Grein níu (Title IX) og Laura Kipnis

Alríkisþingið í landi hinna frjálsu, Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) samþykkti árið 1972 hina alræmdu grein níu, ítargrein við löggjöf um menntun í ríkinu. Þar er kveðið á um bann við allri mismunun á grundvelli kynferðis í menntastofnunum, sem fjármagnaðar eru að einhverju leyti af ríkisvaldinu. Þetta er eitt dæmi af mörgum um lagabreytingar í hinum vestræna heimi, sem gerðar eru í nafni jafnréttis, en virka í raun sem vogarstöng í áróðri kvenfrelsara um „meira jafnrétti,“ þ.e. óhófleg völd kvenfrelsara í samfélaginu. Það hefur sagan sýnt, svo varla verður um villst. Greinin var reyndar samin með valdeflingu kvenna í íþróttum í huga. (Afleiðingarnar á því sviði hafa verið hörmulegar, en umfjöllun um það býður betri tíma.)

Á grundvelli téðrar lagagreinar hafa til að mynda verið stofnaðir sýndardómsstólar við alla ríkisstyrkta háskóla í BNA. Tilbrigði við slíka sýndardómstóla (einnig nefndir kengúrudómstólar) hafa breiðst út um hinn vestræna heim – líka til Fróns, bæði HR og HÍ. Hér fylgir lærdómsrík saga.

Laura Kipnis (f. 1956) er prófessor í listfræðum við Northwestern háskólann í BNA. Við háskólann starfaði einnig Peter Ludlow (f. 1957), prófessor í heimspeki. Pétur var ákærður fyrir kynferðislega ósvífni af tveim námsmeyjum. Hann var dreginn fyrir sýndardómstól, útskýrði, að ástarsambandið við meyjarnar tvær hefði verið á frjálsum grundvelli. Hann var rekinn úr embætti. Þetta varð Laura Kipnis tilefni til greinar í tímaritið, „Annál æðri menntunar,“ (Chronicle of Higher Education) fyrir fimm árum síðan. Heiti greinarinnar: „Æðri menntun í heljargreipum kynferðislegrar vænisýki“ (Sexual Paranoia Strikes Academe).

Greinin er fremur löng, afskaplega fróðleg og vel skrifuð. Þar lýsir LK m.a. 1)hvernig kvenfrelsararnir berjast einbeittri baráttu á grundvelli umræddrar lagagreinar fyrir eilífri og ábyrgðarfirrtri barnæsku kvenna; 2) hvernig náin sambönd kennara og nemenda hafi tíðast um aldur og leitt til fjölmargra hjónabanda; 3) hvernig smáatriðareglugerðir um samskipti kennara og nemenda færir völd í heldur skriffinna háskólanna.

Skömmu eftir að greinin birtist efndu kvenfrelsarar til kröfugöngu með dýnur og kodda, tákn um „kynbundið ofbeldi,“ þ.e. kynferðislegt ofbeldi karla gegn konum. Skrúðgangan staðnæmdist við skrifstofu rektors og gerði kröfu um „umsvifalausa, opinbera fordæmingu“ greinarinnar.

Laura var dreginn fyrir sama dómstól og starfsbróðirinn, Pétur. Tvisvar! Hún var þó sýknuð af öllum ákærum; t.d. þeirri að letja námsmeyjar til að skýra frá kynferðislegu ofbeldi í þeirra garð. En áður en að því kom, skrifaði Laura þessa grein (og bók síðar) um réttarhöldin. Um það bil eitt hundrað háskóla í BNA sæta rannsókn (2015) vegna meintra brot á grein níu.

Greinin er fróðleg eins og sú fyrri. Laura komst m.a. að því, eftir töluverða eftirgrennslan, að henni væri óheimilt að njóta fulltingis lögfræðings undir yfirheyrslunum. En starfsbróður eða –systur mætti hún bjóða til yfirheyrslunnar. En hlutaðeigandi mætti hvorki gefa frá sér hósta eða stunu. (Stuðningsaðili Laura var svo einnig ákærður.) Ei heldur ætti sakborningur kost á skriflegri ákæru. Engu að síður hafði háskólinn keypt þjónustu lögfræðinga til að annast réttarhöldin.

Meðan á réttarhöldunum stóð hafði fjöldi háskólamanna samband við Laura. Hún segir: „Ég komst að því, að háskólakennarar víðs vegar gera sér far um að forðast efni, sem gæti gert einhverjum gramt í geði. Þekktur félagsfræðingur t.d. skrifaði mér, að hann vogaði sér ekki lengur að kenna um fóstureyðingar.“

Lokaorð Laura hér verða: „Tjónið, sem hlotist hefur af, er skortur á atvinnuöryggi og frelsi til að birta hugmyndir í blóra við hið viðurtekna (against the grain). ... Karlar, jafnvel fastráðnir, eru þeir hópur við háskólana, sem þurfa að gæta tungu sinnar. Engin háskólakarl með réttu ráði myndi áræða að skrifa eins og ég gerði. Karlar hafa árangursríkt verið múlbundnir ...“

https://www.chronicle.com/article/my-title-ix-inquisition/


Goðsögnin um glerþakið

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, gerði heiðarlega tilraun til að koma talnaviti fyrir kvennahóp þann, sem undir forystu verkefnastýrunnar, Maríönnu Clöru Lúthersdóttur, stóð fyrir mótmælum kvenna á Arnarhóli að áliðnu síðasta ári. Grundvöllur mótmælanna var goðsögnin um almenna launakúgun kvenna. Eins og vænta mátti voru móttökur kvennaskarans óblíðar og báru greinilegan keim af kunnuglegri rökfimi á þeim vettvangi. Víst hallaði á konur í launum, þrátt fyrir, að enginn gildur, vísindalegur fótur sé fyrir svo almennri staðhæfingu.

En það hékk fleira á spýtunni eins og við fyrri uppákomur af þessu tagi - eins og endurspeglast í texta kröfuspjalda: „Borgið okkur mannsæmandi laun og hættið að nauðga okkur“ [líklega átt við karla],“ mátti lesa á áróðursspjöldunum við sams konar mótmæli 2015. Og nú, segir Maríanna verkefnastýra: „Þetta snýr allt að vinnustöðum og vinnustaðamálum og við viljum í rauninni bara sýna að þetta falli undir það líka, að konur geti verið óhultar í vinnunni. Við erum að tala fyrir mann¬réttindum og kjörum í víðum skilningi.“ Í yfirlýsingu hópsins stendur til frekari glöggvunar: „Og við krefjumst þess að hlustað sé á þolendur og tekið sé mark á sögum þeirra. Konur sem upplifa ofbeldi, áreitni, niðurlægingu og smánun eru ekki lítill hópur heldur allar konur samfélagsins úr öllum kimum samfélagsins.“ „Talskona“ druslugöngunnar, Helga Lind Mar, skýrir málið frekar: „Kynbundinn launamunur og ofbeldismenning er ekki sitt hvor hluturinn, þetta eru allt mismunandi hliðar á teningnum sem er valdaójafnvægið.“

En snúum aftur að launamuninum: Þorsteinn Víglundsson, aðstoðarleiðtogi Viðreisnar og fyrrverandi jafnréttisráðherra, sá einnig ástæðu til að snupra Sigríði. „Konur eru um 20% stjórnenda á vinnumarkaði. Ekki vegna þess að þær hafi lakari menntun eða skort á metnaði heldur vegna þess að þær búa við mun lakari framgang í starfi en karlar. Það heitir glerþak og ætti að vera fólki sem lætur jafnréttismálin sig varða ágætlega kunnugt.“ Þar hitti Þorsteinn mig fyrir á heimavelli. Hugtakið er vissulega „gamall góðkunningi.“

Glerþakshugtakið er eignað norður-ameríska rithöfundinum og stjórnunarráðgjafanum, Marilyn Loden, sem fyrst notaði það opinberlega fyrir um fjórum áratugum síðan. ( BBC taldi Marilyn í hópi eitt hundrað áhrifamestu kvenna árið 2017.) Á fréttasíðu BBC lét hún í ljósi það álit sitt, að „gamlinginn“ væri enn í fullu fjöri. Marilyn segir m.a.: „[K]onum reyndist erfitt að klifra metorðastigann upp fyrir miðjumoð stjórnenda. ... [É]g færði rök fyrir „ósýnilegu glerþaki“ – að hindranir á framabrautinni væru menningarlegs eðlis en ekki persónulegs....“ Síðar segir hún: „Á árinu 1978 var það algengt viðkvæði, að konur hefðu ekki til að bera hæfni og reynslu til að stjórna með árangursríkum hætti. Sú gagnrýni getur ekki lengur réttlætt, hversu hægt þeim miðar upp á tindinn.“ Staðhæfingar hennar voru þegar um síðustu aldamót undir skoðun í Noregi. Þá bentu fyrstu niðurstöður til þess, að hugtakið væri brothætt. Hæfum konum væri þvert á móti venjulega tekið með kostum og kynjum á stjórnunarframbrautinni. Þær kinokuðu sér hins vegar við að leggja á brattann.

Síðustu tvo áratugina hefur efnið verið þaulrannsakað vestan hafs og austan. Niðurstöðurnar eru býsna samhljóma. Það er ekkert glerþak. Kristin Skogen Lund , forstjóri: „Það er trúa mín, að skortur á konum í atvinnulífinu snúist um konuna sem slíka. Margar þeirra hafa ekki áhuga á að standa sig.“ (Kristín var tvo ár í röð kosin valdamesta (mektigste) kona Noregs af viðskiptatímaritinu, Kapital.) Jens Ulltveit-Moe, fyrrum leiðtogi samtaka atvinnulífsins, (NHO – næringslivets hovedorganisasjon) sagði, að hugtakið hefði haft ákveðið gildi fyrir 20 árum. Tom Colbjörnsen, prófessor við viðskiptaháskólann í Björgvin (Bedriftsökonomisk Institutt) hefur rannsakað efnið til þrautar. Hann segir: „Konur burðast með [innri] tálmanir, sem gera það að verkum, að þær vanmeta iðulega eigin hæfni og efast um getu til að taka að sér yfirmannsstöðu á tindinum.“ Anne Grethe Solberg, félagsfræðingur að mennt, starfandi ráðgjafi í eigin fyrirtæki og „ráðgjafi ársins“ í Noregi, hefur einnig rannsakað fyrirbærið: „Glerþakskenningin er komin til ára sinna ... Kenningin hefur öðlast goðasagnakenni inntak um dulin og torgreinanleg áhrif kynferðis. Við verðum að skipta um sjóngler við rannsóknir á stjórnum og kynferði. Ég greini allavega ekkert glerþak í minni rannsókn,“ skrifar hún.

Lögfræðingurinn, Markus Plesner Dalin, hefur brotið rannsóknir um efnið til mergjar. Niðurstaða hans er þessi: „Konur eru jafn hraðskreiðar [körlum] á framabrautinni velji þær rétta menntun. Þær virðast jafnvel stíga hraðar í metorðum en karlar með sömu menntun. ... Ef við reiðum okkur á rannsóknir, en ekki eingöngu á álit og frásagnir, er engin ástæða til að ætla, að glerþök séu raunveruleg í Noregi eða öðrum vestrænum ríkjum.“

Terina Allen, ráðgjafi, leiðtogaþjálfi og alþjóðlegur fræðari, gerði í Forbes tímaritnu (ágúst 2018) grein fyrir fyrrgreindum innri tálmunum kvenna: 1) Konur gera ekki kröfur; 2) konur vanmeta getu sína og forðast tæknina; 3) konur treysta sér ekki til forystu og kinoka sér við ágreiningi á vinnustaðnum; 4) konur telja sig þurfa meiri sveigjanleika en gerist og gengur og vinna minna en karlar; 5) konur skilja ekki nauðsyn þess að setja ákveðja hluti í fyrirrúm, forgangsraða, vilja gína yfir öllu; 6) konur veigra sér við áhættu og eru hræddari við mistök.

Í júní útgáfu sama blaðs, gerir Homira Kabir, kvenleiðtogaþjálfi og ráðgjafi, niðurstöður rannsókna að umtalsefni. Þar kemur m.a.í ljós kom, að konur séu áhættufælnar og hræddar við óheppilegar afleiðingar, tækju þær áhættu. Greinarhöfundur segir svo viturlega: „Það er ógjörningur að hreinsa raunheiminn af áhættu og óöryggi, sérstaklega á flóknum vinnustöðum, sem eru sífelldum breytingum háðir. Það er einnig ógerlegt að inna gagnlegt starf af hendi, án þess að sleppa bjarghringnum, láta slag standa og arka inn á óþekktar slóðir, enda þótt það bjóði heim hættu á mistökum og gagnrýni. ... [Þar bíða] áskoranir í samskiptum, sem eiga rót í ómeðvituðum og dómgreindarbrenglandi væntingum og siðboðum. Slíkar dómgreindarbrenglanir rista djúp í sál bæði karla og kvenna. Þær liggja oft og einatt í þagnargildi í mörgum stofnunum.“ Þjálfun telur Homira gagnlega, en þó: „Velflestar þjálfunarskrár beita hugþjálfun (cogitive approaches) á grundvelli skynsemi og raka. ... Þó að þessi nálgun gagnist sumum, dugar hún ekki til að ná kjarna þess, sem í sannleika heldur aftur af flestum kvenna.“ ... „Þær hræðast vanþóknun þá, sem vond ákvörðun kynni að hafa í för með sér.“ ... „Þá erum við fyrst færar um að glíma af skynsemi við mistök og gagnrýni, þegar okkur lánast að kasta fyrir róða tilfinningaseminni. [Þá getum við] lært og látið okkur vaxa fiskur um hrygg.“

Konrektor við háskólann í Osló, Ruth Valtvedt Fjeld, slær þó vissa varnagla við ofangreindun niðurstöðum, og veitir kvenleg ráð: „Að mínum dómi er heldur djúpt í árinni tekið, þegar bent er á, að konur skorti vilja til að sinna yfirmannsstöðum. Það eru ljón í vegi margra kvennanna. Það er kostur, að konur séu elskulegar og prúðar, vilji þær vinna sig hratt upp metorðastigann – og kunni daður.“ (Á Íslandi eru karlar rændir æru og starfi fyrir slík orð – minnir mig.)

Þegar allt þetta er sagt, hljóta það að vera ánægjuleg tíðindi, að verulegur meirihluti íslenskra kvenna þverneitar því, að karlar hindri þær á frambrautinni. Þetta var niðurstaða könnunar á vegum forsætisráðuneytisins fyrir hálfum öðrum áratugi eða svo. Áfram stelpur!


Góðir strákar og gerendameðvirkni. Hildur Lilliendahl Viggósdóttir, Stígamótahetja

«Góðir strákar» merkir karlfauta, sem meiða konur og nauðga, en hafa barasta ekki hugmynd um það. Þá skortir nefnilega einhvers konar «kynlífsofbeldisnæmi.» Þetta er hugtak, sem áberandi kvenfrelsarar líðandi stundar beita til að opna augu karla og ala okkur upp til betri siða í heilögu frelsunarstríði kvenna. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir skrifaði okkur opið bréf nú á vordögum, þar sem sama hugtak var í brennidepli. Ég hef annars staðar gert því skil og fjölyrði því ekki um það hér.

Greinar sínar skrifa Hildur og Þordís ýmist í Stundina (sem sérstaklega hefur auglýst grein hennar á Fésbók) og Kjarnanum, sem, ásamt fréttastofu RÚV, stunda rannsóknarblaðamennsku á útvöldum sviðum. Eitt þeirra er kvenfrelsun.

Hildur skrifaði einmitt grein í Kjarnann (24. maí þ.á.) með fyrirsögninni: „Af reikningskilum og gerendameðvirkni.“ Og þar er góðu strákunum ekki vandaðar kveðjurnar. Það hefur varla farið fram hjá nokkrum manni, að rannsóknarfjölmiðlunum hefur nú tekist að skapa nýja „mee-too-byltingu“ - og meira að segja séríslenska. Samkvæmt skilningi Hildar er svokölluð „gerendameðvirkni“ kveikjan að henni:

”Gerendameðvirkni á sér margvíslegar birtingarmyndir. Sú gerendameðvirkni sem kveikti yfirstandandi #metoo bylgju átti sér stað eftir að sjónvarpsmaður tók viðtal við sjálfan sig þar sem hann öskurgrét yfir ranglætinu sem fólst í kjaftasögunum um að hann beiti konur margvíslegu ofbeldi. Hann lagði þar sérstaka áherslu á að hann væri, eins og allir vita, góður strákur. Þegar hann var svo kærður fyrir téð ofbeldi hvarf hann úr sviðsljósinu.

En gerendameðvirkni birtist ekki bara með góðu strákunum sem sverja ofbeldið af sér. Hún birtist ekki síður, þegar góðu strákarnir stíga fram og „axla ábyrgð“ á öllum mistökunum sínum. Gera „reikningsskil“. Þeir eru nefnilega svo góðir.” (Til samanburðar má geta þess, að nýjasta danska kvenfrelsunarbylgjan reis við uppljóstrun konu um kynhneykslismál. Forustumaður stjórnmálaflokks hafði lagt hönd á hné hennar fyrir u.þ.b. áratugi síðan.)

Hildur heldur áfram: „Samfélagið tollerar þessa menn. Þeim er hrósað fyrir djörfung og hetjuskap, sanna karlmennsku, hreint hjarta, einlægni, heiðarleika, hreinskilni, auðmýkt og þroska. Með þessu fylgjast svo þolendur þessara manna. Brotnar konur sem voru ekki hafðar með í ráðum, fengu ekki tækifæri til að undirbúa sig, fengu ekki að segja skoðun sína, fengu ekki að koma útgáfu sinni af atburðum á framfæri. Hafa aldrei fengið fyrirgefningarbeiðni og kannast bara alls ekki við alla þessa einlægni og auðmýkt.“

Hafi það við rök að styðjast, að körlum sé hampað fyrir játningar um dólgshátt í garð kvenna (kannast reyndar ekki við það), á það ekki síður við um allar kvenhetjurnar, sem stíga á stokk og lýsa eymd sinni og óhamingju. Raunar er Hildur bæði hetja DV og verðlaunuð hetja Stígamóta fyrir baráttu sína gegn kynillsku karla.

En þolendunum fallast ekki hendur, segir Hildur: „Í lokuðum hópum á víðlendum internetsins deila þessir þolendur upplifun sinni hver með annarri. Ég er ein þeirra. Og eftir þessa #metoo bylgju sitja fjöldamargar konur í sárum vegna þess að gerandinn þeirra steig fram opinberlega, sagði afskræmda og sjálfshyllandi útgáfu af ofbeldinu sem hann beitti þær og var fagnað ótæpilega af almenningi í kjölfarið. Það sem að ofan er lýst heitir ekki að axla ábyrgð eða gera reikningsskil. Það heitir að hampa sjálfum sér á kostnað þolenda. Það heitir gaslýsing [andlegt ofbeldi] og áframhaldandi ofbeldi.“

Svo koma ráð til okkar, góðu strákanna: „Ef þú, góði strákur, hefur nauðgað konu, þröngvað þér inn á yfirráðasvæði hennar, troðið tungunni upp í hana, króað hana af, gert hana hrædda, látið hana finna að sjálfsvígshugsanir þínar séu á hennar ábyrgð, suðað um að fá að fara inn í hana þangað til hún örmagnast, tekið hana næstum áfengisdauða með þér heim og klætt hana úr buxunum af því að þú verðir að fá að sýna henni hvað þú ert góður í að fullnægja konum með tungunni, almennt beitt konu eða konur einhverskonar þvingunum, gaslýsingum [andlegu ofbeldi] og ofbeldi, og ert að íhuga að „stíga fram“ og segja hjartnæma sögu af því hvað þú ert góður strákur og ætlar að axla á þessu ábyrgð með því að auðmýkja þig í fjölmiðlum eða hætta tímabundið eða seinna í vinnunni, þá bið ég þig að hugsa þig tvisvar um.“

Það er mikil gæfa karla að mega njóta siðvits Hildar og hirtinga, þrátt fyrir dóma gegn henni fyrir ærumeiðingar á því sviði. Því enn eru dómstólar ekki nægilega kvenráðir og kvenvænir. Hildur og Þórdís Elva eru happafengur Kjarnans og Stundarinnar í rannsóknarblaðamennskunni.

Til umhugsunar má bæta því við, að þegar undirritaður vildi leggja orð í belg kvenfrelsunarumræðunnar, svaraði hinn jafnréttissinnaði ritstjóri Kjarnans, Þórður Snær Júlíusson, erindinu á þann veg, að hann vildi „ekki leggja blaðið undir einhliða umræðu.“ Ætli það lýsi góðri rannsóknarblaðamennsku?

https://kjarninn.is/skodun/af-reikningsskilum-og-gerendamedvirkni/


Glerþak eða gullið búr

Staðhæft hefur verið, að karlar væru sem gagnsæ ljón í vegi kvenna á framabraut í atvinnulífinu - og torvelduðu stjórnunarframa þeirra. Glerþak hefur fyrirbærið verið kallað, eignað norður-ameríska rithöfundinum og stjórnunarráðgjafanum, Marilyn Loden, sem fyrst notaði það opinberlega fyrir um fjórum áratugum síðan. Hugtakið hefur verið til vísindalegrar skoðunar í áratugi.

Norsku vísindamennirnir, Sigtona Halrynjo og Selma Therese Lyng, gerðu t.d. grein fyrir rannsókn á tæplega 4000 lögfræðingum, verkfræðingum og hagfræðingum. Titill hennar er: „Framaréttur feðra – biðskylda móður? Frami, kyn og umönnunarábyrgð í úrvalsstörfum.“ Greinin birtist í „Tidsskrift for samfunnsforskning“ árið 2010. Höfundar orða niðurstöðu sína svo: „Við afhjúpum engan mun á framasókn barnlausra karla og kvenna. Aftur á móti er greinilegur munur mæðra og feðra. ... Hefðbundið kynjafyrirkomulag skýrist af því, að hans framaval er sett skör hærra en hennar. Samt sem áður er fyrirkomulagið henni að skapi, því hún leggur áherslu á og finnst mikilvægt að vera lengur samvistum við börnin.“

Gamalreyndir hagfræðingar í Bandaríkum Norður-Ameríku, June E. O´Neill [prófessor í hagfræði við Háskólann í Nýju Jórvík] og Dave M. O´Neill [við sama háskóla], skrifuðu árið 2005 greinina: „Hvað segir launamunur okkur um misrétti á vinnumarkaði.“ Niðurstaða þeirra hljómar svona: „Kynjamunur með tilliti til menntunar og hæfni (cognitive skills) [...] er hverfandi og skýrir launmun [einungis] að litlu leyti. Aftur á móti skýrist hann af þeim ákvörðunum, sem karlar og konur taka [í þessu sambandi] og þeirri atorku og tíma, sem fólk er tilbúið til að nýta í framsókninni. Þetta endurspeglast í starfsreynslu, hlutastörfum og öðrum þáttum tengdum starfi og starfsvettvangi.“

Þýski félagsfræðingurinn, Fabian Ochsenfeld, skrifaði fyrir sex árum síðan grein í „Kölner Zeitschrift für Soziologie und Sozialpsychologie. Fyrirsögnin er: „Glerþak eða gullbúr: strandar stjórnunarframi kvenna af mismunun í fyrirtækjunum eða skyldum við fjölskylduna?“ Spurningu sinni svarar hann svoleiðis: „Launamunur kynjanna skýrist [...] að öllu leyti af tveim utanaðkomandi (ausserbetriebliche) þáttum; annars vegar vali menntunar, sem þeim [konum] er í sjálfsvald sett, og hins vegar, hvað flestum viðkemur, mismunandi afleiðingum þess að stofna til fjölskyldu.“ Kastljósið beinist að námsvali og stofnun fjölskyldu. Aðrar rannsóknir benda í sömu átt.

Laun kynjanna hafa einnig verið rannsökuð á Íslandi. Lengstum hefur verið komist að þeirri niðurstöðu, að konum væri vangreitt fyrir vinnu sína, þrátt fyrir eftirfarandi jafnréttisákvæði Búalaga frá 1775: „[Ef konan] gjörir karlmanns verk með slætti, róðri, eður torf-ristu; þá á að meta verk hennar sem áður segir um karlmann til slíkra starfa,“ svo og ákvæða seinni laga um jafnrétti kvenna og karla til launa. Flestar þessara kannana hafa verið vísindalega gallaðar. Athygli hefur verið vakin á þessu.

Í viðtali við baðamenn Morgunblaðsins sagði t.d. Einar Steingrímsson, stærðfræðiprófessor, að engin áreiðanleg gögn sýni fram á kynbundinn launamun á Íslandi. Einar segir að munurinn sem haldið er fram að sé til staðar sé það lítill að það væri „tölfræðilegt kraftaverk“ ef það hallaði alltaf á konur. Hann bendir m.a. á, að í nýlegri úttekt velferðarráðuneytisins komi fram, að konur á aldrinum 18 til 27 ára í opinbera geiranum, séu að meðaltali með hærri laun en karlar.

Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði, segir m.a.: Aðferðin [við rannsókn á launamuni kynjanna] byggir á því að störf, menntun og starfsreynsla séu eins verðlögð hjá öllum einstaklingum í öllum fyrirtækjum og stofnunum. Laun þessa staðlaða einstaklings eru borin saman við laun karla og kvenna. Munurinn á meðaltölum kynjanna er síðan kallaður kynbundinn launamunur. ... Þar sem niðurstöður eru yfirleitt þær að það halli á konur er ályktað að öll fyrirtæki og stofnanir mismuni konum (jafnmikið) í launum sem nemur þessari prósentu. ... Þetta er kolrangt af mörgum ástæðum. Má þar nefna að mikilvægir þættir sem áhrif hafa á laun eru ekki teknir með í reikninginn, s.s. færni, sjálfstæði, frumkvæði, ábyrgð og álag. Þessa þætti er ekki að finna í þeim launakönnunum sem ályktanir um kynbundinn launamun eru dregnar af en í vísindum hagrannsókna og tölfræði eru ýmsar leiðir til að takast á við slíkt. ... Annar stór galli á þessum könnunum er sá að hópar starfsfólks í mjög mismunandi fyrirtækjum eru lagðir saman. Sá möguleiki er fyrir hendi að ekkert fyrirtæki eða stofnun stundi þá mismunun gagnvart konum sem menn þykjast lesa út úr meðaltalinu um kynbundinn launamun.“ Hin vondu vísindi í þessu efni leiða óhjákvæmilega til skakkrar niðurstöðu. Helgi segir: „Sú skoðun að munur á meðallaunum kynja sé til vitnis um að einhvers konar misrétti kynja er ef til vill ein útbreiddasta tölfræðiblekking 20. aldar.“ Áróður, sem byggir á áðurgreindri tölfræðiblekkingu, afbökun og oftúlkunum, er varasamur. „[S]töðugar vitnanir í hugtakið kynbundinn launamun þar sem gefið er í skyn að gervallt kvenkynið sé fórnarlamb mismununar af völdum karla. Ófullkomin gögn og einfaldir meðaltalsútreikningar leyfa ekki svo hrikalega ályktun. Útilokað er að slík óskynsamleg hegðun og umfangsmikil mismunun geti átt sér stað, þótt einungis sé litið til þess kostnaðar sem af henni hlytist.“

Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor, hefur einnig bent á, „að þær kannanir á launamun kynjanna hér á landi sem birtar hefðu verið væru tölfræðilega alvarlega gallaðar og niðurstöðurnar því í besta falli afar óáreiðanlegar. Þar að auki segðu þær ekkert um orsakir þess launamunar sem kynni að vera fyrir hendi.“

Það virðist ríkja einhvers konar rétttrúnaður í þessum efnum. Þór Rögnvaldsson, sem reyndi í grein í Morgunblaðinu að leiðrétta rangfærslur í sambandi við launakönnun BHM, framkvæmdri árið 2015, lýsti þessu svo: „Þessa grein skrifaði ég um mitt sl. sumar – en heyktist síðan á að birta hana: ég hræddist ofsafengin viðbrögð vegna þess hvað málefnið er eldfimt. Nú hins vegar er mér svo ofboðið að ég hlýt að láta alla varkárni út í veður og vind hverfa: ég get ekki lengur orða bundist.“

Viðbrögð við gagnrýni hefur ekki látið á sér standa. Ólafía Rafnsdóttir, fyrrverandi formaður VR, skrifaði t.d. í félagsblað sitt: „Ég frá¬bið mér hroka þess¬ara miðaldra karl¬kyns pró¬fess¬ora sem telja sig þess um¬komna að segja mér og öðrum kon¬um að launamun¬ur kynj¬anna sé ekki til. Ég er til í að ræða við þá mál¬in – þegar þeir hafa öðlast skiln¬ing á því hvað það þýðir að vera kona í karla-heimi.“

Launakönnun, unnin í samvinnu Velferðarráðuneytis og Hagstofu Íslands árið 2015, er vafalítið haldbesta könnun á efninu. Höfundur hennar er Sigríður Snævarr, hagfræðingur. Höfundur varar við víðtækum ályktunum um launamun á grundvelli skýrslunnar, óútskýrður launamunur körlum í vil sé lítill Sigríður segir: „Í rannsókninni var jafnframt leitast við að meta hvaða þættir skipta mestu í greiningu milli skýrðs og óskýrðs launamunar. ... Niðurstaða þess er sú að mestu skiptir að karlar og konur starfa í mismunandi atvinnugreinum og gegna mismunandi störfum innan þeirra. Með öðrum orðum kynbundinn vinnumarkaður er meginorsök kynbundins launamunar.“ ... „Almennt er launamunurinn minnstur þar sem opinber umsvif eru hvað mest, í heilbrigðis- og félagsþjónustu, opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og veitum.“ ... „Niðurstaðan er skýr: starfstengdu breyturnar, atvinnugrein og starfsstétt, skýra langmestan hluta launamunarins. Vinnumarkaður er kynbundinn og launamuninn má rekja einkum til þess.“

Athygli vekur, að hér er í aðalatriðum um að ræða svonefndar kvennastéttir. Sænsk-íranski fræðimaðurinn, Nima Sanandaji (Cato Institute), hefur rýnt í þessa staðreynd og spyr; gæti einokun hins opinbera stuðlað að tálmunum í frama og launabaráttu kvenna. Hann segir: „Opinber einokun heilbrigðisþjónustu, umhyggju barna og aldraðra leiðir til vanþróunar í þessum hluta atvinnulífsins, sem knúinn er áfram af konum. Háir skattar og velferðarhlunnindi hvetja konur til að vinna færri stundir, löng fæðingarorlof hvetja þær til að dvelja heima. Allt þetta hefur áhrif á metorðaklifrið.“

Margar rannsóknir, þar með talin sú vandaðasta, unnin á vegum Velferðarráðuneytisins, benda til, að mæður velji frekar hlutastörf og velji fremur að sinna börnum sínum heima, heldur en að berjast til frama á samkeppnisvinnustöðum. Feður og karlar, trúir ævafornu hlutverki sínu, samsinna og láta það eftir konum sínum. Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, kynni að hitta naglann hnitmiðað á höfuðið, þegar hann kallar þetta „gæfumun“ kynjanna. (Þýðingar eru höfundar.)


Gjörningaveður og kyngaldrar

Á því Herrans ári 1484 reit Innocentius páfi VIII (1432-1492) örlagaríkt bréf. Glefsur úr því hljóma svo: „Hafa þeir [trúvillingar] með særingum, álögum, sjónhverfingum og öðrum argvítugum galdraiðkunum og – athæfi, óhæfu og hræðilegri viðurstyggð, deytt afkvæmi kvenna, jafnvel í móðurkviði, sem og ungviði búfjár, eyðilagt afurðir jarðarinnar, vínþrúgur, ávexti trjáa, já, jafnvel konur og karla, áburðardýr, hjarðdýr sem önnur dýr, víngarða, aldingarða, engi, beitilönd, maís, hveiti og annað kornmeti. ... [Að] undirlagi óvinar alls mannkyns [djöfulsins] hika þau ekki við að fremja og drýgja andstyggilegasta ófögnuð og saurugustu öfgar, steypandi sálu sinni í glötun, svívirðandi Guð almáttugan, fjölmörgum til hneykslunar og skaða.“ (Þýð. Ólína Þorvarðardóttir. Brennuöldin).

Bréfið varð hvatning hinum kynbældu svartmunkum, Heinrich Kramer (1430? – 1505) og Jakob Sprengler (1436? – 1495), til að rita hinn skelfilega Nornahamar (Malleus Maleficarum), leiðarvísi um galdraofsóknir, þrunginn kvenhatri. Andskotinn sjálfur hafði samkvæmt djöflafræði kirkjunnar tekið sér bólfestu í sálum manna, einkum klögumálakvenna af alþýðustéttum og kynsystra þeirra í klaustrum, sem ástunduðu saurugt líferni. Kölski var viðsjárverður og brá sér í allra kvikinda líki.

Eins og páfi benti á gerði djöfullinn konur undirgefnar sér í kynsvalli. Einnig rændi hann og ruplaði, eyddi og deyddi fyrir þeirra tilstuðlan, sbr. eftirfarandi vitnisburð fórnarlamba. Fyrra dæmi: „Hún hafði ekki aðeins bruggað banaráð mönnum jafnt sem skepnum; hún hafði einnig haldið við djöfulinn sjálfan í 38 ár. Hann hafði vitjað hennar „í mannsmynd, svartur á hár og skegg, meiri á velli en nokkur dauðlegur maður, svartklæddur“ á næturþeli, ríðandi, búinn riddarastígvélum með spora og gyrtur sverði.“ Þegar á svallhólminn var komið, upphófust almenn kynmök.

Síðara dæmi: „Þar kemur djöfullinn inn um glugga sem „stór maður, allur svartklæddur með mikið og kolsvart skegg og augnalit mjög tindrandi og óttalegt. ... Hvílubrögð hans eru öflug og þjösnaleg, veita ekkert yndi, og hann er jökulkaldur viðkomu . ... Hann otaði frá lendum sér ófögnuði nokkrum, köldum sem ís, er gekk allt upp undir bringspeli eða á móts við geirvörtur á fyrrgreindum sakborningi.“ (Galdrafárið í Evrópu, eftir Hugh Trevor-Roper, þýð. Helgi Skúli Kjartansson)

Tæpum fjórum öldum síðar, var ritað annað „bréf.“ Grundvallarkenningasmiður kvenfrelsaranna, Elizbeth Cady Stanton (1815-1902), skilgreindi fjanda okkar tíma: „Karlinn er þrunginn tortímingu; harðneskjulegur [og] sjálfselskur. Hann unnir stríði, ofbeldi [og] sigurvinningi, miklast af sjálfum sér og leggur að fótum sér. Eins og í hinum veraldlega heimi sáir hann í siðferðið ósætti, glundroða, sjúkdómum og dauða.“ (Þýð. höfundur)

Nútímaútfærsla Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur á kennisetningu fræðaformóður hennar er áhugaverð. „Veruleiki kvenna er þessi. Kynbundið ofbeldi ógnar lífi þeirra og heilsu. ... Vondi karlinn á sér enga eina birtingarmynd, hann er alls staðar og hvergi og þú veist aldrei hvort eða hvenær þú mætir honum. Stundum þekkir þú hann bara af góðu einu þar til hann snýst gegn þér. Stundum laðar hann þig til sín og brýtur á þér.“

Kvenfrelsarar berjast hatrammri baráttu gegn karldjöflinum. Þeir hafa valið áþekka leið og fyrrgreindur páfi, Jósef Vissarionovich Stalín (1878-1953), Adolf Hitler (1889-1945) og Joseph Raymond McCarthy (1908-1957). Áróður þeirra ýmist ól á eða skapaði ótta, örvæntingu og ógn. Í áróðursherferðum kvenfrelsaranna hefur karlmönnum í hálfa öld verið brigslað um djöfullegar misþyrmingar barna sinna og ástvina. Karlmaðurinn kvelur aukinheldur dýr jarðar og spillir náttúrunni, svo heimsendir er rétt handan við hornið. Fólk, sem verður viti sínu fjær og veit ekki sitt rjúkandi ráð, verður auðveldlega bráð múgsefjunar, þar sem beitt er hugmyndafræði eða trúarbrögðum. Einhvern þarf að hafa til blóra. Um þessar mundir er það feðraveldið. Blóraböggulinn rúmar allan sálarsorann, enda um að ræða hálfa fjórðu milljón karla.

Hefndarþorsta er svalað og refsigleði mögnuð. Hreinsunareldurinn brennur glatt. Lög eru endurtúlkuð og ný samin. Sönnunarbyrði sakarábera er léttvæg fundin. Æra karla fuðrar upp á galdrabálkesti almenningsálits og fjölmiðla.

Málstaðurinn er studdur eins konar „fræðihringekju,“ þar sem höfundar styðjast við „sannleika“ hvers annars. Staðreyndir, skynsemi og rök hripa af þeim sem vatn af gæs. Áróðurinn er hertur, fjármagnaður af opinberu fé. Kerfisbundið er þaggað niður í „villutrúarmönnum,“ sem ýmist eru dæmdir af löglegum dómstólum, sýnardómstólum eða dómstóli götunnar.

Það er fátt nýtt undir sólinni. Gengur galdrafárið í endurnýjun lífdaganna á okkar méli?


Hið mikla frelsisstríð; frelsun kvenna, kynlífs, kyns og mannkyns: 3

Víkjum þá aftur að draumi kvenfrelsaranna og Alheimsefnahagsráðsins um tölvumennið. Þróun þessarar tækni er komin vel á veg. Beint inngrip í hugann og eftirlit er t.d. framkvæmt með stafrænni tækni, rafsegulbylgju-, örgjörva- og tölvuagnatækni (nanotechnology). Sú síðastnefnda var m.a. notuð við gerð bóluefna gegn covid-19 veirunni. En taugaflöguígræðsla er vissulega líka þekkt.

José Manuel Rodriguiez Delgado (1915-2011), var brautryðjandi við flöguígræðslu (chip) í heilabú manna og dýra. Hann skrifaði, árið 1969, bókina: „Efnislega stjórnun hugans: Áleiðis til sálsiðaðs samfélags (Physical Control of the Mind: Toward a Psychocivilized Society). Hann segir m.a.:

„Maðurinn hefur engan rétt til eigin hugþroska. Frjálslyndisleg viðhorf í þessu efni hafa víðtæka skírskotun. Það verður að raftengja heilann. Sá dagur mun koma, að herjum og hershöfðingjum verði stjórnað við raförvun heilans.“

Aukin þekking í líffræði og tölvutækni býður forsjárhyggju- og stjórnlyndisfólkinu sífellt upp á nýjar aðferðir við notkun tölvuagnstýra eða -ráða (nanobot). Fræðigreinin um þetta kallast tölvuagnfræði (nanobotics). Ofursmáar agnir úr gerviefnum eru forritaðar, svo þær megi örva eðlileg boð líkamans eða yfirtaka þau.

Raymond Kurzweil (f. 1948) hefur líka skrifað bók um efnið; „Sérstaðan er nálæg: Þegar mannkind rýfur múra eðlisins (The Singularity is Near: When Humans Transcend Biology). Hann hefur einnig skrifað um þetta grein í The Guardian.

Agntölvurnar, sem streyma um blóðrásina, má forrita með ýmsum hætti, t.d. til að greina og virkja varnir gegn sjúkdómum, endurræsa frumur eða styrkja, hugsanlega með þeim árangri, að við yrðum ódauðleg. Slík inngrip gera manninn að tölvumenni, mannslíki (transhumanism, cyborg), blending lífveru og tölvu. Líftölvuagnfræði heitir sú grein (bionanotechnology). Agnir (nano eða nanometre eða agnmetri er einn milljarðasti úr metra) voru t.d. notaðar til að koma hluta covid-19 veirunnar inn í frumur líkamans.

Taugatölvutækni (neural nanotechnology) má beita til að koma stjórnráði (nano-sized robot) í blóðrásina, sem tekur sér bólfestu í námunda við tiltekna frumu. Þannig má beintengja heilann við gervigreindartölvu fram hjá vökulum skilningarvitum.

Tölvuagnastýring er náskyld gervigreind (artificial intelligence), gerð tölvuvélmenna (cyborg) og líf-tölvu-tengivirkja (computer interface) þeim, sem taugatæknifyrirtæki eins og Neuralink Corporation (Elon Musk) vinna að.

Það sama gerir Richard A. Normann, líftæknifræðingur við háskólann í Utah. Rannsóknahópur hans hefur smíðað rafskautatengil (array), þ.e. samskipan fjölda örnála eða einangraðra rafskauta (electrode), sem komið er fyrir í heilabúinu. Þar fylgjast þau með taugaboðum miðtaugakerfisins og hafa áhrif á þau samkvæmt forritun. Vonir standa til, að þeim megi t.d. beita til að lækna sjúkdóma í miðtaugakerfi.

Richard þessi tengist einnig „Heilafrumkvæði“ (Brain Research through Advancing Innovative Neurotechnologies) bandarískra stjórnvalda, þ.e. sameiginlegri áætlun opinberra stofnanna og einkaaðilja til rannsókna á notagildi taugatækni.

Tækniheimspekingurinn, Kevin Kelly (f. 1952), talar um tækniveruna (technium) í bók sinni: „Hvað ætlast tæknin fyrir“ (What Technology Wants). Þar segir hann m.a.:

„Hún [tækniveran] kann einu sinni að hafa verið jafn einföld í sniðum og gamalt tölvuforrit, sem eingöngu gerði það, sem fyrir það var lagt. En núna hefur hún svipmót miklu flóknari veru, sem oft er á valdi eigin hvata.“

Heimspekingurinn, James Giordano (f. 1953), lýsir þessari þróun eins og hverjum öðrum stríðsvettvangi og aðvarar gegn misnotkun tækninnar. Skyldi engan undra. Nató hefur þegar fundið smjörþefinn. Áætlun þess heitir: „Hugstríðsáætlunin“ (Cognitive Warfare Project). Þar segir m.a.:

„Hugstríð er því að skilja sem óhefðbundinn hernað, þar sem tölvutækni (cyber) er beitt til að skapa hugarfarsbreytingu og nýttir eru hleypidómar eða spegilvirk (sjálfhverf) hugsun (reflexive thinking) til að brengla hugarfar, hafa áhrif á ákvarðanatöku og koma í veg fyrir hegðun, sem hefði neikvæðar afleiðingar, hvort heldur einstaklingur eða múgur á í hlut.“ [15]

Bill Gates og vinir hans í Alheimsefnahagsráðinu eru vitaskuld miklir áhugamenn um tölvumennið, sem er í deiglunni. Klaus Schwab tengir það beinlínis fjórðu iðnbyltingunni, þegar endurreisnin mikla (Great Reset) rennur upp.

Klaus segir byltinguna „leiða til sjálfsskilnings, sem er samþætting líkama, tölvutækni (digital) og lífeðlis.“ Leitað verður leiða – t.d. við fjarstýrða raförvun – til að fólk uni sælt og glatt við sitt, enda þótt það sé öreigar. En það er framtíðarsýnin í sjálfbæra sæluríki Alheimsefnahagsráðsins. Slíkri raförvun, þ.e. örvun sælustöðvarinnar í heilanum, hefur verið beitt með góðum árangri á rottur.

Nicholas Negroponte (f. 1943) er annar vísindamaður, sem hefur skoðað notkun tölvutækni við stjórnun mannshugans. Hann bendir á, að upplýsingum megi koma fyrir í heilabúinu með agntölvu, t.d. ritsafni Sigmund Freud (Gesammelte Werke). Tæknin býður einnig upp á, að draumur forsjársinna um að stjórni fólki að vild gæti ræst.

En betur má, ef duga skal. Svissneskir vísindamenn hjá fyrirtækinu FinalSpark, hafa nýverið kynnt uppgötvanir, þar sem sneitt er hjá ófullkomleika forritaðrar gervigreindar. Galdurinn er fólginn í notkun líförgjörva (bioprocessor), þ.e. fruma úr forheila manna, sem unnar eru úr stofnfrumum.

Forheilafrumur eru öðrum fremur gæddar hæfileikanum til úrvinnslu, aðgerða og skapandi greindar. Slíkur „taugatölvuvangur“ (neuroplatform) „lifandi tölva“ notar auk þess einungis brot af þeirri orku, sem tölvur, tölvumenni og gervigreind, nota. Tæknin er því umhverfisvæn og tölvumennið getur hugsað, en ekki einungis lagt á minnið eða starfað samkvæmt forritun eins og hver annar tölvuþræll. Tölvumennið hugsar og dregur ályktanir.

Líftölvubúnaður hefur því bæst við hugbúnað (soft ware) og vélbúnað (hard ware). Starf líftölvunnar er kallað „líftölvun“ (wetware computing). Lífgjörvinn, þ.e. fjöltengdar forheilafrumur, eiga fremur stutta ævi, en tæknimönnunum hefur tekist að láta þær tóra og starfa í hundrað daga, jafn lengi og Jörundur hundadagakonungur ríkti á Íslandi. Beitt er svokallaðri „örstreymistækni“ (microfluidics) til að lengja líf þeirra. Æskilegt starf er verðlaunað með dópamíni (ánægjuvaka), en refsað með örvunaróreiðu. (Slík óreiða er algeng hjá Landlæknisembættinu, að sögn Landlæknis.) [16]

„Þetta er allt að koma“ eins og lítill sonarsonur segir, þegar hann rembist við að auka þekkingu sína. Því japanskir vísindamenn hafa tilkynnt, að þeim hafi lánast að rækta húð, sem þekja má andlit tölvumennisins. Húðin er þeim ólíkindum gædd að geta sýnt mannleg svipbrigði og grætt sjálfa sig. [15]

https://arnarsverrisson.blog.is/blog/arnarsverrisson/entry/2304047 https://krossgotur.is/gervigreind-skitur-inn-skitur-ut/ https://peakprosperity.com/dismantling-the-illusion-how-information-control-shapes-reality/?ref=unlimited-hangout [16] https://www.youtube.com/watch?v=SL_j2PSV0kI https://www.newstatesman.com/encounter/2023/03/mary-harrington-interview-make-sex-consequential https://unherd.com/newsroom/mary-harrington-feminism-against-progress/ https://www.youtube.com/watch?v=8-pTX3X4yVE https://winteroak.org.uk/2024/07/22/truth-reality-tradition-and-freedom-our-resistance-to-the-great-uprooting/


Bloggfærslur 28. júlí 2024

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Mars 2025

S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband