Brjálæðið í Burma – Aung San Suu Kyi

Heimsvaldastefna og arðrán evrópsku stórveldanna hefur sett greinilegt mark á veröldina. Nýlendustríðin í Ameríku, Asíu og Afríku geysa í sjálfu sér enn, þó að sjaldnast sé um beina vopnaíhlutun stórveldanna að ræða lengur. Þegar losnaði um tök þeirra á nýlendunum, drógu þau upp ríkjalínur að geðþótta með eigin hagsmuni að leiðarljósi í skjóli Þjóðabandalags og Sameinuðu þjóðanna eða í samningum sín á milli. Þá sáu dagsins ljós furðulegustu ríkjamyndanir. Alls kyns þjóðum, þjóðarbrotum og ættflokkum var steypt saman í eitt ríki.

Bein íhlutun hefur nú sem sagt vikið fyrir viðskiptakúgun og stjórnmálalegum ítökum við staðbundin samtök, bandalög og alþjóðastofnanir – ekki síst Sameinuðu þjóðirnar. Einungis tvö ný stórveldi hafa risið úr öskustónni; Indland og Kína, sem taka virkan þátt í hráskinnaleiki alþjóðastjórnmálanna.

Stórveldin eru ekki ósvipuð flekunum í iðrum jarðar. Þegar þeir rekast á eða nuddast saman verður jarðskjálfti. Í mannheimum verða skjálftarnir oft og tíðum í minni ríkjum, þar sem ólga er fyrir, sbr. Júgóslavíu, sem liðaðist í sundur. Burma eða Myanmar gæti verið næsta púðurtunnan.

Burma á landamæri að Kína, Indlandi, Bangaladesh, Laos og Taílandi. Ríkja- og menningarsaga landsvæðisins er fjölbreytt. Í landinu búa rúmar fimmtíu milljónir manna. Á nítjándu öldinni voru Bretar atkvæðamestir í þessum hluta Asíu og ríktu þar í rúma öld. Burma varð bresk nýlenda, hertekin af Japönum í síðara heimsstríði, en „frelsuð“ af Bandamönnum.

Það hafa verið örlög íbúa þessa tilbúna ríkis, að þar berast ættflokkar og þjóðarbrot stöðugt á banaspjótum. Eins og víðar í nýfrjálsum og tilbúnum ríkjum hrifsaði herinn til sín völdin. Það er sérstakt við þróun stjórnmála í Burma, að þar fór í fararbroddi mikilhæf kona, Aung San Suu Kyi (f. 1945) Hún er menntuð við háskólann í Dehli á Indlandi og Oxford á Englandi, dóttir sjálfstæðishetjunnar Bogyoke Aung San (1915-1947), sem kallaður er þjóðfaðir Burma, og Khin Kyi (1912-1988), kennara og fyrrum sendiherra þjóðar sinnar í Indlandi.

Aung San Suu Kyi var í forystu lýðræðishreyfingar, sem fór með völd í nokkur ár í landinu, þar til nýlega, að herinn rændi völdum aftur með það að yfirvarpi, að hún hefði svindlað í kosningum. Aung San Suu Kyi var stungið í stofufangelsi enn á ný, en við það ófrelsi hafði hún áður búið í um hálfan annan áratug, líklega þekktasti samviskufangi veraldar. Hún var sérstaklega lofuð fyrir friðsemdarhugmyndafræði sína og jafnvel kölluð eitt af „börnum“ indverska stórmennisins, sem hnésetti breska heimsveldið, Mohandas Karamchand Gandhi (1869-1948).

Það vakti því verulega furðu, að Aung San Suu Kyi skyldi í ræðu og riti á alþjóðavettvangi réttlæta stríð herforingjastjórnar Burma gegn Roningjum (Rohingya), sem er minnihlutahópur í ríkinu, Múhameðstrúar. Eftir sem áður heldur hún stöðu sinni sem andspyrnuleiðtogi – einkum burmaþjóðarinnar, sem er stærst þjóða í ríkinu. Herforingjastjórninni er nú heldur betur velgt undir uggunum. Hin ýmsu þjóðarbrot hafa mörg hver gripið til vopna. Ríkið er suðupottur. Stórveldin sjá þar ýmis tækifæri til íhlutunar og hergagnaframleiðendur og vopnasalar kætast.

Það eru varla efni til að óttast, að Indverjar eða Kínverjar fari rússnesku leiðina og innlimi landið eða hluta þess í ríki sitt. En það er full ástæða til að hræðast borgarastyrjöld. Hver færi þar með sigur af hólmi? Spor stórveldanna í Indókína skelfa og Miðausturlöndum skelfa. Er í uppsiglingu nýtt Afganistan eða jafnvel Kambodía?

Hjálögð er fróðleg grein um efnið.

https://www.foreignaffairs.com/articles/burma-myanmar/2021-06-11/myanmars-coming-revolution?utm_medium=newsletters&utm_source=twofa&utm_campaign=Myanmar%E2%80%99s%20Coming%20Revolution&utm_content=20210618&utm_term=FA%20This%20Week%20-%20112017


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband