Góðu strákarnir í Gaukshreiðrinu

Hildarleikur seinni heimsstyrjaldarinnar markaði þáttskil í leit mannsins að frelsinu. Samfélagsrýni millistríðsáranna elfdist. Þar komu t.d. við sögu þýskir heimspekingar og samfélagsfræðingar úr Frankfurt-hópnum við háskólann í Frankurfurt am Main (Institut für Sozialforschung); Max Horkheimer (1895-1973), Theodor W. Adorno (1903-1969) og Herbert Marcuse (1898-1979). Þeir sóttu m.a. innblástur í kenningar þýska hagspekingsins, Karl Marx (1818-1883), og austurríska sálkönnuðarins, Sigmund Freud (1856-1939), í rýni sinni. Rannsóknir hópsins gengu síðar undir nafninu, gagnrýniskenning (Kritische Theorie), og hafði víða áhrif á Vesturlöndum.

Einnig ber að nefna þýska sálkönnuðinn Erich Seligmann Fromm (1900-1980) og austurríska sálkönnuðinn, Wilhelm Reich (1897-1957), sem var áhrifamaður í verkalýðsbaráttunni og lagði grundvöllinn að svonefndum „kynlífsstjórnmálum“ (Sex-pol), sem fólst í því að vekja fólk til vitundar um kúgandi kynlífssiðferði. Hann taldi, að það væri þáttur í „oki siðmenningarinnar,“ sem læriföður hans, Sigmund, var tíðrætt um. Verk Wilhelm voru talin svo hættuleg í landi hinna frjálsu, að þau voru brennd á báli.

Fyrrgreind fræði svo og fræði hins merka franska tilvistarheimspekingsins, Jean-Paul Sarte (1905-1980), urðu hugmyndafræðilegur grundvöllur kynlífsbyltingarinnar á sjöunda áratugnum og afsprengi hennar, blómabarnanna eða hippanna, í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Frjálst kynlíf og frjáls víma, ásamt kerfisrýni og andstöðu við stríðsrekstur, voru kyndlar í baráttunni.

Allar stofnanir samfélagsins voru rýndar. Gerð var hörð hríð að fjölskyldunni undir forystu suður-afríska geðlæknisins, David Graham Cooper (1931-1986), og skoska geðlæknisins, Ronald David Laing (1927-1989). Fjölskyldan var talið hreiður óhollrar samfélagsinnrætingar og kúgunarstofnun, jafnvel uppspretta geðklofa eða geðveiki. Einnig var gerð orrahríð að geðheilbrigðisþjónustunni og stóru geðsjúkrahúsunum sérstaklega.

Franski fræðimaðurinn, Paul-Michel Foucault lagði orð í belg með bók sinni „Geðveiki og brjálæði: Saga vitfirringar á sígildum tíma,“ (Folie et Déraison: Historie de la foile á l‘age classique), sem kom út 1961. Þar lýsti hann, hvernig ríkjandi félagskerfi móta eða skapa vitfirringuna, geðveikina.

Umrótið varð rithöfundum að yrkisefni. Einn þeirra var Kenneth Elton Kesey (1935-2001), ofskynjunarlyfjaneytandi, blómabarn og andófsmaður, ættaður frá Oregon í BNA. Hann skrifaði afar merka bók árið 1962, þar sem geðheilbrigðisþjónustan var í brennidepli, „Gaukshreiðrið“ (One flew over the chuckoo´s nest).

Árið 1975 var gerð kvikmynd eftir sögunni. Hún var áður sviðsett, með kempuna Kirk Douglas/Issur Danielovitch (1916-2020) í aðalhlutverki. Það kom hins vegar í hlut sonarins, Michael Douglas (f. 1944), að framleiða kvikmyndina, þar sem fjöldi snjallra leikara gerðu garðinn frægan.

Leikstjórn var í höndum snillingsins tékkneska, Jan Tomás Forman (1932-2018). Handrit skrifaði Lawrence Alan Hauben (1931-1985). Myndin vann til fimm Óskarsverðlauna (Academy Awards) og fjölda annarra.

Söguþráðurinn er á þá leið, að Randle Patrick McMurphy (Jack Nicholson, f. 1937) er lagður inn á geðsjúkrahús úr fangelsi, þar sem hann afplánar dóm fyrir nauðgun á fimmtán ára stúlku, sem að hann sögn hefði getað verið á þrítugsaldri. Flutningurinn er að hans eigin tilstuðlan. Það vakir fyrir honum að komast hjá erfiðisvinnu í fangelsinu. Þar ræður hins vegar ríkjum Mildred Ratched ((Estelle) Louise Fletcher, f. 1934), hjúkrunarkona.

Þar takast á stálin stinn, kvenmennska Mildrid og karlmennska Randle. Hann fellur í stafi af undrun, þegar hann kemst að því, að allir eru meðsjúklingar hans lagðir inn af fúsum og frjálsum vilja. Í valdataflinu beita Mildrid og Randle sjúklingunum eins og skákmenn séu. Sjúklingarnir eru „erkikynfól,“ spila á kvennektarmyndaspil og gera sig seka um alls konar „kynferðislega áreitni,“ „kynbundið ofbeldi“ og „hatursorðræðu“ í garð kvenna. Gefa þeim meira að segja girndarauga, líta á þær sem kynlífsviðföng.

Meðal sjúklinganna eru margar áhugaverðar söguhetjur eins og t.d. Billy, ístöðulaus, ofvaxinn unglingur, sem á í vandræðum með aðskilnað frá móður sinni og kann því vitaskuld ekki að fóta sig á kynlífsmarkaðnum. Randle sér, hvar skórinn kreppir, og hleypir stráksa til, þegar hann smyglar gleðistúlkum inn á deildina að næturlagi og slær upp svallteiti. Að morgni dags er Billy hamingjusamur, hefur hlotið eins konar manndómsvígslu.

En hann er ekki lengi í Paradís frekar en Adam. Mildred refsar eins og forynjurnar í goðsögnunum og tætir piltinn í sig. Innan skamms er hann örendur, „geltur,“ fórnar sjálfum sér. Hann gerir ekki frekari uppsteit gegn kvenveldinu, móður sinni og vinkonunni, Mildrid. En Randle er ekki óvígur ger – enn þá.

En óhjákvæmilega endaði baráttan með því, að hjúkkan fór með sigur af hólmi. Og enn má nota goðsagnirnar sem hliðstæðu. Karllæknana hafði Mildrid undir handarjaðrinum eins og hinar ófreskjulegu gyðjur, tákn hins gereyðandi móðureðlis, fylgisveina sína og hermenn. Randle var gerður óvirkur með heilaskurðaðgerð, sem var tískulækning á sínum tíma eins og rafstuðið. Karlaflið laut í lægra haldi fyrir kvenaflinu.Hins vegar tók „höfðinginn,“ ógnarlegur „björn“ af frumbyggjakyni, örlögin í eigin hendur og braut sér leið út í frelsið, eftir að hafa kæft vin sinn, Randle.

Leikstjórinn líkti ástandinu á geðsjúkrahúsinu við alræðið í heimalandi sínu, Tékkóslóvakíu. Það er einnig áhugavert að skoða sögusviðið í ljósi þróunar á þeirri hálfu öld, sem umliðin er. Heilbrigðiskerfið er orðið enn kvensælla, félagsþjónustan og skólakerfið er að mestu leyti skipað konum, drengir verða stöðugt „heimskari.“ Fjölskyldan er í hraði upplausn með mæður við stjórnvölinn, fangelsin eru fleytifull af karlmönnum. Ógnarlegur fjöldi karla velur dauðann sem útgönguleið, rétt eins og Billy. Lyfjum er í miklu meira mæli beitt til að halda drengjum í skefjum í skólakerfinu og þau eru einnig miklu útbreiddari í geðheilbrigðiskerfinu. Öfgafull kvenfrelsun er orðin að löggjöf og efni alþjóðasamninga. Þessi þróun er umhugsunarefni.

Áðurnefndur Herbert Marcuse sló varnagla um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Varist kúgandi umburðarlyndi (repressive tolerance), sagði hann. Það gæti verið frelsinu villuljós. Frelsi til orðs og æðis gæti umbreyst í helsi fjölmiðlunar, auglýsinga- og réttrúnaðarofríkis. Við erum vitni að „kerfisbundinni hálfvitavæðingu, hvort heldur sem er barna og fullorðinna, með auglýsingum og áróðri,“ sagði hann - og reyndist spámannlega vaxinn.

Hér er krækja á skynsamlega umfjöllun um myndina og lærdóma, sem mætti af henni draga: https://www.youtube.com/watch?v=n0BcF6zM5c8


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband