Mikla móðir 5: Vitundarvakning karla

Svissneski fjölfræðingurinn, Johann Jakob Bachofen (1815-1887) mælti svo í bók sinni, „Móðurréttinum“ (Mutterrecht): „Þegar drengur skríður úr skauti konu, verður móðirin furðu lostin við hina nýju sýn. Því það rennur upp fyrir henni, að í mynd sonarins búi hún yfir afli frjóseminnar, sem skýrir móðureðli hennar. Í fögnuði virðir hún fyrir sér limi sveinstaulans. Karlinn verður leikfang hennar, geitin reiðskjótinn og fyðillinn fylgisveinninn tryggi.“

En það kemur að því, að sveinninn rumskar og veltir vöngum yfir hlutskipti sínu. Á gelgjuskeiðinu í sögu karlvitundarinnar örlar á sjálfstæðri hugsun. Í verki sínu um uppruna og sögu vitundarinnar segir Erich Neumann: „Það er reynslan af þeim heimi, sem J.J. Bachofen lýsti sem móðurveldi [Mutterrecht] með móðurgyðjum og örlögum [þeirra], að mannkynssjálfið fer að rumska. [Það rennur upp fyrir því, að] illgjarna, ætandi móðirin og móðirin góða, örlát á hlýju sína, eru tvær ásýndir frummóðurgyðjunnar (uroboric), sem ræður ríkjum á þessu skeiði.“ … „Kvenveldi Bachofen markar skeið, þar sem sjálfsvitundin er vanþroskuð og enn þá samofin náttúru og veröld.“ (EN)

„Á þessu [ofannefndu] gelgjuskeiði sjálfsins er áberandi, að reynsla af konunni, ásjónu Miklu móður, einkennist af neikvæðri hrifningu. Tveir drættir [ásjónunnar] eru sérstaklega algengir og skýrir: Í fyrsta lagi er um að ræða blóðþorsta og grimmd í eðli Miklu gyðju, í öðru lagi mátt hennar sem seiðkonu og norn.“ (EN)

„Hvergi má betur sjá merkingu kvengoðsins. Ástríðuþrungið kveneðlið í trylltu hömluleysi er hræðilegt körlum og vitund þeirra. Sú hætta, sem körlum stafaði af lostasemi kvenna var í árdaga raunveruleg, enda þótt lítið hafi verið úr henni gert [eða] hún misskilin og bæld á feðraveldistímum. Enn býr hræðslan [við hana] í djúpi þróunarhugskotsins hjá sérhverjum karlmanni á gelgjuskeiði …“ (EN)

Fyrir bragðið magnast hún upp hverju sinni, sem á hræðslunni örlar í vitundinni, og reynt er að bæla hana niður. Vitundarvakning karlkynsins knúði fram breytingar, „feðraveldið“ var í burðarliðnum. “Samkvæmt skilningi Bachofen fólst í hugtakinu, föðurveldi, heimur anda, sólar, vitundar og sjálfs, sem að mestu voru karlkennd [fyrirbæri]. Aftur á móti einkenndist móðurveldi af yfirráðum dulvitundarinnar. Áberandi þættir í því sambandi eru hugsun og tilfinningar, því marki brenndar, að vera ópersónubundnar og ófullburða, hvað vitund og skynsemi áhrærði (prelogical, preconscious).” (EN)

Feðraveldið skipti sköpum í mannkynssögunni: “[Sú þróun] er algild og nauðsynleg í mannkynssögunni, að feðraveldi leysi mæðraveldi af hólmi. … Föðurvaldið er óumdeilanlega nauðsynlegt menningunni og þróun vitundarinnar. [Það] er frábrugðið móðurvaldinu að því leyti, að það er í eðli sínu afstætt, skilyrt aðstæðum hverju sinni (day and generation), og hefur ekki hið afdráttarlausa yfirbragð móðurvaldsins.“ (EN)

Hinn franski Alexandre Moret (1868-1938), prófessor í egypskri menningu, talaði í bók sinni, „Ráðgátum Egypta“ (Mystéres Égyptiens) ekki um móðurveldi, heldur um „móðurlífskerfi.“

Erich segir: „Moret braut til mergjar hrörnun þessa „móðurlífskerfis“ í móðurveldinu. Hann talar um „þróun samfélagsins frá móðurlífskerfi, þar sem sérhver kona ættbálksins trúir því, að hún hafi verið frjóvguð af ættartákninu [totem – venjulega dýr eða andi], til föðurkerfis, þar sem eiginkarlinn er raunverulegur faðir,“ og hann tengir þessa umbreytingu við þróunina frá ættbálki til fjölskyldu og frá samfélagslegum yfirráðum til einstaklingsins og þroskunar hans.“

Eins og ýjað er að, er mótun og þróun sjálfsins frumskilyrði vaxtar og viðgangs menningar. Svissnesi greiningarsálfræðingurinn (analytiche psychologe), Carl Gustav Jung (1875-1961) skilgreinir sjálfið svoleiðis: “Sjálfið er samtímis inntak og skilyrði vitundarinnar, því þáttur í vitundinni er mér meðvitaður, að svo miklu leyti, sem hann er tengdur sjálfskerfinu. En að því marki, að sjálfið sé eingöngu miðdepill vitundarinnar, er það ekki samnefnari gjörvallrar sálar minnar, heldur eitt sálarkerfi (complex) af mörgum.“ (Psychological Types - EN)

Erich útskýrir nánar: „Upphaflega var sjálfið einvörðungu „líffæri“ dulvitundarinnar, knúið áfram og stjórnað af henni – og beitti sér í þágu hennar, hvort heldur var um að ræða einstaklingsbundin og lífsnauðsynleg markmið eins og að seðja hungur og svala þorsta - eða fullnægja eðlishvötum tegundarinnar eins og þeim, sem stjórna sjálfinu í kynlífi.“ (EN)

Sköpun, kerfisbundin rökvísi og agi andspænis dulvitundinni, er eitt megineinkenna sjálfsins og að mörgu leyti forenda menningar. „Sköpunarkraftur vitundarinnar er meginþáttur arfleifðar (canon) vestrænnar menningar. Í vestrænni menningu og að hluta til einnig í menningu hins fjarlæga austurs, má lesa stefnufasta þróun menningarinnar um síðustu tíu þúsund árin, enda þótt rykkjótt hafi verið á köflum.“ (EN)

„Aðeins getur maðurinn skilið í ljósi vitundarinnar. Og þetta starf hugans, aðgreining í vitund, skilur heiminn í sundur í andstæður, því einungis má öðlast skilning á veröldinni við hjálp andstæða.“ (EN)

Þannig hefur vitundin rifið sig lausa frá dulvitundinni, frelsast. „Gróandi í sjálfstæði karlmennskunnar, sem í upphafinu var mjór vísir, ásamt kerfisbundinni þroskun sjálfsvitundarinnar, voru meginþættir í [téðri frelsun].“ Konur eiga sem helmingur mannkyns hlut í þroskun vitundar og sjálfs: „Við höfum lýst sjálfskerfi vitundarinnar sem „karllegu“ – hugtak, sem ræðst af goðsögnum, en ekki af duttlungasemi. [Það] býr jafnt í konum [sem körlum] og þróun þess er jafn mikilvægt menningu hennar eins og karlsins.“ (EN)

Engu að síður er í þessu sambandi munur karla og kvenna: „En í þessu viðfangi verður að benda á eðlislægan mun á gerð karla og kvenna, sem aldrei hefur verið nægilegur gaumur gefinn. Í brjósti karlmannsins býr sú furðulega tilfinning, að hann sé á heimavelli í karlgerð vitundarinnar og að hin „kvenlega“ dulvitund sé honum framandi. [Aftur á móti] líður konunni eins og heima væri í dulvitundinni. Vitundin kemur henni ókunnuglega fyrir sjónir.“ (EN)

Fjöreggi sjálfs og menningar er í stöðugri hættu: „Sköpunarkrafti vitundarinnar má stefna í hættu við alræði af trúarlegum eða stjórnmálalegum toga, því sérhver valdboðsþráhyggja í menningu (canon) getur af sér ófrjósemi vitundarinnar.“ (EN)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband