Þegar svonefnd önnur flóðbylgja kvenfrelsunar reið yfir Vesturlönd, lögðu kvenfrelsarar ofuráherslu á lagabreytingar í samræmi við hugmyndafræði sína. Þekkt er baráttan harðvítuga fyrir Jafnréttisviðaukanum við stjórnarskrá Bandaríkja Norður-Ameríku. Slíkan viðauka bar fyrst á góma árið 1923 eða þrem árum, eftir að konur þar um slóðir fengu kosningarétt. Tæpri hálfri öld síðar eða árið 1972 var frumvarpið loksins samþykkt i Alríkisþinginu og sent til þinga sambandsríkjanna til samþykktar. En það var ekki aldeilis bitið úr nálinni.
Hugmyndfræðina þekkja væntanlega flestir; Konur eru kúgaðar af körlum á öllum sviðum mannlífsins. Kúgunina er m.a. að finna í stjórnarskránni. Því væri viðaukans þörf, því hann legði blátt bann við sérhverri mismunun á grundvelli kynferðis. Jafnrétti lögum samkvæmt skal gilda afdráttarlaust í Bandaríkjum Norður-Ameríku og í sérhverju ríki, hvað kynferði áhrærir. Alríkisþingið hefur vald til að framfylgja þessari grein með viðeigandi löggjöf.
Frumvarpið um viðaukann fékk feikna meðbyr í Alríkisþinginu eins og von er. Hver hefur einhvern tímann viljað kúga konur sérstaklega? Kvenfrelsararnir voru í sjöunda himni. Þrír forsetar; Richard Nixon (1913-1994), Gerald Ford (1913-2006) og Jimmy Carter (f. 1924) studdu löggjöfina. Viðaukinn hafði hlotið blessun í öllum ríkjum Bandaríkjanna, nema átta. Öflugar kvenna- og kvenfrelsunarhreyfingar studdu það eðli málsins samkvæmt, ásamt mýgrúti kvennatímarita, stjarna úr heimi Hollývúdd og nær allir fjölmiðlar.
En þá kom Phyllis Stewart Schafly (1924-2016) til skjalanna. Í upphafi áttunda áratugarins skrifaði hún fréttabréfið: Hvað er bogið við jafnrétti konum til handa. Næsta áratuginn eða svo var hún óþreytandi við að benda á þau sérréttindi kvenna, sem væru í uppnámi, ef viðaukinn yrði samþykktur.
Phyllis og stuðningsmenn hennar beindu athygli þjóðarinnar að auknu valdi alríkisdómstólanna til að skilgreina hugtökin kynferði og jafnrétti og þar með veikja löggjöf hinna ýmsu ríkja, þar sem rúm væri til túlkunar með hliðsjón af hjónabandi, eignum, skilnaði, lífeyri, forsjá barna, fóstri, fóstureyðingu, lögum um samkynhneigða, opinbera skóla og einkarekna, fangelsi og tryggingar. Aukin heldur mætti kalla konur í herþjónustu á grundvelli viðaukans.
Phyllis vísaði á bug staðhæfingum viðaukasinna um, að laun kvenna myndu batna, þar eð Lög um Jafnlaun höfðu þá þegar verið samþykkt árið 1973. (Áþekkt lög, Búalög, voru í gildi á Íslandi, þegar á átjándu öld.)
Viðaukaandstæðingar höfnuðu einnig þeirri staðhæfingu, að stjórnarskráin væri kvenfjandsamleg, þar eð ekki væri þar getið um konur sérstaklega. Málfar hennar er nefnilega kynhlutlaust.
Eins og von er ærðust kvenfrelsarar bókstaflega og fóru hamförum í fjölmiðlum og á fundum. Á einum slíkum árið 1973 sagði Betty Friedan (1921-2006) hin fleygu orð um Phyllis: Ég vildi geta varpað þér á bálköstinn.
Örvænting greip um sig, góð ráð voru dýr, þegar málflutningur Phyllis náði til almúgans. Árinu áður en Betty vildi brenna kynsystur sína á bálinu, var blásið til umfangsmikillar kvenfrelsunarráðstefnu á kostnað skattgreiðenda í Houston í Texas. Þar voru mættar forsetafrúr og fjöldi nafntogaðra kvenfrelsara. Fjölmiðlamenn tróðust hver um annan þveran.
Kröfur ráðstefnugesta voru háværar að vanda, t.d. frjálsar og ókeypis fóstureyðingar og dagheimili fyrir öll börn. Þátttakendur gáfu skoðanir sínar til kynna með ýmsum vígorðum eins og: Móðir náttúra er lespa og Karlmannslaus kona er eins og fiskur án reiðhjóls. Fræðslubæklingurinn, Hvað lespur sýsla með var á boðstólnum. Allt kom fyrir ekki. Jimmy Carter, forseti, ákafur stuðningsmaður viðaukans, framlengdi umþóttunartíma ríkjanna um þrjú ár.
Baráttan hélt þó áfram. Formælendur gripu til aðgerða, áþekkum þeim, sem súffurnar (suffragettes) höfðu beitt í Englandi á sínum tíma. T.d. sóttu þeir blóð í sláturhús og rituðu með því nöfn þeirra þingmanna, sem þeim var mest í nöp við, á gólf þinghússins í Illinois. Samþykki var þó enn ekki í höfn, þegar fresturinn rann út 1982.
Hér gefur að líta nokkur gullkorn, sem hrutu úr munni Phyllis: Amerískar konur búa við mest forréttindi alla stétta fyrr og síðar [í mannkynssögunni]. Okkur er umbunað meira en öðrum, enginn býr við meiri réttindi og færri skyldur. Einstök staða okkar skýrist af samþættingu ýmissa aðstæðna.
Við búum við þá feiknlegu gæfu að eiga menningu, sem virðir fjölskylduna sem grundvallareiningu samfélagsins. Þessi virðing er óbrigðull grundvöllur (part and parcel) laga okkar og siða. Hann er staðreynd lífsins, sem hvorki löggjöf né múgæsingur getur þurrkað út; konur eignast börn, karlar geta það ekki. Ef þér geðjast ekki að þessum grundvallarmismuni, verður þú að bera óánægju þín upp við Guð. Það er ekki við sjálfselska og ráðríka karla að sakast um þá staðreynd, að konur bera fram börn, en ekki karlar. Heldur ekki er kerfinu um að kenna og hópi samsærismanna, sem þrá að kúga konur. Það er einfaldlega þannig, sem Guð skóp oss.
Önnur ástæða þess, að amerískar konur búa við forréttindi: [V]ið njótum góðs af hefð, þar sem ríkir sérstök virðing fyrir konum. Hún er rakinn til aldar kristinnar riddaramennsku. Sá heiður og sú virðing, sem féll Maríu Guðsmóður í skaut, leiddi til þess, að allar konur voru í raun hafðar í hávegum.
Hin raunverulega frelsun kvenna frá amstri og streði öldum saman er að þakka frjálsu framtaki í Ameríku, sem örvaði [karl]snillinga til uppfinninga og öll njótum við góðs af.
Það er falsboðskapur aldarinnar [þ.e. þeirrar tuttugustu] að amerískar konur séu troðnar í svaðið og órétti beittar. Sannleikurinn er sá, að amerískum konum hefur aldrei liðið svo vel. Hvers vegna eigum við að stíga skör lægra til jafnréttis, þegar við njótum nú þegar sérstakra forréttinda.
Phyllis leiðir athyglina einnig að þeim sérréttindum, sem felast í skyldu föður og eiginkarls til að annast framfærslu eiginkonu og barna, sem óhyggilegt væri að stefna í uppnám. Hún bendir á, að almenningur vilji vitaskuld fleiri tækifæri konum til handa, menntun og virðingarstöður í stjórnsýslunni. En kvenfrelsunarhreyfingin hafi slíkar kröfur að yfirvarpi.
Kvenfrelsararnir eru róttæklingar, sem gera óvægna árás á fjölskylduna, hjónabandið og börnin. Hafðu ekki mín orð fyrir því, lestu þeirra eigin boðskap og sannreyndu, hvað þessar manngerðir ætla sér. Kvenfrelsarar beita sér fyrir því að gera eiginkonur og mæður óhamingjusamar með vali sínu á hlutskipti, telja þeim trú um, að þær séu annars-flokks borgarar og fyrirlitlegir þrælar. Kvenfrelsarar beita sér fyrir taumleysi í kynlífi í stað þrældóms í hjónabandi. Þeir berjast fyrir ríkisreknum dagheimilum fyrir börn í stað heimila. Fóstureyðingar eru baráttumál þeirra fremur en fjölskyldur. Konur í Ameríku biðja ekki um frelsun frá eiginkörlum og börnum.
Í gröf sinni varð Phyllis að láta í minni pokann. Hér um bil heila öld þurfti til, að dropinn holaði steininn. Viðaukinn var samþykktur árið 2020.
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021