Veröld ný og góð - hið fagra framtíðarsamfélag

Milli heimsstríða reit enski rithöfundurinn, Aldous Leonard Huxley (1894-1963), merkilega bók, skáldsögu um framtíðarsamfélagið, staðleysu eða «útópíu». Nokkrar hafa áður verið skrifaðar. Skáldverk þessa merka höfundar hafa mörgum veitt innblástur. Mál og Menning gaf bókina út árið 1988. Kristján Oddsson íslenskaði.

Kynning á bókarkápu hljómar svo: ”Veröld ný og góð (Brave New World) er ein þekktasta framtíðarsaga allra tíma. Hún var skrifuð árið 1932. Höfundurinn hefur reynst skarpskyggn um marga hluti, og er saga hans tímabær hugvekja nú á tímum glasabarna og öflugrar fjölmiðlunar.

Í sögunni … er lýst Alheimsríkinu, ríki framtíðar, sem spannar alla jörðina og byggist á afar róttækri, líffræðilegri og sálrænni innrætingu eða „skyldögun“ allra þegna. Fæðing manna er úr sögunni og þykir dónaleg tilhugsun – öll börn eru getin í glösum. Stéttaskipting er líffræðilega ákvörðuð og kynlíf markað af reglunni Allir eiga alla.

Bernhard Marx og Lenina Crown fara í skemmtiferð á amerískt verndarsvæði og hafa heim með sér framstæðan mann, villimanninn, sem verður eins konar sýningargripur í Alheimsríkinu. Hann fær hvorki útrás fyrir áhuga sinn á listum, trúhneigð né ást í hinni nýju og góðu veröld. Af því skapast undarleg atburðarás.“

Í sögunni ber ýmislegt nýtt fyrir augu (eða gamalt vín á kunnuglegum belgjum) eins og múgsefjunarfræðinga, villimannaþjóðgarð, klakstöð, endurskyldögunarstöð, sambura, samlyndismessu, svefnskóla, dákennslu, getnaðarígildi, múgsefjunarháskóla, girndarígildismeðferð, áróðursskrifstofur og fengimeyjar.

Sagan hefst í Klak- og skyldögunarstöð Mið-Lundúna, nánar tiltekið í frjóvgunarsalnum. Forstjóri þessarar merku stofunnar, mikilmennið, fer fyrir hópi nýnema. Þeir eru „náfölir, taugaóstyrkir, og næstum lotningarfullir, fylgdu fast á hæla“ hans. „Sérhver þeirra var með stílabók, sem hann hamaðist við að skrifa í í hvert skipti sem hinn mikli maður opnaði munninn. Beint af vörum Mikilmennisins.“

Í Klakstöðinni eru framleiddar hamingjusamar mannverur. Forstjórinn útskýrir: „[E]ins og allir vita, þá verða menn dyggðugir og hamingjusamir af að huga að hinu smáa, víðsýni og alhæfing eru ill nauðsyn. Það eru ekki heimspekingar, heldur smásálir og frímerkjasafnar sem eru máttarstólpar samfélagsins.“

Lögð er áhersla á gott úrval í mannræktuninni: „Þess vegna leyfum við um það bil 30% kvenfóstranna að þroskast eðlilega. Hin fá skammt af karlhormón… „ Árangurinn: „Þau koma úr flöskunum sem kynleysingjar, alveg eðlileg að líkamsbyggingu (nema þau hafa örlitla tilhneigingu til skeggvaxtar) … en ófrjó.“

Forstjórinn: „[Þ]að er lykillinn að hamingju og dyggð að elska örlög sín, nauðugur viljugur. Öll skyldögun beinist að því að láta fólk fella sig við sín óumflýjanlegu, þjóðfélagslegu örlög. … Skyldögun er fólgin í því að maður gerir ekkert nema það sem á að gera. Og allt sem menn gera er svo skemmtilegt og þægilegt, frjálsræðið svo mikið að engar freistingar eru til að standast. Ef svo ólíklega vill til að eitthvað óþægilegt kæmi fyrir þá höfum við alltaf soma til að grípa til, það losar okkur við öll óþægindin. Soma er alltaf við hendina til að sefa menn ef þeir reiðast, sætta þá við óvini sína og gera þá þolinmóða og umburðarlynda.“

Fóstur eru framleidd til að gegna ákveðnum hlutverkum. Eftirtektarverð er framleiðsla þotuverkfræðinga: Forstjórinn útskýrði, að sérstakur tækjabúnaður héldi flöskum [ræktunarglösum] þeirra á stöðugum snúningi til þess að auka jafnvægisskyn þeirra. „Það er erfitt að stunda viðgerðir utan eldflaugar úti í geimnum. Við minnkum næringargjöfina þegar þeir snúa höfðinu upp, þannig að þeir hálfsvelta, en tvöföldum næringargjöfina þegar höfuðið veit niður. Á þann hátt tengja þeir vellíðan þeirri stöðu, já eiginlega eru þeir þá fyrst alsælir þegar þeir standa á höfði.“ Hér gætir greinilega kenninga rússneska lífeðlissálfræðingsins, Ivan Pavlov (1849-1936) og norður-ameríska sálfræðingsins, John Broadus Watson (1878-1958) um óvirka skilyrðingu. Sá síðarnefndi hélt því reyndar fram, að móta mætti mannveruna eins og leir með því að stjórna því, hvernig hún væri skilyrt.

Og norður-ameríski snillingurinn, Burrhus Frederic Skinner (1904-1990), sem ól á sams konar hugmyndum, er heldur ekki langt undan í Alheimsríkinu. Þar er kenningu hans um virka skilyrðingu beitt, m.a. við að venja börnin við dauðann. Á sjúkrahúsi hinna deyjandi, en í Heimsveldinu deyja allir um sextugt, eftir hamingjusamt og heilbrigt líf: „Þar er mikið og gott úrval leikfanga og þegar einhver deyr fá þau súkkulaði með rjóma. Þeim lærist að taka dauðanum sem eðlilegum hlut. Eins og hverri annarri lífeðlislegri framvindu.“

Innræting hvítvoðunganna fer fram í sefjunarsölum, sem forstjórinn alvitri kallar „mesta siðunar- og þjóðnýtingarafl allra tíma.“ Stefnt er að því, að hugur barnsins verði sefjunin „og sefjunin í heild er hugur barnsins. Og ekki aðeins hugur barnsins, heldur líka hugur þess þegar það er orðið fullorðið – allt þess líf. Mannhugurinn, sem dæmir, þráir og ákvarðar – hann er byggður upp af þessari sefjun. En öll þessi sefjun er runnin undan okkar rifjum … sefjanir frá Ríkinu.“

Sálfræðingar eru innan handan, þegar „viðgerða“ er þörf. Lítill pjakkur, sem sýndi óyndi í kynleikjum við sambura sinn af kvenkyni (barni úr sömu ræktunarlotu), þurfti á hjálp að halda. Það fylgdi þó ekki sögunni, hvort hann væri með áfallastreituröskun. Barnfóstran segir: „Ég ætla að fara með hann til aðstoðarforstjóra sálfræðideildarinnar til að vita hvort eitthvert óeðli sé í stráknum.“ Líklega hefur hann þegið hugræna atferlismeðferð, því hún sýnir sannreyndan árangur, að sögn þeirra, sem ekkert annað kunna.

Forstjórinn fræðir nemendur sína um „guðinn,“ Ford: „Okkar Ford – eða Freud, eins og hann var vanur að kalla sig af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þegar hann fjallaði um sálræn efni – okkar Freud var fyrstur til að fletta ofan af skelfingum fjölskyldulífsins. Heimurinn var fullur af feðrum – þess vegna fullur af eymd, alls staðar voru mæður – þess vegna blómstraði óeðli, allt frá sadisma [kvalalosta] til skírlífis. Heimurinn úði og grúði af bræðrum og systrum, frændum og frænkum – fullur af brjálæði og sjálfsmorðum.“ (Hér er vafalítið skírskotað til bifreiðajöfursins, Henry Ford (1863-1947), sem tók færibandið í notkun, og Sigmund Freud (1856-1939), upphafsmanns sálkönnunar.)

Þeir, sem efast um rétttrúnað og innrætingu, sæta refsingum, annað hvort sendir í endurskyldögunarstöð eða til Íslands. Forstjóri gefur undirtyllu ákúru: „Ef ég frétti nokkurn tíma framar að þér víkið frá réttu og stöðluðu líferni mun ég óska eftir að þér verið fluttur til einhverrar undirstöðvar – helst til Íslands.“

Villimannanýlendurnar eru áhugaverðar. Þar er fjölskyldan greinilega enn við lýði. Forstjórinn lýsir hinu forna heimili: „[F]áein lítil herbergi, ódaunn, nokkrar manneskur kúldrast saman, maður, kona (sem oftast var ófrísk) og skari af krökkum á öllum aldri. Loftleysi, þrengsli, óheilnæmt fangelsi. Myrkur, sjúkdómar, ólykt.“

Villimaður úr nefndri nýlendu er gestur í Heimsveldinu og spyr í sífellu eins og Lísa í Undralandi. Honum brestur skilningurinn. T.d. fær hann svofellt svar við fyrirspurn sinni um mismun lífsins nú og á tímum Óþelló (sögupersóna í leikriti breska leikritsskáldsins, William Shakespeare (1564-1616)): „Heimurinn er stöðugur núna. Allir eru hamingjusamir, allir fá allt sem þeir vilja og vilja aldrei neitt sem þeir geta ekki fengið. Mönnum gengur vel og þeim er borgið. Þeir eru aldrei veikir og óttast ekki dauðann. Þeir hafa ekki hugmynd um hvað ástríða eða elli er. Þeir eru ekki háðir eða plagaðir af foreldrum. Þeir eiga hvorki eiginkonur né börn, ekki heldur ástmeyjar sem gætu komið róti á hugi þeirra. Í stuttu máli sagt, þeir eru skyldagaðir þannig að þeir geta ekki hagað sér á annan hátt en þeim ber að gera. En ef eitthvað fer úrskeiðis þá höfum við soma.“ Soma er eins og fyrr er drepið á, sæluefni, drukkur eða -töflur.

Í samtali söguhetja ber vísindi á góma, en í dákennslunni var kennt, að þau væru undirstaða alls. Sögumaður: „Ég var ágætis eðlisfræðingur í eina tíð, kannski of góður því ég komst fljótt að raun um að öll okkar vísindi voru aðeins matreiðslubók með réttum uppskriftum sem enginn mátti dirfast að vefengja og engu mátti bæta í nema með sérstöku leyfi frá yfirmatreiðslumanninum.“

Það er í senn gagnlegt og fróðlegt að bera saman hugarflug Aldous árið 1932 og tilhneigingar í þróun samfélags vors í dag. Kynlífsbyltingin átti sér stað um þrem áratugum síðar og festist að einhverju leyti í sessi með byltingum í getnaðarvörnum.

Enda þótt upplausn fjölskyldunnar í sæluríki byltingarmanna í Austur-Evrópu tækist ekki sem skyldi, festi boðorðið rætur á Vesturlöndum. Það gerði einnig fullyrðingin um frelsunarmátt launavinnu – einkum fyrir konur. „Arbeit macht frei,“ sagði Adolf Hitler (1889-1945). Þennan boðskap tóku kvenfrelsarar annarrar bylgju kvenfrelsunar að hjarta sér, sem og þann, að hið opinbera ætti að sjá um uppeldi barna. Auðhyggjumenn sáu sér leik á borði og fjármögnuðu baráttu kvenfrelsaranna. Afleiðingin var sú m.a. að ódýr vinnudýr streymdu út á vinnumarkaðinn með hlutfallslegri lækkun launa og auknum kostnaði fyrir heimilin.

Öfgahreyfingar kvenfrelsaranna sá Aldous ekki fyrir, en engu að síður sá hann fyrir sér þá hina sömu æxlunar- eða undaneldisstjórnun, sem þá dreymir um, þ.e. fækkun karla niður í um tíunda hluta mannkyns. Innræting á vegum hins opinbera er um það bil að verða að veruleika, enda þótt hún eigi sér ekki stað í dásvefnsölum enn sem komið er. Alþingismenn hamast við að semja alls konar stefnumótanir og smáatriðalög og reglugerðir. Ofbeldisfjölmiðlun boðar rétta kvenfrelsunartrú. Trúin á karldjöfulinn skýtur öðrum trúarbrögðum ref fyrir rass. Samfélag kynleysingjanna er í burðarliðnum samfara aukinni áherslu hins opinbera á ofsóknir gegn körlum (sérstaklega feðrum), á uppeldi barna og á upplausn fjölskyldunnar.

Alheimsríkið virðist einnig í burðarliðnum. Hin auðugu kvenfrelsunarsamfélög Vesturlanda munu væntanlega verða kjarni þess. Þrátt fyrir viðspyrnu í Mið-Austurlöndum, Austur-Asíu og Austur-Evrópu mun auðhyggju- og kvenfrelsunaráróður hola andspyrnuna eins og dropinn steininn. Sameinuðu þjóðirnar eru nú þegar vígvöllurinn, þar sem hikandi þjóðir „þriðja heimsins“ eru beittar skefjalausu efnahagslegu og hugmyndafræðilegu ofbeldi. En það er dynur fyrir dyrum. Vel kynni svo að fara, að efnahagslegt veldi Vesturlanda hrörni, þegar karlar missa flugið í auknum mæli. Efnahagslegur vöxtur og menning hefur verið knúin afli karlanna. Enn sjást ekki sannfærandi merki þess, að konur muni taka við því kefli. Kvenfrelsunarvísindamenn stunda um þessar mundir niðurrif (deconstruction) í algleymi.

Alvöru vísindi standa þegar höllum fæti. „Kvenfrelsunarmatreiðsla“ þeirra er algeng. Sumar greinar samfélags- og hugvísinda eru þegar mettaðar kvenfrelsunarhugmyndafræði og kvenfrelsarar eru í óða önn að aðlaga raunvísindin sömu hugmyndafræði, þ.e. sannleikurinn er það, sem kona hefur hugboð um, og standi konur höllum fæti, skal minnka kröfur um námsgetu.

Lyfjatæknileg stjórnun hátternis og sálar er þegar langt komin. Það er ekki ólíklegt, að um helmingur þjóðarinnar neyti ýmis konar lyfja til að halda sjálfu sér og kerfunum gangandi. Óhamingja kvenna er í því efni áberandi og þörfin til að hemja drengi frá unga aldri. Líklega þætti það afspyrnu púkalegt að ganga um með stílabók í dag.

Líklega veldu nemendur eins hvers konar hugsanaskrásetjara, þegar nema ætti orð hinna vísu. En það verður aðalgyðja, en ekki forstjóri.

Það er spaugilegt að Aldous hafi valið Ísland sem útlagaeyju. Það var hún að vísu fyrir þúsund árum eða svo. Hvernig hefði hann með nokkru mót getað séð fyrir, að þar yrði stofnuð ofurjafnréttisparadís jarðarbúa, án tillits til höfðatölu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband