingar til staðar, fremji heimilisofbeldi.
Anna vísar í þessu efni til tveggja greina. Sú fyrri, bókarkafli, ber titilinn: Heimilisofbeldi og sjónvarpsútsendingar íþróttaviðburða. Það er karlamál. (Domestic Violence and Televised Athletic Events: Its a Man Thing. Aðalhöfundur er Don Sabo. Eitt atriðisorðanna er drottnunarkarlmennska (hegemonic masculinity). Kaflinn hefst á frásögn um Jennifer á fimmtugsaldri. Eiginkarlinn tók uppá því að ganga í skrokk á henni, þegar uppáhaldsliðið hans, Buffalo Bills, laut í lægra halda á ruðningsmeistaramóti (Super Bowl). Lýsingar Jennifer voru ófagrar. Svo sáraeinfalt er nú það.
Hin tilvísunin er reyndar til doktorsritgerðar eftir Jodie Swallow frá 2017. Jodie er kvenfrelsunarfræðimaður, sem spyr til reynslu níu kvenna af ofbeldishneigðum körlum sínum. Hún kallar aðferðina stöðuþekkingarfræði (standpoint epistemology): [E]ðli og jafnvægi valda var miðdepill þessarar rannsóknar. Kjarni hennar er raddir jaðarsettra kvenna.
Anna sér ástæðu til að geta þess, að (óopinber áhugamanna-) Þjóðarmiðstöð gegn heimilisofbeldi (National Centre for Domestic Violence) hafi hleypt af stokkunum herferð, meðan á síðasta heimsmeistaramóti stóð. Áróðurþulan hljómaði svo: Lúti Englendingar í lægra haldi, gerir hún það líka, ímyndin er blóði drifin ásjóna hennar. (Þetta eru reyndar áþekk vinnubrögð og Stígamót beita í sambandi við nauðgunarhátíðir víða um land og ofbeldisiðnaðurinn yfirleitt.) Anna heldur því fram, að þessi svipmynd endurspeglist í nefndri undirstöðurannsókn, en fyrir því er enginn fótur. Það er rangt.
Í téðri rannsókn Önnu koma 78% tilkynninga frá konum, sem segjast hafa verið beittar heimilisofbeldi. Þar með megi álykta sem svo, að heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu sé tilefni ofurölvunar og æsi enska karlmenn til ofbeldis gegn konum sínum. En þetta lögmál virðist, samkvæmt greininni, ekki eiga við um ruðningsíþróttina (rugby). Kyngreining tilkynninga leiðir i ljós, að konur tilkynna ofbeldi við umræddar aðstæður hlutfallslega oftar miðað við karlmenn - en þær gera venjulega. Hún telur sem sé, að hér sé um orsakasamband að ræða, þ.e. meðan á knattspyrnuleikjum standi, sjá karlar sér leik á borði og telji sér trú um, að þeir megi ganga í skrokk á konum sínum eða beita þær annars konar ofbeldi.
En vafalaust gætir sömu meginreglu og fyrr er getið, að karlar hlaupi síður til lögreglu, þótt þeir hljóti pústra frá kerlu sinni eða meiðandi ummæli, hvort heldur þeir eru alls gáðir eða sauðdrukknir. Höfundar skoða ekki þessa reglu.
Skyntúlkun fólks (fræðimenn meðtaldir) er með þeim hætti, að nálægð fyrirbæris við annað í tíma og rúmi feli í sér orsakasamband. En það er fjarri lagi. Þetta vörpuðu þýskir tilraunasálfræðingar ljósi á fyrir einni og hálfri öld síðan. Það sama gildir um tölfræðileg tengsl tveggja þátta eða atburða. Það verður einungis útskýrt við túlkun og merkingarleit.
Byggist hugmyndafræði fræðimanns á þeirri rökfærslu; að konur séu kúgaðar af körlum; að ofbeldi sé afbrigði þeirrar kúgunar; að markmið rannsóknar sé að skoða birtingarmynd þessarar kúgunar; er niðurstaðan sjálfgefin. Það á við um rannsókn Önnu og þær tvær, sem hún vísar til og hér er getið. Um er að ræða býsna dæmigerðar kvenfrelsunarrannsóknir.
Það er væntanlega á allra vitorði, að fólk, sturlað af áfengisdrykkju, gefi alls konar fýsnum lausan tauminn. Því lýsa elstu heimildir um mannlífið. Það kemur því varla á óvart, að tilkynningum um ofbeldi til lögreglu fjölgi, þegar knattspyrnuheimsmeistarasvall á sér stað. Það kemur heldur ekki á óvart, að konur skuli tilkynna meira ofbeldi en karlar til lögreglu. Það er nánast lögmál að telja og í samræmi við látlausan áróður kvenfrelsunaraiðnaðarins. Kvensakaráberum er hampað sem hetjum. Og hver vill ekki vera hetja?
En öðru máli gegnir, hvort karlar sýni meira ofbeldi í nánum samböndum en konur. Svo er almennt ekki. Það er margrannsakað fyrirbæri. (Vísa til viðeigandi greina á: arnarsverrisson.is)
Umgetnar rannsóknir eru öldungis ófullnægjandi fræðileg heimild fyrir staðhæfingum þess efnis, að enskir karlar noti heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem átyllu til að berja konur sínar.
Og svo er það eitraða karlmennskan. Það er ærið snúið að henda reiður á skilgreiningu fyrirbærisins. Það er nefnilega líka talað fullum fetum um sjúka karlmennsku. Ég rek ekki minni til þess, að kvenfrelsunarfræðimenn hafi greint þar á milli. Svo virðist, að það eigi við um alla karlmennsku, sem fer í taugarnar á kvenfrelsurunum. En sé um að ræða ofbeldishegðun sérstaklega, hlýtur það að eiga við um ofbeldishegðun kvenna einnig. Taki lesendur mark á endurteknum, vönduðum rannsóknum á efninu, er niðurstaðan sú, að í nánum samböndum séu kynin ámóta eitruð.
Hins vegar beita karlar kynbræður sína áþreifanlegu ofbeldi í miklu meira mæli en konur kynsysturnar. En það merkir í sjálfu sér ekki, að þær búi yfir minni grimmd í þeirra garð. Hún á sér öðruvísi birtingarmyndir. En konur hafa vinninginn, þegar um er að ræða ofbeldi gegn börnum og fóstrum.
Svo eitrunar- eða sjúkleikadæmið er torvelt að fá hlutfallslegan botn í, þ.e. hvort jafnrétti ríki í þessu efni milli hinna hefðbundnu (eitruðu) kynja.
https://www.youtube.com/watch?v=pILCn6VO_RU
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021