Konan sem verslaði með börn. Georgia Tann

Hún hét Beulah George Tann (1891-1950), kölluð Georgia. Georgia var fjölmenntuð í tónlist, félagsráðgjöf og lögfræði. Georgia var samkynhneigð og bjó með förunauti sínum, syni hennar og ættleiddri dóttur.

Georgia rak heimili fyrir börn í Tennessee-ríki, Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA), á vegum barnaverndarfélagsskapar, sem hún yfirtók. Lög heimiliðu slíkum stofnunum að sýsla með ættleiðingu barna. Starfsemin var ríkisstyrkt. „Ættleiðingarstarfsemi“ hennar var þjóðþekkt og fyrirmynd annarrar, áþekkrar starfsemi.

Á sex ára tímabili er talið, að Georgia hafi ættleitt, þ.e. selt um 1200 börn. Það tíðkaðist einnig, að börn væru seld með skilarétti. Sum þeirra voru seld fólskum foreldrum. Sjálf vanrækti Georgía börnin, beitti þau allra handa ofbeldi, þar með talið kynferðislegt, og myrti sum þeirra. Það liggur ekki fyrir áreiðanleg tala, en talið er, að um 500 hafi látist vegna ásetningsvanrækslu. Trúlega voru lík sumra þeirra husluð utan kirkjugarðs. Lyfjum var óspart beitt gegn óþægum börnum.

Uppruni og saga barnanna var falsaður, m.a. í því skyni að bjóða betri „vöru.“ Börnunum var lýst í vörulista. Fyrir jól voru „jólabörn“ (Baby Give Away) boðin til sölu á hlutaveltu. Flest voru þau sögð afkvæmi ýmis konar menntaðra fyrirmenna. Þetta var um þær mundir, að menn trúðu því með Adolf Hitler (1889-1945), foringja Þjóðverja, að böl mannkyns mætti bæta með mannrækt. Og enn myndi böl batna við gott uppeldi. (Í Þýskalandi voru það uppeldisbúðir á vegum hins opinbera.) Georgía gumaði af kynbætandi starfsemi sinni við forseta BNA, Harry S. Truman (1884-1972) og mannréttindafrömuðinn, hina kvenhollu forsetafrú Anna Eleanor Roosevelt (1884-1962), sem bar hag kvenna og barna sérstaklega fyrir brjósti.

Georgia hafði lengst af góð tengsl við stjórnmálamenn, borgarstjóra þar á meðal, og stjórnsýslu ríkisins. Auk þess hafði hún á snærum sínum fjölda kvenna, sem tóku þátt í að útvega börn eða beinlínis stela – trúlega um 5000 börnum. Fæstar voru þær menntaðar, jafnvel fíkniefnaneytendur. Allar klæddust hjúkrunarkvennabúningum.

Georgía notaði sambönd sín í stjórnsýslunni (barnavernd, félagsþjónustu) til að þvinga foreldra, einkum einstæðar mæður, til að láta börn sína af hendi undir þvingunum og/eða lygum, varð sér úti um börn á sjúkrahúsum eða hjá bágstöddum fjölskyldum. Sjálf ók hún um fátækrahverfin í viðhafnarbifreið sinni og bauð fallegustu (í bókstaflegum skilningi orðsins) börnunum að sitja í. Þau skiluðu sér aldrei heim.

Fjölskyldudómstóll ríkisins í Shelby sýslu, þar sem Georgía rak barnasölu sína, var henni einnig innan handar. Dómarinn, Camille McGee Kelley (1879-1955) lét af störfum, þegar upp komst um athæfi hennar. Camille þessi bar aldrei drungalega dómaraskikkju. Klæðnaður var litríkur og blóm nældi hún í barm sér, því – eins og hún komst að orði - „,[s]kikkjur myndu hræða börnin til dauða. Þau eru ekki eins feimin, þegar þau eru fyrir mig leidd og ég ber blóm [í barmi].“ Camille dómari dæmdi einkum í málum vandræðaunglinga. Hún ku hafa sagt: „Hér er drengurinn á sakamannabekknum, ekki afbrot hans. Við leitumst við að fjarlægja mistök hans – ekkert annað.“ Dómarinn skrifaði þrjár lærðar bækur um efnið. Hún var ekki sótt til saka, frekar en nokkur annar, sem að þessu mansali kom. Höfuðpaurinn lést, skömmu eftir að kurl komu til grafar.

Fjallað er um Georgíu í t.d. sjónvarpsþáttunum, „Unsolved Mysteries“ og „Deadly Women.“

https://www.youtube.com/watch?v=aAp-y0ACexs


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband