„Ég held ekki, að fasískt einræði sé yfirvofandi. En við erum ekki vel varin gegn því. Og mér segir svo hugur, að hættan hafi aukist upp á síðkastið ... Ellefu árum síðar (2007) ... held ég, að atburðir eins og „9/11“ hafi feykt okkur að barmi glötunar. Valdógnin hefur aukist stöðugt og allir varnargarðar, sem ég eygði 1996, eins og árvökul og frjáls miðlun, hafa brostið, eru eyðilagðir. Valdlægjan er að mínum dómi helsta áskorunin.“
„Drottnurunum er það að skapi, að þú verðir afhuga stjórnmálum og finnir til vonleysis. Þú flækist fyrir þeim. Þeir óska þess, að lýðræðið líði undir lok, að frelsi þitt verði skert, að jafnræði verði upprætt. Þeir vilja stjórna öllu og öllum, þeir vilja gína yfir öllu. Og undirlægjurnar eru búnar til hergöngu í anda „hinna fornu trúarbragða“, til krossfarar, sem mun eiga sér stað, ef þú spyrnir ekki við fótum.“
Þessi orð skrifaði Robert Anthony Altemeyer (f. 1940), sálfræðiprófessor við Manitoba háskólann í Kanada. Það lá honum eins og mörgum öðrum á hjarta að gera sér grein fyrir uppgangi og lýðræðislegri valdayfirtöku gerræðishreyfinga nasista og fasista í siðmenntaðri Evrópu fyrir tæpri öld síðan. Robert hefur þá sérstöðu að hafa rannsakað fyrirbærið um áratuga skeið.
Meginverk hans á þessu sviði er bókin „Valdlægjurnar“ ( eða undirlægjurnar - The Authoritarians), sem kom út árið 2006. Verk Roberts mætti jafnvel líta á sem eins konar framhald rannsókna og kenninga austurríska læknisins og sálkönnuðarins, Wilhelm Reich (1897-1957), og þýska félagsfræðingsins m.m., Theodor W. Adorno (1903-1969). Bækur hins fyrrnefnda þóttu svo hættulegar almenningi, að þær voru brenndar í Bandaríkjum Norður Ameríku.
Robert segir: Hin mikla ráðgáta um sálina hefur ævinlega verið, hvers vegna sumir velja alræði fremur en frelsi.
Trúlega mun það alltaf verða svo, að í umhverfinu leynist einstaklingar, sem þrá það eitt að verða einráðir. Sumir þeirra eru sauðheimskir, aðrir afar greindir. Margir þeirra eru viðhlæjendur, en þeir eru ekki „vinir,“ viðmótsþýðir og alþýðlegir. Innra með þeim eru hatursumbrot, sem leiðtogarnir geta auðveldlega leyst úr læðingi.
Rannsóknir hafa leitt í ljós, að undirlægjurnar lifa lífi sínu skertari í hugsun en gengur og gerist, röksemdafærslur þeirra eru lausar í reipunum, viðhorf þeirra eru einstrengingsleg, þær eru tvöfaldar í roðinu, tala tungum tveim, sýna yfirdrepsskap, sjálfsblindu, djúprætta þjóðernishyggju, og til að bæta gráu ofan á svart; þær eru haldnar grimmilegu ofstæki, sem gerir það að verkum, að varla er unnt að ná til þeirra með rökum eða sönnunum.
Valdlægjusamfélagið verður til, þegar fylgjendur afsala of miklu til leiðtoga sinna, treysta þeim of mikið og gefa þeim of frjálsar hendur um hvaðeina, sem þeim þóknast. Oft og tíðum er það sitthvað ólýðræðislegt, ofríkislegt eða grimmilegt. Á síðustu öld stafaði lýðræðinu mestri ógn af einræðisríkjum byltingarmanna (kommúnista) eða fasista. Þau lutu þó í lægra haldi, bæði í stríðum heitum og köldum. En leiðtogadýrkunin er hvergi nærri horfin.
Í áranna rás hef ég komist að því, að valdsundirlægjurnar hafi alsælar látið sér lynda fjölmargar óréttmætar og ólögmætar aðgerðir stjórnvalda í Bandaríkjum Norður-Ameríku og Kanada. Viðhorf þeirra til ríkistjórna má orða sem „pabbi og mamma vita best.“
Undirlægjurnar eru óttaslegnar skræfur, sem ráðast til atlögu, þegar þær eru vissar um að yfirbuga andstæðinginn, sem þær telja sig siðferðilega hafna yfir. En óttinn getur hvort heldur sem er, örvað til undirlægjuháttar eða ýgi, árásar.
Andstæðingana telja undirlægjurnar til úthóps, sem þær hafa alls konar fordóma um. Fordómarnir búa í manngerð þeirra og geta færst yfir á hvaða úthóp sem er. Undirlægjurnar láta til skarar skríða, ef leiðtoginn heldur yfir þeim hlífiskildi. Annars ekki, því þær eru gungur. En í valdlægjuhópum þvo leiðtogarnir venjulega hendur sínar af andstyggðarverkum fylgismanna sinna.
Undirlægjurnar tengjast innhópi sínum afar sterkum böndum. Ógn að utan þjappar hópnum saman. Efasemdir um leiðtogann eða viðhorf og reglur hópsins geta orðið afdrifaríkar. Hollusta við hópinn er megindyggð. Undirlægjuháttur og bókstafstrú eru nánar hliðstæður. Bókstafstrúarmenn eru gjarnir á að fylla flokk undirlægjanna. Megineinkenni þeirra eru: Gefa sig auðveldlega undir vald, eru ýgir í nafni þess valds og svo auðmjúkir valdinu, að þeir telja blinda valdhlýðni dyggð.
Ótti er auðvakinn með bókstafstrúarfólki, það er sannfært um eigið ágæti og býr yfir hatri í garð úthópa. Hatrið er auðvelt að leysa úr læðingi. Það er taumlipurt, heldur frábitnið því að hugsa sjálfstæða hugsun. Skynsemi og staðreyndum hrindir það frá sér eins og vatni sé skvett á gæs.
Bókstafstrúarmenn reiða sig á stuðning hópsins til að treysta skoðanir sínar. Þar eru þeir hollir liðsmenn, hugur þeirra er afgirtur og hólfaður. Tvöfeldni er áberandi í dómum þeirra. Stundum virðast grundvallarlögmálin harla götótt og þeir eru oft hræsnarar. Sök bítur ekki á þeim.
Bókstafstrúarmenn horfa á sjálfa sig blindu auga, fullir af þjóðrembu og fordómum, skammsýnir og þröngsýnir. Þeir geta sýnt sorglegan þekkingarskort á því, sem þeir andæfa. En þeir kjósa heimskuna og vilja stuðla að samskonar heimsku hjá öðrum. Til mikillar furðu eru þeir einnig jafn vankunnandi um eign trúaratriði. Sumir ala á ótta um gildi dýpstu sannfæringar sinnar. En hverju sem því líður eru þeir hamingjusamir og töluvert ötulir.
Robert leiðir huga okkar að rannsóknum norður-ameríska sálfræðingsins, Stanley Milgram [1933-1984], sem leiddu í ljós, að flestir á fullorðinsaldri væru tilbúnir til þess að valda saklausum fórnarlömbum óbærilegum sársauka, jafnvel þótt dauði þeirra væri yfirvofandi. Þessar rannsóknir, unnar við Yale háskólann í BNA, hafa verið endurteknar víðar þar í álfu, í Þýskalandi, á Ítalíu og Spáni, í Austurríki og Jórdaníu. Þátttakendur hafa komið úr röðum námsmanna og óbreyttra borgara. Það hefur engu skipt með tilliti til niðurstaðnanna, sem alls staðar eru þær sömu.
Vonandi hvetja þessi orð Roberts okkur til umhugsunar um eðli mannsins og fjöregg hans, lýðræðið. Það er í bráðri hættu.
Wilhelm Reich (1897-1957) var austurrískur læknir og sálkönnuður. Hann reyndi þýska nasismann og ofstækisæði bandarísku leyniþjónustunnar á eigin skinni. Verk hans þóttu svo hættuleg almenningi, að þau voru brennd í Bandaríkjum Norður Ameríku (BNA). Hann var fangelsaður fyrir rit sín og skoðanir og lést í fangaklefa í landi hinna frjálsu.
Wilhelm skrifaði fjölda verka, en „Hjarðsálfræði fasismans“ (Massenpsychologie des Faschismus) er trúlega þeirra mikilvægust. Hann segir m.a.:
Fasismi er sprottinn úr íhaldssemi jafnaðarmanna annars vegar og þröngsýni og glöpum auðvaldssinna hins vegar. Fasisminn bjó yfir grimmilegri íhaldssemi, engu minni en þeirri, sem hafði lagt líf og eignir í rústir á miðöldum. Lögð var rækt við svonefnda þjóðlega hefð á goðsögulegan og grimmdarlegan hátt, sem hafði ekkert með sanna þjóðerniskennd eða tengsl við jörðina að gera. Með því að kalla sig bæði byltingarmenn og jafnaðarmenn hlupu fasistarnir í skarðið fyrir jafnaðarmennina.
Drottnun yfir iðnjöfrunum færði þeim auðmagnið. Þegar hér var komið sögu, var jafnaðarsamfélagið falið alvöldum leiðtoga í hendur. Hann var af Guði sendur. Hugmyndafræði þess leiðtoga nærðist á valdleysi og umkomuleysi múgsins. En hvort tveggja hafði skotið rótum í skapgerð fólks í skóla, sem einkenndist af valdlægjuhætti, runninn undar rót kirkjunnar og þvingandi heimilislífs.
Loforð hins alvalda leiðtoga, sem í umboði Guðs lofaði frelsun þjóðarinnar, féll í frjóa jörð hjá múginum, sem hafði djúpa þörf fyrir bjargvætt. Leiðtogi og lýður runnu saman. Hinn þýlyndi múgur kokgleypti hugmyndina um óbreytanleika mannsins og kenninguna um „eðlilega skiptingu manna i leiðtoga og lýð.“
Þar með hafði lýðurinn afsalað sér ábyrgð í hendur ofurmannsins. Hvarvetna er leiðtogahugmyndafræði fasismans byggð á hugmyndinni um fastmótað eðli mannsins, hjálparleysi hans, þýlyndi, og frelsunarvanmátt fjöldans.
Hin bitra staðreynd er þessi: Til grundvallar fasisma allra þjóða liggur ábyrgðarleysi lýðsins. Fasismi á sér rætur í brenglun mannsins um þúsundir ára. Fasismi lýsir hvorki sérstökum manngerðareinkennum Þjóðverja eða Ítala. Hann á sér bólfestu í hverjum og einum, hvar sem er í veröldinni.
Það er staðreynd málsins. Henni verður ekki hnikað, enda þótt hún sé afleiðing félagsþróunar um árþúsundir. Maðurinn er ábyrgur fyrir sjálfum sér. Það stoðar lítt að skella skuldinni á „sögulega þróun.“ Það hafði einmitt í för með hrun frelsishreyfinga jafnaðarmanna. Atburðir síðustu tveggja áratuga (1922-1942) eru samt sem áður á ábyrgð hins vinnandi lýðs.
„Ef við gefum okkur, að „frelsi“ merki fyrst og síðast þá ábyrgð hvers og eins að skapa sér tilveru með tilliti til atvinnu og tengsla við annað fólk með skynsömum hætti, þá mætti fullyrða, að engin ógn sé yfirsterkari því að skapa almennt frelsi.“
Sérhver félagsleg atburðarás ákvarðast af viðhorfi fjöldans. Fjöldinn er haldinn vanmætti til frelsunar sjálfs sín. Hið sanna frelsi skapar múgurinn einungis af sjálfsdáðum.
Sannleikurinn er gagnslaus, nema fylgi vald til að láta verkin tala samkvæmt honum. Að öðrum kosti heyrir hann til friðar umræðna í háskóla. Eigi vald sér ekki rætur í sannleikanum – og það má einu gilda, um hvers konar vald er að ræða – er um að ræða einveldi meira eða minna í einum eða öðrum skilningi þess hugtaks, vegna þess, að slíkt vald sækir ævinlega funa sinn í hræðslu mannsins við félagslega ábyrgð og þá byrði, sem frelsi felur í för með sér. Sannleikur og einveldi geta ekki leiðst hönd í hönd. Það er söguleg staðreynd, að sannleikurinn hefur ætíð horfið, þegar handhafar hans hafa komist til valda. Í valdi er alltaf fólgin undirgefni.
Við okkur blasir þessi óhagganlega staðreynd; í sögu mannlegs samfélags hefur fjöldanum aldrei lánast, í kjölfar blóðugra frelsisstríða, að halda friðinn og rækta frelsið. Og hér er átt við eiginlegan frið til ræktunar fólks og félags, frelsi til að draga andann óttalaust, frelsi frá allra handa hagkúgun, frelsi án framfarahindrana; í stuttu máli, frelsi til að lifa samkvæmt eigin geðþótta.
Við verðum að hrista af okkur allar blekkingar. Því að í múginum sjálfum er bólfest andstaða, sem í er fólgin afturhaldssemi og drápsfýsn. Hvort tveggja hefur hvað eftir annað að engu gert viðleitni baráttumanna fyrir frelsi. Þetta afturhaldsvald skýrist af almennum ótta við ábyrgð og frelsi.
Vonandi hvetja þessi orð Wilhelms til umhugsunar, því enn er vegið að lýðræðinu með afdrifaríkum hætti.
Bloggfærslur 17. janúar 2022
Nýjustu færslur
- Stórar, saklausar stelpur og graðir græskugaurar. Kynrándýr
- Síonistabyltingin og gjöfulir Gyðingar. Byltingargyðingaprest...
- Baráttan fyrir betri heimi á nítjándu öldinni. Jafnaðar- og b...
- Baráttan fyrir betri heimi á nítjándu öldinni. Jafnaðar- og b...
- Gáttir Helvítis munu yður opnast. Stríðsyfirlýsing Ísraels og...
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021