Franski heimspekingurinn, Simone de Beauvoir (1908 1986), mikilvægasta fræðamóðir kvenfrelsaranna, sagði eins og frægt er orðið eitthvað á þá leið, að konur væru ekki fæddar konur heldur væru steyptar í það mót. Það má líklegt teljast, að hún hafi átt við þann hluta kynferðis, sem felst í samsemd og hlutverki.
Lærisveinkur hennar halda því nú fram með niðurrifskenninguna (deconstruction) að vopni, að í raun sé kyn ekki til, nema sem breytilegt hugarfóstur. Þessi bábilja er reyndar víða kennd í skólum á Vesturlöndum. Ofbeldi karla sé því um að kenna, að konur séu vansælar með kyn sitt og hlutskipti.
Simone gaf ekki gaum að kynvígslunni (initiation). Nefnir hana ekki einu orði (eftir því sem ég best fæ séð) í hinu mikla verki sínu; Síðra kyninu (Le deuxiéme Sexe). Það kemur á óvart. Á ritunartíma bókarinnar var nægum heimildum til að dreifa. Og merkan mannfræðing, Claude Levi-Strauss (1908-2009) átti hún að vini. Hefði Simone gert sér þá fyrirhöfn að kanna málið, hefði hún vafalaust komist að því, að eiginleg kvenvígsla sé fátíð og ofbeldissnauð, en karlvígsla aftur á móti snar þáttur í þjálfun til karlmennsku, ósjaldan með ofbeldi. Drengir, sem ekki standast eldraun vígslunnar, verða aldrei karlar í krapinu. Vígsla drengja til karlmennsku á sér venjulega stað frá um sex ára aldur.
Í bók sinni, Sögu uppruna vitundarinnar (Ursprungsgeschichte des Bewusstseins The Origins and History of Consciousness), sem kom út árið 1949, gerir Erich Neumann (1905-1960) efninu hins vegar góð og hyggileg skil með fræðilegum þunga. Drengurinn verður að losna úr viðjum eða heljarfaðmi Miklu móður til að geta þroskast eðli sínu samkvæmt. Erich segir m.a.:
Það er einkennandi staðreynd, að vígslusiðir á gelgjuskeiði hafa í upphafi sammerkt: Karlleg samstaða stuðlar að því, að spyrna við Miklu móður.
Ummyndun er takmark vígslunnar hvarvetna frá vígslusiðum á gelgjuskeiði til trúarlegrar dulúðar. Allir miða siðirnir að því að skapa hinn andlega karl. Þessi æðri karl hefur til að bera vitund eða eins og sagt er við tíðagerð, æðri vitund. Fyrir tilstilli hans verður til reynsla samhygðar í hinu andlega og í hinni háleitu veröld. Það er allt að einu, hvort er um að ræða upphafningu eða að vígslusveinninn sé tekinn í tölu Guðs barna eða verði hinn ósigraði sólguð (sol invictus) eða hetja, sem umbreytist í stjörnu eða engil á himni eða hvort hann samsamar sig táknmynd (totem) forfeðranna. Í öllu tilliti er stofnað til bandalags við himna, ljós og vind, alheimstákn andans, sem ekki er af jörðu kominn og enga líkamslögun hefur og er fjandi líkamans.
Vígslusiðirnir umsveipa ungu karlana verndaranda karlheimsins. [Þeir] endurfæðast börn andans fremur en móðurinnar; þeir eru synir himna, en ekki jarðarinnar einvörðungu. Hin andlega endurfæðing táknar burð hins æðri karlmanns, sem jafnvel á frumstigi tengist vitund, sjálfi og viljastyrki. Þannig er tilkomin grundvallartenging hins himneska og karlmennskunnar.
Það má einu gilda, hvort þessi himinn geymi ótakmarkað afl eða birtist í líki fyrirbæra anda, forfeðra, tákndýra (totem), guða. Öll eru þau birtingarmyndir hins karllega anda og veraldar karla, og þau gefa sig til kynna við nýgræðinginn með ofbeldi eða án, þegar hann skilur við veröld mæðranna.
Í [endurfæðingunni] er fólgin hin æðri starfsemi ásetnings, rýndrar (conscious) þekkingar og tilætlaðar (conscious) sköpunar, sem er frábrugðin blindri framrás dulvitaðra afla. Og það er nákvæmleg þess vegna, að til karlmanns (individual) ekki einungis í samræmi við eðli hans, heldur einnig á grundvelli félagslegra og sálarlegra tilhneiginga er gerð krafa um að bregðast við sem ábyrgt sjálf. Vígsla til samfélags karla er ævinlega tengd prófun og styrkingu vitundarinnar, [tengd því] sem með goðsögulegu orðalagi mætti lýsa sem fæðingu hinnar æðri karlmennsku.
Eldur og önnur tákn um árvekni og snerpu eru grundvallarþættir vígslunnar. Unga nýgræðingnum er uppálagt að vera á verði og halda vöku sinni, þ.e. að hefa sig yfir líkamann og spyrna við (inertia) dulvitundinni með því að heyja baráttu við þreytuna. Það að halda vöku sinni og hrista af sér óttann, þola hungur og sársauka, eru allir grundvallarþættir við styrkingu sjálfsins og þjálfunar viljans.
Þannig er leiðsögn og vígsla jafn snarir þættir í tileinkun hefðbundins fróðleiks [um heim karlanna] og sannanir um styrk viljans, sem láta verður í té. Mælikvarði karlmennsku er óbilandi viljastyrkur, að vera reiðubúinn og hæfur til að verja sjálfið og vitundina, ef í harðbakkann slægi, og hafa stjórn á dulvituðum hvötum og barnslegum ótta.
Það má einu gilda, hvort þessi himinn geymir ótakmarkað afl eða birtist í líki fyrirbæra anda, forfeðra, tákndýra (totem), guða. Öll eru þau birtingarmyndir hins karllega anda og veraldar karla, og þau gefa sig til kynna við nýgræðinginn með ofbeldi eða án, þegar hann skilur við veröld mæðranna.
Upplausn fjölskyldunnar, deig og kvenmiðuð karlmennska, ásamt fjarveru feðra og karla úr lífi barna, er verulegt áhyggjuefni, og skýrir vafalítið að hluta þær ógöngur, sem samfélagið hefur ratað í. Hin föðurlega leiðsögn og handleiðsla er bráðnauðsynleg í uppeldi barna.
Nýfætt barn hjá tyrknesku ættflokkum steppunnar í Asíu voru boðin velkominn í heiminn með orðunum; vonandi áttu eftir að alast upp hjá bæði föður og móður þinni. Í Afríku var föðurlausri fjölskyldu jafnað við hús án þaks. Á Íslandi og á Vesturlöndum getur stór hluti barna ekki vænst þess að eiga föður sinn að.
Flokkur: Bloggar | 19.5.2021 | 10:58 (breytt kl. 10:58) | Facebook
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021