Víti til varnaðar. Siðrof í sögunni

Það er oft háttur manna, þegar snuðra hleypur á þráðinn í samskiptum og samvinnu, að draga sig inn í skel sína, sýna tortryggni, hverfast gagnrýnislaust um sjálfan sig, sýna andúð og láta ill orð fjúka. Þetta virðist eiga við um öll mannanna samskipti frá minnstu félagseiningum til þeirra stærstu. Þetta verður stundum grátbroslegt í samskiptum stjórnmálamanna og þjóðarleiðtoga.

Það kastar þó tólfunum, þegar ríki eða bandalög þeirra fara í fýlu og beita svokölluðum refsiaðgerðum. (Ég vil ekki vera „memm,“ segja börnin í sandkassanum. „Þú færð ekki að smakka nammið mitt.“) Slík viðbrögð og afstaða herðir á hnútnum og skapar óþarfa deilur, þegar mest liggur við að tala saman, kæla höfuðið og finna lausnir. Stríð hefur í mannkynssögunni aldrei verið farsæl laun á samskiptum fjölskyldna, ættflokka, þjóða og bandalaga. Þegar stríð eru ekki háð vegna óöryggis og misskilinnar sæmdar, er um græðgi, ávinning og útrás fyrir grimmd að ræða. Grimmd mannsins eru engin takmörk sett, enda hefur mannkynið búið til fjölþætta viðspyrnu gegn óheftri útrás hvata, grimmd eða ýgisvalli. Það er menningin, okið, sem upphafsmaður sálgreiningarinnar, hinn austurríski Sigmund Freud (1856-1939), kallaði svo.

Þegar litið er um öxl í sögu mannkyns og hún brotin til mergjar, sjást engin augljós merki þess, að eðli mannsins hafi breyst að neinu marki um aldir alda. Stundum er haft á orði, að við skyldum læra af sögunni. En það er hægara sagt en gert. Fólk er gleymið, sagan breytist í meðförum þess, sérstaklega hafi það hagsmuni eða sjálfsvirðingu að verja. Minnið er skapandi hæfileiki bæði hjá einstaklingum og þjóðum. Því er viðleitni til þess arna eins og ókleifur hamar. Norður-ameríska rithöfundinum, Mark Twain (Samuel Langhorne Clemens 1835-1910), fórust orð á þá leið, að enda þótt sagan endurtæki sig ekki, „rímuðu“ stundum einstakir atburðir eða skeið.

Þegar umræða og samtal einkennist af einstrengingi, heift, hatri og nafnaskoðun, eykst hættan á upplausn, sundurlyndi, múgæsingu, vansæld, örvæntingu, útilokun og útlegð. Þá er viðbúið að bresti siðgildi og siðsboð. Slíkt háttalag er farvegur bókstaflegra árása, átaka og aftaka. Franski gáfumaðurinn og félagsfræðingurinn, Emile Durkheim (1858-1917) nefndi fyrirbærið „anomie“ á tungu sinni. Það mætti íslenska sem siðrof. Þá byltist samfélagið áfram í hatri, óöryggi og örvinglun. Fólk lætur stjórnast af frumstæðum hvötum og múgsefjun. Vitsmunalega er hún knúin áfram af einfaldri hugmyndafræði og rétttrúnaði. Tilraunir til gagnrýninnar umræðu eru unnar fyrir gýg og málfrelsi er fótum troðið. Þessi þróun blasir við okkur í dag.

Hjálögð grein kanadíska sagnfræðingsins, Margaret Olwen MacMillan (f. 1943), er skrifuð af yfirgripsþekkingu og frjósömu innsæi. Höfundur bendir á ýmis mannkynsvíti í sögunni, bæði er snerta innra hrun samfélaga og hamfarir á alþjóðavettvangi. Það ætti að vinda bráðan bug að því að slá varnagla við ýmsu því í samfélagsþróun samtímans, sem í ljósi sögunnar gæti reynst örlagaríkt, og jafnframt opna augun upp á gátt fyrir nýrri þróun, sem vafalítið verður skeinuhætt hinu opna lýðræðissamfélagi og réttarríkinu.

https://www.foreignaffairs.com/articles/united-states/2020-08-11/history-which-past-prologue?utm_medium=newsletters&utm_source=summer_reads&utm_campaign=summer_reads_2021_newsletter&utm_content=20210711&utm_term=fa-summer-newsletter-20200702


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband