Kvenófreskjur eða kvenhetjur? Lorena og Kleópatra. Kvenfrelsunarendurskoðun

Endurskoðun sögunnar stendur nú sem hæst. Það á einnig við um samskipti kynjanna. Ég varð furðu lostinn fyrir nokkrum mánuðum síðan, þegar ég horfði á kvikmynd um Elísabetu I (1533-1603), Bretadrottningu.

Skömmu áður en Elísabet lét höggva höfuðið af frænku sinni og drottningu Skota, Maríu I Stuart (1542-1587), áttu þær spjall saman um lífið og tilveruna. Eitt hugðarefnanna á þessari ögurstundu voru karlmenn. Þær sammæltust um, að þeir væru kvenkyninu óþægur ljár í þúfu – eða eitthvað á þá leið.

Það vakir fyrir kvenfrelsunarleikstjórum að rétta hlut kvenna í veröldu, sem karlar hafa ráðið, að þeirra sögn. Það fylgir sögunni, að bannsettur karlpeningurinn hafi gert lítið úr þætti systranna í mannkynssögunni.

Þessu eru gerð ágæt skil í þáttaröðinni og kvikmyndinni, „Rauða tjaldinu“ (The Red Tent). Myndin er gerð eftir metsölubók Anita Diamant með sama nafni. Framleiðandi er Paula Weinstein og leikstjóri Roger Young.

Sögur Bíblíunnar eru endurtúlkaðar frá sjónarhóli kvennanna, samkvæmt hugarflugi höfundar. Aðalpersónan er Dína (Dinah) í Mósebók. Hún átti í raun fjórar mæður. Allar voru þær eiginkonur föðurins, Jakobs. Dína átti tólf bræður. Þeir urðu stofnfeður Ísraela.

Frásögn Dínu er í anda kvenfrelsunartúlkunar samtímans um grimmd karla í garð kvenna. Rauða tjaldið verður eins konar þjáningafangelsi kvenna við blæðingar, fæðingar, sjúkdóm, kynlífs- og trúarvígslu ættkvíslarinnar. Í tjaldinu rauða varðveita konurnar forna gyðjutrúararfleifð, sem Jakobi er í nöp við, því hann er föðurveldisnaggur.

Bræður Dínu eru fullir öfundar og grimmdar og ganga meira að segja af elskhuga hennar dauðum. Þá hefjast hrakningar Dínu. Hún flæmist alla leið til Egyptalands. En ljótu bræðurnir ellefu tóku líka upp á því, að selja yngsta bróðurinn og uppáhald föðurins, Jósef, í þrældóm. Leið hans lá einnig til Egyptalands, þar sem hann hófst til mikilla metorða. Þar hittust hálfsystkinin og urðu fagnaðarfundir. Jósef var sum sé ekki alslæmur.

Það er meira af svo góðu. Netflix sýnir um þessar mundir heimildarmynd um Kleópötru VII, hinn mikla einvald Egypta fyrir tveim árþúsundum eða svo. Um það bil þrem öldum fyrr hafði Alexander mikli (356-323), konungur Makedóníu, lagt undir sig Egyptaland, og m.a. stofnsett lærdómsborgina, Alexandríu. Yfirstéttin varð skiljanlega grísk. Ptolomy I Soter (367-282) úr lífvarðarveit Alexanders, varð ættfaðir ættarveldis, sem tók við af hinum fornu Faróum. En það voru Rómverjar, sem ríktu umhverfis Miðjarðarhaf, þegar Kleópatra VII fyrst barði heiminn augum.

Kleópatra er kynnt til sögu af sex sögumönnum. Fimm þeirra eru konur. Það svífur kvenfrelsunarandi yfir vötnum. Karlinn, Islam Issa, Alexandríubúi, er greinilega undir sterkum áhrifum heimsöguendurskoðunarstefnu kvenfrelsunar- og eymdarhyggju (woke). Á heimasíðu sinni, kynnir Islam sig sem bókmenntagagnrýnanda og sagnfræðing. Þar má líka lesa lofræðu frá BBC; „einn af markverðustu hugsunum í Sameinaða konungsdæminu.“ Hann hefur „frísklegar frásagnir“ á hraðbergi.

Ágrip: Það var einu sinni í fyrndinni, að konur drottnuðu, bjuggu yfir óviðjafnanlegu valdi sem stríðsmenn, drottningar og mæður þjóða. Þær beygðu sig ekki í duftið fyrir nokkrum karli. Afrek þeirra endurómuðu í sögunni og enginn karlmaður bar yfir þær höfðuð og herðar. En konur þurftu að horfast í augu við hættur, sem enginn karlmaður hefur þurft að gera – eins og fæðingu.

Svona kona var Kleópatra. Sögumenn spyrja, hvort hún hafi verið stjórnsnillingur eða drottning, sem dró karlmenn á tálar. (Kynbunið ofbeldi heitir það í dag.) Svar þeirra virðist vera, að Kleópatra hafi beitt kynkænsku og grimmd.

Umræðan um hörundslit Kleópötru er býsna skondin. Amma Shelley P. Haley, eins sögumanna, hafði látið í ljósi þá speki, að það mætti einu gilda, hvað fræðimenn segðu, Kleópatra hefði verið svört eins og hún.

Það sama á við um Jesú Jósefs- og Maríuson, samkvæmt kvenfrelsunarfræðunum. Kynskipti fornmanna eiga sér líka stað í endurtúlkun kvenfrelsaranna. Og viti menn! Hin gríska gyðja, Kleópatra, í heimildarmyndinni, er jörp á hörund og með svarta lokka í haddi.

Bræður sína lét Kleópatra myrða, rétt eins og systurina. Það fór líka illa fyrir ástmönnum hennar, rómversku mikilmennunum, sem hún dró á tálar eða átti í stjórnkænskulegu kynlífssambandi við. Júlíus Sesar/Julius Caesar (100-44), var myrtur, og Marcus Antonius (83-30), drepinn eða myrtur.

„Þeim var ég verst, sem ég unni mest,“ sagði eitt mesta flagð Íslenskra sögubókmennta, Guðrún Ósvífursdóttir. Það fylgir ekki sögunni, hvorum Kleópatra hafi „unnað“ mest, Júlíus eða Markúsi.. En hugsanlega var það Markús. Hvernig sem því líður segir sagan, að almenningur í Róm hafi lagt fæð á Kleópötru. Karlsögumaðurinn segir lýðinn hafa verið haldinn kvenfyrirlitningu og útlendingafælni. Helga Kress sagði, að konur íslenskra fornbókmenntanna hefðu beitt körlunum sínum sem peðum í valdatafli í mannlífsskákinni stóru, jafnvel att sonum sínum barnungum til hefnda.

Stjórnsnilld Kleópötru fólst í því að beita kyn- og persónutöfravaldi til að ríkja ein yfir Egyptalandi og tryggja syni hennar og Júlíusar erfðir yfir ríkjunum báðum.

Sögumenn gera sér í hugarlund, að Júlíus hefði aldrei áður komist í kynni við konu, sem væri svo sátt við kynferði sitt og örugg í kynlífi sínu. Það er hér um bil spaugilegt, því Júlíus hafði árum saman barist við germanska þjóðflokka og býsna líklegt, að hann hafi brynnt fola sínum í meyjarbrunni þar um slóðir. Meðal Germanskra þjóðflokka voru konur þjálfaðar í hermennsku til neyðarbrúks, rétt eins og konurnar í hinni fornu Spörtu. En yfirleitt var það hlutverk karla að berjast með vopnum og vernda konur sínar og börn.

Samkvæmt sögumönnum var Kleópatra mikil stríðshetja. Hún er sýnd sveifla æfingasverði í útlegð í Sýrlandi. Það var í sjálfu sér einasti bardaginn, sem hún tók þátt í með vopn í hendi. Hins vegar sigldi hún (og lét herkarlana róa) flota sínum til Tyrklands með ástmanni sínum, Markúsi, til að berja á Gaius Octavius (63-14), sem síðar varð Ágústus, keisari Rómverja.

Það er frá því sagt, að herforingjar Markúsar hafi verið tregir til að fara að fyrirmælum Kleópötru. Sögumenn telja það hafa verið vegna kynferðis Kleópötru eins og viðkvæðið er í dag, en ekki vegna þess, að hún hefði ekki hundsvit á hernaði. Enda fór það svo, að Kleópatra sá sína sæng útreidda, skipaði herkörlum sínum að róa sem skjótast heim aftur og lét Markús róa einn á báti. Svo fór um sjóferð þá.

Fórnarlambsviðhorf sögumanna er neyðarlega greinilegt, þegar þeir segja, að Kleópatra hafi barist hetjulega við óvini sína og leikið á keppninauta, skilið eftir sig spor í mannkynssögunni svo djúp, að engum karlmanni muni lánast að má þau út.

Hvers vegna ættu þeir svo sem að gera það? Kannski til að kúga þær? Því halda kvenfrelsarar fram. En það voru þrátt fyrir allt karlar, sem tryggðu hásæti Kleópötru og féllu í hégómlegum stríðum hennar.

Það voru líka karlar (að mestu leyti), sem héldu minningu hennar á lofti og skrifuðu sögu hennar. Gríski sagnfræðingurinn, Plutarchos/Plutarch (46-119?), er þar fremstur meðal jafningja.

Það var reyndar heil sögubókmenntagrein karla á miðöldum að skrifa um konur fornaldar og samtímas, lofa þær og mæra. Sagnfræðingar meðal karla hafa síður en svo stungið afreksverkum og lífi kvenna undir stól. Það er hluti af óskhyggjusagnfræði kvenfrelsaranna. En það er hárrétt hjá sögumönnum, að voldugar drottningar og önnur kvenfyrirmenni hafi ríkt í veröldinni frá ómunatíð.

Eins og kunnugt er miðar kvenfrelsun einnig að því að fjölga konum í hlutverkum, sem lengi vel féll í skaut karla að sinna. Kvikmyndaframleiðendum rennur blóðið til skyldunnar að endurspegla þessa þróun. Hörkukerlingar og kvenhetjur hafa séð dagsins ljós á tjaldinu, hver á fætur annarri. Þær skjóta karlhetjunum yfirleitt ref fyrir rass, því þær eru svo öflugar, klárar, tilfinningalega þroskaðar og réttlátar, svo fátt eitt sé nefnt.

Óneitanlega fær þessi iðnaður á sig spaugilegt svipmót eins og þegar smávaxin og fíngerð kona rústar eins og tólf körlum í eins hvers konar fjölbragðaglímu, ýgari en uxi eða úlfur. Og það er víðs fjarri, að hún brynni músum eða sýni hluttekningu eða riddaraskap. Það er stundum eins og ofbeldisþættir karlmennskunnar umhverfist í góða og uppbyggilega kvenmennsku.

Kanadíski enskuprófessorinn fyrrverandi, Janice Fiamengo, skrifar í þessu viðfangi ágæta hugleiðingu um enn þá eina þáttaröð frá Netflix, „Stjórnarerindrekann“ (The Diplomat). Þar er ofurafl kvenna áberandi. Titill greinar hennar er: „Sæl Kata, hversu oft lemur þú karlinn þinn?“

Í stuttu máli er boðskapurinn sá, að á vorum kvenfrelsunartímum sé andstyggðarhegðun af hálfu karla, bæði leyfileg og æskileg af hálfu kvenna. Þannig sýni þær árangur valdeflingar, mátt sinn og megin.

Hin nýja kvenmennska verður til við að tileinka sér skrumstælda karlmennsku. Kvenfrelsarar kalla það hins vegar nýja og eftirsóknarverða karlmennsku, þegar karlar hafa loksins lært að skæla og tjá tilfinningar eins og konur. Það er róið að því öllum árum að móta slíka karlmennsku.

En tólfunum kastar, þegar heimilis- og kynofbeldismaðurinn, Lorena Bobbit, er sýnd í hetjuljóma. Hún vann það sér til frægðar að skera fyðilinn undan eiginkarli sínum árið 1993.

Janice, Tom Golden og Paul Elam, ræða mál þessarar heimilisofbeldisófreskju, með skírskotun til heimildarmyndar um hana, sem Amazon gerði 2018. Það vakti fyrir Amazon að skoða glæpinn frá sjónarhóli Lorena, þjáninga hennar og sannleika.

Í raun réttri er Lorena fórnarlambið, samkvæmt endurtúlkuninni. Við handtökuna sagði Lorena: „Sjálfur fær hann alltaf fullnægingu, en bíður aldrei eftir minni. Hann er sjálfselskur.“

Við réttarhöldin setti hún fram ákæru um nauðgun og barsmíðar. Susan Fiester, geðlæknir, komst að því, að Lorena þjáðist af síðkominni áfallastreituröskun vegna ofbeldis í sambandinu og hefði skorið undan karli sínum í stundarbrjálæði. Lorena var því dæmd til fimm vikna vistar á geðsjúkrahúsi.

Í heimalandinu, Ekvador, fékk hún þjóðarhetjumóttökur, boðið í mat til forsetans m.a. Í Bandaríkjunum gerði Mary Beth Edelson höggmynd af Lorena. Hún er kölluð Kali Bobbitt. Ný gyðja fædd.

En Lorena var reyndar ekki sú fyrsta til að hefna sín með þessum hætti. Árið 1983 birtist, í bandarísku tímariti um skurðlækningar, grein um faraldur í Taílandi á áttunda áratugi síðustu aldar, þar sem konur skáru undan körlum sínum. Höfundar telja orsökina vera framhjáhald og niðurlægingu af hálfu karlanna.

https://en.wikipedia.org/wiki/The_Red_Tent_(miniseries) https://fiamengofile.substack.com/p/hey-kate-how-often-do-you-beat-your?utm_source=substack&utm_medium=email https://www.youtube.com/watch?v=5GvWxeVXV7E https://www.sciencedirect.com/science/article/abs/pii/0002961083904208?via%3Dihub https://www.nytimes.com/2019/01/30/arts/television/lorena-bobbitt-documentary-jordan-peele.html https://www.aljazeera.com/opinions/2023/5/1/cleopatra-was-egyptian-whether-black-or-brown-matters https://menaregood.substack.com/p/lorena-bobbitt-amazon-documentary?utm_source=substack&utm_medium=email#play https://abcnews.go.com/US/25-years-back-infamous-lorena-bobbitt-case-captivated/story?id=56039933 https://en.wikipedia.org/wiki/John_and_Lorena_Bobbitt https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/9987415/ https://www.theguardian.com/education/2012/nov/19/improbable-research-thai-women-cut-off-penis


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Gamalgróinn áhugamaður um samfélagmál á grundvelli mannúðlegrar jafnréttishyggju og frjálslyndis.

Mars 2024

S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband