Mikla móðir 2: Gyðjudýrkun

Arf- eða fornmynd (archetype) hinnar miklu móður hefur búið í hugskoti mannkyns frá örófi alda. Hún stjórnar enn að töluverðu leyti hugsun okkar og hegðun.

Í bók sinni um sögu vitundarinnar segir Erich Neumann: „Hún [mikla móðir] er gyðja ásta, ríkir yfir frjósemi jarðar, mönnum, búsmala og gróðri. Hún stjórnar allri tilurð og er þannig samtímis gyðja örlaga, visku, dauða og undirheima. Hvarvetna eru helgisiðir hennar þrungnir brjálsemi og taumleysi. Hún ríkir yfir villidýrum [og] öllum karlpeningi, sem í líki ljóns, nauts eða bjarnar, eru stoðir veldisstóls hennar.“ Algeng tákn miklu móður eru gylta, geit og mús.

Snákurinn, sem í eðli sínu er karlkennt tákn, er einnig tákn miklu móður. „Snákurinn er frumtákn (frumbaugstáknið – uroboros) hinnar forneskjulegustu, Miklu móður. [Hún er] freyja jarðarinnar, djúpsins og undirheimanna. Þess vegna birtist barnið, sem enn er háð henni, í líki snáks eins og hún.“ (EN)

Mikla móðir hefur örlög afkvæmanna í hendi sér. Sveina velur hún til fylgilags eða æxlunar, ásta eða fórna. „Ástsveinarnir, sem Móðirin velur, geta frjóvgað hana. Þeir geta jafnvel orðið frjósemisguðir, en í raun réttri eru þeir einungis reðursveinar Miklu móður, líkt og karlbýflugur í þjónustu drottningarflugunnar, sem eru sviptir líftórunni um leið og þeir hafa sinnt frjóvgunarskyldu sinni.“ (EN)

Í sögunni er víða að finna heimildir um frjósemisfórn og – hátíðir, sem og reðurblæti (átrúnað á frjómátt reðursins). Kynsvall var (og er reyndar enn) snar þáttur frjósemisteitanna:

„Hvarvetna eru blótsiðir í tengslum við reðurfrjósemi og kynsvall dæmigerðir fyrir Miklu móður. Frjósemishátíðir og helgisiðir að vorlagi eru helgaðir reði hins unga sveins og hömlulausu kynlífi. Réttar væri að umorða í andhverfu: Reður unga guðsins er heilagur Miklu móður. Því í upphafi var það svo, að sveinninn skipti hana engu máli, heldur reðurinn, sem hann bar. Það var fyrst síðar … að helgi hinna hræðilegu geldingarsiða vék fyrir stefi ástarinnar.“ (EN)

„Vortáknin, sveinarnir, eru í eigu Miklu móður. Þeir eru ánauðugir þrælar hennar, eign hennar, því hún hefur þá í heiminn borið. Af því leiðir, að útvaldir þjónar og goð Miklu móður eru geldingar. Þeir hafa fórnað því, sem hana skiptir mestu máli, fyðlinum. … Í hennar skilningi er ást, dauði og kvengerving eitt og hið sama.“ (EN)

Fornleifar eins og til að mynda hellaristurnar, „Dansararnir í Cogul“ í Katalóníu á Spáni, kallast á við munnlega arfleifð. Þar dansa níu konur í kringum smávaxinn karlmann með ofvaxinn böll. Þetta listaverk var enduruppgötvað árið 1908. Vönun, líkamleg og andleg, ásamt karladrápi, er þekkt bæði í goðsögnum, sögu og mannfræði. T.d. voru elskhugar drottningar í sumum afrísku kvenveldanna líflátnir í kjölfar ástarfunda. Í goðsögnunum er getið um vanaða fylgisveina Afródítar, sem færðir voru í kvenfatnað. Oft og tíðum voru þeir krúnurakaðir einnig. Trúlega hafa þeir stundum vanað sjálfa sig í tryllingslegri tilbeiðslu gyðjunnar. Kybele, jarðar- og frjósemissgyðja hinnar fornu Þrygíu (Phrygia, fornt konungsdæmi, nú í Anatolíu, Tyrklandi) tætti í sundur kynfæri kóngsbjálfa, sem lét freistast til að eðla sig með henni á fjallstoppi.

Eins og gefur að skilja er Mikla móðir alvöld, velur sér fylgisveina og „fola“ eftir geðþótta. „Í öllum reðurblótum – ævinlega höldnum af konum – er klifað á sama stefi: hinum ónafngreinda frjóvgara, reðinum í sjálfum sér. Mannlegi þátturinn, einstaklingurinn, er eingöngu reðurberi, breytilegur og umskiptanlegur, … Reðurinn er einn og samur. Því liggur við borð, að frjósemisgyðjan sé bæði móðir og mey óspjölluð, fylgikonan, [í senn] eiginkona einskis, en falbjóðandi öllum körlum.“ (EN)

“[H]arvetna í hinum forna heimi merkir meydómur einfaldlega, að [Mikla móðir, gyðjan] hafi persónulega engum karli verið gefin. Óspjölluð mey er heilög, þar eð hún er andlega móttækileg fyrir Guði, en ekki vegna óspjallaðs líkama. … meydómurinn er þýðingarmikið einkenni Miklu móður, frjósemismáttar hennar, óháð tilteknum maka. En innra með henni hrærist einnig karlkennt, skapandi afl.” (EN)

„Það má einu gilda, hverjum gyðjan sameinast helgisiðunum samkvæmt; konungi frjóseminnar, föðurnum, syninum eða ömmusyninum – eða æðstuprestum sínum hverjum og einum. Þeir eru alltaf lagðir að jöfnu, því í hennar huga merkir samræðið aðeins eitt, án tillits þess, hver reðurberinn sé. Hann [reðurinn] einn skiptir máli. Það sama á við um hofgyðjurnar eða hórurnar heilögu. Hún er fjölskautið [sjálft], enda þótt hún í raun og veru sé ævinlega ein og söm, Gyðjan eina.“ (EN)

Konur og kvengerðir karlar stunduðu vændi við hofin gyðjunni til dýrðar: „Það má einu gilda, hvort hann [karlmaðurinn] fórnar karlmennsku sinni við vönun eða í vændi. Geldingarnir eru á sama hátt og prestarnir, fulltrúar gyðjunnar. Tryllingslegt kynlífseðli hennar yfirskyggir frjósemiseðlið.“ (EN)

Sveinninn er augljóslega ofurseldur Miklu móður, gyðjunni einu. Því er sjálfstæði hans til orðs, æðis og hugsunar, varla nokkurt. „Í arfmyndinni eru skilgreind yfirráð Miklu móður yfir sjálfi sveinsins, [þ.e.] í grimmilegum þáttaskilum svallteitanna, þar sem sveinninn og reður hans er í miðju atburðarásarinnar og í kjölfarið vanaður og drepinn eins og helgisiðirnir bjóða. Enda þótt um sé að ræða sögulega og menningarlega atburði ber að skilja þá í ljósi sálrænnar þróunar sjálfsins. Tengsl sonarelskhugans og Miklu móður lýsir arfmynd, sem í dag er einnig [virk] og skýr. Frekari vöxtur vitundarinnar er háð því, að á henni sé unninn bugur.“ (EN)

Frekar verður fjallað um sjálfstæðisbaráttu sjálfsins og vöxt vitundarinnar í seinni grein.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband