Þórdís Elva Þorvaldsdóttir ritar góðu strákunum bréf. Hún er skemmtilegur bréfritari. Þórdís Elva er líka snjall fjölmiðlamaður og sannur kvenfrelsari. Hún ber kærleiksríkt þel til karla; ávarpar okkur kæri karl.
Í fyrri skrifum hefur bréfritari lýst dæmigerðri nauðgun. Unglingurinn, Þórdís Elva, var úti að dansa og dufla með kærasta sínum frá Ástralíu. Sauðdrukkin bröltu þau til bóls hafi ég skilið Þórdísi Elvu rétt. Að morgni dags varð henni ljóst, að þau hefðu haft samfarir eðli málsins samkvæmt eða hann við hana. Árafjöld síðar sannfærði bréfritari piltinn um, að hann væri nauðgari, og fór með hann í hringferð um heiminn, svo allir mættu af atvikinu læra. Þórdís virðist hafa lært; að karlar séu almennt vondir og áreiti konur hér um bil allir sem einn (líka samkvæmt skoðanakönnunum í Bretlandi og Egyptalandi, segir hún); að konur beri ekki ábyrgð á þeim boðum, sem þær senda, eða skorti skilning á þeim. Því miður er hryggileg reynsla Þórdísar Elfu ekki einsdæmi og hefur markað örlagarík spor.
Það eru fleiri ungar konur, íslenskar, sem skýra frá svipaðri reynslu, t.d. Edda Falak, sem er viðskiptafræðingur og titluð áhrifavaldur. DV hefur eftir henni um samræði við átrúnaðargoð sitt, þegar hún var sautján ára eins og Þórdís Elva: Á þeim tíma gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta var í rauninni ofbeldi, nauðgun, bara vegna þess að samtalið í samfélaginu var öðruvísi fyrir 10 árum. Ég leit upp til þessa manns, fannst hann flottur, og hann var tónlistarmaður og hugsaði: Af hverju vill hann mig? Ég í rauninni leyfði honum að gera það sem hann vildi því mér fannst hann svo flottur og það er þetta sem sat í mér og mér finnst mikilvægt að ungar stelpur viti að þegar þú segir nei þá er það bara þannig, eða með öðrum orðum að nei þýði nei og fólk verði að virða neitunina en ekki reyna með þrýstingi og nöldri að ná sínu fram þrátt fyrir skýra neitun.
Það er engu líkara, en komin sé opinber samkeppni um það, hver sé áhrifamesta nauðgunar- eða kvenfrelsunardrottningin á Íslandi. Þessar konur sýna mikinn hetjuskap. Það er ekki ólíklegt, að Sólborg Guðbrandsdóttir, leiðtogi starfshóps Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, sem koma skal með tillögur um kynjafræðinámsefni handa landsins börnum, blandi sér í slaginn. Hún er opinberlega yfirlýstur þolandi.
En smáatriðalýsing á kynlífi hennar liggur enn ekki fyrir. En hins vegar er það rangt, að nei merki ævinlega nei við bólfarir, sé að marka rannsóknir á námsmeyjum frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Kynlífsleikurinn á Vesturlöndum hefur reyndar frá fornu fari farið fram samkvæmt þeirri meginreglu, að karlinn sýni ýtni og áleitni, meðan konan færist hálfvelgjulega undan og segi jafnvel: Nei, ekki geretta. Dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, kvenfrelsunardrottning Sjálfstæðisflokksins, ætlaði að inna ömmu sína eftir þessu. En alþjóð hefur enn ekki heyrt frá ömmunni.
En vitaskuld er konum víðar nauðgað en á Íslandi. Nýlega var fjallað um mál nítján vetra kanadískrar ungmeyjar, Annaca Kobayashi, sem birtist á lögreglustöð og sagði farir sínar ekki sléttar. Ungur karlmaður hafði gert sér far um að ginna hana frá kærasta sínum. Hún sagði líka nei eins og Edda og Þórdís Elva. En allt kom fyrir ekki, drengdjöfullinn brá hnífi á háls henni, neyddi hana inn í bifreið sína, fór með meyna heim og nauðgaði. Hin graða ungmær gætti þess ekki, að bílastæðið var vaktað með öryggismyndavélum. Þrátt fyrir mikla þjálfun kanadískra lögreglumanna í öllu sem lýtur að kynferðislegri ósvífni karla, komust þeir ekki hjá því að kíkja í myndavélarnar. En þeir vildu svo gjarnan trúa. Nokkrum vikum síðar játaði þó Annaca að hafa logið öllu saman. Það eru því miður margar, hliðstæðar sögur að segja.
Það skortir enn rannsóknir á fölskum nauðgunarákærum af skiljanlegum ástæðum. En þær, sem til eru og eitthvert mark gæti verið á takandi, gefa vísbendingu um, að um fjörutíu af hundraði nauðgunarákæra séu falskar.
Hverfum aftur að bréfinu. Þórdís Elva kynnir sig til sögu, enda kurteis kona: Þórdís Elva heiti ég og hef í 15 ár unnið með afleiðingar þess ofbeldis sem kynbræður þínir beita konur og börn. Ég hef unnið í athvarfi þar sem yngsti þolandinn með líkamlega áverka var þriggja vikna gamall, og yngsti mansalsþolandinn var fimm ára. Ég hef skrifað bækur og stuttmyndir um kynferðisofbeldi, hrint úr vör innlendum sem alþjóðlegum átaksverkefnum og setið í nefndum á vegum ríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við þeirri þjáningu og skaða sem ofbeldi karla veldur.
Þórdís Elva biður, að hjörtu okkar góðu strákanna bresti og verði jafnvel þreytt eins og hennar eigið hjarta: Og ég er orðin þreytt. Þreytt á að prédika yfir kórnum. Ég er þreytt á því að meira að segja þessi pistill verði að mestu lesinn og deilt af konum, sem þurfa ekkert á þessum upplýsingum að halda. Konur þurfa ekki að heyra enn eina ferðina um ofbeldi karla í þeirra garð, þær eru nú þegar að leggja sig í líma við að koma í veg fyrir það. Ég endurtek: Konur eru að gera sitt allra besta til að komast hjá því að vera nauðgað.
En það er svo sannarlega ekki heglum hent, segir systir í trúnni, Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, sem er rísandi stjarna meðal íslenskra kvenfrelsara. Hún skrifaði nefnilega í sama miðli: Veruleiki kvenna er þessi. Kynbundið ofbeldi ógnar lífi þeirra og heilsu. ... Vondi karlinn á sér enga eina birtingarmynd, hann er alls staðar og hvergi og þú veist aldrei hvort eða hvenær þú mætir honum. Stundum þekkir þú hann bara af góðu einu þar til hann snýst gegn þér. Stundum laðar hann þig til sín og brýtur á þér.
Þjáningasysturnar hugsa líklega eins og ég, að það sæti varla undrum, að karlmenn, þrungnir af bældum kynlífsórum, klámfengnir, misþroska, ofvirkir og ofbeldishneigðir nauðgarar, séu líklegir til dáða á nokkru sviði mannlífsins, nema þeir kvenvæðist auðvitað. Að öðrum kosti munu þeir áfram sýna eitraða karlmennsku og finna til sjúkrar ástar.
Nauðgun kvenna, segja kvenfrelsararnir, er nefnilega lýsandi fyrir viðhorf karlsins til veraldarinnar, vífanna og vísindanna. Og í samförum jafnvel þótt með vitund og vilja konunnar sé er óhjákvæmilega um nauðgun að ræða. Því er við ramman reip að draga. Þetta hljóta kvenfrelsunarfræðamæður Ingibjargar Daggar, Sólborgar og Þórdísar Elfu að hafa kennt þeim.
Sú síðastnefnda ýjar einmitt að þessu: Höfum það á hreinu að þetta snýst ekki um einstöku frægan ofbeldismann, heldur um kerfi sem styður og upphefur menningu sem elur á mismunun og ofbeldi í garð kvenna. Og strákar, vandamálið er ekki að alltof mörgum ykkar finnist þið ekki vera hluti af vandanum og þess vegna komi hann ykkur ekki við. Vandamálið er að alltof fáum ykkar finnst þið vera hluti af lausninni.
Og lausnin kemur ekki á óvart: En lausnin er nákvæmlega sú að ÞIÐ breytið hegðun ykkar, í stað kvenna. [S]koraðu á hólm karlmennskuhugmyndir sem byggja á því að upphefja sig á kostnað annarra, styddu Kvennaathvarfið og Stígamót, mættu á ráðstefnurnar, lestu og deildu pistlunum sem fjalla um vandamálið, hlustaðu þegar konur lýsa veruleika sínum, sýndu stuðning þinn í verki fyrir jafnrétti kynjanna, ekki bara í launum og lögum, heldur líka í þeim sjálfsagða rétti að geta lifað lífinu án stöðugs ótta við ofbeldi. Ekki eingöngu vegna þess að þannig viðurkennir þú mennsku kvenna, heldur vegna þess að þín eigin mennska er í húfi. Lausnin virðist vera enn þá meiri kvenmennska í fari karla. Hún fellur vafalaust vel að draumi Arnars Péturssonar, hlaupagikks, um alræði kvennanna, sem hann skýrir frá um þessar mundir.
Þórdís Elva er heiðarlega frumstæð í hugsun. Gagnkvæmni virðist ekki hvarfa að henni. Meðábyrgð kvenna á ofbeldi enn þá síður. Eiginlegar staðreyndir um þann ljóta veruleika, sem ofbeldi kynjanna er, koma henni ekki við. Hún stundar miskunnarlausan og grímulausan áróður og gerir það býsna vel. Það er sorglegt að sjá svo gjörvilega konu reyrða rígfasta í eigin neti. Það er þyngra en tárum taki, að hún og þjáningasystrum hennar, grýlunum, sé falið af hinu opinbera, fákænum stjórnmálamönnum, að aðstoða þolendur ofbeldis og kenna börnum um það.
https://stundin.is/grein/13459/?fbclid=IwAR3hfNlsts-Yv2_tni5ONAOOgi8wEi3n_fD8Y_8Q5_-S1nIJW5b1aSjs1Cw
Flokkur: Bloggar | 26.5.2021 | 11:04 (breytt 3.6.2021 kl. 12:00) | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021