Barátta hetjunnar, karlmannsins, við drekann, snýst um að frelsa sjálfan sig og mannkyn allt, frá Miklu móður. Eða öllu heldur hinum illa og dimma eðlisþætti hennar.
Í bók Jóns Gíslasonar (1909-1980) skólastjóra og þýðanda grískra bókmennta, Goðafræði Grikkja og Rómverja, frá árinu 1944, má lesa þennan fróðleik: Hetjur og menn eru ekki í eðli sínu mjög frábrugðnar hvorir öðrum, nema hvað hetjurnar eru gæddar svo miklu líkamlegu atgervi, að venjulegir dauðlegir menn hafa sjaldan neitt svipað til að bera. Engan veginn voru allir menn hinnar sagnauðugu fortíðar taldir hetjur. Það voru aðeins afburðarmennirnir, ættfeður höfðingjanna, er með afreksverkum sínum höfðu rutt úr vegi hindrunum menningarinnar: frelsað landið úr heljargreipum villtra ræningja og skaðsemdardýra, þurrkað upp fen, yrkt skóga og beizlað ár í föstum farvegum. Í verkum sínum birtast þeir öðrum mönnum máttugri og virðast því vera synir guða, af æðri uppruna en meginþorri venjulegra manna, sem skapaðir höfðu verið úr leir eða kviknað höfðu af steinum eða trjám.
Þar má einnig lesa um hina grísku Persefónu og Bellerófon:
Í Persefone undirheimagyðju eru fólgnir tveir andstæðir eðlisþættir. Annars vegar er hún sem drottning undirheima mikilúðlegt og ægilegt goð, því að hún dregur allt lifandi miskunnarlaust niður í hið dimma djúp, enda voru grafir nefndar herbergi Persefone. Þessi skoðun er ríkjandi hjá Hómer og öðrum [forngrískum] söguljóðaskáldum. Hún stendur þeim fyrir hugskotssjónum sem hin ósveigjanlega drottning í gleðisnauðu ríki draumheima, og er ekki svo aumlegt hlutskipti til á jörðinni, að það sé ekki marfalt betra en vistin þar.
Hins vegar er hún Kore, hin ljúfa mær, dóttir hinnar blessunarríku móður jarðar, ljós ímynd þess mikla sköpunarmáttar, sem ár hvert knýr gróðurinn upp úr moldinni. Það var því ofur eðlilegt, að hugmyndir manna um ódauðleika sálarinnar tengdust þessum eðliþætti gyðjunnar.
Sagan um Bellerófon hefur sérstaka skírskotun á okkar tímum, þar sem þráhyggjan um kynbundið ofbeldi tröllríður hugun manna og er snar þáttur í andlegu lífi kvenfrelsara og Alþingismanna:
Fyrir víga sakir varð hann að flýja átthagana og komst undan til hirðar Proitosar, konungs í Tirynsborg. Hans drottning var Stenoboia, dóttir Iobatesar, konungs í Lykíu. Stenoboia varð ástfangin í Bellerófon. En er sveinninn vildi ekki þýðast hana, rægði hún hann við Proitos og sagði, að hann hefði ætlað að beita sig ofbeldi. Sendi Proitos þá hetjuna til Iobatesar, tengdaföður síns, með samanlagt spjald, sem á voru ristir helstafir, þ.e. dauðdómur yfir Bellerófon. En Lýkíukonung skorti hug til að fram fylgja þeim dómi sjálfur. Lagði hann þess í stað fyrir hann að vinna óvættina Kimeru, ljón að ofanverðu, dreka að neðanverðu, en hauðnu í miðju. Með aðstoð goðanna tókst Bellerófon að bana þessari ófreskju. Sendu þau honum vængjaðan hest, Pegasos, sem Aþena hjálpaði honum með að temja við bitil. (Jón Gíslason)
Þessi forna, gríska sögn, hefur beina skírskotun til nútímamenningarinnar samtímis því að lýsa baráttu mannkyns fyrir tendrun heimsljóssins, skilningsljóssins, menningarljóssins, baráttunni við hið illa eðli, lýst sem viðeign hinar karlkenndu, hugprúðu og hugljómuðu hetju, sem baðar sig í kvenkenndu ljósi góðu gyðjunnar, alúðarmóðurinnar, Aþenu, og þiggur af henni styrk. Aþena er verndari og frömuður allrar andlegrar viðleitni, vizku og snilli. [Hún er] hin herskáa og hervædda skjaldmær, (Jón Gíslason)
Svipaðir sagnir eiga flestar menningarþjóðir. Germönsk og norræn menning geymir fjöldann allan af lærdómsríkum arfsögum. Sagan um Sigurð Fáfnisbana, skráð í Völsungasögu, er ein þeirra. Þar segir frá ástum, svikum í tryggðum, fjölkynngi kvenna, flærð þeirra og samkeppni, hefndardrápum þeirra á börnum, stjúpu, sem eitrar fyrir stjúpsyni sínum, konum, sem kjósa það hlutskipti að láta sig brenna með körlum sínum, eðlun systkina, vígaferlum, mannáti, blóðblönduðum eiturmiði og átökum kónga.
Hjördís, móðir Sigurðar Fáfnisbana, hafði átt ástarfar við bróður sinn að yfirlögðu ráði: Það er nú sagt að Hjördís fæðir sveinbarn og er sveinninn færður Hjálpreki konungi. Konungurinn varð glaður við er hann sá þau hin hvössu augu er hann bar í höfði og sagði hann öngum mundu líkan verða eða samjafnan og var hann vatni ausinn með Sigurðar nafni. Frá honum segja allir eitt, að um atferð og vöxt var engi hans maki. Hann var þar fæddur með Hjálpreki konungi af mikilli ást. Og þá er nefndir eru allir hinir ágætustu menn og konungar í fornsögum, þá skal Sigurður fyrir ganga um afl og atgervi, kapp og hreysti, er hann hefir haft um hvern mann fram annarra í norðurálfu heimsins.
Í fyllingu tímans lagði hetja vor til atlögu við orminn skelfilega: Og er ormurinn skreið til vatns varð mikill landskjálfti svo að öll jörð skalf í nánd. Hann fnýsti eitri alla leið fyrir sig fram og eigi hræddist Sigurður né óttast við þann gný. Og er ormurinn skreið yfir gröfina þá leggur Sigurður sverðinu undir bægslið vinstra svo að við hjöltum nam. Þá hleypur Sigurður upp úr gröfinni og kippir að sér sverðinu og hefir allar hendur blóðgar upp til axlar. Og er hinn mikli ormur kenndi síns banasárs þá laust hann höfðinu og sporðinum svo að allt brast í sundur er fyrir varð.
Eftir atlöguna hittir hann Brynhildi Buðladóttur, yndisfríða, vopnglaða og vitra völvu: Sigurður mælti: "Aldrei finnst þér vitrari kona í veröldu og kenn enn fleiri spekiráð." Eitt spekiráð Brynhildar var: Lát eigi tæla þig fagrar konur þótt þú sjáir að veislum svo að það standi þér fyrir svefni eða þú fáir af því hugarekka. Teyg þær ekki að þér með kossum eða annarri blíðu.
En Sigurður sá ekki að sér. Fyrir sakir vélráða móður Guðrúnar Gjúkadóttur gekk hann að eiga þá síðarnefndu. Brynhildur varð harmi slegin, réð Sigurði bana og gekk á líkbál hans.
Nýjustu færslur
- Fyrirgefðu mamma! Mig langaði svo að bjarga fólki. Óþverri og...
- Sælir eru einfaldir. Úkraína, öryggið og Þórdís Kolbrún Reykf...
- Rússneska Gyðingabyltingin 1917 og stríð í Evrópu. IV: Yfirbu...
- Rússneska Gyðingabyltingin 1917 og stríð í Evrópu. III: Stríð...
- Rússneska Gyðingabyltingin 1917 og stríð í Evrópu. II: Byltin...
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021