Grýluveldið

Sögu hugans má greina í sameiginlegri dulvitund mannkyns, óminnisdjúpinu. Dulvitundin birtist í goðsögnum og trúarbrögðum, sem í fyllingu tímans rötuðu inn í forna speki, bókmenntir, þjóðsögur og ævintýri. Fornleifar hafa einnig merka sögu að segja. Þær elstu eru um fjórtán þúsund ára gamlar.

Nú, þegar afdrifaríkra straumhvarfa gætir í vestrænni menningu, er ekki úr vegi að skoða þessa sögu. Það mætti hugsanlega eitthvað af henni læra um tilurð menningar, kynja og sjálfs.

Í upphafi var myrkvað frumhvolfið, einatt táknað með baugi. Foreldrar alls, himinn og jörð, greindust að. Frumbyggjar Nýja-Sjálands nefndu þá Rangi og Papa. Í þeim áttu öll fyrirbæri náttúrunnar, guðir og menn, upphaf sitt.Í sköpunarsögunum er foreldrunum almennt lýst sem tvíkynja (hermafrodite) veru.

Í indversku trúarritunum (Upanishad) stendur: „Við upphaf veraldarinnar var Sálin (Atman) alein í mynd veru. Þegar hún svipaðist um, bar ekkert fyrir augu, nema hana sjálfa. Fyrst varð henni að orði: „Ég sjálf.“ … Í rauninni var hún eins mikil um sig og kona og karl, samslungin. Veran skipti sér í tvennt. Þannig urðu til eiginkarl (pati) og eiginkona (patni).“ Andstæður höfðu skapast. (Erich Neumann: Uppruni og saga vitundarinnar.)

Í hugarheimi mannkyns varð frjómagn jarðar að konu. Á annan bóginn var jörðin tengd frjósemi, visku, viðgangi, vexti og veiðum, en á hinn bóginn eyðileggingu, tortímingu, stríði og gleypni. Það er kvenlyndið, kvensálin. Aftur á móti var himininn gæddur föðurlegum eigindum, frjósemi, andagift og stríði. Það er karlsálin, karllyndið.

Sundurgreiningin opinberast í táknum. Jörðin varð Mikla móðir. Hún var fjöllynd og hafði margar ásjónur. Tunglið varð dæmigert móðurtákn, svo og ýmis konar holrými og dýr eins og kýr, gylta og dreki. Himinn varð faðir. Dæmigerð tákn föðurins eru sól, snákur, uxi og hross. Fuglinn var sérstakt tákn frjóvgandi andvara. Hann varð að orði himnaföður.

Frjósemi skipaði skiljanlega stóran sess í lífi frummannsins. Honum varð ljóst, að regnið skipti meginmáli fyrir jarðargróðann. Það skýrðist enn frekar, þegar konurnar fóru að stunda landbúnað fyrir rúmlega tíu þúsund árum síðar. Blóð og sæði öðluðust töframátt, bæði í tengslum við æxlun og landbúnað. Blóð var nauðsynlegt fyrir gróður jarðar. Því urðu til frjósemishátíðir.

Í upphafi var fólki fórnað, síðan dýrum, guðir blótaðir. Frjósemishátíðir fólu í sér kynlífs- og átsvall. Þar réði kvensálin ríkjum í ógnarafli og algleymi dulvitundarinnar, sem einkennist af taumleysi, draumórum og tortímingu. Þessi ásýnd Miklu móður er ófreskjan eða drekinn. Á vesturlöndum er hokin, skorpin og hrum kerling táknmynd hennar, íslenska Grýla lifandi komin.

Á frjósemishátíðunum var reðurátrúnaður áberandi. Gyðjur skreyttu sig skeggi og belli til að öðlast karlmáttinn. Reðir karla og dýra voru þurrkaðir til blóta. Konurnar rifu í sig karlana og drukku blóð þeirra. Útvöldum körlum var einkum fórnað, t.d. konungum, sem þótti skorta frjósemi. Það sama átti við um börn. Það er ekki nema rétt öld síðan, að mannát var bannað í Eyjaálfu sem og sá siður frumbyggjamæðra í Ástralíu að deyða frumburðinn og leggja sér til munns til að glæða frjósemi sína.

Á frumskeiðum sögunnar virðast konur að töluverðu leyti hafa ráðið ríkjum í veröldinni, þ.e. kvensálin, kvenaflið, kvenlyndið. Kvenræðið var umgjörð mannlífsins. Fólk lifði og hrærðist í algleymi dulvitundarinnar. Gildi karla fólst í frjósemi, vernd og fæðuöflun. Þeir voru fylgi-, ást- og reðursveinar kvenna.

Veiðar stuðluðu af hópmyndun meðal karla, bræðralag og karlmannsvígsla sá dagsins ljós. Lögð var áhersla á þrótt til sálar og líkama - og tengsl við lífsandann á himni, hinn glæðandi frjóvgunaranda, andvarann, sem fyrir tilstilli sólar blés körlum í bjóst áræði og andagift og frjóvgaði konur. Það örlaði á vitund, frumglæði einstaklingssjálfsins.

Maður árroðans var í burðarliðnum, fyrsti vísir menningarinnar. Háleit karlmennska hafði kviknað. Afreka hennar gætir nú hvarvetna. Baráttunni fyrir sjálfstæði frá dulvitundarfrenjunni, styrkingu sjálfsins, er dæmigert lýst sem viðureign hetjunnar við drekann. Það er leitin að hinu torfundna, stundum hinni eftirsóknarverðu konu, sem skiptir sköpum fyrir þroskun vitundar og sjálfs.

Hetjan er karlkennd, en oft er hin góða móðir bandamaður hennar, t.d. í líki systur. Þessi ásýnd Miklu móður birtist sem Soffía eða Fjallkona. Viska Miklu móður birtist Grikkjum sem viskugyðjur. Þegar forngríski spekingurinn, Sókrates, barðist við drekann, kenndi Díótíma frá Mantíneu honum um ástina. Sókrates kenndi skynsemi, Díótíma ást. Þau eiga enn brýnt erindi í mannheimum.

Nú eru viðsjár. Vestræn menning á undir högg að sækja. Grafið er undan skynsemi, þekkingu, rökum og vönduðum vísindum. Í nafni réttrúnaðar er fólk þaggað niður og því útskúfað og dæmt í útlegð. Grýla kyrjar sinn ófagra söng.

Þeirra er þörf.

Birtist í Morgunblaðinu 20. apríl 2021


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband