Mikla móðir á sér margar ásjónur. Erich Neumann segir í bók sinni um uppruna og sögu vitundarinnar: Mikla móðir er hræðileg og gleypin, heillavænleg og skapandi. [Hún er] hjálpsöm, en einnig tælandi og tortímandi; brjálsemisseiðkona, en þó viskubrunnur. [Hún er] siðspillt og guðleg, munúðarfull skækja og ólífvænleg mey, ævagömul, en þó ung um alla eilífð.
Í gervi góðu móðurinnar er hún [Mikla móðir] fylli og gnægt, býður líf og hamingju; [hún er] nærandi jörð, nægtabrunnur hins frjósama skauts. Hún er fulltrúi eðlisreynslu mannkyns af fegurð og dýpt veraldarinnar, gyðja og yndisþokki móður jarðar, sem á degi hverjum efnir loforð um frelsun og upprisu, nýtt líf og endurfæðingu. (EN)
En það er stutt í hryllingsásjónuna: Yfirþyrmandi máttur dulvitundarinnar, sem birst getur sem hin gleypna og tortímandi ásjóna í mynd vondu móðurinnar, hvort heldur sem er hin blóði drifna gyðja dauðans, drepsóttanna, hungursneyðarinnar eða afl eðlishvatanna - eða sú aðlaðandi, sem tælir til eyðileggingar. (EN)
Að baki arfmyndinni um hina hræðilegu móður Jörð býr reynsla af dauða, þegar jörðin hrifsar til sín látna áa sína, sundrar þeim og leysir upp í þeim tilgangi að auka frjósemi sjálfrar sín. (EN)
Líf Miklu móður stjórnast af frjósemisreglunni: Goðsagnirnar segja okkur, að óhemjuskapur og blóðþorsti kvenna sé undirskipaður hærra náttúrulögmáli, þ.e. frjóseminni. [Hann á sér] ekki einvörðungu [stað] við kynsvallsteiti, frjósemishátíðir. Konur iðka einnig helgisvall í sínum hópi. Helgisiðirnir, sem fyrst afhjúpuðust í síðari tíma dulúð, snúast að mestu leyti um svallkennda sundurlimun helgidýrs eða guðlegs dýrs. Þær tæta í sig blóðuga hluta þess. Dauði þeirra [dýranna] stuðlar að frjósemi konunnar og þar af leiðandi jarðarinnar. (EN)
En menn, sérstaklega sveinar og karlar, eins og t.d. frjósemis- og ártíðakonungarnir svonefndu, fara heldur ekki varhluta af frjósemisgrimmdinni. Sundurlimun líkama Konungs árstíðanna og jarðsetning líkamsleifanna er vottur um ævagamla frjósemisfjölkynngi. Önnur hlið þessa siðar er varðveisla reðursins og smurningur, svo tryggja megi frjósemi. Dauði og sundurlimun eða vönun eru örlög hins unga guðs, reðurberans. Hvort tveggja er auðgreinanlegt í goðsögn og helgisiðum, og hvort tveggja tengist blóðugu svalli við dýrkun Miklu móður. (EN)
Allt mannlíf lýtur Miklu móður og frjóseminni. Miðdepill fórnarinnar eru æxlunarfæri karla. Norður-ameríski sálfræðingurinn, Shari L. Thurer, segir í bók sinni ,Goðsagnir um móðurgjörninginn. Hvernig menningin endurskapar hina góðu móður (The myths of motherhood: How culture reinvents the good mother): Þó undarlegt megi virðast voru konur fyrstu dýrkendur skaufans. En ekki vegna hans í sjálfu sér, heldur litu þær á reðurinn sem viðbót við gyðjuna. Hann var í þágu kynlífs konunnar ... kynnautnar [hennar].
Frjósemisguðirnir voru í þjónustu Miklu móður, fylgjugoð. Blótin, þeim til dýrðar, voru algeng um allan hinn forna heim og fram undir okkar daga. Dionýsos (Dionysus) eða Bakkus var grískur guð jarðargróða, víns, nauta, glaðværðar, brjálæðis og taumleysis. Hann er sýndur umvafinn blótkonum, aðdáendum, villimeyjum, ýmist í gervi eldri skeggjaðs karls eða kvenlegs, síðhærðs unglings. Samkvæmt arf- og goðsögnum átti hann sér hliðstæðu í Egyptalandi (Osiris) og Ítalíu (Liber). Á rómverskri styttu er hann tilhöggvinn sem tvíkynjungur.
Það voru einkum konur, sem tóku þátt í blótunum. Þau voru ærið tryllingsleg. Í algleymi slátruðu þær dýrum jafnvel körlum og rifu í sig hrátt kjötið. Síðan ólgaði hátíðin í munúðsemi og kynsvalli ungra og aldinna af báðum kynjum. Önnur tilbrigði dýrkunarinnar voru öllu friðsamlegri. Þar báru þátttakendur reðurtákn, á borð vín og fæðu, dönsuðu og sungu. Díonysos var stundum kallaður guð leiklistar. Blót af svipðum toga voru haldin á Norðurlöndum í nafni Freys. Díonysos var oft bendlaður við dauða og upprisu, rétt eins og Jahve, Jesús, síðar. Það voru einnig hliðstæðir guðir í fornum heimi. T.d. safnaði Mikla móðir, Isis Egypta, saman líkamsleifum Osiris og gerði að guði. Illu heilli vantaði skaufann, þannig að hann var táknaður með tré. Díonysos og hliðstæðir guðir bera skýrt svipmót frumforeldrana í hugskoti mannkyns, þ.e. ókyngreindu verunni, sem skiptist í karl- og kvenkyn, en getnir af Miklu móður engu að síður.
En Medea, grískra goðsagna, er kvenkyns. Medea var alræmd galdranorn, segir Jón Gíslason í bókinni, Goðafræði Grikkja og Rómverja. Hún var viti sínu fjær af ást til Jasons. Tilreiddi hún honum töfrasmyrsl, svo að eldur fékk ekki grandað honum. Í viðureign við dreka [s]væfði Medea þá með göldrum. Jason og Medea lögðu á flótta. Medea hafði og með sér ungan bróður sinn. ... brytjaði hún sveininn í sundur og kastaði líkinu lim fyrir lim í sjóinn. Í baráttu um yfirtöku konungsdæmis [n]eytti Medúsa ... hatrammlegra bragða. Taldi hún dætur hins aldurhnigna konungs á að högga föður sinn í stykki og sjóða þau í töfralegi nokkrum, er hún hafði bruggað. En Jason varð afhuga Medúsu og gekk að eiga Kreúsu. Í brúðargjöf sendi Medea Kreúsu skikkju og ennishlað. Voru gripir þeir eitraðir og urðu hinni ófarsælu brúði að fjörlesti. Drap Medea síðan börn þau, er hún hafði átt við Jasoni og flýði á gandreið til Aþenuborgar.
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021