Á áttunda áratugi síðustu aldar sagði norður-ameríski fræðimaðurinn, Shulamith Firestone (1945-2012), í bók sinni Þrætubók um kynin (The Dialectic of Sex: The Case for Feminist Revolution) m.a.: Það verður ekki gengið milli bols og höfuðs á bandormi þrælkunarinnar, nema byltingin uppræti grundvallarstofnunina, hina náttúrulegu (biological) fjölskyldu, [því] hún getur [auðveldlega] orðið gróðrarstía andlegs valds. Hún lagði einnig hugmyndafræðileg drög að afnámi kyns.
Rétt um áratugi síðar tók landi hennar, heimspekingurinn, Judith Butler (f. 1956), við hugmyndafræðikeflinu. Judith er margverðlaunuð fyrir fræði sín og torskiljanlega texta. Hún á sér aðdáendur víða um heim m.a. á Íslandi. Geir Svanson, bókmenntafræðingur, skrifaði fyrir síðustu aldamót, fræðandi grein um Judith (sjá safnritið. Flögð og fögur skinn, ritstýrt af Jóni Proppé).
Við lestur og þýðingu á verkum hennar, þótti Geiri íslenskan sníða þessum merka hugsuði stakkinn þröngan. Því neyddist hann að smíða ný orð. Eitt þeirra er kyngervi, þar sem kynferði rúmaði ekki hugsun Judith. Kyngervi er nú orðið eitt af eftirlætisorðum kvenfrelsara.
Geir segir m.a. svo um Judith-arfræði: Við sögu koma ýmsir kyngervisútlagar; dragdrottningar; kyn- og klæðskiptingar. Umræðan snýr einnig að samkynhneigðum og öllum þeim sem eru á skjön við forræði gagnkynhneigðra. Kvaðir þessarar valdaformgerðar sem enginn samfélagsþegn getur virt að vettugi eru grundvallaðar á rammri eðlishyggju, tvíhyggju og tvenndarandstæðuhugsun sem skilyrðir allar birtingarmyndir kyngervis innan hins gagnkynhneigða kerfis.
Um kyngervisblöndun og kyngervisstælingu: Kyngervisblöndun (gender blending) er regnhlífarhugtak yfir kyn- og klæðskipti og allar birtingarmyndir þessara fyrirbæra. Kyngervisskæling (gender blending)er notað um meðvitaða blöndun í þeim tilgangi að gera hefðbundna aðgreiningu kyngerva óljósa. Nýlega er farið að nota orðið transgenderism fyrir pólitíska afstöðu sem felst í því að skæla kyngervi og hafna gagnkynhneigðri tvenndarskiptingu kyngerva. Og þar með hafna þeirri pólitísku hugmyndafræði sem dylst á bakvið tvenndarkerfi kyngervis. Þessi dulda hugmyndafræði elur m.a. af sér kvenímynd, sem fellur að öllu leyti að þeirri ímynd sem föðurveldi hinnar gagnkynhneigðu skyldu heldur að konum. Kyngervisskælingin og kyngervisblöndunin skapar kyngervisútlaga (gender outlaw).
Ofangreint er inntak hinseginfræða: Hinsegin fræði eru ekki eingöngu akademísk fræði heldur einnig hugarfar og pólitískt andóf sem stundað er utan háskóla. Með hinsegin fræðum er kannski kominn vettvangur þar sem samkynhneigðir, kynskiptihneigðir, konur, og aðrir sem eru hinsegin í gagnkynhneigðu skipulagi, geta unnið gegn útilokun og markað sér rými og réttlæti.
Um bók Judith, Kyngervisusla: Femínisma og niðurrif sjálfsmyndar (Gender Trouble: Feminism and the Subversion of Identity), segir m.a.: Þættar hún saman baráttustrengi samkynhneigðra, kvenna og þeirra sem eru á skjön við norm samfélagsins. Óvinurinn er sameiginlegur. Að baki fordómum og óréttlæti því sem téðir einstaklingar og hópar þurfa að þola gnæfir gagnkynhneigt forræði.
Kyngervisusli er róttæk gagnrýni á ráðandi karlhyggju en líka á þá tegund eðlishyggju sem hefur valdið glundroða innan femíniskra fræða. . Í uslanum felast möguleikar á andófi gegn þeim grunnformgerðum gagnkynhneigðs forræðis sem einkum hyglir hvítum (kristnum) körlum.
Og áfram gerir Geir grein fyrir Judith-arfræðum: Kyngervi eru ekki náttúrleg heldur verða til í gjörningnum, um leið og þau eru sögð: Gjörningurinn framleiðir það sem átti að búa í eðli kyngervisins. Til að staðfesta sig verða kyngervi að endurtaka sig í sífellu. En það er einmitt í endurtekningunni, eða endurtekningarferlinu, sem óstöðugleiki kyngerva kemur í ljós: hver ítrekun er aldrei nákvæmlega eins og sú á undan. Afbygging [niðurrif] kyngerva býr því í hjarta hins upprunalega og kyngervi eru því hvorki eðlileg né einungis tvö heldur áunnin og fjölmörg. Þau verða því að skoðast sem eftirlíkingar án upprunalegrar staðreyndar.
Skyldubundin gagnkynhneigð skilgreinir sig út frá því sem er öðruvísi og sjúkt, þar sem samkynhneigð er gölluð eftirmynd hinnar upprunalegu gagnkynhneigðar. Butler bendir á að hið upprunalega byggi þannig á eftirmyndinni. Gagnkynhneigð eigi því ekki óskorðan rétt á upprunaleika og náttúrlegri tilvist þar sem hún þarfnist samkynhneigðar til að staðfesta tilvist sína. Sama gildi um allt sem setji sig í stöðu hins upprunalega. Tvenndarandstæðan sé því komin í uppnám og jafnframt gagnkynhneigt forræði.
Butler setur síðan fram hugmyndina um samkynhneigð sem eftirlíkingu, fremur en eftirmynd, gagnkynhneigðar. Eftirlíkingin er nokkurs konar skopstæling sem afhjúpar kyngervi, og þar með gagnkynhneigð: Rétt eins og eftirlíkingin er hið upprunalega, (leikrænn) gjörningur (performance) eða athöfn sem krefst sífelldrar ítrekunar norma sinna og áframhaldandi útilokunar þess sem fellur ekki að réttum skilgreiningum.
En i endurtekningunni kemur í ljós tvíbendi, eða bil, á milli hinnar fullkomnu ímyndar gagnkynhneigðar og normsins: Gagnkynhneigð hlýtur, á sama hátt og hugtakið samkynhneigð, að vera óstöðug. Tilraunir hennar til að styrkja sig með sífelldum ítrekunum á ófullkomnum eftirlíkingum hinnar fullkomnu fyrirmyndar hljóta að mistakast. Með því að benda á misræmið í kyngervisstaðfestingu, að öll kyngervi eru ávallt þegar afbyggð skjöna kyngervisfræðingar og -útlagar hið eðlilega. Skjönun á gagnkynhneigðu forræði felst í því að afbyggja þær forendur sem undirskipa og útiloka aðra í nafni hins heilbrigða, eðlilega, náttúrlegs skipulags eða almáttugs guðs.
Franski spekingurinn, Michel Foucault (1926-1984), sem margt hefur skrifað um vald í orðum fólgið, veitir Judith innblástur í vangaveltum hennar um efni(s)lega líkama og orðræðumörk kynja.: Geir gerir svofellda grein fyrir þessum vangaveltum:
Efni(s)legir líkamar eru þeir líkamar sem skipta máli, (eru efnilegir), þar með sýnilegir, og til, í efni (efnislegir). Efni(s)legir líkamar eru holdtekjur gagnkynhneigðs forræðis. Af þessu er ljóst að líkaminn tilheyrir orðræðunni. Butler hafnar ekki líkamanum, eða hugtakinu líkami, þótt hún beiti hann róttækri gagnrýni eða afbyggingu. Hún heldur því fram að í líkamanum og kyninu sem kunna að virðast efnislegur sannleikur utan allrar orðræðu og óumdeilanleg merkingarmið, búi dulið en skilvirkt vald:
Efni(s)leiki verði til fyrir áhrif valdsins. Butler afneitar því ekki líkamanum eða notagildi skilgreininganna. Afbygging forsendu losar um frumspekilega fjötra hennar en þurrkar hana ekki út. Að því loknu, og ekki fyrr, er hægt að grafast fyrir um þá pólitísku hagsmuni sem að baki liggja. Með því að koma efninu/líkamanum í uppnám opnast möguleikar á nýjum leiðum til að aðrir líkamar skipti máli og verði efni(s)legir.
Hugtökin límami og kyn eiga sér sögu. Sannleikur þessara sagna er margræður og hugmyndafræðilegur. Raunveruleikann er ekki hægt að nálgast beint: Við getum vitað af honum, þarna einhvers staðar, en merkingarmið hljóta að færast undan á meðan tungumálið er eini aðgangur okkar að raunverunni. Sjálf náttúran er því aldrei hrá; hún er þegar steikt um leið og hún er sögð. Sama gildir um kynið: Náttúrustærðirnar karl (karlkyn) og kona (kvenkyn), undirstöður kyngerva, hornsteinar mannkyns, eru tæplega jafn náttúrulegar og okkur er sagt.
Eins og lesa má úr guðfræðilegum sögnum um upphafið: Í upphafi var Orðið og sköpun mannsins eftir guðs mynd. Eftirmynd. Adam og Eva eru strax í árdaga eftirmyndir fyrirmyndar (guðs). Þar með ekki upprunaleg og kannski tæplega náttúruleg? Og fyrirmyndin, sem er ímynd(un): hvors/hvers kyns er hún? Karl eða kona? Liggur ekki í augum uppi að guð er tvíkynja/hermafródíta og því fullt til-efni þess að alls kyns líkamar skipti sköpum og verði efni(s)legir?
Fleiri íslenskir kvenfrelsarar hafa skrifað um Judith, t.d. Dagný Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur, Sigríður Þorgeirsdóttir, heimspekingur, Irma Erlingsdóttir, bókmenntafræðingur og Nanna Hlín Halldórsdóttir, heimspekingur (sjá krækju).
Sigríður segir t.d.: Í raun eru hugtökin [um kyn] ekki annað en afurðir stofnana, ferla og orðræðu sem eiga sér margbreytilegar og margræðan uppruna. Butler veitist einkum að tveimur ráðandi viðmiðum sem ákvörðunarvaldi í kynferðisskilgreiningum, en það eru phallocentrism [völsamiðun, reðurræði] og kvöð um gagnkynhneigð Butler [telur] sig geta fært nægar sönnur fyrir því að kona og karl séu ekki annað en hugtakatilbúningur.
Líffræðilegt kyn [eðliskyn] verður til við valdbeitingu því það eru reglugefandi staðlar sem holdgera kynið. Stöðug kvöð um endurtekna beitingu þessara staðla leiðir til efnisgerðar kyns. Kyn er að hennar mati ávallt kynferði, þar sem það er ekki eitthvað upprunalegt, heldur túlkun orðræðu. (Kvennamegin)
Butler ... sækir til kenninga [Michael] Foucaults, [þar sem helsta stefið] er að líkaminn sé afurð orðræðuvaldsins. Það sem vanalega er kallað líkami reynist, þegar betur er að gáð, vera líkamsgervi sem ráðandi öfl í samfélaginu móta í samræmi við hagsmuni sína. En þótt líkaminn sé mótaður með þessum hætti merkir það ekki að maðurinn hafi ótakmarkað frelsi til að skapa líkama sinn, kyn og kynferði. Ástæðan fyrir þessu er, að mati Butler, að við getum ekki hafið okkur yfir þann samfélagslega vef valdaferla sem við erum frá upphafi samofin. (Konur og líkaminn: Frá Beauvoir til Butler.)
Hinseginfræði Judith Butler eru nú námsefni handa börnum í kynjafræði á Vesturlöndum. Í hnotskurn: Kyn verður til fyrir gjörning orðanna, í samtali, og því síkvikt og breytilegt. Hvítir karlar beita skilgreiningarofbeldi til að sannfæra börn um, að þau séu annað tveggja karlkyns eða kvenkyns. Börn ættu að varpa af sér oki slíks ofbeldis og skilgreina kyn sitt sjálf. Fræði Judith endurspeglast þegar í löggjöf um kynrænt sjálfræði.
Læt hér fylgja glefsu úr textum hennar, sem áhugasamir gætu spreytt sig á: The move from a structuralist account in which capital is understood to structure social relations in relatively homologous ways to a view of hegemony in which power relations are subject to repetition, convergence, and rearticulation brought the question of temporality into the thinking of structure, and marked a shift from a form of Althusserian theory that takes structural totalities as theoretical objects to one in which the insights into the contingent possibility of structure inaugurate a renewed conception of hegemony as bound up with the contingent sites and strategies of the rearticulation of power.
https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65469
Bloggfærslur 29. október 2021
Nýjustu færslur
- Stórar, saklausar stelpur og graðir græskugaurar. Kynrándýr
- Síonistabyltingin og gjöfulir Gyðingar. Byltingargyðingaprest...
- Baráttan fyrir betri heimi á nítjándu öldinni. Jafnaðar- og b...
- Baráttan fyrir betri heimi á nítjándu öldinni. Jafnaðar- og b...
- Gáttir Helvítis munu yður opnast. Stríðsyfirlýsing Ísraels og...
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021