Sífellt fleiri kvenstjörnur stíga fram á sjónarsviðið í leit að kvenréttlætinu, kveða upp jafnréttisrefsidóma með fulltingi götunnar og fjölmiðla og gera kröfur um að stjórna því, hverjir leiki í íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu og hverjir megi þjóna KÍ. Þórhildur Gyða Arnarsdóttir skín nú skærust, miðlæg í stjörnuþoku ótiltekins fjölda stjarna. Því miður sést einungis af þeim bjarminn enn þá. En stjörnusjónaukanum skal nú beina að ósvinnunni samkvæmt fallinni stjórn KSÍ. Sjónaukinn, sem rýna skal til gagns og brjóta til mergjar, er annað kvenfrelsunarnýtstirni, Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir (f. 1978), sem alla jafnan veitir forstöðu merkri stofnun, Jafnréttisskóla Reykjavíkurborgar.
Á heimasíðu hans er skólastarfi lýst svo: Jafnréttisskóli Reykjavíkur var settur á laggirnar í október 2013. Markmið skólans er að skapa vettvang fyrir jafnréttismenntun í skóla- og frístundastarfinu.
Í aðalnámskrá segir að á öllum skólastigum skuli nemendur fræddir um jafnréttismál en jafnrétti er ein af grunnstoðum menntunar. Hlutverk Jafnréttisskólans er m.a. að skapa vettvang og miðla þekkingu á jafnréttismálum til starfsfólks leikskóla, grunnskóla og frístundamiðstöðva Reykjavíkurborgar í samræmi við áherslur aðalnámskrár. Annað hlutverk skólans er að veita ráðgjöf og stuðning varðandi ýmis málefni sem varða jafnréttismenntun, mannréttindi og kynheilbrigði. Heimasíðan Jafnréttistorg er á vegum Jafnréttisskólans og þar má finna margvíslegt kennsluefni og leiðbeiningar sem styðjast má við í jafnréttis- og kynfræðslu á öllum skólastigum.
Það er sem sé skólastýra þessa skóla, sem nú haslar sér völl í íþróttahreyfingunni, sjónaukinn, sem beint er að eitraðri knattspyrnumenningu. Kolbrún Hrund er auðmjúk (samkvæmt Fréttablaðinu): Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, sem leiðir hópinn, segist ætla að skoða menninguna alveg niður í yngstu iðkendur. Við vitum að það er mikil vinna fram undan en við ætlum að gera það vel, af auðmýkt og fagmennsku, segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir Hópurinn mun rýna vel í alla verkferla Knattspyrnusambandsins og skoða vel hvað þurfi að gera betur og hvernig eigi að gera það, enda ljóst að það er margt sem ekki hefur verið nógu vel gert.
Rannsóknarrétturinn skal horfa til hæstu siðvitundarhæða: Það er alveg ljóst að við þurfum að skapa umhverfi þar sem ofbeldi er alfarið hafnað og þar sem þolendur finna að öruggt er að segja frá. Ábyrgðin á ávallt að vera geranda en ekki þolanda. Verkferlarnir verða að vera skýrir og öll viðbrögð hrein og skýr.
Svo að ekkert fari nú úrskeiðis hefur Kolbrún, sem hefur mikla þekkingu á þessum málum, bæði hjá Reykjavíkurborg og innan ÍSÍ, boðið Hönnu Björgu Vilhjálmsdóttur, framhaldsskólakennara og formanni jafnréttisnefndar Kennarasambands Íslands, og Steinunni Gyðu- og Guðjónsdóttur, talskonu Stígamóta, sæti í hópnum.
Sérstakar faglegrar forsendur Kolbrúnar Hrundar felast í námi í kynjafræði frá Háskóla Íslands undir leiðsögn Þorgerðar Einarsdóttur (f. 1957). Meistararitgerð hennar ber titilinn; Strákar geta haft svo mikil völd. Upplifun stúlkna á kynlífsmenningu framhaldsskólanema.
Í úrdrætti stendur: Tilgangur þessarar ritgerðar er að skoða upplifun stúlkna á þeirri kynlífsmenningu sem ungt fólk á framhaldsskólaaldri býr við í dag. Rýnt er í þá þætti sem stúlkurnar telja helst hafa áhrif á kynlífsmenningu þeirra svo sem vinahópinn, samskiptamiðla, klám, útlitsdýrkun og kynlífs- og klámvæðingu.
Leitast er eftir því að skoða hvort stelpurnar upplifi þrýsting til að stunda kynlíf eða ákveðnar kynlífsathafnir, hvaðan þrýstingurinn kemur og hver birtingarmynd hans er. Einnig er ljósi varpað á upplifun viðmælenda á kynfræðslu og jafnréttisfræðslu í grunn- og framhaldsskólum.
Rannsóknin er eigindleg, tekin voru alls tíu viðtöl við þrettán stúlkur þar af níu einstaklingsviðtöl og eitt rýnihópaviðtal. Ein þátttökuathugun var framkvæmd. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að stúlkur upplifi mikinn þrýsting varðandi útlitið, kynþokkann, kynlíf og ákveðnar kynferðislegar athafnir, bæði frá dægurmenningu samfélagsins, vinahópnum og ekki síst strákum.
Niðurstöður benda einnig til þess að kynlífs- og klámvæðing hafi veruleg áhrif á kynlíf og kynlífshandrit ungmenna. Viðmælendur telja sterk tvöföld skilaboð ríkja í samfélaginu varðandi kynhegðun stráka og stelpna og stelpur séu undir mun strangara eftirliti en strákar. Kyn- og jafnréttisfræðslu er verulega ábótavant í íslensku skólakerfi samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar. Viðmælendur óska eftir því að fræðslan verði bætt verulega og að innan hennar verði jákvæðum hliðum kynheilbrigðis gert hærra undir höfði.
Fræðileg undirstaða er kunnugleg, hugleiðingar félagsfræðingsins breska, Sylvia Walby (f. 1953) um kynjakerfi, í túlkun lærimeistarans, Þorgerðar: [H]ún útskýrir hvernig samfélagið leitast við að flokka einstaklingana niður eftir kyni. Hún bendir okkur á að hér sé um að ræða ævagamalt félagslegt valdakerfi sem ekki aðeins aðgreinir kynin heldur viðheldur órétti og valdamisræmi á milli þeirra.
Þannig fylgi þeim eiginleikum sem karlmennskunni eru ætlaðir völd og rými á meðan konurnar fá valdaleysi og undirskipun í vöggugjöf. Walby tekur þó fram að ekki sé sjálfgefið að allir karlar græði á kynjakerfinu völd og rými og að ekki séu allar konur sjálfkrafa undirskipaðar. Kerfið er fljótandi, það er bæði sýnilegt og falið, tekur breytingum eftir stað og stund en teygir anga sína inn á flesta fleti þjóðlífsins. Kerfið má finna bæði á opinbera sviðinu sem og á einkasviðinu og skiptir Walby því niður á sex svið: Vinnumarkað, fjölskyldu, menningu, kynverund, ofbeldi og ríkisvald (Þorgerður Einarsdóttir, 2006). Þessa fræðilegu forsendu þykir Kolbrúnu Hrund ekki ástæða til að skoða með gagnrýnu hugarfari og varla hvött til þess af leiðbeinanda sínum.
Kolbrún Hrund segir um ríkjandi karlmennsku, öðru nafni eitraða karlmennsku: Með karlmennskuhugtakinu fylgir gjarnan ímynd valda og líkamlegra yfirburða og í samfélagslegri umræðu er hugtakið m.a. notað til þess að aðgreina karla frá konum. Það sem telst vera kvenlegt er álitið andstæða þess sem talið er karlmannlegt (Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 2004). Ingólfur Ásgeir (f. 1954) hefur m.a. skrifað bókina: Jafnréttisuppeldi, kjörgrip kvenfrelsara. Með núverandi forstýru Jafnréttisstofu, Katrínu Björgu Ríkharðsdóttur (f. 1967) skrifaði hann einnig ritgerðina: Er hægt að bjóða kynjakerfinu birginn um reynslu átta kvenna.
Kolbrún Hrund styðst við skilgreiningu SÞ á menningu (sem er prýðileg í sjálfu sér): samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.(UNESCO, 2002).
Ritgerðin er forvitnileg að öllu leyti. Hana má sýnist mér - að hluta lesa sem staðal fyrir kvenfrelsunarritgerðir frá Háskóla Íslands. En það er líka athyglivert, hvernig konur að sögn Kolbrúnar Huldar - beita líkama sínum til byltinga:
Með brjóstabyltingunni má segja að ungar konur séu að veita andspyrnu við hinum styðjandi kvenleika, þær sýna gerendahæfni sína með því að brjótast út úr hinum karllæga ramma samfélagsins, koma mikilli umræðu af stað og hrófla þannig við stoðum kynjakerfisins. Þær berjast einnig gegn þeirri kúgun og misnotkun sem fylgt hefur hinni nýju tækni með því að ákveða sjálfar birtingarmynd líkama síns. Ungu konurnar telja sig vera í stöðu sem formæður þeirra þekkja ekki og því hafi þær eldri ekki forsendur til að skilja hvers vegna þær völdu þessa leið til að láta í sér heyra.
Ætli konur beiti fleiri líffærum í byltingartilgangi? Það ætlar Kolbrún Huld væntanlega m.a. að kanna sem forstýra rannsóknarnefndar Knattspyrnusambands Íslands. Árnaðaróskir!!!
https://www.frettabladid.is/sport/faghopur-skodar-eitrada-knattspyrnumenningu/
Það er afar fróðlegt að fylgjast með þeirri mee-too bylgju, sem nú rís innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Uppskriftin er kunnugleg; dylgjur, gróusögur, saklaust fórnarlamb og fúsir fjölmiðlar. Eins og vænta mátti fer ríkisfjölmiðillin fremstur í flokki.
Dylgjur og gróusögur eru endurteknar í síbylju. Þær vaxa eins og á í leysingum. Almenn hneykslan er vakin, samviskan fer að narta í sálina. Fólk hugsar með sér; karlar fara illa með konur. Sérfræðingar eru teymdir fram á vígvöllum og fara mikinn og langt fram úr sjálfum sér og þekkingu sinni og fræðilegri þekkingu yfirleitt. Viðar Halldórsson, sem er m.a. sérfræðingur í eitraðri karlmennsku og íþróttum, og hinn margrómaði kynfræðasnillingur, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir, eru t.d. leidd saman hjá hinum mjúkróma fréttamanni RÚV (eða fréttakonunni eins og sagt er á RÚV mállýskunni) með sakleysislegu engilásjónuna.
Undirbúningur hefur átt sér stað í magnþrungnum viðtölum. Þar er þrástagast á hugtakinu brotaþolum og þolendum. Engin brot eru þó staðfest, en brotaþolum skal, samkvæmt þulu Stellu Samúelsdóttur, útsendara UN Women, trúa skilyrðislaust. Í raun er um að ræða ámæli eða slúður, sem yrði að kæru sakarábera fyrir dómstóli og ákæru saksóknara, ef hin grunaði, sakborningurinn, yrði saksóttur. En dómstól götunnar varðar ekki um það. Það er dæmt á grundvelli slúðurs og hálfsannleika.
Sakargiftum er að mestu haldið í vídd ímyndunaraflsins og beint að hópi (landsliði karla í knattspyrnu), hreyfingu (karlíþróttum) og helmingi mannkyns (körlum). Erkifórnarlambið hefur ekki fyrir því, að útskýra málavöxtu í sambandi við klofgripið, sem hún segist hafa mátt þola af hendi ónafngreinds landsliðsmanns, sem er þó auðvelt að komast að hver sé, sbr. leikaraævintýrið sællar minningar.
Var hún á höttum eftir bólförum með hlutaðeigandi landsliðsmanni? Gæti hann hafa túlkað hegðun freyjunnar eða orð á þann veg? (Klofkáf þætti stúlkum á höttunum eftir bólförum vegsauki og viðurkenning. Það er sægur stúlkna í slíkum hugleiðingum í fylgdarliðum frægra íþróttakappa og tónlistarkappa.) Eða greip landsliðsmaðurinn í klof hennar upp úr þurru? Stúlkan skuldar okkur slíkar viðbótarupplýsingar, svo við megum gera okkur grein fyrir atvikinu úr því, að hún gerir það að þjóðareign. Hvers vegna leitaði hún ekki réttar síns? Hvers konar fórnarlamb er hún?
Hún segist þekkja að minnsta kosti sjö aðrar stúlkur, sem hafa orðið fyrir kynofbeldi á hálfu liðsmanna. Ætli sé um sjö mismunandi leikmenn að ræða? Hverjir eru þeir? Hanna Björg fer á kostum. Hún hefur á takteinum fjölda sagna þolenda eða brotaþola. Hún býr yfir leyndardómnum og leggur sig fram um að virkja - í samstarfi við kvenfrelsunarfréttastofu RÚV dómstól götunnar og torveldar viti borna umræðu um hugsanlega glæpi.
Þegar hér er komið sögu liggur samkvæmt Hönnu Björgu allt landsliðið (og fleiri karlíþróttamenn) undir gruni um allra handa kynóþokkaskap. Og Viðar tekur undir. Sorglegur dúett! Karlmenn þarf að afeitra. Þau láta sig ekki muna um að fullyrða um kvenfyrirlitningarmenningu í karlaíþróttum. Þetta tekur hinn dyggðum prýddi ráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, undir. (Hún varð fyrri til en sjálfur forsætisráðherra, sem notar hvert tækifæri til að ota sínum kvenfrelsunartota.)
Enginn ofangreindra gerir okkur, sauðsvörtum almúganum, grein fyrir hugtökunum. Það er beinlínis spaugilegt að hlusta á vandlætingu fréttamanna RÚV vegna kynjahlutfalls í stjórn KSÍ. Það er nokkurn veginn það sama og í nefndinni, sem koma skal með tillögur að fræðsluefni um kyn í grunnskólum landsins, en með öfugum formerkjum. Þar situr Hanna Björg, forkona í jafnréttisnefnd KÍ. (Vonandi tekur hún einnig sæti í sams konar nefnd eða dómstóli jafnvel, sem vafalítið verður stofnaður í KSÍ.)
Og meðan dansinn dunar æfir landslið Íslands, hugsanlega skipað kynglæpamönnum, fyrir þrjá mikilvæga landsleiki. Það er reyndar ótrúlegt, að þeir bregðist ekki við og leggi skóna á hilluna, meðan alvöru dómstólar fjalla um hinar mergjuðu ávirðingar i garð þeirra.
Í Kastljósi kvöldsins (30. ágúst) lýsti fyrrgreindur fréttamaður yfir því, að þjóðin öll væri í áfalli. Stórkostleg véfrétt! Trúlega á hann við viðbrögð við hugsanlegum, óstaðfestum kynglæpum landsliðsmanna i knattspyrnu og þeirri kvenfyrirlitningu, sem þeir hugsanlega sýna en ekki eigin hörmulegu, ósiðlegu fréttamennsku.
Og svo er það KSÍ. Hvaða skyldur hefur hreyfing og stjórn í sambandi við hátterni knattspyrnumanna? Er sambandið siðgæðislögregla? Vonandi fer með þennan storm eins og þann síðasta í Orkuveitunni. Hann var í vatnsglasi.
https://hringbraut.frettabladid.is/frettir-pistlar/thorhildur-gyda-vid-megum-ekki-stoppa-her-thvi-their-eru-fleiri/
Bloggfærslur 1. september 2021
Eldri færslur
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021