Sýkillinn og sjúkdómar lýðræðisins

Á Vesturlöndum er vöggu lýðræðis að finna, flokkalýðræðis vel að merkja. Einn af hornsteinum lýðræðis er málfrelsi og samkomufrelsi. Upplýsingaskylda stjórnvalda ætti einnig að vera í hávegum haft í lýðræðisríki. Það er væntanlega alkunna, að á þessu er alvarlegur meinbugur. Leyndarhyggja og þöggun þjóðmálaumræðu er algeng. Skrifræðisstofnanir lifa eigin lífi. Embættismenn taka afdrifaríkar ákvarðanir um líf og heilsu fólks. Stjórnmálamenn, sem margir hverjir bjóða sig fram sjálfum sér til dýrðar, leika lausum hala í sorglegu flokkalýðræði. Forsjárhyggjan er þeim mörgum í blóð borin og má þá einu gilda hvar í flokki þeir skiptast.

Stjórnmálaflokkar stunda einnig hagsmunagæslu fyrir flokksfélaga og ákveðin öfl í samfélaginu, t.d. lyfjafyrirtæki. Mörg þeirra eru peningamylla eigendanna, enda starfa þau á nær öruggum markaði, sem stjórnvöld og lýðurinn skapa þeim. Hræðsla fólks við dauðann og jafnaðarmennskuhugmyndir (allir jafnir fyrir dauðanum) stuðla að kerfi, þar sem lyf og heilbrigðisþjónusta er að verulegu leyti greidd úr sameiginlegum sjóðum landsmanna, sem ofangreindir stjórnmálamenn stýra. Slíkir sjóðir eru óþrotgjarnir.

Í hjálögðum fréttaskýringaþætti er sögð skrítin saga, sagan af kófinu; ævintýralegum tilraunum með sýkla í dýrum og hagsmunafléttum embættisræðis, vísindasamfélagsins og stjórnvalda, þ.e. löggjafarvaldsins. Hún er í hnotskurn þessi:

Árið 2014 hefja þrír erfðafræðingar, Peter Dazek og Ralph Barric frá Bandaríkjum Norður-Ameríku (BNA)í samvinnu við Zhenli Shi frá Kína, rannsóknir á því, hvernig megi flytja sýkla úr leðurblökum í mýs, sem hafa verið „mann-mengaðar,“ þ.e.a.s. lungu þeirra tillíkjast nú fyrir tilstilli erfðatækni lungum manna. „Starfsemisauki“ (gain of function) er það kallað.

Hugmyndin er sú, að gera tilraunir með bóluefni á hinum mannbreyttu músum, sem kynni að gagnast mönnum. Einnig er horft til þess, hvort fólk gæti smitast við þessar sýklayfirfærslur. Rannsóknirnar eru fjármagnaðar af Þjóðarheilbrigðisstofnun BNA (NIH). Þar er í fyrirsvari Anthony Fuci. Rannsóknirnar eru stundaðar á rannsóknarstofu í Wuhan. Í október 2019 kemur í ljós, að „fiktsýkillinn“ smiti manna á milli. Fjöldi manna á hersýningu í Wuhan dreifir sýklinum út um allt, en smit höfðu þegar átt sér stað í september. Heiðarlegir starfsmenn reyndu að vara við, en það var þaggað niður í þeim með ýmsum hætti. Um þrem mánuðum síðar tilkynntu Kínverjar Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni um málið.

Fyrr en varði hafði smitið dreifst um alla veröld. Litið var til lyfjaframleiðanda sem frelsara mannkyns. Svo einkennilega vildi til, að NIH og Lyfjafyrirtækið, Moderna, höfðu gengið í eina hagsmunasæng. Í skugganum stóðu svo fulltrúar opinberra sjóða og einkafjármagnaðra slíkra. Pfizer er þar á meðal. Það er hins vegar ekki fyrirtækið, Johnson og Johnson. Bólusetning með þeirra lyfi var stöðvuð um hríð. Það vill einnig svo til, að löggjafarþing BNA hafði, skömmu áður en veiran slapp út frá Kína, samþykkt lög þess efnis, að lyfjafyrirtæki nytu friðhelgi í sambandi við framleiðslu lyfja í neyðarástandi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að stjórnvöld róa að því öllum árum með góðu og með illu, að bólusetja fólk með lyfjum frá helstu lyfjafyrirtækjum – og í BNA ekki síst frá þeim fyrirtækjum, sem NIH á hlut í.

Þar sem nú virðist ljóst, að „bóluefnin“ stuðli ekki að ónæmi, hefur skilgreiningu bólusetninga verið breytt í þessa veru: Bólusetning er „sú aðgerð að kynna bóluefni fyrir líkamanum í því skyni að vernda hann frá sérstökum sjúkdómi.“ Horfin er úr skilgreiningunni það ætlunarverk, að stuðla að ónæmisviðbragði líkamans.

Samfara þessu virðist eiga sér stað samvinna fjölmiðla, þar með talin samvinna við tæknirisanna, sem samfélagsmiðlana reka, lyfjafyrirtækja og stjórnvalda (sóttvarnaryfirvalda, ríkistjórn) um að leyna staðreyndum framvindunnar og þagga niður umræðu um hana.

Þróunin er í flestu tilliti ógnvænleg. Óheiðarleiki stjórnvalda, embættismanna, fyrirtækja og vísindamanna, sem jafnvel ljúga fullum fetum og nota embætti sín og menntun til að skapa falskan trúverðugleika, er bein ógn við lýðræðið. Það er sýklahernaður að yfirlögðu ráði líka, en trúlega er hér um að ræða afdrifaríkt fikt með erfðir. Einnig er lærdómsrík samvinna gerræðisafla í landi hinna frjálsu, fyrirmyndarlýðræðisríkinu sjálfu, og flokkseinræðisríkis.

https://www.youtube.com/watch?v=91Ib5NjSZ-o


Hernám hugans 2: Upplýsingafræði og Richard Thaler

Ævi mín er orðin tiltölulega löng miðað við aldur afa minna beggja. Á ævikjaginu hefur aldrei verið hörgull á fólki, sem vildi kunna fótum mínum forráð eða sem vissi, hvað mér væri fyrir bestu, og vildi veita mér forsjá. Þessa hugulsömu menn er vitaskuld einnig að finna í fræðunum.

Einn þeirra er bandaríski hagfræðingurinn, Richard H. Thaler. Árið 2009 skrifaði hann bók, sem ellefu árum síðar kom út í nýrri útgáfu. Meðhöfundur er landi hans, lögfræðingurinn, Cass Robert Sunstein (f. 1954), reglugerðarmeistrari Barrack Obama, fyrrum forseta Bandaríkja Norður-Ameríku. Bókin heitir: „Hnipp: Hvernig bæta má ákvarðanatöku í sambandi við heilsufar, auðlegð og hamingju“ (Nudge: Improving Decisions about Health, Wealth, and Happiness). Richard uppskar hvorki meira né minna en Nóbersverðlaun í hagfræði fyrir verk sitt árið 2017.

Höfundar leggja út af kenningum sál- og félagsfræðinga um atferli manna, hvernig megi móta hegðun þeirra með beinum og óbeinum hætti. Fræði þeirra eru kölluð upplýsingafræði eða atferlishagfræði (behavioural economics). Innblástur er greinilega einnig sóttur til sálstýringarstjórnmála eða sálstýringarfræða (psychopolitics).

Bandaríska sálfræðingafélagið skilgreinir sálstýringafræði svo: 1) fræðin um sálræn tilbrigði við stjórnmálalegt hátterni og umhverfi stjórnmálanna, svo sem áhrif mismunandi samfélagsgerða [eða stjórnarhátta] (lýðræði, fasismi, sósíalismi) á samfélag og þegna þess; 2) fræðin um beitingu sálrænna kænskubragða eða stefnumótunar til að ná stjórnmálalegum markmiðum.“

Orðið, sálstýringarstjórnmál, mun vera ættað frá bandaríska bókmenntafræðingnum, Armstrong Richards (1893-1979). Náskylt seinni tíma orð yfir sama eða svipað hugtak er „félagstæknifræði“ (social engineering).

Yfirmaður leynilögreglu Joseph Vissarionovich Stalin (1878-1953), fyrrum einvalds hinna horfnu Ráðstjórnarríkja (Sovétríkja), Lavrentiy Pavlovich Beria (1899-1953), stundaði hagnýta sálstýringarfræði. Hann sagði:

Aðferðin snýst um „að skapa sem mestan glundroða í menningu óvinarins. Það er fyrsta skref okkar. Við uppskerum í jarðvegi glundroða, vantrausts, fjárhagsþrenginga og vísindalegs umróts. Örvinglaður lýðurinn getur í það minnsta eingöngu sótt huggun hjá alræðisríki öreiganna (Communist state). Að lokum kemst lýðurinn að því, að þrautalendingin sé [hugmyndafræði] kommúnismans.“

Það er harla skammt milli auglýsinga og áróðurs. Listin er að læða þeirri hugmynd í djúpvitundarhugskot manna, að vilji þeirra, þarfir, langanir, tilfinningar og hugsun, sé í samræmi við áróður og auglýsingar. Fáir skutu áróðursmeistara eða hnippara nasista, Paul Joseph Göbbels (1897-1945), ref fyrir rass í áróðri og auglýsingum.

Þokkapiltarnir, Göbbels og Bera, lögðu báðir áherslu á að skapa ótta og óöryggi, deila og drottna, sundra, vekja upp úlfúð og vekja aðsóknarkennd með hugmyndafræðilegum áróðri, þöggun, bann við málfrelsi, afskræmingu vísinda, ríkisuppeldi og sálstýringu. M.a. lögðu þeir að börnum að ljóstra upp um rangtrúnaðarhugmyndir foreldra sinna, vina og vandamanna. Kunn er áhersla þeirra á blóraböggla.

Í ofangreindu ljósi er boðskapur bókarhöfunda að mestu leyti gamalt vín á nýjum belgjum eða gjöf í nýjum og aðlaðandi umbúðum, hvort sem litið er til sálfræði- og samfélagsfræðilegra kenninga eða mannkynssögu.

Richard segir m.a.: „Hugmynd okkar um hnipp tekur til tiltekinna þátta í umhverfinu, sem við veitum athygli og hafa áhrif á hátterni okkar. Hnippið hefur áhrif, án þess að þvingun sé beitt eða lofað sé hagfelldum verðlaunum.“

Hann nefnir sem dæmi þá tillitssemi Breta við gesti sína að mála leiðbeiningarörvar á götur til að forða útlendingum frá umferðarslysum. Málið snýst um að örva fólk til að veita athygli og nota svona skynsamlegar leiðbeiningar, til að taka skynsamlegar ákvarðanir í valumhverfi (choice architecture) sínu.

En stundum dugar það skammt. „Við leggjum á það áherslu, að þegar hátterni fólks hefur í för með sér hættu fyrir aðra, er valfrelsi ekki kjörhugmyndin – en jafnvel þótt svo sé í pottinn búið, geta hnipp komið að gagni. Við gerum okkur einnig grein fyrir, að taki fólk verulega, skelfilegar ákvarðanir, og skemmi þar með fyrir framtíðarhorfum sínum, dugi hnippin skammt.“

Richard er talsmaður skyldubólusetninga og kolefnisskatts. „Að mínum dómi væri það góð, opinber stefna, að þvinga hinu óbólusettu til frekari einveru.“

„Það að upplýsa fólk um nýjabrum eða það, sem á döfinni er – t.d. á sviði sjálfbærni – getur leyst úr læðingi sjálfdrifna vitrun (self-fullfilling prophecy). Mörgum er annt um að staðsetja sig réttu megin í sögunni. … Sú hugsun gæti hvarflað að þeim og verið óhjákvæmileg, að komast mætti yfir hjalla, sem virtist óyfirstíganlegur og jafnvel ókleifur.“

„Tilgangur okkar er að leggja fólki lið eins og því sýnist best, rétta þeim hjálparhönd við að ná markmiðum, sem það skilgreinir.“ Það á þó ekki við um hinn þrjóska, „ofurlitla, grenjandi minnihluta“ bandarískra þegna, sem hann segir um þriðjung þjóðarinnar.

Bók Richard og Cass hefur notið gífurlegra vinsælda og á grundvelli hennar hafa verið stofnuð svokölluð atferlisinnsæisteymi eða -stjórnvaldseiningar (Behavioural Insights Unit) hjá stefnumótandi yfirvöldum víðs vegar um heiminn. Þau munu nú vera um fjögur hundruð, m.a. hjá ríkisstjórnum og alþjóðastofnunum, t.d. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Teymin, sálstýringarteymin, bera mismunandi nöfn. T.d. kallar Írska sjálfbærnistofnunin sitt teymi, atferlishagteymi eða atferlisupplýsingateymi (Behavioural Economics Unit).

Zain Afif, samfélagsfræðingur og talmaður Alþjóðabankans (World Bank), skrifaði fyrir fimm árum síðan: „Það mætti segja sem svo, að fyrsta teymið hafi verið stofnað árið 2009, þegar bandarísk stjórnvöld réðu Cass Sunstein til að leiða „Skrifstofu upplýsinga og reglugerða“ (The Office of Information and Regulatory Affairs – OIRA) til að sníða agnúa af reglugerðum. Árið 2010 stofnaði forsætisráðuneytið (Cabinet Office) í Stóra-Bretlandi fyrstu atferlisinnsæiseininguna (Behavioural Insights Unit) til reynslu. Aðrar þjóðir hafa fylgt í fótspor þess.“ (Það skoða ég í næsta pistli um efnið.)

Sálstýringarteymi Alþjóðabankans er liðtækt við að koma slíkum teymum á fót víðs vegar um veröldina, segir Zain „[S]tofnanavæðing atferlisvísinda í stjórnkerfinu gæti tryggt kerfisbundna, vaxtarvæna (scalable) og sjálfbæra notkun [þessarar] þekkingar til umbreytinga. … Við erum ekki lengur innt eftir því, hvort ríkisstjórnir skyldu koma sér upp umræddum teymum, heldur hvernig og hvenær.“

https://blogs.worldbank.org/developmenttalk/nudge-units-where-they-came-and-what-they-can-do

https://www.youtube.com/watch?v=dlr4ct3fzx4


Bloggfærslur 24. janúar 2022

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband