”Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig.“ Nauðgunarmenning og káfkonur

Vertu‘ ekki’ að horfa svona alltaf á mig

ef þú meinar ekki neitt með því.

Ef lagleg snót mig lítur á

ég litið get ekki upp og roðna alveg niður í tá.

 

 

Og ef ég verð í einni skotinn

ég aldrei þori að segja nokkurt orð.

En leynda ósk ég ætla að segja þér,

að þú viljir reyna að kenna mér.

Því ertu að horfa svona alltaf á mig

ef þú meinar ekki neitt með því?

Þennan skemmtilega texta Jóns Sigurðssonar, söng einn af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar á árum áður, Ragnar Bjarnason. Kíminn textinn lýsir uppburðarlitlum pilti í sjónmáli konu, sem greinilega lítur hann hýru auga, daðrar. Það mega konur enn þá gera, en slíkt háttalag karlmanns er talin kynferðisleg áreitni samkvæmt íslenskum lögum, nema „fórnarlambið“ gefi skýrt leyfi til þess.

Því má segja, að löglegt daður sé enn sé leyft í samskiptum fólks. En þá er varla um daður að ræða lengur, horfin úr samskiptunum hinn leikandi kynþokkaspenna, frygð og ástarbrími, rétt eins og það að gefa undir fótinn, gera hosur sínar grænar fyrir, sýna ástleitni, stíga í vænginn við, hvísla ástarorði í eyra, fara með blautlegt vísukorn, og margt fleira í þeim dúr. Girndarauganu skal jafnframt loka. En varla mun takast að slökkva girndarbruna og losta. Þó er ekki útilokað, að hinni græn-fjólubláu ríkisstjórn renni blóð til þeirrar skyldu.

Þessar viðhorfs og lagabreytingar eigum við kvenfrelsunarhreyfingunna að þakka. Fræðimenn hennar fengu þá hugdettu, að kynhrifning og kynlíf væri beittasta vopn karlmanna til að kúga konur, sem ku vera uppáhaldsiðja þeirra. Nokkrir þessara fræðimanna halda því meira að segja fram, að allt gagnkynhneigðarkynlíf feli í sér kúgun á konum og megi þá einu gilda, hvort konur hafi veitt samþykki sitt í nýja kynlífssamþykktarappinu. Ástsælni karlmanna er því kölluð nauðgunarmenning og hefur samkvæmt kvenfrelsunarfræðingum verið sérstaklega áberandi við stofnanir æðri menntunar.

Af þessum sökum hlupu menn í Ástralíu upp til handa og fóta til að kanna kynferðislegan óþverraskap karla. Hleypt var af stokkunum rannsókn einni mikilli og rándýrri, sem Mannréttindastofnun í Ástralíu (Human Rights Commission) stóð fyrir í háskólum landsins.

Niðurstöðurnar voru kvenfrelsurum mikil vonbrigði. Þær voru m.a. á þá leið, að yfir tveggja ára tímabil taldi 0.8% námsmanna sig (sitt hvort áranna) hafa orðið fyrir kynferðislegri „árás“ (sexual assault), sem að mestu leyti fólst í kynferðislegum bröndurum og athugasemdum. Það fór verulega fyrir brjóstið á þeim, að karlar skyldu oftar en konur bera sig illa undan áreitni á borð við óviðurkvæmilega snertingu. Þeim þóttu káfkonur þreytandi.

Þrátt fyrir þessar niðurstöður upphófst áróður fyrir hagsmunum þolenda kynofbeldis, konum vitaskuld. Gera þyrfti bragarbót á fyrrnefndri rannsókn með nýrri, „Þjóðtækri könnun á öryggi námsmanna“ (National Student Safety Survey) á vegum „Félagsrannsókamiðstöðvarinnar“ (Social Research Centre). Anastasia Powell, kunnur ástralskur kvenfrelsunarafbrotafræðingur, var fenginn til aðstoðar teyminu við að endurhanna síðustu könnun. Það er með þessa könnun eins og hina íslensku, „Áfallasögu kvenna,“ að spurningalistinn hefur ekki fengist opinberaður.

En bréf eins þátttakenda til Bettina Arndt (sjá heimasíðu hennar) gæti gefið vísbendingar: „Þegar ég hafði um það bil lokið við að svara könnunni, setti að mér ugg þess efnis, að könnunin hefði af yfirlögðu ráði verið hönnuð til að auka líkur á niðurstöðu, sem kynda muni undir skilningi á tíðni kynferðislegrar áreitni í háskólanum [þ.e. talin veruleg], [og] sem [einnig] væri til þess fallin að brengla og móta viðhorf almennings og stefnumótun.“ Nemandi þessi tók nokkur skjáskot af spurningunum.

Skilgreining á kynferðislegri áreitni miðað við síðustu könnum er útvötnuð enn frekar. T.d. verður „ótilhlýðilegt gláp“ að „glápi.“ Það er sömuleiðis talin kynferðisleg áreitni, ef meðnemandi „kemur með athugasemdir eða spyr ágengra spurninga um einkalíf þitt, líkama eða útlit; „innir eftir áhuga á kynlífi eða býður endurtekið til stefnumóts.“

Kossar og kjass eru nú einnig talin kynferðisleg áreitni, hafi kjassarinn „ekki borið við að biðja leyfis.“ Kynlífstilburðir af öllu tagi undir áhrifum áfengis eru taldir kynofbeldi. Nemendur eru beðnir um svör á grundvelli reynslu, bæði innan og utan háskólans, eigin reynslu og annarra, og sömuleiðis hafi svarenda boðið slíkt í grun. Kynferðisleg áreitni er skilgreind sem auðsýnt hátterni, sem þykir óvelkomið, móðgandi, niðurlægjandi eða nærgöngult.

Þetta er enn ein rannsóknin í flóru svipaðra kvenfrelsunarrannsókna, sem varla nokkurt mark er á takandi, nema í áróðursskyni fyrir kvenfrelsara innan og utan háskóla – og stjórnmálamenn auðvitað.

Nauðgunarfárið eða nauðgunarmenningin á sér enn lengri sögu í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Blaðamaðurinn, Ashe Schow, hefur í nokkur ár gert þeim sorglega kafla í sögu æðri menntunar góð skil. Hér fylgir áhugavert samtal hennar við fyrrgreinda Bettina Arndt.

https://www.youtube.com/watch?v=w3IWfl7-zo4


Bloggfærslur 2. desember 2021

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Apríl 2025

S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband