Leonard Sax er norður-amerískur sálfræðingur og læknir, sem töluvert hefur skrifað um kynin og samskipti þeirra. Fyrir nokkrum árum kom út ný útgáfa af bók hans:
Drengir á reki: Þættirnir fimm, sem knýja vaxandi farsótt áhugaleysis og dvínandi áorkunar meðal drengja og ungra karlmanna (Boys Adrift: The five Factors Driving the Growing Epidemic of Unmotivated Boys and Underachieving Young Men).
Þættirnir fimm, sem að dómi höfundar skýra, hvers vegna drengi skortir áhuga og eljusemi og láta vaða á súðum, eru; Breytingar á skólastarfi, tölvuleikir, óeirðarlyf (ADHD), innkirtlaskaðvaldar og hefnd hinna yfirgefnu guða. (Nánari skýring: Sundrun og lítilsvirðing (devaluation) karlmennskuhugsjónarinnar er fimmti orsakavaldur að þeirri öru farsótt, sem hér hefur verið til skoðunar. (Bls. 225)
Hér verður í hnotskurn fjallað um umhverfisspjöll, kynþroska og miðtaugakerfi á grundvelli bókarinnar.
Kynlitningar kvenkyns eru táknaðir með XX, en karlkyns með XY - alveg eins og í þeim dýrum, sem nánust eru okkur að skyldleika, þ.e. simpönsum. Sameiginlegt erfðaefni karldýra meðal þeirra og karlmanna er 99.4%, heldur meira en milli karla og kvenna.
Þetta gæti þess vegna merkt, að karldýr beggja tegunda horfi, heyri og lykti með svipuðum hætti. Þannig eiga mennskir karlar meira sameiginlegt með tilgreindum öpum á þessum sviðum en með kvenkyninu.
Hegðun karlkyns ungviðis meðal simpansa er áþekkt því, sem gerist meðal drengja. Þeir eru rásgjarnari, eirðarlausari, slást meira og líta síður eftir þeim, sem yngri eru. (Bls.29)
Eins og gefur að skilja er munur á miðtaugakerfi kynjanna, enda þótt kvenfrelsarar haldi öðru fram: Síðasta áratuginn hefur borist straumur rannsóknaniðurstaðna, sem sýna fram á mismun í heilaþroska telpna og pilta. (Bls.19) (En það var raunar löngu vitað.)
Þykjustuleikurinn um einsleitni kynjanna - að kynfærum frátöldum - hefur engan veginn fært heim jafnréttisdýrðina, þar sem drengir virða stúlkur og heiðra. (Bls. 257)
Meginsmíðaefni heilans, gráninn (grey matter), þroskast fyrr og hraðar hjá stúlkum. Á unglingsárum hefur stúlkan að meðaltali þroska tveggja ára sem forskot.
Magn karlkynvaka (testosterone) veldur meiri þykkni í sjónberki heilans (visual cortex) hjá drengjum, andstætt því, sem verður hjá stúlkum. Mismunandi heilasvæði þroskast mishratt hjá kynjunum einnig. Sömuleiðis er framvinda þroskans mismunandi.
Gráninn í hvirfilblöðum (parietal) þroskast með svipuðum hætti, en hraðar hjá stúlkum, sem nemur tveggja ára meðalþroska. Á þessu svæði á sér stað samþætting upplýsinga frá skilningarvitunum.
Aftur á móti gætir nokkru hraðari þroska hjá drengjum í gagnaugablöðum. Þar eru borin kennsl á hluti (object recognition) og þar á rúmskynjun (spatial perception) sér stað.
Í sjónheila eða hnakkablöðum gætir verulegs misræmis í þroska. Þroski þessa svæðis er hraður á aldrinum sex til tíu ára hjá stúlkum. Því er ekki þannig farið um drengi. Í upphafi gelgjuskeiðs verður aftur á móti hrörnun hjá stúlkum, meðan þroskinn tekur stökk hjá drengjum. (Bls. 20)
Það er líklegt, að heilinn starfi einnig með ólíkum hætti að einhverju leyti. Svo kann að virðast sem karlheilinn mótist af starfsemi innan heilahvelanna, en kvenheilinn af starfsemi þvert á þau bæði. Karlheilinn virðist sérhæfður til að auðvelda tengingu skynjunar og athafnar, en kvenheilinn greiningar og innsæis. (Bls. 282)
Karlmaðurinn er frá náttúrunnar hendi flóknari smíð en konan. Því er oftar ágalla að finna í miðtaugakerfi drengja. Það virðist einnig eiga við um kynkerfi, sem eru viðkvæm fyrir umhverfisspjöllum, gerviefnum, svokölluðum innkirtlaskaðvöldum. Einn þessara er vaki (hormón), sem líkist kvenkynvökum, og stuðlar að kvengervingu (feminization), bæði hjá mönnum og dýrum. Innkirtlaskaðvaldar í umhverfinu brengla kynþroskann.
Stúlkur verða fyrr kynþroska. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA) telja barnalæknar nú eðlilegt, að stúlkur séu kynþroska og noti brjóstahöld um átta ára aldur.
Kynþroski drengja brenglast einnig, en með öfugum formerkjum. Vísindamenn skýra nú frá því, að ... síðkominn kynþroski, ofþyngd og ofvirkni /athyglisbrestur (ADHD) séu einkennandi fyrir svipmynd, sem birtist oftar en ætla mætti, ef tilviljun réði för en einungis hjá drengjum. (Bls. 12)
Ágallar í gerð og starfsemi kynfæra drengja eru einnig áberandi: Líkur á því, að drengir fæðist með kynfæragalla hafa tvöfaldast síðustu hálfa öldina eða svo. Ágallar eru einkum; örfyðill (smaller-than-normal penis), eista, sem ekki gengur niður, og neðanrás (hypospadias ), þ.e.þvagrásin opnast á neðanverðum bellinum.
Aukin heldur er tíðni krabbameins í eistum áberandi og dregið hefur úr framleiðslu kynvaka, Ófrjósemi hefur aukist, hugsanlega vegna fyrrnefndra kirtlaskaðvalda í umhverfinu. Rannsóknir í BNA hafa einnig leitt í ljós, að mæður, sem höfðu mikið magn plastþjálniefnisins, þalats (phtalate), í líkamanum, eignuðust hér um bil tífalt oftar drengi með kynfæraágalla. (Bls. 146 -147)
Alþingismenn eiga sér draum. Drauminn um samfélag án ofbeldis sérstaklega þó kynferðislegs og kynbundins (karlaofbeldis). Svipaðan draum hefur marga dreymt áður. Hann rættist í Hálsaskógi, en hvergi annars staðar. En draumurinn er vitaskuld fagur - og því enn má reyna, þrátt fyrir aukið eftirlit, skriffinnsku og álögur á almenning.
Skólakerfið kemur óhjákvæmilega í brennidepil í þessu efni, enda er nú stofnaður hópur valinkunnra ellefu kvenna (og tveggja stráka), sem á að vísa okkur leið. Ferðalagið hefst þegar í leikskólum landsins. Lilja menntamálaráðherra gat með engu móti fundið fleiri stráka eða karla í vinnuhópinn. En ekki virðist hafa verið hörgull á snjöllum, sætum konum og kvenfrelsurum.
Hópurinn á að taka mið af neðangreindum þingsályktunum. Athygli vekur m.a. áherslan á mee-too arfinn og kynferðislegt og kynbundið ofbeldi, þ.e. kynofbeldi karla, þátttöku Stígamóta og Kvennaathvarfs beint og óbeint í fyrirhuguðum aðgerðum. Fræðsluefni Stígamóta um sjúka ást og eitraða karlmennsku verður m.a. gert hátt undir höfði.
Hér eru nokkrar glefsur úr viðeigandi þingsályktunum:
Þingsályktun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingu þess (7. júní 2019): Um að vinna bug á ofbeldi: ekki síst kynbundið ofbeldi, einelti, haturstal og myndbirtingar á stafrænum miðlum sem hvetja til ofbeldis. Horft verði meðal annars til frásagna og umræðu sem birtist í samfélaginu undir myllumerkinu #églíka/#metoo.
Kynning og innleiðing [á fyrirmyndarstarfi í íþrótta- og æskulýðsstarfi] verði skipulögð í samráði við samstarfsaðila og viðeigandi fræðsla veitt ásamt eftirfylgni í samræmi við aðgerðir á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins í kjölfar frásagna úr íþróttahreyfingunni í tengslum við #églíka/#metoo.
Kennsla um kynheilbrigði og kynhegðun: fræðsla um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Þetta stuðli að því að einstaklingar taki ábyrga afstöðu til kynlífs, kláms, kynbundins ofbeldis og kynferðislegra birtingarmynda eineltis og haturstals sem og eigin framkomu á netmiðlum og birtingar myndefnis. Kennsla verði endurskipulögð í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað í samfélaginu undir myllumerkinu #églíka/#metoo, þ.m.t. kennsla til nemenda, kennara og annarra sem vinna með börnum.
Þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni (3. júní 2020):
Kennsla grundvallist á gagnreyndri þekkingu sem hæfi aldri og þroska nemenda.
Skólaskrifstofur sveitarfélaga, með stuðningi frá forvarnafulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, miðli þekkingu og veiti leikskólum og grunnskólum, ásamt frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum, stuðning til að tryggja að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði samþættar skólastarfi, einkum í kennslu, og að starfsfólk hljóti fræðslu. Skólaskrifstofurnar tryggi að forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni verði markviss þáttur í skólastefnu sveitarfélaga og í forvarnastefnu hvers skóla um sig.
Innan Menntamálastofnunar starfi ritstjóri/verkefnisstjóri í a.m.k. hálfu starfi sem hafi það hlutverk að byggja upp þekkingu á námsefnisgerð sem styðji forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, þar á meðal gerð námsefnis í jafnréttis- og kynjafræðum. Verkefnisstjórinn skal fylgja eftir þeim verkefnum sem Menntamálastofnun eru falin samkvæmt aðgerðaáætlun þessari.
Tryggt verði að leikskólar hafi aðgang að vönduðu námsefni sem stuðli að forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og henti leikskólabörnum á öllum aldri, sbr. grunnþætti menntunar samkvæmt aðalnámskrá leikskóla.
Í hverjum grunnskóla starfi teymi sem hafi það hlutverk að tryggja kennslu í öllum árgöngum um kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem hæfir aldri og þroska nemenda.
Fræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni verði beint til unglinga í gegnum félagsmiðstöðvar. Stígamótum verði falið að halda áfram fræðslu til starfsfólks félagsmiðstöðva sem fram hefur farið í tengslum við átakið Sjúk ást.
Staðið verði að kynningarátaki um gildi kynjafræðikennslu í framhaldsskólum og þar á meðal um gildi þess að gera kynjafræði að skyldufagi, sbr. 23. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Samhliða verði námsefni um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og um kynheilbrigði og kynhegðun kynnt fyrir framhaldsskólakennurum,
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/12/15/Solborg-leidir-starfshop-um-eflingu-kynfraedslu-i-grunn-og-framhaldsskolum-/
Svo mælti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í viðtali við Morgunblaðið. Hún talar meira að segja með [af] festu, segir blaðamaðurinn. Er komið nýtt hljóð í strokkinn ráðherrans? Ágrip:
Stór hluti háskólanemenda í dag, til dæmis í Háskóla Íslands, eru konur og strákarnir skila sér ekki nægilega vel inn í háskólana, eins og í löndunum sem við berum okkur saman við.
Orsakanna gæti verið að leita í kerfinu. Við verðum að átta okkur á því að kerfið er að bregðast ákveðnum hópum.
Í því sambandi er brýnt að líta til drengja . Staða drengja á landsbyggðinni er líka töluvert verri en þeirra á höfuðborgarsvæðinu
Ég hugsa að rótin gagnvart strákunum liggi mjög snemma í skólakerfinu, [Þ]egar litið er til strákanna sérstaklega er það námsárangur sem er stærsta ástæðan þar, þeir sjá ekki tilganginn með menntuninni og finna ekki áhuga sínum farveg.
Kerfið er vandamálið. Það er líka lýjandi fyrir stráka að hlusta alltaf á að þeir séu vandamálið. Ég myndi ætla að við gætum horfst í augu við að það er eitthvað að í kerfinu sem gerir það að verkum að strákarnir okkar ná ekki meiri árangri í lestri, ekki meiri námsárangri en raun ber vitni og skili sér ekki inn í háskólana.
Það er ekki samfélaginu til góðs að við eigum Evrópumet í að ungir strákar séu ekki í námi. Okkur langar að sýna þeim nám í því ljósi að það greiði þeim leið inn í spennandi framtíð og efli getu þeirra, líðan og stöðu og þá er mjög mikilvægt að háskólarnir haldi vel utan um nýnema.
Það er ekki barasta lýjandi fyrir stráka að heyra stöðugan óhróður um sjálfa sig, kyn sitt, afa, bræður, feður og frændur. Það er beinlínis mannskemmandi.
Það er karlskemmandi, að drengir séu nær eingöngu aldir upp af konum. Þær kunna ekki karlmennsku. Drengir eru kvengerðir og tileinka sér kvenlega hegðun og dygðir. Kvenfrelsararnir hafa sagt okkur að þær séu þroskavænlegar fyrir stráka. Sérstaklega fyrir únga drengi, sem eru aðsópsmiklir.
Konurnar á leikskólanum og mæðurnar, sem stjórna uppeldi barna í raun, ná vel saman. Kvenfrelsunarandinn svífur yfir vötnum eins og í barnaverndinni. Börn eru kvennamál. Hinn góðkunni félagsráðgjafi, Guðrún Kristinsdóttir, hefur vakið athygli á svonefndri barnaverndargildru. Í þessu hugtaki felst, að í umfjöllun starfsmanna verður móðirin miðdepill athyglinnar, en börnum og feðrum er vikið til hliðar. Drengir í skóla lenda í hliðstæðri gildru.
Kvenfrelsunarkennarar leggja almennt fæð á drengi. Segja þá eitraða eins feðurna. Ástralski kvenfrelsunarforinginn, Jane Caro, skrifaði fróðlega grein í Sydney Morning Herald með fyrirsögninni: Hvernig má koma drengjum til bjargar í skóla: hættið að liðsinna þeim utan hans (How to help boys do better at school. Stop giving them a leg up in the outside world).
Litlu skattakollarnir vita nefnilega fullvel, að þeir þurfi ekkert á sig að leggja. Vegur þeirra verði engu að síður beinn og breiður í heimi karlkúgara.
Aðrar kvenfrelsunarkonur taka svo til orða, að oss sé nýr nauðgari fæddur, þegar drengur er í heiminn borinn. Enn aðrir vilja gelda verulegt hlutfall þeirra til að stuðla að kvenvænni veröld. Skynsömustu kvenfrelsunarmæðurnar láta eyða drengfóstrum í móðurkviði. Það eru í senn kven- og mannréttindi, enda varla munur á.
Þegar uppeldiskonurnar, mæður og kennarar, verða úttaugaðar og vita ekki sitt rjúkandi ráð, er farið með ódæla drengi í greiningu. Í landinu er notaður listi um virkni drengja, sem íslenskir vísindamenn útbjuggu í samvinnu við mæður og leikskólakonur fyrir áratugum síðan. Þar segir, hvernig drengir eigi að hegða sér og hvenær þolmörkum kvenuppaldenda sé náð.
Sé hegðun þeirra mæld einu staðalfráviki undir hinu eðlilegri hegðun, fá þeir greininguna athyglisbrest og ofvirkni (ADHD). Vandvirkustu greinendurnir kalla þá líka í greindarpróf í nýju og framandi umhverfi.
Þar eru þeir greindir sjúkir. Geðlæknarnir segja þá vanta boðefni í miðtaugakerfið. Það er allsherjar skýring á allra handa geðvanda, sagði danski geðlæknirinn, Erik Strömgrein (1909-1993) á sínum tíma.
Efnið dularfulla hefur þó ekki fundist enn, þrátt fyrir þrautseigjuleit vísindamanna á vegum lyfjafyrirtækjanna. (Sum börn fyrst og fremst drengir geta þó átt við starfrænan miðtaugakerfisvanda að stríða, seinþroska miðtaugakerfi á tilteknum sviðum.)
Að sjúkdómsgreiningu fenginni eru drengirnir dópaðir inn í kvenlegt hegðunar- og hugsanamynstur. Umfram allt er þeim kennt að pissa sitjandi og tala um tilfinningar eins og konur gera. Það þykir ofur mikilvægt, prófsteinn á hinu nýju karlmennsku, sem kvenfrelsararnir hafa skilgreint; þ.e. fyðilhafi, sem talar um tilfinningar eins og konur. Þetta er meginuppeldismarkmið kvenfrelsunarmæðra og -kennara.
Þegar pjakkarnir hafa þörf fyrir ærsl og at, að kanna veröldina, taka áhættu, takast á um stöðuna innan hópsins og iðka hagnýta eðlifræði, eru þeir lokaðir inni með perlur og liti.
Ætli orð Áslaugar Örnu séu fyrirboði þess, að ADHD greiningum fækki, dregið verði úr lyfjavæðingu uppeldis, og karlmennska verði hafin til vegs og virðingar í skólakerfinu.
Ætli orð Áslaugar Örnu séu fyrirboði þess, að ríkisstjórnin beiti sér fyrir jafnrétti í leikskóla- og grunnskóla og ráði viti borið karlfólk til að ala drengi upp? Marga þeirra skortir föðurfyrirmyndir. Það sama á við um stúlkurnar, sem fara á mis við karlsálina nema í spéspegli mæðra sinna og opinberrar umræðu. Það er ófögur mynd, sem þar er upp dregin.
Áslaug Arna kynni að vera á öðru máli en kvenfrelsunarstríðskonan breska, Rose Hackman. Hún hefur líka fjallað um utangarðspilta og -karla í grein í Guardian. Fyrirsögnin er: Ég bað ekki um að fæðast gagnkynhneigður, hvítur á hörund og karlkyns: eru karlmenn líðandi stundar kynpíslarvættir? (I didnt choose to be straight, white and male: are modern men the suffering sex?
Höfundur átti viðtöl við nokkra karlmenn um reynslu þeirra af mismunun og andúð. Hún komst að þeirri niðurstöðu, að í raun ættu þeir ekki betra hlutskipti skilið. Þjáningar þeirra væru eðlilegar í ljós þess, að þeir hefðu þurft að láta sér lynda brotthvarf karlforréttinda í jafnréttissamfélagi.
Ætli fyrir Áslaug Örnu vaki að knýja fram vopnahlé í stríðinu gegn drengjum? Þá þyrfti hún að eiga orðastað við sjálfan karlastríðsráðherrann, Katrínu Jakobsdóttur. Þær gætu spjallað um Kynungabók Katrínar.
Áslaug gæti líka spjallað við Lilju Alfreðsdóttur. T.d. innt hana eftir skýringum á því, hvers vegna nefndin um stefnumótun um jafnréttisfræðslu í skólum var skipuð ellefu konum og tveim körlum.
Það væri ekki úr vegi, að Áslaug ráðherra skimaði ofurlítið um kerfið, sem hún segir réttilega, að sé andstætt drengjum. Þar eru kvenfrelsunarhliðverðir hvarvetna, ekki síst á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Kvenfrelsarar- og kynleysufræðingar hafa skrifað umtalsverðan hluta námsefnis um kyn og leiðbeiningar um kynfræðslu. Enda eru samtök kennara að ganga af göflunum, dáleiddir af kvenfrelsunar- og kynleysudellunni.
Stríðinu gegn drengjum verður að linna í samfélaginu öllu. Skólinn er spegilmynd þess. Ætli það vaki í alvöru fyrir Áslaugu Örnu?
Það á eftir að koma í ljós. Alla vega er batnandi fólki best að lifa. Hljóðlátt og hikandi húrra fyrir Áslaugu Örnu, ráðherra.
https://www.smh.com.au/lifestyle/life-and-relationships/how-to-help-boys-do-better-at-school-stop-giving-them-a-legup-in-the-outside-world-20160811-gqqhyj.html?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.theguardian.com/world/2016/sep/05/straight-while-men-suffering-sex-feminism?utm_source=substack&utm_medium=email https://formannslif.blog.is/blog/formannslif/entry/2258884/ https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/04/30/strakarnir_ekki_alltaf_vandamalid/
Bloggar | 2.5.2023 | 16:17 (breytt kl. 16:17) | Slóð | Facebook
Bloggfærslur 2. maí 2023
Eldri færslur
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021