Þegar Íslendingar seldu sálu sína og frelsi: Seinni hluti

„Kommúnistar voru bestu vinir Bandaríkjanna.“

„Það er til marks um kaldhæðni sögunnar að bandarískir embættismenn töldu sósíalista meðal sinna bestu stuðningsmanna á Íslandi á árunum 1941-1942. Í leyniskýrslu njósnadeildar bandaríska flotans frá árinu 1942 segir:

„Eins og málum er nú háttað, er ekki annað unnt en fagna vexti og viðgangi Kommúnistaflokksins vegna þess stuðnings sem hann hefur veitt. Enda unna Íslendingar frelsinu meir en svo að þeir mundu viljugir ganga einræði á hönd, jafnvel þótt það væri í nafni öreiganna.“ (A23)

Þjóðaröryggi:

„Túlkun Bandaríkjamanna á hugtakinu „þjóðaröryggi“ var ekki aðeins bundin við hernaðarhagsmuni þeirra heldur einnig önnur þjóðfélagsgildi. Þeim gekk það til að verja stjórnarhætti sína og kapitalískt hagkerfi gegn þjóðfélagsskipan kommúnistaríkjanna. Með því að tryggja stöðugan efnahag á Íslandi vildu þeir standa vörð um hernaðarréttindi sín og draga úr áhrifum Sovétríkjanna og bandamanna þeirra.“ (A404)

Hættulegir sósíalistar og bylting á Íslandi:

„Áður en varnarsamningurinn var gerður hafði bandaríska varnarmálaráðuneytið gert áætlanir um að senda her til Íslands ef sósíalistar gerðu byltingu.“ (B265)

„Stjórnvöld höfðu einnig eftirlit með sósíalistum og fengu heimild dómstóla til að stunda símhleranir hjá leiðtogum Sósíalistaflokksins í tengslum við mikilvæga atburði eins og aðildina að NATO og gerð varnarsamningsins.“ (B265)

„Eftir að Bandaríkjaher kom hingað til lands árið 1951 var yfirmanni herstöðvarinnar falið að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir „valdarán kommúnista.“ Þegar Bandaríkjaher fór fram á leyfi til að athafna sig nálægt Reykjavíkurflugvelli í „varnarskyni“ og vera viðbúinn að bregðast við hugsanlegri innlendri skemmdarverkastarfsemi … samþykkti [ríkisstjórnin beiðnina] vorið 1952, en aðeins tímabundið eða þangað til herinn var „lokaður inni“ á Keflavíkurflugvelli tveimur árum síðar.“ (B266)

Íhlutun Bandaríkjahers ef gerð yrði tilraun til að bola íslenskum ráðamönnum frá völdum:

„Auk þess ætti að orða beiðnina [um fleiri herstöðvar] á þann veg að unnt yrði að birta hana opinberlega og á alþjóðavettvangi til að „hrekja ásakanir sem kommúnistar munu vafalaust setja fram eftir að við höfum beitt her og vopnum til að aðstoða stjórnvöld gegn samsærismönnum kommúnista.“ (B267)

Yfirráð Bandaríkjamanna yfir flugumferð:

„Heimild Bandaríkjamanna til að taka yfir fulla stjórn á almennri flugumferð var haldið inni í varnarsamkomulagi Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 2006.“ (B273)

Efnahagslegur ávinningur Íslendinga eða sníkjulífi:

„Íslensk stjórnvöld voru mjög lagin við að útvega lán og aðrar efnahagsívilnanir í Bandaríkjunum, enda fékk þjóðin hvorki meira né minna en 70 milljónir dollara í beina efnahagsaðstoð á árunum 1948-1960. Þessar lán- og styrkveitingar stóðu straum af helstu stórframkvæmdum, sem ráðist var í á Íslandi á þessu tímabili: …“ (A405)

„Á árunum 1948-1960 nam efnahagsaðstoð Bandaríkjamanna á bilinu 15-20% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Eftir að Marshall-áætluninni lauk fylltu hernaðarframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli upp í það skarð sem hún skildi eftir sig, auk frekari lánveitinga.“ (A405)

„Auk þess höfðu stjórnmálaflokkarnir afskipti af því hvaða fyrirtæki nytu góðs af viðskiptum við Bandaríkin. Mikil samkeppni var t.d. um vöruflutninga og innflutning frá Bandaríkjunum milli Sambandsins, sem tengdist Framsóknarflokknum, og ýmissa einkafyrirtækja sem stóðu Sjálfstæðisflokknum nærri. En venjulega var pólitísk samstaða um sjálfar framkvæmdirnar sem ráðist var í fyrir láns- og gjafafé frá Bandaríkjunum.

Í raun má segja að Íslendingar hafi fengið aðra „Marshall-aðstoð“ á árunum 1956-1960: Þá veittu Bandaríkjamenn 30 milljónir [milljónum] dollara í lán og styrki til viðbótar þeim rúmlega 38 milljónum, sem þeim áskotnuðust á árunum 1948-1953.

Auk þess fengu Íslendingar árlega um 10 milljónir dollara í tekjur af hernum og rúmlega átta milljónir í PL-vörukaupalán á þessu „seinna Marshall-tímabili“ (samtals um 60 milljónir dollara). Af beinum lánum hlaut vinstri stjórnin um 14 milljónir dollara, auk PL-480 láns upp á fjórar milljónir dollara.

Viðreisnarstjórnin uppskar um níu milljónir dollara (þar af sex milljónir sem „óafturkræft lán“) og 4.4 milljónir í PL-480 lán.“ (A405)

„Markmiðið var einnig það sama og með Marshall-aðstoðinni: Með því að stuðla að auknum efnahagsstöðugleika á Íslandi vildu Bandaríkjamenn tryggja stjórnmála- og hernaðarhagsmuni sína og draga úr áhrifum Sovétmanna og Sósíalistaflokksins. Í þetta sinn varð þeim að ósk sinni: Efnahagsstefna viðreisnarstjórnarinnar leiddi til mikils samdráttar í vöruskiptaversluninni við austantjaldsríkin og veikti stöðu Sósíalistaflokksins.“ (A406)

(Marhall-aðstoðin voru styrkir og lán, sem Bandaríkjamenn veittu stríðshrjáðum þjóðum Vestur-Evrópu í lok síðari heimsstyrjaldar.)

Íslendingar voru aðgangsharðir á herjötunni:

„Auk þess nutu stórfyrirtæki eins og Loftleiðir sérréttinda á Atlantshafsleiðinni sem önnur flugfélög gerðu ekki.“ (B250)

Rainbow Navigation málið svokallaða, þegar bandarískt skipafélag gerði tilkall til flutninga fyrir herinn, vakti töluverða athygli:

„Í ljósi hernaðarlegs mikilvægis Íslands féllst Reagan-stjórnin á að gerður yrði sérstakur milliríkjasamningur sem viðbót við varnarsamninginn sem tryggði íslenskum fyrirtækjum, Eimskip og Hafskip, hlutdeild í flutningum fyrir Bandaríkjaher. … Þannig hafði Bandaríkjastjórn frumkvæði að því að veikja bandarísk lög um forgang innlendra fyrirtækja til að standa vörð um hernaðarhagsmuni sína á Íslandi.“ (B251)

Fámennur hópur Sjálfstæðis-, Framsóknar- og Alþýðuflokksmanna réð utanríkismálum Íslendinga: „Það var aðeins fámennur hópur stjórnmálamanna sem markaði stefnu Íslands gagnvart Bandaríkjunum á þessu tímabili … eins og þeir Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Guðmundur Í Guðmundsson, Gylfi Þ. Gíslason, Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson. (A406)

„Það var Bjarni Benediktsson, sem hafði mest áhrif á mörkun utanríkisstefnu Íslands í lok fimmta áratugarins og upphafi þess sjötta. Hann og Stefán Jóhann Stefánsson voru alþjóðasinnar og töldu hagsmunum Íslands væri best borgið með þátttöku í vestrænu samstarfi.

Það sama má segja um Eystein Jónsson, enda þótt hann væri tregari til að stíga skrefið til fulls af stjórnmála- og þjóðernisástæðum. Þeir Ólafur Thors og Hermann Jónasson voru meiri þjóðernissinnar, en vildu samt tengjast Vesturveldunum með einum að öðrum hætti.“ (A407)

„Íslendingar fengu fyrstir þjóða efnahagsaðstoð á vegum Atlantshafsbandalagsins sem fram að þessu hafði fengist við „vopnaviðskipti“ en ekki bankaviðskipti.

Margt fer öðruvísi en ætlað er í upphafi. Markmið vinstri stjórnarinnar var að draga úr áhrifum Bandaríkjanna á Íslandi með því að krefjast brottfarar hersins. En reyndin var sú að engin önnur stjórn var háðari bandarísku fjármagni, ef frá er skilin samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á árunum 1950-1953.“ (A412)

„Eftir endalok kalda stríðsins hafa það einkum verið Íslendingar sem hafa lagt áherslu á varnarsamstarfið.“ (A412)

Til umhugsunar: Bandaríkjamenn urðu máttugasta herveldi veraldar, heimsveldi, í lok síðari heimstyrjaldar. Forseti Bandaríkjanna, Franklin Delano Roosevelt, hafði í aðdraganda kosninga lofað að taka ekki þátt í styrjöldinni, sem hófst (aftur) 1939/1940, þegar Frakkar og Bretar sögðu Þjóðverjum stríð á hendur.

Bandaríkjamenn áttu gott hernaðarsamstarf við Ráðstjórnarríkin (Sovétríkin), veittu þeim t.d. gríðarlega hernaðaraðstoð, sem vafalítið skipti sköpum fyrir sigra Rauða hersins.

Síðan hafa Bandaríkjamenn stundað stríð um víða veröld; áróðurstríð, undirróðursstríð (bæði heima og að heiman) og vopnastríð, oftast með skírskotun til heilagrar skyldu sinnar til umbóta á lýðræði eða mannréttindum. Bandaríkin hafa gríðarlegan fjölda herstöðva um allan heim og efnahagur þeirra er stríðsmiðaður, að umtalsverðu leyti.

Upplýsingahernaður og öflugur vitundariðnaður í krafti fjölmiðlunar og afþreyingariðnaðar hefur reynst árangursríkur. Enda eru Bandaríkjamenn öflugir áróðursmenn. Hræðsla við svokallaða „kommúnista“ hefur grafið um sig í sálu Vesturlandabúa og endurspeglast í Nató og varnarsamningnum við Bandaríkin.

Hugtakið er óskýrt; stundum er átt við hryllingsstjórn Jóseps Stalín, stálmannsins frá Georgíu; stundum er átt við óánægða verkamenn, stundum við uppreisnarmenn gegn einvöldum og ógnarstjórn.

Á Íslandi voru það Einar Olgeirsson og Kristinn Andrésson, sem taldir voru helstu uppreisnarforingjar kommúnista. Því var mikil viðbúnaður bæði hjá Hvítliðum eða Heimdellingum Sjálfstæðisflokksins (varaliðs lögreglu) – einkum við inngöngu Íslands í Nató 1949 - og bandaríska hernum. Félagar í Nasistaflokknum höfðu þá gengið (aftur) í raðir Sjálfstæðisflokks og lagt flokk sinn niður.

Vopnuð uppreisn á Íslandi fyrir atbeina Rússa (Sovétmanna) í kjölfar heimstyrjaldarinnar hljómar eins og hver önnur fjarstæða, þrátt fyrir Guttóslaginn góða 1932 og óeirðirnar á Austurvelli 1949, þegar inngöngu Íslands í Nató var mótmælt.

Ráðstjórnarríkin voru að sleikja sárin, eftir skelfilegasta missi manna og efnalegs tjóns í veraldarsögunni. Auk þess var í gildi samkomulag stórveldanna, Ráðstjórnarríkjanna, Bretlands og Bandaríkjanna, um skiptingu heimsins.

„Kommúnistagrýlan“ var það skálkaskjól, sem djúpríki (hernaðariðnaður og stjórnkerfi, honum hliðhollt) Bandaríkjanna notaði til hernaðar um víða veröld.

Nató var stofnað til að halda Rússum fjarri, Þjóðverjum niðri og hinum þjóðunum í taumi. Gerðar voru bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi áætlanir um árásir á Rússa, þ.m.t. kjarnorkuvopnaárás.

Kjarnorkuvopnaáætlanir stórveldanna liggja enn fyrir og hernaðaruppbygging á Íslandi er hafin á ný. Og enn eru Íslendingar undirlægjur. Stjórnmálamenn þeirra eru aukin heldur stríðsóðir. Svo var tæpast áður.

Íslenski her Bjarna Ben I og Björns Bjarnasonar hefur ekki séð dagsins ljós, en þjóðin á Víkingasveit, sem er kölluð út við undarlegustu tilefni. En þegar Rússarnir koma má hún sig líklega lítils. Og svo hefur lögreglan fengið rafbyssur til að skjóta fólk með hnífa.

Það er sorglegt áhyggjuefni, að Íslendingar skuli láta hrífast með í stríðs- og aðsóknarsæðinu, sem stríðsvitfirringar veraldar hafa hrundið af stað. Þeir þurfa að varpa af herðum sér „valkyrjuokinu,“ lýsa yfir friði við allar þjóðir, beita sér fyrir friði, segja upp varnarsamningi við Bandaríkin og kveðja stríðsbandalagið, stríðsverkfæri Bandaríkjanna, Nató.

https://heimildin.is/grein/21398/ https://is.wikipedia.org/wiki/%C3%93eir%C3%B0irnar_%C3%A1_Austurvelli_1949 https://www.dv.is/fokus/timavelin/2018/10/07/kreppan-kemur-til-islands/ https://www.hugi.is/saga/greinar/102391/9-november-1932-guttoslagurinn/ https://www.stjornarradid.is/media/utanrikisraduneyti-media/media/varnarmal/varnarsamningur_isl.pdf


Munu kosningar í Þýskalandi verða ógiltar eins og í Rúmeníu

Það eru mikil umbrot í stjórnmálum Evrópu. Ætli um sé að ræða uppreisn almennings gegn ríkjandi stjórnmálaaðli, sem tilbiður Drottin alheims í Davos?

Hirðmenn hans týna reyndar tölunni á alþjóðavettvangi líka. Valkyrjurnar, Justin Trudeau í Kanada, Jacinda Ardern á Nýja-Sjálandi og Katrín Jakobsdóttir á Íslandi, eru horfnar úr stjórnmálum á heimavelli. En öll munu fá – venjunni samkvæmt – feitar stöður á vegum Alþjóðaauðvaldsins. Jacinda og Katrín eru reyndar komnar á bás.

Það örlar á uppreisn í Austurríki, Frakklandi, Bretlandi, Tékklandi, Ungverjalandi, Slóvakíu, Rúmeníu og víðar. Lýðræðið er að verða valdhöfum Þrándur í Götu.

Forseta Ungverjalands hefur verið útskúfað meira eða minna, reynt var að ráða forseta Slóvakíu, Robert Fico, af dögum, og nú hafa Úkraínumenn skrúfað fyrir mikilvæga gasleiðslu til Vestur-Evrópu. Eins og kunnugt er sprengdu máttarvöld þeirra líka gasleiðslu Rússa, Þjóðverja og fleiri Evrópuþjóða, í Eystrasalti.

Nú hótar Katar aukin heldur að skrúfa fyrir gas til Evrópusambandsins, leggi Sambandið ekki á hilluna áætlanir um refsitolla vegna mannréttindabrota, svo og náttúrverndartolla. Donald Trump hótar öllu illu, nema Evrópubúar kaupi meira af rándýru gasi frá Bandaríkjunum.

Viðskiptaþvinganir Evrópusambandsins og Bandaríkjamanna gagnvart Rússum stuðla að efnahagslegri hnignun beggja, en efnahagslegum vexti í Rússlandi. Nú er svo komið, að meira að segja Sádar flytja inn rússneska olíu. Verð á orkumarkaði stígur til himins.

Á meðan er efnahagur Þýskalands (og fleiri Evrópuríkja) í frjálsu falli. Og það er náttúrulega Vonda-Valda að kenna eins og kuldatíðin á Íslandi og brunarnir í Englaborginni.

Eins og menn kannski muna, voru forsetakosningarnar í Rúmeníu áttunda desember 2024 ógiltar. Calin Georgescu er andsnúinn stríðinu í Úkraínu, herstöðvauppbyggingu Nató í Rúmeníu og alræðisvaldi Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar, þar sem hann starfaði.

Calin hefur auk þess ljóstrað upp um ólifnað yfirstétta, embættismanna og auðjöfra á alþjóðvettvangi, m.a. svívirðilegt athæfi þeirra gegn börnum.

„Valkostur fyrir Þýskaland“ (Alternative für Deutschland) í Þýskalandi er einnig óþægilegur ljár í þúfu Embættisdrottnunum í Evrópusambandinu, sem er eins konar kirkjudeild í Alheimsríkiskirkjunni með höfuðstöðvar í Davos.

Það sama á við um Nató og undirheimadeild þess, sem oft er kennd við Gladio. Hennar hlutverk er m.a. að stuðla að „réttum“ kosningaúrslitum í Evrópu, jafnvel með mannránum (Aldo Moro) og hryðjuverkum, ef verkast vill.

En ráðabruggið fer ekki eins leynt og áður var. Viðskiptajöfurinn og Evrópusambandströllið, Thierry Breton, segir t.d. á þessa leið:

Við verðum að framfylgja lögum Evrópu, þegar reynt er að fara í kringum þau og hætta er á, að lögleysan leiði til vandræða. Við gerðum þetta í Rúmeníu og vitaskuld verður að gera það í Þýskalandi, beri nauðsyn til.

Stefnumál Valkostsins fara verulega fyrir brjóstið á Thierry. Fulltrúi flokksins, Alice Weidel, lét hafa eftir sér:

Þann 23. febrúar mun verða ákveðið, hvort þjóð vor nái að brjóta hlekki aukinnar verðbólgu, afiðnvæðingar, offjölgunar flóttamanna, skattaráns, aukins atvinnuleysis og yfirvofandi hættu á stríði.“ Það eru þó miklu fleiri sem sjá, að Þýskaland sé á heljarþröm.

Þýski embættis- og stjórnmálamaðurinn, Michael von der Schulenburg, segir stefnu Evrópusambandsins gagnvart Úkraínu vera múgvitfirringu. Svipuð viðhorf má sjá hjá fleiri vitibornum stjórnmálamönnum, embættismönnum og herfræðingum Þjóðverja. Leiðtogar þar eins og vitfirringarnir í Washington virðast lifa í heimi veruleikafirringar og óskhyggju.

Allt er þetta vissulega eitur í beinum auðjöfra- og bankaúrvalsins í Davos, City og London og Wall Street. Það eru þess ær og kýr að heyja stríð með ýmsum hætti til að auka völd sín og auðævi og leggja okkur í tæknilæðing, svo við látum betur að stjórn.

Stefna Íslendinga er athygliverð. Í kosningum losuðu þeir sig við Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri-græn, Framsóknarflokk og Sjálfstæðisflokk – flokka á jafnaðarmennsku- og „vók“-rófinu. Fylgi VG rann til Samfylkingar, hinna til Viðreisnar í miklum mæli.

Stjórnin, sem Íslendingar losuðu sig við, endurholdgast því í Valkyrjustjórninni. Grýlusjórn gæti þó fremur verið réttnefni. Hún styður heilshugar undirlægjuhátt gagnvart Evrópusambandinu, Bandaríkjunum og Nató, knúsar og kyssir karlana í Kænugarði og vill endilega sækja um aðild að öðru deyjandi bandalagi, Evrópusambandinu. Hún er andsetin grænu geggjuninni og kynjavitfirringu, sem alþjóðaauðvaldið m.a. beitir til að rugla fólk í ríminu og firra það heilbrigðri skynsemi.

Hvenær ætli stígi fram á sjónarsviðið stórhuga stjórnmálamenn, sem hafa þroska, þekkingu og vilja, til að hrista af sér hlekki for- og samtíðar, lýsa aftur yfir hlutleysi og friðarvilja íslenskrar þjóðar - og móta sjálfstæða utanríkisstefnu?

Eins og kunnugt er leitar klárinn þangað, sem hann er kvaldastur. Íslendingar lifðu örfá ár í reisn og frelsi undan áþján, áður en þeir játuðust undir Bandaríkin (varnarsamningur) og Nató. Frelsið varð þeim um megn.

https://deutsche-wirtschafts-nachrichten.de/710921/dwn-interview-mit-harald-kujat-ukraine-unterstuetzung-ohne-friedensstrategie?src=undefined https://www.youtube.com/watch?v=4pdFI3iUlIY https://korybko.substack.com/p/germany-is-preparing-to-assume-partial?utm_source=post-email-title&publication_id=835783&post_id=146302317&utm_campaign=email-post-title&isFreemail=true&r=ry8jq&triedRedirect=true&utm_medium=email https://steigan.no/2024/07/tyskland-vi-ma-forberede-oss-pa-en-landkrig/?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.welt.de/politik/deutschland/plus252253496/Nato-versus-Russland-Wir-muessen-uns-im-Schwerpunkt-auf-einen-Landkrieg-vorbereiten.html https://steigan.no/2024/03/avindustrialisering-uten-sidestykke-i-tyskland/?utm_source=substack&utm_medium=email https://unherd.com/2024/02/flailing-germany-is-the-future-of-europe/ https://steigan.no/2024/02/den-brutale-avindustrialiseringa-av-tyskland/?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.youtube.com/watch?v=5oKH90ObbY8 https://steigan.no/2024/12/begynnelsen-pa-slutten-for-det-tyske-miraklet/?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.youtube.com/watch?v=T_oGKW07WBs&t=3s https://steigan.no/2025/01/krigsdagbok-del-152-1-til-3-januar-2025/https://steigan.no/2025/01/krigsdagbok-del-152-1-til-3-januar-2025/ https://www.br.de/nachrichten/deutschland-welt/die-ampel-in-der-krise-wie-koennte-es-weitergehen,UTGUZAN https://steigan.no/2024/09/fra-volkswagen-til-thyssenkrupp-gigantene-i-tysk-industri-vakler/?utm_source=substack&utm_medium=email https://steigan.no/2024/09/tysklands-forsommelse-av-nasjonale-interesser/?utm_source=substack&utm_medium=email https://steigan.no/2024/09/den-tyske-okonomien-kollapser-helt-apenlyst/?utm_source=substack&utm_medium=email https://glenndiesen.substack.com/p/germany-and-the-eu-abandon-reason https://x.com/RMCInfo/status/1877247698241266060?ref_src=twsrc%5Etfw%7Ctwcamp%5Etweetembed%7Ctwterm%5E1877247698241266060%7Ctwgr%5Eddfbf57d522210028bf135cde1afbfa4d62ed168%7Ctwcon%5Es1_&ref_url=https%3A%2F%2Fsteigan.no%2F2025%2F01%2Fvi-annullerte-valget-i-romania-og-vi-kan-gjore-det-samme-i-tyskland%2F https://steigan.no/2025/01/vi-annullerte-valget-i-romania-og-vi-kan-gjore-det-samme-i-tyskland/


Þegar Íslendingar seldu sálu sína og frelsi. Fyrri hluti

Íslendingar höfðu verið hernum þjóð um aldir, þegar þeir urðu fullvalda 1918. Lýðveldið var stofnað 1944. Íslensk stjórnvöld hétu ævarandi hlutleysi. En það breyttist fáum árum síðar.

Breskt innrásarlið afhenti Bandaríkjunum land og þjóð á silfurfati í upphafi hernáms Breta. Forsætisráðherra Íslendinga, formaður Sjálfstæðisflokksins, Ólafur Tryggvason Thors (1892-1964), talaði um að lána landið „í baráttu fyrir frelsinu.“

Eiginlega á hann við varnarsamninginn fyrri við Bandaríkin frá 7. júlí 1941. Sá síðari var gerður tíu árum síðar fyrir tilstuðlan Nató. Þá var Bjarni Ben I, utanríkisráðherra. Hernámsliðið breytti um ham og varð varnarlið, sem hvarf á brott 2006 – en er nú komið aftur.

Áður en að því kom gengu Íslendingar í Nató. Hugsun forsætisráðherra, Ólafs Tryggvasonar Thors, er einkar áhugaverð:

„Atlantshafssáttmálinn liggur nú fyrir, hefur legið fyrir umheiminum um nokkurt skeið, og þá einnig fyrir okkur Íslendingum. Hann er sáttmáli um það, að frjálsar þjóðir efni til frjálsra samtaka til varðveislu friðarins í veröldinni. Hann er hollustueiður frelsisunnandi þjóða til friðar, jafnrjettis og sjálfsákvörðunarrjettar. …

Hann er sáttmáli um það, að aldrei skuli herstöðvar vera á Íslandi á friðartímum. Hann er sáttmáli um það, að Íslendingar láni baráttunni fyrir frelsinu, sömu afnot af landi sínu, ef til átaka kemur sem þeir gerðu í síðustu styrjöld. Hann er sáttmáli um það, að reyni nokkur nokkru sinni að teygja hramm sinn yfir fald fjallkonunnar, þá rísi 330 milljónir best menntu þjóða veraldarinnar upp til varnar frelsi hennar og fullveldi. Sáttmálinn er mesti og merkasti friðarsáttmáli, sem nokkru sinni hefur verið gerður í heiminum.“

En minni stjórnmálamanna og alþýðu var skammt þá eins og nú. Íslenska ríkisstjórnin gerði nýjan herstöðvarsamning einungis tveim árum, eftir inngöngu í Nató. Henni þótti ekki nauðsyn bera til að bera samninginn undir Alþingi. Nató-aðildin var einnig samþykkt með undarlegum hætti.

Í umsögn Kristjáns E. Guðmundssonar um bók Elfars Loftssonar, „Ísland í Nató. Stjórnmálaflokkar og varnarmálefnin“ (Island í NATO – partierna och försvarfrågan), segir hann:

„ … [h]öfundur [fjallar] um aðdraganda þess að við gengum í NATO, hvernig sú ákvörðun var tekin utan alþingis og hvernig sú ákvörðun var keyrð í gegn með miklu offorsi.“

Valur Ingimundarson, sagnfræðingur, hefur trúlega manna mest rannsakað inngöngu Íslendinga í Nató og tildrögin að varnarsamningsgerðinni, sem vissulega er nátengd.

Valur hefur m.a. skrifað bókina [A] „Í eldlínu kalda stríðsins: Samskipti Íslands og Bandaríkjanna 1945-1960,“ og [B] „Framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Útvistun hervarna og túlkanir á fullveldi.“ Um er að ræða kafla í safnriti undir ritstjórn Guðmundar Jónssonar: „Frjáls og fullvalda ríki. Ísland 1918-2018.“

Ég leitast í framhaldinu við að koma niðurstöðum rannsókna til hans til skila í hnotskurn. Blaðsíðutal í sviga.

Kalda stríðið á Íslandi:

„Þegar spurt er um upphaf kalda stríðsins á Íslandi er freistandi að miða það við gerð Keflavíkursamningsins árið 1946. Sá samningur batt enda á samstarf hægri og vinstri aflanna í íslenskum stjórnmálum sem komið hafði verið á með myndun nýsköpunarstjórnar Sjálfstæðisflokks, Sósíalistaflokks og Alþýðuflokks árið 1944. Þór Whitehead sagnfræðingur telur að sú stefna sem mörkuð var með Keflavíkursamningnum hafi legið „milli hlutleysis og fullrar samstöðu með Vesturveldunum.“ (A17)

Íslenski herinn og fullveldið:

„Bjarni Benediktsson, helsti hvatamaður varnarsamningsins, taldi að Ísland væri í raun ekki fullkomlega sjálfstætt fyrr en það kæmi sér upp eigin varnarliði, jafnvel þótt það væri aðeins táknrænt.“ (B243)

Herverndarsamningur við Bandaríkin og afsal hlutleysis:

„Með gerð herverndarsamnings við Bandaríkin 1941 sögðu íslensk stjórnvöld í raun skilið við hlutleysisstefnuna sem mörkuð var árið 1918. Ólafur Thors, formaður Sjálfstæðisflokksins, neitaði því reyndar að herverndarsamningurinn bryti í bága við sambandslögin og yfirlýsinguna um ævarandi hlutleysi. Íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið „að skipa á hernámsliði styrjaldaraðila og herliði hlutlauss stórveldis, þiggja hervarnir hlutlausrar þjóðar í stað hernáms ófriðaraðila.“ (A17)

„Talsmenn Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins héldu því fram að herverndarsamningurinn væri nauðungarsamningur.“ (A17)

Varnarsamningurinn var samþykktur með 39 atkvæðum gegn 3. Fjölmörg samtök og menntamenn mótmæltu herstöðvum á Íslandi, m.a. stuðningsmenn stjórnarinnar Einar Ólafur Sveinsson, Ólafur Lárusson, Gunnar Thoroddsen og Sigurður Bjarnason frá Vigur.

Stjórnarandstaðan hélt því líka fram, að herverndarsamningurinn bryti í bága við 21. greinar stjórnarskrárinnar.

Valur heldur áfram: „En málsmeðferðin var vissulega óeðlileg, enda lagði Alþingi ekki blessun sína yfir herverndina fyrr en Bandaríkjaher var kominn til landsins. Hermann Jónasson viðurkenndi að sér hefði verið þvert um geð að gera þennan samning, en látið raunsæissjónarmið ráða ferðinni. Ekki þarf að ganga að því gruflandi að Hermann átti fáar undankomuleiðir. Breski sendiherranna, Howard Smith, fékk þau fyrirmæli að „sjá til þess“ að Íslendingar samþykktu hervernd Bandaríkjastjórnar.“ (A18)

„Ríkisstjórn Íslands leit heldur rekki svo á að nauðsynlegt væri að afla samþykkis Alþingis fyrir varnarsamningnum árið 1951, þar sem hann var reistur á Norður-Atlantshafssamningnum. Reyndar hafði samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tryggt sér skriflegan stuðning 43 þingmanna af 52 áður en Bandaríkjaher kom hingað í upphafi maí 1951. En stjórnin lagði samninginn ekki fyrir Alþingi heldur kaus að gefa út bráðbirgðalög til að lögfesta hann.“ (B247-8)

Kjarnorkuvopn:

„[Bandaríkjamenn] vildu þeir eiga þess kost að staðsetja hér kjarnorkuvopn á ófriðartímum og komu því inn í „leyniviðauka“ varnarsamningsins að þeim yrði gert kleift að taka yfir fulla stjórn á almennri flugstarfsemi og -umferð á Íslandi samkvæmt eigin hættumati.“ (B245)

Samningsgerðin og þrýstingur Bandaríkjamanna - uppsagnarákvæði:

„Bandaríkjamenn gerðu því engar tilraunir til að hundsa uppsagnarákvæði samningsins eða halda hernum í trássi við vilja stjórnvalda. Í skýrslu þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna frá árinu 1957 var reyndar komist svo að orði að ekki væri unnt að „sætta sig við“ það að herinn hyrfi á landi brott. Bandaríkjastjórn var þó ekki reiðubúin að brjóta fullveldi Íslands með því að halda hernum með valdi ef varnarsamningnum yrði sagt upp.“ ….

Bandaríkjamenn gripu þó til „sálfræðihernaðar“, t.d. með því að draga skyndilega úr framkvæmdahraða á Keflavíkurflugvelli í aðdraganda þingkosninganna árið 1956 til að sýna fram á efnahagsafleiðingar þess ef herinn yrði látinn fara.

Sérstakri nefnd var komið á innan bandaríska stjórnkerfisins með þátttöku leyniþjónustunnar CIA til að freista þess að koma í veg fyrir þessi áform. Nefndin vildi að innlendir og erlendir stuðningsmenn „vestrænnar samvinnu“ yrðu fengnir til að fá Alþýðuflokkinn og Framsóknarmenn af fyrirætlunum sínum.

Til að sýna fram á efnahagslegt mikilvægi herstöðvarinnar stöðvuðu Bandaríkjamenn allar framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og þrýstu á Vestur-Þjóðverja um að halda að sér höndum um lánafyrirgreiðslu til Íslands.

Annað dæmi um slíkan „sálfræðihernað“ var þegar sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Frederick Irving, beitti Einar Ágústsson utanríkisráðherra miklum pólitískum þrýstingi á árunum 1972-1974 til að freista þess að ná málamiðlun í hermálinu sem gerði ráð fyrir fækkun í herliði, en að Bandaríkjaher héldi aðstöðu sinni hér.

Þetta skipti þó ekki sköpum. Bæði í vinstri stjórninni 1956-1958 og 1971-1974 voru skiptar skoðanir um hvort halda ætti fast í þá kröfu að allt herlið hyrfi frá Íslandi. Önnur mál en hermálið höfðu úrslitaáhrif um það að vinstri stjórnirnar tvær fóru frá án þess að ná markmiðum sínum um brottför hersins.“ (B258-259)


Bloggfærslur 13. janúar 2025

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Jan. 2025

S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Af mbl.is

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband