Góðir strákar og gerendameðvirkni. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, Stígamótahetja

«Góðir strákar» merkir karlfauta, sem meiða konur og nauðga, en hafa barasta ekki hugmynd um það. Þá skortir nefnilega einhvers konar «kynlífsofbeldisnæmi.» Þetta er hugtak, sem áberandi kvenfrelsarar líðandi stundar beita til að opna augu karla og ala okkur upp til betri siða í heilögu frelsunarstríði kvenna. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skrifaði okkur opið bréf nú á vordögum, þar sem sama hugtak var í brennidepli. Ég hef annars staðar gert því skil og fjölyrði því ekki um það hér.

Greinar sínar skrifa Hildur og Þordís ýmist í Stundina (sem sérstaklega hefur auglýst grein hennar á Fésbók) og Kjarnanum, sem, ásamt fréttastofu RÚV, stunda rannsóknarblaðamennsku á útvöldum sviðum. Eitt þeirra er kvenfrelsun.

Hildur skrifaði einmitt grein í Kjarnann (24. maí þ.á.) með fyrirsögninni: „Af reikningskilum og gerendameðvirkni.“ Og þar er góðu strákunum ekki vandaðar kveðjurnar. Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni, að rannsóknarfjölmiðlunum hefur nú tekist að skapa nýja „mee-too-byltingu“ - og meira að segja séríslenska. Samkvæmt skilningi Hildar er svokölluð „gerendameðvirkni“ kveikjan að henni:

”Gerendameðvirkni á sér margvíslegar birtingarmyndir. Sú gerendameðvirkni sem kveikti yfirstandandi #metoo bylgju átti sér stað eftir að sjónvarpsmaður tók viðtal við sjálfan sig þar sem hann öskurgrét yfir ranglætinu sem fólst í kjaftasögunum um að hann beiti konur margvíslegu ofbeldi. Hann lagði þar sérstaka áherslu á að hann væri, eins og allir vita, góður strákur. Þegar hann var svo kærður fyrir téð ofbeldi hvarf hann úr sviðsljósinu.

En gerendameðvirkni birtist ekki bara með góðu strákunum sem sverja ofbeldið af sér. Hún birtist ekki síður, þegar góðu strákarnir stíga fram og „axla ábyrgð“ á öllum mistökunum sínum. Gera „reikningsskil“. Þeir eru nefnilega svo góðir.” (Til samanburðar má geta þess, að nýjasta danska kvenfrelsunarbylgjan reis við uppljóstrun konu um kynhneykslismál. Forustumaður stjórnmálaflokks hafði lagt hönd á hné hennar fyrir u.þ.b. áratugi síðan.)

Hildur heldur áfram: „Samfélagið tollerar þessa menn. Þeim er hrósað fyrir djörfung og hetjuskap, sanna karlmennsku, hreint hjarta, einlægni, heiðarleika, hreinskilni, auðmýkt og þroska. Með þessu fylgjast svo þolendur þessara manna. Brotnar konur sem voru ekki hafðar með í ráðum, fengu ekki tækifæri til að undirbúa sig, fengu ekki að segja skoðun sína, fengu ekki að koma útgáfu sinni af atburðum á framfæri. Hafa aldrei fengið fyrirgefningarbeiðni og kannast bara alls ekki við alla þessa einlægni og auðmýkt.“

Hafi það við rök að styðjast, að körlum sé hampað fyrir játningar um dólgshátt í garð kvenna (kannast reyndar ekki við það), á það ekki síður við um allar kvenhetjurnar, sem stíga á stokk og lýsa eymd sinni og óhamingju. Raunar er Hildur bæði hetja DV og verðlaunuð hetja Stígamóta fyrir baráttu sína gegn kynillsku karla.

En þolendunum fallast ekki hendur, segir Hildur: „Í lokuðum hópum á víðlendum internetsins deila þessir þolendur upplifun sinni hver með annarri. Ég er ein þeirra. Og eftir þessa #metoo bylgju sitja fjöldamargar konur í sárum vegna þess að gerandinn þeirra steig fram opinberlega, sagði afskræmda og sjálfshyllandi útgáfu af ofbeldinu sem hann beitti þær og var fagnað ótæpilega af almenningi í kjölfarið. Það sem að ofan er lýst heitir ekki að axla ábyrgð eða gera reikningsskil. Það heitir að hampa sjálfum sér á kostnað þolenda. Það heitir gaslýsing [andlegt ofbeldi] og áframhaldandi ofbeldi.“

Svo koma ráð til okkur, góðu strákanna: „Ef þú, góði strákur, hefur nauðgað konu, þröngvað þér inn á yfirráðasvæði hennar, troðið tungunni upp í hana, króað hana af, gert hana hrædda, látið hana finna að sjálfsvígshugsanir þínar séu á hennar ábyrgð, suðað um að fá að fara inn í hana þangað til hún örmagnast, tekið hana næstum áfengisdauða með þér heim og klætt hana úr buxunum af því að þú verðir að fá að sýna henni hvað þú ert góður í að fullnægja konum með tungunni, almennt beitt konu eða konur einhverskonar þvingunum, gaslýsingum [andlegu ofbeldi] og ofbeldi, og ert að íhuga að „stíga fram“ og segja hjartnæma sögu af því hvað þú ert góður strákur og ætlar að axla á þessu ábyrgð með því að auðmýkja þig í fjölmiðlum eða hætta tímabundið eða seinna í vinnunni, þá bið ég þig að hugsa þig tvisvar um.“

Það er mikil gæfa karla að mega njóta siðvits Hildar og hirtinga, þrátt fyrir dóma gegn henni fyrir ærumeiðingar á því sviði. Því enn eru dómstólar ekki nægilega kvenráðir og kvenvænir. Hildur og Þórdís Elva eru happafengur Kjarnans og Stundarinnar í rannsóknarblaðamennskunni.

Til umhugsunar má bæta því við, að þegar undirritaður vildi leggja orð í belg kvenfrelsunarumræðunnar, svaraði hinn jafnréttissinnaði ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, erindinu á þann veg, að hann vildi „ekki leggja blaðið undir einhliða umræðu.“ Ætli það lýsi góðri rannsóknarblaðamennsku?

https://kjarninn.is/skodun/af-reikningsskilum-og-gerendamedvirkni/


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband