Kvenfrelsunarflog Ríkisútvarpsins

Kvenfrelsararnir, sem ráða ríkjum á Ríkisútvarpinu, fá öðru hverju flog. Þau einkennast af tíðum frásögnum af ótíðindum í svokölluðum jafnréttismálum. Nú ríður eitt slíkt flog yfir.

Það byrjaði með fréttum af kvenleiðtogafundi í Hörpu. Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði í uppnámi frá því, að veröldina vantaði fleiri kvenleiðtoga. Því næst birtist sjálf kvenofbeldisdrottningin, Drífa Snædal, og lýsti með vanþóknun einhverri innanbúðarrannsókn Stígamóta á viðhorfi karla til vændiskvenna. Hún sagði karlófétin vega og meta kynlífsþjónustuna, sem þeir keyptu, eins og hverja aðra þjónustu eða vöru. Hví ekki að biðja Neytendasamtökin um óhlutdræga athugun? Þess má geta, að kvenfrelsurunum á Alþingi tókst að fá þingið til að samþykkja lög, sem leyfa vændi, en gera kaup þess að glæpi.

Síðan hafa dunið yfir fréttir frá Finnlandi, Bretlandi og Þýskalandi, um heimilisofbeldi (karla) gegn konum. Og nú (kvöldfréttir 20. nóv.) birtist eitt af skylduviðtölunum við Stellu Samúelsdóttur, forstýru Kvenfrelsunardeildar Sameinuðu þjóðanna (UN Women) á Íslandi. Hún er m.a. kunn að grein með fyrirsögninni: „Ákall um að trúa konum.“

Allar tala þessar kvenfrelsunarforkólfur um afturför í jafnréttismálum. Karlar verða stöðugt óskammfeilnari, ófyrirleitnari og kvenýgari. „Nú er það svart,“ hefði elskulegur frændi sagt.

Rannsóknir Kvennaathvarfs og Stígamóta á skjólstæðingum sínum hafa augljóslega takmarkað alhæfingargildi. Þær bera sama svipmót og langflestar kvenfrelsunarrannsóknir, þ.e. yfirleitt hannaðar með það fyrir augum að sýna fram á gildi kvenfrelsunarfirrunnar. Kjarni firrunnar er á þann veg, að Guð hafi skapað karla til að kúga konur. Allra handa ofbeldi og óréttlæti gagnvart konum er þrástef rannsókna og umfjöllunar um firruna.

Kynning á niðurstöðum er oftast með svipuðu sniði: ein af hverjum þrem konum hefur orðið fyrir kynáreitni karla, fjórum konum af hverjum fimm er nauðgað, ein af hverjum tíu (nú ellefu) er myrt af maka sínum og svo framvegis. Örsjaldan fjallað um ofbeldi kvenna gegn konum. Í nánum samböndum er það heldur ofbeldisfyllra heldur en í öðrum slíkum.

Stella hefur greinilega kynnt sér áróðursstefin frá móðurstöðinni. Gamla lumman um aukið ofbeldi karla gegn konum við erfiðar samfélagsaðstæður lék henni á vörum.

Síðast var það veirufárið. Niðurstöður alvöru rannsókna og skynsemdarrök mega sín lítils gegn alþjóðlegum áróðri, sem er endurfluttur í hinum ósnertanlega páfagauksmiðli Íslendinga.

Trompið nú er grein í Guardian, fréttir um rannsókn frá Finnlandi og önnur frá Þýskalandi, sem „sanna“ vaxandi illsku karla og drápsfýsn. Í rannsókninni frá Finnlandi ku hafa komið í ljós, að þeim mun yngri sem viðmælendur, þ.e. karlar, eru, þeim mun kvenýgari eru þeir.

Það merkir þá væntanlega, að við, gömlu kúgararnir, séum skömminni skárri, þegar öllu er á botninn hvolft. Þegar einnig er litið til þess, að fleiri og fleiri drengir eru aldir upp af mæðrum og öðrum konum - oft konum og stúlkum, sem þurfa á velja á milli starfs í Bónus eða á leikskóla - hlýtur sú niðurstaða að verða nærgöngul, að því kvenlegri sem veröld drengja verður, þeim mun líklegra er, að þeir leggi fæð á konur og vilji jafnvel stytta líf þeirra.

Svo er það heldur ekki tilviljun, að fleiri drengir vilja láta gelda sig, og verða konur, og margfalt fleiri stúlkur, sem láta skera af sér brjóstin. Þær reyna í örvæntingu að skapa hið karllega í sjálfum sér. Hið karllega er nefnilega nauðsyn sálarheillinni. Drengirnir sannfærast um, að þeir séu í raun konur eins og mamma og allar hinar konurnar í lífi þeirra. Þeir hafa lært, að það sé ekki „kúl“ að vera karlmaður, þeir séu morðóðir kúgarar, konur hafi yfirburði.

Feður láta flæma sig á brott eða kvengerast, verða alveg ofboðslega dúnmjúkir og sýna tilfinningar eins og konur. Það hefur verið stóri draumur kvenfrelsaranna um áratugi. Svo er þessi veruleiki rammaður inn í trúna á kvenfrelsun, kynleysu og fjölbreytni, sem stórisannleikur. Íslenskir stjórnmálamenn hafa umvörpum tekið þá trú, draga regnbogafána að húni og mála göturnar i sömu litum - og bjóða sig fram til Alþingis í stjórnarflokkunum og Samfylkingunni.

Umfjöllun RÚV hefur í yfirstandandi flogi sama áróðursbrag og ævinlega, er einhliða og einfeldingsleg. T.d. er ekki greint á milli kynja ofbeldismannsins; það er enginn gaumur því gefinn, hver kynni að vera aðdragandi morðanna, t.d. hvort um sjálfsvörn í einhverri mynd sé að ræða; það þykir ekki áhugavert, að rannsóknirnar séu unnar af fólki með kvenfrelsunarköllun; aðferðin í rannsóknum er ekki greind í þaula og svo mætti lengi telja.

Alvarlegasti ljóðurinn á þessum fréttaflutningi eða áróðri öllu heldur, er, að hvorki rannsóknir né fréttaumfjöllun er sett í neitt skynsamlegt kynjasamskiptasamhengi eða fræðilegt.

Fjölmargar alvöru rannsóknir hafa t.d. sýnt fram á, að kynin berja hvort annað nokkurn veginn til jafns. Það er enn fremur ljóst öllu hugsandi fólki, að kynin sína yfirgang og ofbeldi með mismunandi hætti. Í því efni mega konur það, sem körlum líðst ekki. Kinnhest skulu karlar t.d. þola. En öðru máli gegnir um konur. Tilkynni karlar um kynofbeldi er skellihlegið að þeim. Öðru máli gegnir um konur. Körlum hefur enn ekki dottið í hug að skapa múgæsingu á við „me-too“ fárið. Því tóku ríkisstjórnarflokkarnir þátt í af lífi og sál.

RÚV hefur takmarkaðan áhuga á ofbeldi kvenna gegn körlum. Drífa, Stella og Hanna Birna, fjalla sjaldan um það. Sama máli gildir um ofbeldi karla gegn körlum eða þá tegund ofbeldis, þegar karlar eru þvingaðir til hermennsku, ósjaldan af friðsömum kvenfrelsunarkonum.

Trúlega hafa um sjö hundruð þúsund karlar verið drepnir í Úkraínu síðustu tvö árin eða svo. Það mætti biðja hina talnaglöggu Stellu að reikna út, hversu margir séu drepnir á hverri mínútu.

Reyndar hefur RÚV líka flutt (19. og 20. nóv.) furðulegar fréttir af stríðinu í Úkraínu, sem einnig eru skýr dæmi um vanhæfni fjölmiðilsins ósnertanlega.

Það er uppeldis-, menntunar- og siðferðilegur ábyrgðarhluti að leyfa starfsmönnum þessa miðils að ausa af brunni vanþekkingar sinnar og köllunar yfir landsmenn í boði skattgreiðenda. Sumir heyra ekki aðrar fréttir.

Hvernig ætli strákar og stelpur túlki þennan óhroða?


Bloggfærslur 21. nóvember 2024

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Nóv. 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband