Karlsýkt kossakúgun. Prudence Goward

Prudence (Pru) Jane Goward (f. 1952) er prófessor í félagsaðgerðum og stefnumótun (social policy and policy) við Háskólan í Vestur-Sidney. Prudence er fyrrum ráðherra í stjórn Nýja Suður-Wales, Ástralíu. Hún hafði fjölskyldu- og húsnæðismál á sinni könnu og á tímabili var hún ráðherra varna gegn heimilisofbeldi og kynofbeldi. Í annan tíma var hún Kvennamálaráðherra. Áður en Prudence sté inn á svið stjórnmálanna hafði hún einnig sérstaka umsjón með kynjamismunun á vegum nefndar um mannréttindi og jöfn tækifæri kynjanna. Og enn eru ekki upptalin þau embætti í þágu kvenfrelsunar, sem henni hafa verið trúað fyrir. Það er sérlega viðeigandi, að þessi merka kona sé borin og barnfædd í Aðalheiði (Adelaide).

Að loknum fyrsta vinnudegi í þinginu varð henni á orði: „Aldreii hef ég unnið í nokkurri atvinnugrein, þar sem karlar eru jafn yfirgnæfandi og grimmdarlega kynfólskir og hér.“ Þetta gæti svei mér þá verið lýsing á Alþingi Íslendinga.

Fyrir tveim árum síðan, skrifaði Prudence athyglisverða grein um kossaflens og kossamenningu. Það rifjaði upp fyrir mér gömlu heilsufræðina, sem mér var kennd í Vogaskóla forðum daga. Þar var fólk varað við kossum, því þeir væru sóðaskapur einber. Mig minnir reyndar, að embætti Landlæknis, sóttvarnalæknir og embætti Ríkislögreglustjóra, hafi þráfaldlega bent þjóðinni á þessa staðreynd síðustu mánuði.

Hafandi tileinkað mér samviskulega kossaspeki heilbrigðisvísindanna var undrun mín stór, þegar framið var á mér það barnaníð að senda mig í sveit í Húnaþing barnungan, rétt rúmlega tólf vetra. Þar munnkysstust karlar af þvílíkri ákefð að munnvatnið seytlaði niður á höku. Þá varð ég endalega fráhverfur kossum og varðist heiftúðlega slíku ofbeldi upp frá því. (Amma mín var þó á undanþágu.) Ég lærði síðar, að ræki ég konu koss, fremdi ég kynferðislegt ofbeldi. Ég lýsi því hér með yfir, að ég er sekur inn í merg. Það er mér þó engin afsökun, að kunna ekki að umgangast fólk – meira að segja konur. Enda myndi Katrín Jakobsdóttir vafalaust hafna mér sem frambjóðanda VG.

Ég komst að því fyrir tilviljun, að ég eigi systur í kossatrúnni í hinni fögru Sidney-borg í Ástralíu. Það er einmitt fyrrgreind Prudence. Hún skrifaði grein um efnið fyrir tveim árum síðan. Greinin er afar athyglisverð og á erindi við kynlemstraðar konur „ég-líka“ bylgjunnar á Íslandi og (okkur) karlpungana, sem statt og stöðugt gera þeim lífið leitt.

Prudence segir m.a.: „Stöðva verður kossaleikinn. … Okkur er öllum kunnugt um, hvernig hann fer fram. … [K]arlinn hallar sér að grunlausri konunni og dregur hana að sér [og] mundar varirnar til innrásar í ásjónurými hennar. Og vel að merkja, nær ævinlega í viðurvist annarra. … [Hann hnykkir] til höfðinu og [rekur henni koss] á kinnina, menguðum sýklaslefi. [Kinnin] skreppur saman. Úr munni hans gýs andremman (unflossed) …“

„Opinberi kossinn, sé hann óumbeðinn, er drottnun. Ætlunin er að auðmýkja. Já, voldugar konur verða oft fyrir kossaágangi karla, sem finna hjá sér þörf til að halda þeim á þeirra skör. Þeir sýna þar með eigin yfirburði.“

„Hvernig getum við tryggt, að dætur okkar öðlist þá trú, að þær séu í rétti til að afþakka kynferðislega ágengi, alist smástelpur upp við þá trú, að þeim sé um megn að verjast innrás í einkarýmið? … [Karlar] þrýsta litlum stúlkum áfergjulega að sér (squish against), kossaregnið er látið dynja á þeim (smatter) og almennt er ætlast til, að þær semji sig að ásetningi annarra frá blaut barnsbeini.“

Prudence mælir manna heilastur. Það er heillavænlegast, að konur séu yfirleitt ekki snertar, nema að fengnu samþykki, sem hefur sönnunargildi, að snertingu lokinni. Nú er góðu heilli unnið að fullkomnun smáforrits, sem karlar, áhugasamir um snertingu við konur, geta fært sér í nyt. Þar er konu gert kleift að samþykkja sérhverja snertingu karls. Forritið sendir samstundis boð um, hvað sé á seyði, til embættis Landlæknis og kynferðisafbrotadeildar Ríkislögreglustjóra.

Einfaldara og ódýrara er þó, að snerta konur alls ekki. Nú er komnar á markaðinn dúkkur, hentugar til þess arna. Í nafni jafnréttis er konum einnig boðið upp á dúkkur. Þær þurfa þó að blása lífi í fyðilinn bókstaflega, vilji þær verulega ágengni og „innrás.“ En við slíkt ástalíf verða þær þó að minnsta kosti ekki fyrir kynferðislegri áreitni, nema framleiðslan feli í sér kynfólsku.

https://www.smh.com.au/national/the-kiss-let-s-revise-the-rules-of-engagement-20190903-p52nmn.html


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband